Það eru nýir tímar en nátttröllin þráast við.

Á yfirborðinu var nýtt og ferskt fólk mun fleira sem settist á þing og í ríkisstjórn 2013 en oftast áður.

En nú er komið í ljós að að mörgu leyti hefur núverandi stjórnarmeirihluti ekki áttað sig á því að tímarnir hafa breyst síðan Sjallar og Framsókn sátu saman í stjórn 1931-34, 1939-42, 1947-1956, 1974-1978, 1983-1987 og l995-2007.

Náttröll nútímans átta sig ekki á gerbreyttu umhverfi á öld upplýsinga og netmiðla.

Árin 1971, 1974, 1978 og 1983 fóru stjórnarmyndanir fram þegar Sjónvarpið var lokað í júlímánuði.

Það er löngu liðin tíð. 

Allar stjórnarkreppur á Íslandi fram til 2009 vöktu enga alþjóðlega athygli, og meira að segja Búsáhaldabyltingin og fall stjórnar Sjalla og Samfylkingar vöktu ekki neitt viðlíka athygli og atburðir síðustu daga.

Ástæðan er ekki aðallega tæknibylting heldur líka að aflandsfélagamálin eru alþjóðleg og okkar forsætisráðherra efst á blaði hjá tugum helstu fjölmiðla heims í stærsta gagnaleika sögunnar.

Svo er að sjá að nútíma hugmyndir um vanhæfi hafi ekki skilað sér til okkar eins og nauðsynlegt er.

Ísland er eina landið meðal vestrænna lýðræðisríkja þar sem almennar kosningar voru dæmdar ógildar af miklu minna tilefni en í löndum, eins og Þýskalandi, þar sem mun meiri misfellur leiddu ekki til ógildingar af hálfu stjórnlagadómstólsins þar, heldur aðeins til fyrirmæla um lagfæringar.  

Enda véfengdi Hæstiréttur ekki niðurstöður Stjórnlagaþingkosninganna, aðeins smávægileg framkvæmdaratriði, sem vógu hvort annað upp, annars vegar að fjarlægur möguleiki hefði verið til að kosningin væri ekki 100% leynileg og hins vegar að frambjóðendur hefðu ekki verið með fulltrúa sína við talningu.

Ísland er líka eina landið í Evrópu sem hefur lögfest Árósasáttmálann á þann hátt, að hann nær ekki tilgangi sínum hér á landi.

Ísland hefur hunsað álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi kvótakerfið og því er logið upp í alla heimsbyggðina að öll orka landsins sé fengin með endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum.

Margt fleira mætti nefna til að sjá ástæðu þess að útlendingum sýnist hér vera bananalýðveldi og vita þeir þó ekki um þrjú af ofantöldum atriðum.  

Það eru nýir tímar sem krefjast nýrra vinnubragða, en nátttröllin, sem dagaði uppi í morgunbirtunni þegar ljósi var beint að svonefndum Panamaskjölum, ætla að þráast við að víkja fyrir nýrri hugsun 21. aldarinnar.


mbl.is Kalla Ísland bananalýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru hlutföllin 26 - 74 ekki "gjá"?

Einu sinni var sagt að gjá væri milli þings og þjóðar og átt við það að meira en 70 prósent væru andvíg fjölmiðlafrumvarpi þáverandi ríkisstjórnar.

Þessi gjá er ekki minni núna, aðeins 26 prósent styðja ríkisstjórnina.

Ný ríkisstjórn, klambrað saman úr brunarústum núverandi stjórnar, breytir varla miklu héðan af.

Afsökun stjórnarherranna er sú að eftir sé að leysa svo aðkallandi mál, sem hún á óleyst.

Á móti því kemur, að að minnsta kosti tveimur þessara mála, verðtryggingunni og húsnæðismálunum ætluðu stjórnarherrarnir að vera búnir að ljúka fyrir alllöngu og þess vegna geta þeir sjálfum sér um kennt hvað þetta varðar.

Bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa unnið í samfellu að afnámi gjaldeyrishafta og það er ekki eins og að stórlöskuð núverandi stjórn sé sú eina sem getur lokið því verki.

Það er gjá milli þings og þjóðar og hinn mikli meirihluti á Alþingi sem löskuð stjórn Framsóknar og Sjalla er í hrópandi ósamræmi við fylgið meðal kjósenda.


mbl.is Sjálfstæðismenn funda klukkan 18.45
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamlet í þingrofsósk og afsögn.

Hvort tvíræðnin blaðamenn blekki

og brengli þá ekki ég þekki.

Svo ýkt ýkjusmurningn.

Hann bað og bað ei,

fer burt, já, - samt, nei.

Að vera´eða vera ekki,

það er spurningin.  

 

 


mbl.is „Það fór ekkert á milli mála“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikur SDG: Hann bað ekki um þingrofsheimild og sagði ekki af sér!

Hingað til hefur það verið á hreinu að menn segja af sér, þegar þeir lýsa því yfir að þeir hverfi úr embætti. Í íslensk-enskri orðabók er enska orðið resignation, sem erlendir fjölmiðlar hafa notað í dag, þýtt með íslenska orðinu afsögn.

Júlíus Vífill sagði af sér í dag. Vilhjálmur Þorsteinsson búinn að gera það áður.

Forsætisráðherrann afrekaði það að enda farsakenndan dag með enn einum "misskilningnum" og miðað við þá fullyrðingu hans að forsetinn hafi "misskilið" hann á fundinum í morgun er óhætt að segja að SDG er einhver misskildasti maður Íslandssögunnar.

Hann sagðist á facebook í morgun ætla að sækja sér umboð til þingrofs á Bessastaði og greindi Sigurði Inga frá því, kom þangað síðan með tvo háttsetta embættismenn úr ráðuneyti sínu, sem voru með skjöl og ríkisráðstösku og sýndi þannig forsetanum alvöru málsins og hvers ætlast væri til af honum.

En þegar forsetinn hafnar beiðninni snýr SDG því þannig eftir á, að hann hafi alls ekki beðið um þingrof.

Forsetinn hafi því sagt rangt frá um höfnunina! Og Sigurður Ingi þá væntanlega líka misskilið símtalið og allir misskilið facebook-færsluna!

Síðan endar dagurinn á óskiljanlegri yfirlýsingu til erlendra fjölmiðla um hið nýja íslenska orðalag "að stíga til hliðar" í ótiltekinn tíma, sem á víst að skilja sem svo að þýði allt annað en afsögn.  

Erlendir frétta- og blaðamenn klóra sér í höfðinu og tala réttilega um farsa.

Tvær ´helstu fréttir dagsins eru því rangar og ónýtar ef sannleikur Sigmundar Davíðs gildir:

Hann bað ekki um þingrofsheimild og var því ekki hafnað!

Hann hefur ekki sagt af sér heldur "stigið til hliðar" ótímabundið!  


mbl.is „Má vel vera að einhverjir misskilji þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband