Á sér engan líka á þurrlendi jarðar.

Gígaraðir á borð við Eldvörp er hvergi að finna á þurrlendi jarðar nema á Íslandi.

Hinn eldvirki hluti Íslands er magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði jarðarkringlunnar.

Hið óbyggða miðhálendi er miðja og hjarta þessa svæðis og þess vegna er verðmæti þess ósnortins ómetanlegt.

Þótt þjóðin, sem falið hefur verið varðveisla þessarar einstæðu náttúrusmíðar hafi í skoðanakönnunum látið í ljós vilja til að þyrma henni, kann svo að fara að hún láti það samt líðast að vaðið verði með virkjanir, háspennulínur og hraðbrautir þvers og kruss yfir þessi djásn, sökkva þar dölum og vinjum og þurrka upp fossa.

Nýjust áformin eru í formi þingsályktunartillögu um heilsárs upphækkaða hraðbraut um Kjöl og ráðandi valdaöfl hafa nú þegar lýst yfir andstöðu við drög verkefnastjórnar rammaáætlunar varðandi verndarnýtingu á hluta af þeim virkjunum, sem eru uppi á borðinu. Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Og enda þótt gígaraðir á borð við Eldvörp sé hvergi að finna á þurrlendi jarðar nema á Íslandi, er ætlunin að gera allt hið 15 kílómetra langa svæði frá Svartsengi til sjávar vestan við Grindavík að virkjanasvæði, sem mun ramma gígana inn í öll þau mannvirki, sem virkjunum fylgja.

Og samt verður uppskeran hvað orkuna snertir engin þegar upp er staðið, því að Svartsengi og Eldvörp hafa sameigeinlegan orkugeymi.   

Á loftmyndinni er horft til suðurs yfir þessa gígaröð og Grindavík og ströndin fyrir vestan hana sést í fjarsaka.


mbl.is Ómögulegt að hunsa jarðvirkni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitunarheilkennið.

Afneitunarheilkennið er eitt þekktasta fyrirbrigði vímuefnafíkla.

En það kemur víðar fram.

Hið ofsafengna afneitunarheilkenni, sem hefur birst í hegðun fráfarandi forsætisráðherra, hefur nú ekki einasta heltekið þá íslensku aflandsfélagaráðherra, sem enn sitja sem fastast, heldur líka sjálfan forsætisráðherra Bretlands sem hefur birt afneitunarheilkennið svo skýrt, að hann hefur fimm sinnum reynt að leyna stöðu sinni.

Allt þetta afneitunarfólk, innlent sem erlent, ætti að axla ábyrgð og segja af sér.

En svo virðist sem það telji sér mögulegt að þráast við og kannski mun því takast það í bili.

Og þá vaknar spurningin, af hverju Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, vék úr embætti en ekki aðrir, enn sem komið er.

Svarið blasir við: Hann byggði allt sitt eldflaugarskot upp í valdamesta embætti þjóðarinnar á því áhættuspili að leyna aflandsfélagi sínu og konu sinnar og ennfremur að leyna því að hún varð ein af kröfuhöfunum í þrotabú föllnu bankanna, - og hann þar af leiðandi með hagsmunatengsl.

Hann byggði valdatöku sína á því að mæra íslensku krónuna og hvetja almenning til trúar á því að eiga eignir í íslenskum krónum, - en á sama tíma geymdu hann og annað yfirstéttarfólk sitt fé í leynd aflandsfélaga.

Þegar síðan öll þessi siðlausa spilaborg hrynur á einstæðan hátt í kastljósi allra helstu fjölmiðla heimsins, Íslendingum til stórrar skammar, er í rauninni furðulegt að nokkur skuli hafa haldið því fram á meðan á þessu stóð, að hægt væri að halda áfram pólitískri feigðarför Sigmundar Davíðs alla leið inn á gafl hjá forseta Íslands.

 


mbl.is Frá afneitun til játningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin "banvæna blanda." Þráast við - ríkisstjórnin."

Þegar Hrunið varð 2008 varð til hugtakið "hin banvæna blanda", þ.e. stjórnmál og fjármál.

Allur aðdragandi Hrunsins, allt aftur til einkavinavæðingar bankanna 2003 þótti bera merki um þessa banvænu blöndu og hún birtist aftur og aftur í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem talið var brýnt að taka upp ný vinnubrögð til þess að þetta gerðist ekki aftur.

En fólk er fljótt að gleyma, bæði þessu, og líka því að lægsta olíuverð í áratugi og dæmalaus þensla vegna fjölgunar ferðamanna eru aðalástæður þess að vel gengur í þjóðarbúskapnum núna, og hvorugt af þessu stafar af einhverjum sérstökum aðgerðum þessarar ríkisstjórnar eða aflanna, sem að henni standa.

Þvert á móti hefur verið söngur þeirra í í bráðum tvo áratugi að stóriðjan væri það eina sem gæti "bjargað landinu" og að fánýtt og fráleitt væri að "eitthvað annað" gæti þar komið í staðinn.

Nú hefur sama staða komið upp og fyrst eftir Hrunið, að hreinsa til og losa okkur við hina "banvænu blöndu" stjórnmála og fjármála, sem enn hefur orðið lýðum ljós.

En þrátt fyrir einstaka ummæli um umbætur virðist aðalverkefni laskaðrar ríkisstjórnar vera að þráast við.

Þetta er "þráast við ríkisstjórnin" eða "afneitunarríkisstjórnin."  

 

 


mbl.is Fjármálakerfið taki breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband