Lífróður á bæði borð eins og hjá Hermanni 1956.

Já, nú virðist eiga að "taka Hermann á þetta" eða hvað?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson metur stöðuna í stjórnmálunum þannig að hann og Framsóknarflokkurinn verði að róa sameiginlegan lífróður á bæði borð til að endurheimta þau 65% fylgis hans við síðustu kosningar sem tapast hafa. 

Sigmundur getur nýtt sér örvæntingu þingmanna flokksins vegna þess að svakalegt fylgistap þýðir að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna flokksins er í svipaðri stöðu og hann, að lenda utan þings nema kraftaverk gerist. 

Það er líklegt að í ljósi þessarar stöðu sé nú verið að efna til sem flestra ágreiningsefna við Sjálfstæðisflokkinn og auðvelt að fá þingmenn og ráðherra Framsóknarmanna til þess, eins og ummæli Eyglóar Harðardóttur bera vitni um.

Auðvelt verður að valta yfir hófsamari stefnu Sigurðar Inga Jóhannssonar og æsa menn upp í einstökum málum, og því harðari sem skoðanaskiptin verða, því betur ætti SDG með að stimpla sig inn í þau og fá flokksmenn til að forðast sameiginlegt skipbrot.

Grein Guðna Ágústssonar um flugvallarmálið gæti verið forsmekkur þess að Framsókn stökkvi á það mál og geri fyrst og fremst að sínu.  

Aðeins rúmum tveimur mánuðum fyrir kosningarnar 2013 var Framsókn í lægð, en SDG stökk á óvæntan dóm EFTA dómstólsins og meira en tvöfaldaði fylgi flokksins á mettíma með því að setja fram svo stórkostleg kosningaloforð að enginn annar flokkur gat boðið betur.

Við höfum samsvörun úr sögu Framsóknar frá árinu 1956 þegar formaður flokksins sat utan stjórnar eins og nú.  

1956 hafði Hermann Jónasson þáverandi formaður Framsóknarflokksins, verið utan stjórnar í þrjú ár þótt flokkurinn væri í stjórn með Sjálfstæðismönnum eins og nú, og líkaði Hermann það ekki vel að hafa ekki verið forsætisráðherra í 14 ár á sama tíma og Ólafur Thors hafði verið forsætisráðherra samtals fimm ár í þremur ríkisstjórnum.

Hermann hafði góð sambönd inn í stjórnarandstöðuflokkana og sagt var að hann og Finnbogi Rútur Valdimarsson hefðu fundið hugvitssamlega lausn, sem gat ekki annað en skilað Hermanni í forsætisráðherrastólinn á ný. Hún fólst í tveimur áætlununum, A og B. 

A: Bæði þessi leið og leið B fólust í að setja stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn á hvolf með óyfirstíganlegum ágreiningi.  Stofnað var til kosningabandalags við Alþýðuflokkinn, sem Alþýðuflokkurinn gat ekki hafnað, af því að hann fékk fleiri þingmenn út úr því en áður. Spilað var á meingallaða kosningalöggjöf í því skyni að þessir flokkar fengju meirihluta á þingi út á innan við 40% atkvæða og Hermann yrði í kjölfarið þar með orðinn forsætisráðherra. 

B: Til þess að skapa óbrúanlega gjá milli Framsóknar og Sjalla var efnt til samstarfs Framsóknarmanna og minnihlutaflokkanna á Alþingi með samþykkt Alþingis um brottför hersins, sem Framsókn og minnihlutaflokkarnir sameinuðust um. 

Þótt ekki tækist að uppfylla áætlun A og að litlu munaði í því efni, var búið að tryggja það, að Sjálfstæðismenn gætu ekki hugsað sér samstarf við Framsóknarmenn og að vinstri flokkarnir stæðu fyrir tilboði, sem ekki var hægt að hafna:  Vinstri stjórn með Hermann í forsæti. 

Með þessari djúphugsuðu og pottþéttu áætlun setti Hermann endapunkt á 12 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðismanna.  

Herinn sat sem fastast út öldina og fór ekki fyrr 50 árum seinna. En það var algert aukaatriði.  

 


mbl.is Fer á fullt í stjórnmálabaráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ein tveggja flokka stjórn möguleg.

Samkvæmt skoðanakönnun MMR er aðeins ein tveggja flokka ríkisstjórn möguleg, stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. En vegna þess að um 10% atkvæða féllu "dauð" yrði slík stjórn með drjúgan og tryggan meirihluta á þingi. 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki með í stjórn, yrði þriggja flokka stjórn möguleg með Pírata sem stærsta stjórnarflokkinn og Vg með í þeirri stjórn, því að vegna fyrrnefndra 10% dauðra atkvæðia myndi slík stjórn hafa nægan þingmeirihluta.

Önnur stjórnarmynstur yrðu ýmist flóknari eða tæpari.

En það er langt til kosninga, nánast eilífð á mælikvarðann, sem gildir oft í stjórnmálum.  


mbl.is Píratar með 26,8% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lát á afneituninni.

El nino er nú á undanhaldi á svipaðan hátt og gerst hefur áður þegar þetta fyrirbæri hefur staðið, en "kuldatrúarmenn" kætast, því að þeir birta línurit, sem sýna lækkandi hita í bili og halda því fram að loftslag fari nú "hratt kólnandi" á jörðinni. 

Þessu sama var reyndar líka haldið fram fyrir 2-3 árum.

Þegar litið er á línuritið, sem birt er, sést þó mjög glögglega, að niðursveiflan nú á sér hliðstæður í fyrri El nino, og að sé dregin bein lína í gegnum sveiflukennt hitalínurit síðustu 40 ára, liggur hún upp á við. 

Hlýnunin blasir við á þessum línuritum vegna þess að í hvert skipti, sem þessi El nino sveifla verður, er botn hennar hærri en í fyrri sveiflum og toppur hennar líka hærri en í fyrri sveiflum. 


mbl.is Hitametahrinunni lýkur - í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...drjúgur verður síðasti leggurinn."? "Leggsigur"?

"Drottinn leiði drösulinn minn, /  drjúgur verður síðasti áfanginn." 

Þannig hljóðar ein hendingin í hinu þekkta kvæði Gríms Thomsen "Á Sprengisandi" og andi hennar gæti vel átt við í lokaáfanga stórmerkrar hnattferðar sólarknúnu flugvélarinnar Solar Impulse. 

Ef einhverjir gera lítið úr ferð þessa loftfars vegna þess hve hægt það flýgur og ber lítinn þunga ættu þeir að íhuga hvernig fyrsta vélknúna flugferð Wrigth-bræðra var, 37 metra löng, flogið í mest 3ja metra hæð á sex km/klst hraða á klukkustund miðað við jörð. 

Þetta litla og hæga flug var aðeins fyrsti áfanginn á langri sigurgöngu vélknúins flugs, áfangasigur. 

En, - meðal annarra orða: Er ekki nokkur leið að hamla gegn eins augljósri ofdýrkun á enskri tungu og þeirri sem birtist í því að stefna að því að útrýma hinu ágæta íslenska orði "áfangi" og taka upp enska orðið "leg" í staðinn með því að vera sífellt að klifa á því að floginn sé þessi leggurinn og hinn leggurinn?

Breyta orðinu "áfangasigur" í "leggsigur"?

Og að með sama áframhaldi verður að lokum sungið:

"Drottinn leiði drösulinn minn, drjúgur verður síðasti leggurinn." 

Mikil reisn yfir því?


mbl.is Hringferðinni lýkur á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband