"Keyrt í gegn" - lýsandi orð.

Orðin "keyrt í gegn" eru lýsandi fyrir þann hugsunarhátt, sem hefur gegnsýrt virkjana- og stóriðjustefnuna síðan nokkurs konar áltrú var tekin upp hér á landi fyrir hálfri öld. 

1970 hikstaði þessi aðferð þegar andófsfólk taldi sig, því miður, tilneytt til að beita dínamiti til þess að afstýra einhverjum hrikalegustu umhverfisspjöllum sem Íslendingum hefur látið sér detta í hug að valda, og er þó af nógu að taka.

En afbrigði af þessari túrbínutrixaðferð frá 1970 hafa verið gegnumgangandi síðan og á sama tíma og mikilsverð frumvörp detta upp fyrir á þessu þingi, er raflínufrumvarpið í slikum forgangi í þvílíku óþoli, að hvorki er hugað að því að samþykkja skaplegri leið né bíða ögn eftir því að málið skýrist og leysist á annan veg en með hreinu valdboði.

En skiljanlegt er að núverandi valdhafar sjái og grípi tækifæri, sem getur gefið þeim fordæmi til þess að nota aftur og aftur til að gulltryggja túrbínutrixið:

Fyrst farið af stað með byggingu stóriðjufyrirtækis annars vegar og virkjana hins vegar, og síðan sér Alþingi um  að tryggja, að hægt sé að leggja raflínur sem stystu leið á milli án þess að þurfa að taka tillit til tillagna um skaplegri línulagnir. 

 

 


mbl.is Brjóti ekki í bága við stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi Framsóknarflokksins er samofinn vanda Sigmundar Davíðs.

Nú eru tímar alþóðlegrar fjölmiðlunar og líklega hafa aldrei neitt viðlíka margir jarðarbúar orðið vitni að falli íslensks stjórnmálamanns vegna trúnaðarbrest og þegar traust og trúnaður Sigmundar Davíðs fauk út um gluggann 5, apríl í vor. 

Ekki aðeins vegna myndarinnar af afneitun hans gagnvart Wintris-sjóðnum, heldur líka vegna þess hvernig hann án samráðs við eigin þingflokk eða þingflokk samstarfsflokksins fór einstæða sneypuför til Bessastaða og missti þar á örskotsstund trúnað beggja þingflokka og traust forseta Íslands. 

Í framhaldinu var reynt að bjarga þessum vandræðum í horn með því að flýta kosningum, senda SDG í frí frá þinginu og ríkisstjórninni um sinn, og skipa Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra fram að kosningum. 

Lengi vel var von um að þetta myndi gefa Framsóknarflokknum tækifæri til þess að endurheima eitthvað af meira en helmingi fylgis hans sem hafði horfið í vor. 

En í upphafi umræðuþáttar formanna stjórnmálaflokkanna í Sjónvarpinu á dögunum rústaði Sigmundur Davíð þessu endanlega með því að fullyrða, að hann hefði aldrei átt neitt í Wintris, Bresku jómfrúareyjar væru ekki skilgreindar sem heimili fyrir aflandsfélög, og að gjörðir hans hina örlagaríku apríldaga hefðu alls ekki verið ástæða þess að hann var settur út úr stjórn og í tímabundið frí og Alþíngiskosningunum verið flýtt.

Sjaldgæft er að jafn risavaxinni afneitun sé haldið fram eftir að tæpt hálft ár hefur gefist til þess að horfast í augu við raunveruleikann og bregðast heiðarlega við honum. 

Vandi Framsóknarflokksins er samofinn vanda SDG. Í öllum skoðanakönnunum kemur í ljós að helmingur fylgis hans í síðustu kosningum er hruninn. 

Það er hluti af djúpri afneitun ef menn halda að besta ráðið til að forða flokknum frá miklu fylgistapi sé að hafa Sigmund Davíð áfram við stjórnvöl hans. 

Og einfeldningslegt að halda, að vegna þess að hugsanlega geti meirihluti þeirra fáu sem nú segjast myndu styðja flokkinn vel hugsað sér Sigmund Davíð sem leiðtoga í komandi kosningum, sé það vænlegasti kosturinn að hafa hann áfram í því hlutverki. 

Flokkurinn þarf að endurheimta helming fylgis síns og það er ekki hægt nema að skipta um karl í brúnni, og fá þangað þann mann, hefur sýnt það í störfum sínum sem forsætisráðherra, að hann nýtur vaxandi trausts. 

 


mbl.is Tortryggni eykst þegar traustið hverfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Davíð fór gegn Þorsteini.

Davíð Oddsson þótti vera rísandi stjarna í Sjálfstæðisflokknum frá árinu 1982, þegar hann var valinn til forystu í liði flokksins í Reykjavíkurborg, sem vildi endurheimta hana úr höndum vinstri manna eftir ósigur 1978. 

Davíð sýndi afburða fimi í rökræðum, einn á móti þremur, í kappræðunum fyrir kosningarnar, sem réðu úrslitum um sigur D-listans. 

Úrslitin réðust líkast til á RÚV, en á þeim tíma datt engum í hug að kenna RÚV um þetta. 

Nú virðast hins vegar margir hyllast til að kenna RÚV um allt, sem gerist í stjórnmálunum, í stað þess að skoða hvers vegna einstakir stjórnmálamönnum gengur betur en öðrum að berjast á þeim vettvangi. 

1986 og 1990 vann Davíð síðustu stóru sigra Sjálfstæðisflokksins í borginni og eðlilega var spurt að því hvort flokkurinn ætti að láta hann spreyta sig við landsmálin, eins og borgarstjórarnir Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson hefðu gert á sinni tíð. 

Engin leið var til þess að fá úr þessu skorðið nema að Davíð byði sig fram gegn sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni. 

Að vísu töldu margir það óheppilegt, það myndi skaða flokkinn og valda slíkri úlfúð að það "rifi hann á hol." 

Davíð vann nauman sigur, en í hönd fór mesta blómaskeið flokksins um áratuga skeið, þrettán ára samfelld seta Davíðs í forsætisráðuneytinu. 

Sumir vilja einblína á það að meirihluti þeirra sem nú segjast í skoðanakönnunum myndu vilja kjósa flokkinn, velji frekar Sigmund Davíð en Sigurð Inga. 

En þetta segir ekki alla söguna. Þarna er um að ræða meirihluta þeirra ca 12 prósenta aðspurðra, sem segjast myndu kjósa flokkinn, en með slíkum úrslitum myndi flokkurinn hrynja um helming fylgis síns við síðustu kosningar. 

Ekki liggur fyrir í skoðanakönnunum, hverjir myndu bætast við kjósendur hans ef Sigurður Ingi yrði formaður og þar af leiðandi er spurningunni um árangurs hans í formannssæti ósvarað. 

Yfirlýstur tilgangur þess framboðs er að meiri líkur séu á því að auka fylgið, ef umdeild Wintrismál og önnur axasköft Sigmundar Davíðs yrðu flokknum ekki lengur til trafala, heldur farsæl forsætisráðherratíð Sigurðar Inga. 


mbl.is Farið gegn formanninum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband