Misskilningur og fordómar varðandi hjólaferðir að vetrarlagi.

Þegar mér barst í hendur fyrir tilviljun rafreiðhjól fyrir tæpum þremur árum var það splunkunýtt rafreiðhjól sem ég tók upp í sölu á illseljanlegum bíl, og tók ég hjólið á þeim forsendum að geta selt það, af því að það var einstaklega vel úr garði gert.Léttir á Selfossi 17.3.2017

Þar að auki stóð í þeirri trú að búseta austast í Grafarvogshverfi gerði hjólið ónothæft, það væri allt of oft of kalt og vont veður og of oft ófært. 

Ég vildi ekki selja hjólið nema prófa það, en það dróst, ég setti það ekki rétt í rafsamband, og í ofanálag virtist ljóst, að það hafði staðið of lengi óhreyft áður en ég fékk það. 

Síðan auglýsti einhver allmörg ný rafreiðhjól á hálfvirði, hugsanlega vegna kyrrstöðu þeirra, og þar með var hjólið mitt orðið verðlaust! Náttfari á Hvolsvelli

Á þeim tíma sem ég var að koma hjólinu í nothæft horf með viðgerð á rafhlöðunni, kom hins vegar í ljós að langflestar mótbárurnar gegn notkun þess höfðu byggst á misskilningi eða fordómum. 

Hjólið sparar til dæmis því meiri orkukostnað sem leiðirnar eru lengri, það er hægt að setja undir það vetrardekk og þar með er hálku- og snævarhindrun úr sögunni. 

Svipaðir fordómar hurfu þegar ég bætti léttu Honda PCX 125 cc vespuhjóli við, og í tvö ár hefur reynslan verið sú að hjólin hafa verið nothæf í hverri einustu viku árið um kring í allt að 7 stiga frosti og jafnvel farnar ferðir austur fyrir fjall í frosti og vetrarfærð.Lettir við Jökulsárlón

Fór til dæmis á Hondunni austur á Sólheima á litlu jólin þar í fyrra og rakleiðis frá Sólheimum vestur í Háskólabíó til að koma þar fram á jólatónleikum Baggalúts.

Það rifjaðist upp fyrir mér, að á aldrinum 9-19 ára hafði ég verið á ferð á reiðhjóli allan veturinn og í flestum veðrum, og voru þó engir sérstakir hjólastígar þá. 

Í ferðum á hjólum, einkum á reiðhjólum, er náttúruupplifuninin öll önnur en á bíl. 

Það var til dæmis ógleymanlegt að fara frá Akureyri á hjólinu Náttfara upp Þelamörk og Öxnadal í hitteðfyrra og heyra jafnvel tíst í nýfæddum ungum í hreiðrunum við veginn. Náttfari við Engimýri   

 


mbl.is Hjólar hringinn í vetrarfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug aðferð; að vera sem fljótastur með eyðilegginguna.

Vegna lítillar almennrar fræðslu um umhverfis- og náttúruverndarmál áttar fólk sig ekki á hinum mikla mun sem er á orkunýtingu og verndarnýtingu svæða. 

Hann er sá, að sé verndarnýting valin, eins og til dæmis sú á sínum tíma, að virkja ekki Gullfoss, skerðir það í engu möguleikanaa til að virkja síðar, ef mönnum snýst hugur. 

En ef virkjað er, er oftast um svo mikla röskun á landi að ræða, að það reynist annað hvort ómögulegt eða afar kostnaðarsamt að rífa virkjanamannvirkin og koma landinu í sama horf og það var. 

Gott dæmi eru tveir norrænir fossar, sem fyrir öld voru frægustu fossar Noregs og Íslands. 

Áður en Rjukan var virkjaður, var hann frægasti foss Noregs, og farið með tignustu erlendu gestina þangað, til dæmis sjálfan Frakklandskeisara. 

Í dag koma þangað örfáir, því að aðeins er um að ræða að skoða þurrt gljúfrið og svonefndan Maríustíg. 

Þegar kóngar Íslands fóru að koma hingað í heimsókn var farið með þá að Gullfossi. Ef hann hefði verið virkjaður um 1920 hefði farið fyrir Gullfossi eins og Rjukan, þangað kæmi nær enginn. 

Þetta vita virkjanadýrkendur og reyna því að hraða framkvæmdum sínum sem mest til þess að eyðilegga náttúruverðmætin á þann hátt að ekki verði aftur snúið. 

Þess vegna var Álftanesvegur um Gálgahraun keyrður áfram af fádæma offorsi og stærsta jarðýta landsins látin eyðileggja sem allra mest strax fyrsta daginn. 

Sigurður Gísli Pálmason hefur áður komið til hjálpar á ögurstundum í þágu íslenskrar náttúruverndarbaráttu. 

Hann fjármagnaði að hálfu gerð áttblöðungs, sem ég gaf út 24. september 2006 og varð kveikjan að hugmynd Andra Snæs Magnasonar að Jökulsárgöngu meira en 10 þúsund manna niður Laugaveg tveimur dögum siðar. 

Hann fjármagnaði síðan gerð hinnar áhrifamiklu myndar Andra Snæs, Draumalandið. 

"Að mati oddvitans er verndarsvæði sem útilokar virkjun ekki í spilunum." Þarna snýr oddvitinn málinu alveg á haus.

Þetta er öfugt.

Virkjanamannvirki af þeirri stærð sem eiga um eilífð að rústa ósnortnum víðernum á hálendinu suður af Drangajökli og eyðileggja fossa með nöfnum sem lýsa afli þeirra og fossahljóðum útilokar virkjun. 

Verndarsvæði er tekur hins vegar ekki ráðin af komandi kynslóðum. 

Oddvitinn vill greinilega keyra málið áfram, því að það kynni að fara svo, að stofnun Drangajökulsþjóðgarðs yrði svo miklu meiri akkur fyrir atvinnulíf og mannlíf í kringum hann, að engum myndi detta í hug að virkja, ekki frekar en að virkja Gullfoss í Hvitá. 


mbl.is Vill kostamat á virkjun og verndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband