Leiðindakafli sem hægt er að losna við.

Í tilefni af frétt um óhöpp í Langadal vísa ég til Morgunblaðsgreinar sem ég skrifaði nýlega um svonefnda Húnavallaleið frá Stóru-Giljá og þvert lágt skarð í Bakásum yfir í Langadal á brú hjá Fagranesi í miðjum dalnum, - leið sem ég hef sem gamall kúarektor að Hvammi í Langadal verið áhugamaður um í 60 ár. 

Lengst af í þessi 60 ár hefur eðlileg mótbára Blönduósinga gegn þessari 14 kílómetra styttingu hringvegarins verið sú að við hana myndu þeir missa tekjur af þjónustu við vegfarendur út úr sveitarfélaginu.

En nú eru aðstæður breyttar. Með tilkomu vegar um Þverárfjall liggur leið Sauðkrækinga og Siglfirðinga áfram um Blönduós.

Mörk sveitarfélagsins hafa líka breyst svo að brú við Fagranes myndi koma inn í land Blönduósbæjar og liggja um land hans á tæplega 3ja kílómetra kafla. .

Styrkja mætti Blönduósinga rausnarlega til að reisa þar þær þjónustumiðstöðvar við vegfarendur sem nú eru við Blöndubrúna hina ystu vegna þess að þjóðhagslegur ávinningur af styttingu leiðarinnar er svo mikill að þessi styrkur við heimamenn yrði örlítið brot af þessum ávinningi. 

Til þess er líka að líta að vegarkaflinn yst í Langadal, sem hefur löngum verið alræmdur fyrir illviðri og óhöpp, yrði ekki lengur hluti af hringveginum. 

Þessi slys og umferðartruflanir kosta líka mikla peninga.

Alla tíð hef ég talið að stytting um Svínvetningabraut yrði óæskileg.

Hún þýðir meiri vegagerð og gerð nýrrar brúar nálægt brúnni gömlu við Löngumýri í stað þess að með gerð brúar við Fagranes yrði sú brú miðja vegu á milli brúarinnar á Blönduósi og brúarinnar við Löngumýri og því miklu meiri búbót fyrir innanhéraðssamgöngur í Austur-Húnavatnssýslu.

Lítið þið bara á kortið til að sjá þetta.  

Það hlýtur að koma að því að hin sjálfsagða og þjóðhagkvæma stytting verði að veruleika. Ef Blönduósingar grípa ekki tækifærið núna og fá styttingu sem tryggir að vegurinn liggi um sveitarfélag þeirra með þeim tekjum sem þeir gætu haft af því, er hætta á að ný Svinvetningabraut verði fyrir valinu sem sviptir Blönduósinga allveg þessum tekjumöguleikum. 

Ég vona að það gerist ekki og að Blönduósingar bandi ekki frá sér þeim möguleikum fyrir þá, sem Húnavallaleið getur þó gefið þeim.  


mbl.is Fjögur óhöpp í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stytting á hringvegi og eilíf umræða þar að lútandi er rangnefni, réttnefni væri stytting á leiðinni milli Reykjavíkur á Akureyri. Nú þegar kreppir að hjá vegagerðinni hætta þeir við ýmis verkefni í vegagerð, verkefni eins og að fækka einbreiðum brú á hringveginum, gott dæmi er brú yfir Ysta-Rjúkanda í Jökuldal, stórhættuleg brú sem til stóð að tvöfalda en peningarnir til að bjarga mannslífum þar eru ekki til. Peningar til að klippa Blönduós útúr hringveginum og stytta Akureyringum ferðina til Reykjavíkur um 3% eða svo, þeir eru hins vegar til.

Það verður að hugsa til þess að þessi vegkafli hefur ekki fengið viðhald seinustu 30 ár, vegna þess einfaldlega að vegagerðin ætlar að klippa Blönduós í burtu af hringveginum. Samt sem áður verða fá alvarleg umferðarslys á þessum kafla upp á síðakastið. Hvernig væri að eyða þessum peningum sem greinilega eru til hjá Vegagerðinni í að bjarga mannslífum í stað þess að spara Akureyringum 9 mínútna kafla á leið sinni til Reykjavíkur, eða er tími þeirra dýrmætari en mannslíf?

Bjarki (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 22:21

2 identicon

Langidalur er afskaplega leiðinlegur í norð austan áttum. Þá er allt annað veðurlag við svínavatn. Ég fer alltaf Svínvetninga leið í svona veðri. Þar er mikið bjartara og vindur sáralítill.

Helgi Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 22:32

3 Smámynd: Viðar Helgi Guðjohnsen

Ég verð nú að taka undir með honum Bjarka.

Viðar Helgi Guðjohnsen, 14.2.2010 kl. 23:02

4 identicon

Af hverju má ekki ræða svona mál án þess að notast við frasann; að bjarga mannslífum. Mjög ómálefnalegt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 23:54

5 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þarna hittir Bjarki naglann á höfuðið og er ég alveg hjartanlega sammála honum.

Stefán Stefánsson, 14.2.2010 kl. 23:57

6 identicon

Af hverju er ómálefnalegt að skoða hvar alvarlegustu slysin verða og eyða fjármunum í að bæta þá vegkafla? Er mögulegt að það sé ómálefnalegt af þeirri einu ástæðu að sá punktur hittir illa á þá sem eru fylgjandi þessari vegbreytingu.

Eitt ber að benda á í viðbót, mótstaðan er ekki einungis hjá Blönduósingum, heldur einnig íbúum Húnavatnshrepps (sem Svínvetningaleið myndi liggja um) sem vilja að þjóðvegur 1 liggi áfram um Blönduós. Þannig að hótanir um Svínvetningaleið eru bitlausar og barnalegar.

Fyrir utan nú það að menn kæra sig ekki um það landros sem slíkur vegur yrði á jörðum þeirra bænda sem vegurinn myndi liggja um, en það er kannski allt í lagi að raska umhverfinu, svo framarlega sem Akureyringar eru fljótari til Reykjavíkur?

Bjarki (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 01:01

7 identicon

Í þessu máli er ég með öllu hjartanlega sammála Ómari.  Það hefur verið sýnt fram á það með afar gildum rökum að arðsemi þess fjár sem yrði varið til þessarar styttingar er um 20% miðað við kostnaðaráætlun eða jafnvel meir ef útboð yrðu lægri en henni nemur.  Og úr því menn notuðu mannslífin í röksemdafærsluna hér áður má geta þess að það er ekki síst minnkuð slysahætta sem veldur hinni miklu arðsemi.  Þótt Bjarki telji nær að bæta þá kafla sem á núverandi vegi eru til að minnka hættuna er það afar snúið vegna þess að helstu slysastaðirnir eru einmitt inni í Blönduósi og til að losna við þá þarf að fara út úr bænum. Þar með væri umferðin horfin og ekki kæmu einu sinni við þeir sem ætluðu Þverárfjall.  Hins vegar væri vel mögulegt að verja hluta þeirra fjármuna sem spöruðust af hálfu ríkisins til aukinnar atvinnuuppbyggingar í austurhluta Húnavatnssýslu og sýndist ekki ósanngjarnt.  En sú stefna að hafa botnlausa umferð þungaflutningabifreiða um miðjan bæinn, yfir sömu brúna og fólk ekur barnavögnum, er ekki sérlega mannvinsamleg til lengdar.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 11:03

8 identicon

Það hlýtur að vera mögulegt að læra af reynslunni, bæta þá vegkafla sem ERU hættulegir og leyfa þeim köflum sem hafa sýnt sig vera ÖRUGGIR að vera, með einhverju viðhaldi þó. Vegurinn liggur framhjá bænum hvort sem mönnum líkar betur eða verr, innan bæjarmarka er hann vissulega en seint verður hann talinn inni í bænum, bærinn er norðanmeginn við veginn, ef barnavagnar eru það sem stuðningsmönnum framkvæmdarinnar er umhugað um þá eru til mun ódýrari lausnir en langir vegkaflar.

Í skýrslunni er notast við einhver meðaltöl bílslysa á þjóðvegum í stað þess að notast við staðreyndir sem eru slys á þessum tiltekna vegkafla, þessi vegkafli hefur í gegnum tíðina verið öruggari en flestir aðri vegkaflar á hringveginum, það er einföld staðreynd og þetta er þrátt fyrir fjársvelti frá Vegagerðinni sem eins og áður sagði gerir allt til að losna við Blönduós frá hringveginum. 

Ég bjó á Blönduósi í 16 ár og man ekki eftir mörgum slysum sem urðu á þessum vegkafla inni í bænum, þaðan af síður alvarlegum slysum, þannig að þessi hætta virðist tilbúningur þeirra sem styðja þessar vegframkvæmdir. Banaslys sem orðið hafa á suðurlands- og vesturlandsvegi eru hins vegar ekki tilbúningur eða hættan sem fylgir einbreiðum brúm, leið mín liggur talsvert oft um suðurlandsveg og tel ég mun nær að vegagerðin eyði þessum peningum sem hún virðist eiga í að bæta þann kafla, sem þó eru ekki til peningar til að laga.

Vegagerðin hefur hætt við og frestað mörgum framkvæmdum sem ætlaðar voru til þess að auka öryggi í umferðinni vegna fjárskorts, þær framkvæmdir eru ekki á þeim vegkafla sem umræðir, einfaldlega því hann hefursýnt sig vera öruggur hvað svo sem mönnum finnst um þá staðreynd.

Það er  í besta falli kjánalegt að Vegagerðin og þeir sem henni stýra hætti við slíkar framkvæmdir en rembist eins og rjúpa við staur við að komast í framkvæmdir sem er í fullri óþökk heimamanna.

Bjarki (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 12:27

9 identicon

Þú ætlar þá væntanlega að færa heilsugæsluna yfir veginn líka?

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 19:59

10 identicon

Þarf ég þess svo að Akureyringum líði betur? Rökleysan og eiginhagsmunasemin gengur fljótlega að ykkur dauðum.

Ef tölur umferðarstofu eru skoðaðar kemur í ljós að alvarleg slys eru mun algengari við botn Eyjafjarðar væri þá ekki réttara að henda göngum undir hann, það myndi spara talsvert meiri tíma fyrir notendur hringvegarains, já og fækka slysum talsvert. Hvernig væri að gera skýrslu þess efnis í stað þess að einblína alltaf á leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þið ættuð að byrja á að tryggja eigið öryggi áður en ykkur verður umhugað um öryggi Blönduósinga sem vilja hafa þjóðveginn þar sem hann er, þó það fari flutningabílar yfir sömu brýr og fólkið með barnavagnana.

Svo er staðreynd að núverandi veg er hægt að bæta enda er hann orðinn með eindæmum lélegur og þjóna þannig öllum og auka öryggi allra ekki bara  Akureyringum sem eiga svo mikið bágt að þurfa að búa á Akureyri.

Bjarki (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 21:04

11 identicon

Nú þykir mér röksemdafærslan vera farin að komast á ad homini stig ef það á að vera frambærilegt sem rök í þessu máli að ég búi á Akureyri og sé þess vegna illa til þess fallinn að hafa skoðun á hagkvæmni vegagerðar.  Það er þá rétt að upplýsa að ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði, en bý í Reykjavík, og fer ævinlega um Þverárfjall á leið minni þangað.  Ekki minnist ég þess sérstaklega að Húnvetningar hefðu verulega samúð með íbúum Varmahlíðar þegar Sauðárkróks og Siglufjarðar hættu að leggja leið sína þar um með tilkomu bílfærs vegar um Þverárfjall.

Hitt man ég glögglega að ég var í margar vikur á Blöndubrúnni m.a. við að koma upp stétt og vegriði til þess að fólk með barnavagna kæmist klakklaust yfir hana og á Hælið.  Þar varð ég vitni að því, margoft, að menn, karlar, konur og börn, áttu fótum fjör að launa undan umferðinni.  Ef umhyggja fyrir því fólki er ekki frambærilegt sem rök fyrir því að vegurinn ætti að liggja annars staðar um þéttbýli vantar eitthvað einhvers staðar.

Og mér að meinalausu má vegurinn liggja einhvers staðar annars staðar en um Akureyri, reyndar er hann illa settur þar.  Það vill bara svo illa til að það yrði afar dýrt að flytja hann annað og engin stytting næðist með því að leggja hann framhjá bænum.  Reyndar mætti hugsa sér að grafa göng úr Öxnadal og koma út í Eyjafirði og síðan önnur göng þaðan undir Vaðlaheiði og svo enn önnur úr Fnjóskadal austur í Bárðardal.  En sá þjóðhagslegi sparnaður sem af því hlytist væri hjóm eitt hjá þeim sem af styttingu í Húnavatnssýslu mætti fá.

Og úr því vitnað er í slysaskrá Umferðarstofu væri ekki ógaman að fá að sjá tölurnar sem vitnað er til og með hlekk í skrána.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.2.2010 kl. 21:42

12 identicon

Menn geta kastað fram frásögnum úr eigin minni og af persónulegri reynslu um öryggi á tilteknum vegaköflum en mér þykir það undarlega harður ásetningur í afflutningi staðreynda ef menn neita að fallast á að minni heildarakstur skili sér með færri slysum. Þegar hægt er að stytta leið margra ferðamanna með tiltölulega litlum tilkostnaði líkt og tilfellið er með lagningu hjáleiðar sunnan Blönduóss þá er ómögulegt og óábyrgt að hunsa slíkt tækifæri.

Ekki hef ég heyrt gild rök gegn slíkri framkvæmd en þeim mun meira af persónuárásum og níði Húnvetninga í garð samborgara sinna.

Stundum þykjast þessir spekingar hitta á einhvern veikan punkt með því að benda á legu þjóðvegarins um Akureyri. Ég þekki hinsvegar engan Akureyring sem myndi ekki glaður vísa gegnumumferð á hjáleið framhjá bænum ef þess væri nokkur kostur. Ein hugmynd væri að hætta við núverandi hugmyndir um Vaðlaheiðargöng og láta meta arðsemi þess að leggja jarðgöng frá norðanverðum útjaðri Akureyrar, undir Eyjafjörð og Vaðlaheiði og láta þau koma upp í Fnjóskadal. Það er enginn verkfræðilegur ómöguleiki við slíka hugmynd en hún kostar auðvitað mikla peninga.

Bjarki Akureyringur (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 18:18

13 identicon

Ég var búinn að steingleyma því að ég var að eiga orðaskipti hér.

http://www.us.is/slysakort.html

Þarna má sjá hvar alvarleg slysurðu 2008 og svona til að beina sjónum á aðrar slóðir en Eyjafjörð og Húnavatnssýslur sést glögglega hversu stórhættulegur suðurlandsvegur er, vegagerðin segir sinkt og heilagt að ekki séu til fjármunir til að ráðast í endurbætur á honum en eins og ég sagði áður rembist eins og rjúpa við staur við þessar vegaframkvæmdir sem myndi stytta leið Akureyringa til Reykjavíkur um 3% og hringveginn um 1%.

Á vef vegagerðarinnar er líka að finna fullt af verkefnum sem var hætt við vegna fjárskorts, framkvæmdir sem þótt hafa brýnar út frá öryggissjónarmiðum. Vel má vera að þjóðhagslegur ávinningur sé meira af lagningu Húnavallaleiðar eða  Svínvetningabrautar en það liggur í augum uppi að margar framkvæmdir skila sér í meira öryggi landsmanna á þjóðvegum en þessi tiltekna framkvæmd, mér finnst rétt að byrja á þeim framkvæmdum áður en gerð er heiðarleg tilraun til að koma nístingshöggi á eitt byggðarlag.

Svo má ekki gleymast að fólk kvartar yfir að núverandi vegur, sem hefur fengið að drabbast niður í 30 ár, sé orðinn mjór og vart bjóðandi, undanfarin 30 ár hefur ekkert verið gert, þó þetta sé þjóðvegur 1. Árin sem fá að líða þangað til eitthvað verður gert verða að öllum líkindum 30 til viðbótar ef þjóðvegur 1 verður fluttur sem heggur enn nær því að ganga frá byggð við austanverðan Húnaflóa, sem vart má við fleiri skakkaföllum. En allt skal gert með það að markmiði að stytta ferðina milla Akureyrar og Reykjavíkur enda virðast Íslendingar ekki enn farnir að hugsa um neitt nema eigin hagsmuni hversu mikið sem það kostar aðra í samfélaginu.

Og til að svara þér Bjarki, þá segi ég hvergi að slysum muni ekki fækka, nefni það ekki á orð, ég bendi á að ef aðalástæðan er sú að fækka slysum, þá er verið að byrja á kolvitlausum vegkafla, eins og menn sjá ef þeir skoða slysatölur á www.umferdarstofa.is. Ef þú lest það sem hefur verið sett fram af Húnvetningum, já og mér hér að ofan hlýturðu að sjá rök gegn þessari framkvæmd, rök eins og að þetta komi sér verulega illa fyrir Blönduósinga og austur-Húnvetninga flesta. Það að það er mun gáfulegra að eyða þessum peningum í vegkafla sem eru þannig að á hverju ári lætur einhver lífið í umferðarslysi á þeim kafla, eða lestu bara það sem þú vilt lesa. Eðllilega ver fólk sig og sitt byggðarlag þegar stórhópur fólks talar fyrir aðgerðum sem fara langt með það að rústa einni stærstu atvinnugrein svæðisins.

Bjarki (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 23:42

14 identicon

Styttir þetta ekki líka leiðina á milli Hvammstanga og Varmahlíðar? Á milli Dalvíkur og Borgarness? Á milli Ísafjarðar og Húsavíkur? Af hverju fókusa andstæðingar þessarar framkvæmdar alltaf á Akureyri og Reykjavík? Er það vegna þess að þeir álíta þá staði vera póla hins illa á Íslandi sem eigi helst ekkert að gera fyrir? Maður spyr sig.

Slysin verða þar sem umferðin er og ef það á að ná fram verulegri fækkun slysa verður það gert með því að a) bæta vegakafla þar sem mikil umferð er, t.d. á milli Reykjavíkur og Selfoss og á milli Reykjavíkur og Borgarness og b) með því að stytta leiðir og draga úr akstri. Með hinu síðarnefnda næst líka fram mikill sparnaður fyrir samfélagið allt með minni eldsneytisnotkun og tímasparnaði.

Rök um tortímingu byggðar í Austur-Húnavatnssýslu ef þjóðvegurinn í gegnum Blönduós fær annað númer eru ekki gild í mínum huga vegna þess að þau standast engan veginn. Þú hefur sjálfur bent á það nafni að þjóðvegurinn liggur alls ekkert í gegnum Blönduós, hann liggur í útjaðri byggðarinnar og eina þjónustan sem sjáanleg er vegfaranda sem á leið í gegnum svæðið er pylsuskáli N1 (og önnur sjálfsafgreiðsla eldsneytis, hvað eru mörg störf þar að baki?). Önnur verslun og þjónusta á staðnum er staðsett innar í þorpinu sjálfu þar sem engir vondir Akureyringar eða Reykvíkingar koma við á ferðum sínum. Sú þjónusta er það sem gerir Blönduós að þjónustukjarna svæðisins og það er ekkert sem bendir til þess að Austur-Húnvetningar rati ekki lengur í búð á Blönduósi þó að legu þjóðvegar 1 verði mögulega breytt. N1 missir auðvitað einhver viðskipti við þessa breytingu og myndi væntanlega færa starfsemi sína að nýrri legu þjóðvegarins, heila 4-5 kílómetra frá Blönduósi, sem er auðvitað óyfirstíganleg fjarlægð fyrir Blönduósbúa til að sækja vinnu! 

Bjarki Akureyringur (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 08:25

15 identicon

Ég hef aldrei sagt að slysum muni ekki fækka hvernig væri að hætta að leggja mér þau orð í munn. Ég hef sagt að eðlilegra sé að ráðast í lagfæringar á þeim vegi sem til staðar er í dag, til þess að fækka slysum á þessum kafla (eða eiga Húnvetningar og Skagfirðingar að búa við þennan veg sem í dag er orðinn hundgamall og úreltur?). Séu þessir peningar til innnan vegagerðarinnar bendi ég jafnframt á það að það eru margir kaflar sem eru mun verri og fjölfarnari en ekki hefur verið gerð þjóðhagsleg úttekt á lagfæringu þeirra vega, enda erfitt að meta hvert líf sem tapast í umferðinni til fjár.

Akureyringar hafa alla tíð verið sá hópur sem talar sterktast fyrir þessari styttingu, þeir stóðu m.a. fyrir úttekt og tillögu að breytingu á deiluskipulagi annarra byggðalaga til þess að reyna að stytta sér leiðina til Reykjavíkur, ekki til þess að stytta Hvammstangabúum leiðina til Varmahlíðar, þó sumir telji það göfugt markmið. Þar með hlýtur að vera eðlilegt að taka Akureyringa sérstaklega fyrir. Akureyringar tala oft niður til Blönduósinga og skijla engan veginn þeirra mótstöðu og svo er bent á að þeir séu eiginhagsmunaseggir, eru Blönduósingar þá farnir í eitthvað stríð við Akureyringa?

Án þess að ég hafi nokkra hugmynd um hvernig N1 háttar sýnum rekstri finnst mér harla hæpið að þeir byggi nýjan skála við þennan veg, nýbúnir að byggja nýjan skála á Blönduósi og í Hrútafirði. Fyrir jú utan það að þessar tölur sem þú hendir fram um fjarlægðir eru bara bull. Nýr skáli yrði líklega 20 km frá Blönduósi,  20km hvora leið á dag sem þýðir 40 km ferðalag á dag. fyrir glögga þá þýðir það 200km ferðalag á viku til og frá vinnu, sem er fjandi mikið.

Þó þú haldir því fram að Reykvíkingar og Akureyringar fari aldrei inn í bæinn til að versla þá er það nú samt svo að fleiri fyrirtæki en N1 njóta gríðarlegs ábata af því að þjóðvegurinn liggi um Blönduós, Við Árbakkann og Potturinn og Pannan eru dæmi um slík fyrirtæki auk þess sem allir hljóta að sjá það að lega þjóðvegarins hefur jákvæð áhrif á aðra þjónustu innan bæjarins, hvað svo sem það þjónustu fyrirtæki heitir, það ber að hafa í huga að fækki störfum um 15-20 erum við að tala um reiðarslag fyrir jafn lítið byggðarlag og umræðir. Kannski tek ég fulldjúpt í árina með að

Svo þessi umræða að það eigi frekar að stytta veginn og styrkja Blönduósinga með einhverjum peningum úr tómum ríkiskassanum eru svo kjánalegar. Ríkið sker allsstaðar niður, hvað ætli yrði sagt ef Blönduós fengi allt í einu 100 milljónir til að hefja einhverja nýja tegund af atvinnustarfssemi, meðan skorið er niður allsstaðar, það segir sig sjálft að fjölmargir hópar innan samfélagsins yrðu trítilóðir.

Að þessu sögðu nenni ég ekki að halda þessari umræðu áfram, sveitafélögin á svæðinu hafa gefið út að deiluskipulagi verði ekki breytt, til að verja sig og sína og við það stendur. 

Bjarki (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband