Hið vikulega stóriðjuhróp.

Ég hef ekki tíma til að kanna það en ég giska á að undanfarið ár hafi verið tekið vikulega sama viðtalið við Vilhjálm Egilsson eða annan talsmann atvinnurekenda sem hrópar: Án meiri stóriðju erum við glötuð!

Alltaf þykir þetta vera sama stórfréttin og næsta víst að varla muni líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytji okkur í 50. skiptið þá stórfrétt að stóriðja sé það eina sem geti bjargað þjóðinni.

Talsmaður iðnaðarins segir í viðtali í dag að 35 þúsund ný störf þurfi á næstu tíu árum og stóriðja sé forsenda fyrir að skapa þessi störf. 

Nú vill svo til að verði öll orka Íslands beisluð fyrir stóriðju munu aðeins 1,3% vinnuafls landsins fá vinnu í hinum nýju álverum. Það eru um 2500 störf af þessum 35000.

Jafnvel þótt því sé haldið fram að svonefnd afleidd störf yrðu 6-7000 fer því fjarri að þetta leysi atvinnuvanda Íslendinga. 

Og fórnirnar sem felast í því að eyðileggja mesta verðmæti landsins, sem felst í náttúruundrum þess, yrðu margfalt dýrkeyptari til allrar framtíðar. 

Afleiddu störfin eru alltaf nefnd eins og aðeins stóriðja taki þau með sér. 

En þetta á við um allar atvinnugreinar og ef talsmenn þeirra allra nefna þessa tölu verður útkoman sú að afleiddu störfin verða samtals tvöfalt fleiri en búa á landinu! 

Það er hægt að margfalda störf í ferðaþjónustu eða öðrum atvinnugreinum og fá út margfalt hærri tölu en fæst með ítrasta marföldunarreikningi stóriðjutrúarmanna. 

Það blasir við að af þessum 35.00 störfum, sem áltrúarmaðurinn nefnir falla 32.500 undir skilgreininguna "eitthvað annað" sem þessir stóriðjuhrópendur mega ekki heyra nefnd.

Og jafnvel þótt samþykkt yrði að afleidd störf eigi að telja með störfunum í álverunum falla minnst 25.000 störf undir "eitthvað annað."  

Áltrúarmenn dreymir um að á næstu tíu árum verði hægt að útvega þúsundum manna vinnu við virkjanaframkvæmdir. 

En hvað gerist þegar ekki verður hægt að virkja meira? 

Þá verður allt þetta fólk atvinnulaust og það ástand skapast sem einn af helstu ráðamönnum Íslands lýsti með þessari frábæru setningu fyrir rúmum áratug: "Það verður bara verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi." 

P.S. ... Ekki var liðinn nema hálfur sólarhringur frá því að ég bloggaði á þá leið að það væri næsta víst að varla myndi líða vika þar til Vilhjálmur Egilsson flytti okkur stórfréttina um stóriðjuna að þetta stóriðjuhróp er haft eftir honum í fréttum !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ja, maður fer bara að halda að einhverjir hagsmunir búi þarna að baki "grátmúrnum".

Einnig fer maður að velta fyrir sér hvort grátmennirnir hafi einhvern tímann dottið og meitt sig og telji sig eigi því eiga harma að hefna á náttúrunni fyrir vikið.

Kristinn Snævar Jónsson, 4.3.2010 kl. 22:21

2 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

PS. Hvaða 100% stjórnmálamaður lét þessi ótrúlegu orð falla um vanda framtíðar?

Kristinn Snævar Jónsson, 4.3.2010 kl. 22:23

3 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Takk fyrir Þetta Ómar. Sem dæmi um eitthvað annað þá jukust tekjur vegna ferðamanna um 20%. Það þýðir að ferðamannaiðnaðurinn veltir 155 milljarða króna sem kom því næst óskipt inn í Íslenskt hagkerfi. Ég spái áframhaldandi velgengni svo lengi sem við leggjum ekki allt undir virkjanir, línur og stóriðjur.

Andrés Kristjánsson, 5.3.2010 kl. 00:36

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Borginmannlegur Skagfirðingur sem ólst upp við jaðar Eylendisins í Skagafirði hélt að það væri nú í lagi að virkja þessi Héraðsvötn sem væru búin að renna þarna í þúsundir ára og "engum til gagns!"

Hversu mikla fjármuni skyldi vera búið að leggja í rannsóknir og mati á því næringargildi fyrir lífríki við strendurnar sem tapast og situr eftir í setlónum þar sem jökulár eru virkjaðar?

Og hvert skyldi nú virði Eylendisins í Skagafirði vera að mati Moody´s? 

Árni Gunnarsson, 5.3.2010 kl. 10:08

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Ég ætla líka að minnast á allar tómar íbúðir á Austurlandi. Hvar er allt fólkið sem átti að búa þar og vinna í þessari atvinnuskapandi stóriðju?

Árni, þetta er mjög mikilvægur punktur, þetta með næringarefnin sem berast ekki lengur til sjávar út af setlónunum. Væri ekki tími til kominn að rannsaka þessi mál almennilega í Héraðsflóanum? Og leyfa svo vísindamönnunum að segja sannleikann ófegrað án þess að útskúfa þá?

Úrsúla Jünemann, 5.3.2010 kl. 12:42

6 identicon

Ómar sæll. Ekki finnst mér rétt að nota þá röksemd að áliðnaðurinn skapi ekki nógu mörg störf miðað við kostnað til að gagnrýna áframhaldandi virkjun fallvatnanna. Þessi tala er miklu lægri en 1.3 % miðað við fulla nýtingu! Væntanlega 0.00.. eitthvað !  Við hönnun, undirbúning og virkjunina sjálfa skapast hundruð starfa, ef ekki þúsundir í þeim stærstu. Þegar virkjun er lokið eru það hinsvegar örfáir sem starfa beint við hana. Hins vegar skaffa í þessu tilfelli álverin störfin í álverum eða í annarri iðju sem kaupir af okkur rafmagnið. Það eru mjög dýr störf vegna þess að verin er mjög dýr, mun dýrari en virkjanirnar. Hins vegar ganga virkjanirnar dag og nótt og afla okkur dýrmæts gjaldeyris og þá skiptir miklu að verðið til iðjuverana sé nægilega hátt. Ekki misskilja mig, að ég sé fylgjandi því að virkja allt sem virkjanlegt er, en það er sárgrætilegt að sjá á eftir öllum þessum vatnsföllum óbeisluðum til sjávar. Sá að þú varst á hækjum. Heilsist þér vel og farðu varlega ef þér er það mögulegt.

Sigurdur Ingólfsson (IP-tala skráð) 6.3.2010 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband