Eins og í Suðurríkjum BNA fyrir hálfri öld.

Við Íslendingar fylgdumst í fréttum með því fyrir hálfri öld hvernig upp komu í Suðurríkjum Bandaríkjanna mál af því tagi sem við fréttum nú um í okkar eigin landi.

Ekki hefði mann órað fyrir því að slíkt gerðist hér á næstu öld en svo er að sjá sem þessi napri raunveruleiki blasi við. 

Samt er það svo að þegar fyrir hálfri öld grunaði mig að þrátt fyrir það hve við gumum af frjálslyndi og umburðarlyndi myndu kynþáttafordómar geta átt greiða leið að mörgum heima ef tilefni gæfist. 

Þetta byggði ég á því að þegar ég  kom fyrst til Bandaríkjanna upp úr 1960 kom það mér á óvart hve stór hluti þeirra Íslendinga, sem áttu heima þar vestra, voru á bandi þeirra sem beittu sér mest gegn blökkumönnum. 

Fleiri en einn sagði við mig þegar ég lýsti yfir undrun: "Þið, heima á Íslandi, vitið ekkert hvað þið eruð að tala um því að þið þekkið þetta ekki.  Þið meira að segja gerið það að skilyrði að blökkumenn séu ekki í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli en þykist síðan vera eitthvað heilagir."

Síðan kom löng upptalning sem átti að sanna hve miklu lakari hinn svarti kynþáttur væri en hinn hvíti  og að full ástæða væri fyrir því að halda þeim á mottunni.

Allt þetta kváðu þeir byggja á reynslu sem okkur norður í Íshafiinu skorti. 

Ég kom heim með nýjar hugmyndir um okkur, sem sé þær, að hugsanlega yrðum við ekki hótinu betri en harðsvíruðustu kynþáttahatarar Suðurrikjanna ef við lentun í svipuðum aðstæðum. 

Gamall uggur hefur nú gripið mig en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og að ofsóknirnar gegn hinum hörundsdökka Kúbverja séu undantekning. 


mbl.is Feðgar flýðu land vegna hótana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

Þessir fordómar koma mér ekkert á óvart.  Verst er hvernig þeir eru gerðir að reglugerðum og lögum hér á landi. Ég gæti haldið langa ræðu um slíkt.

Hefurðu skoðað vefsíðu UTL? 

http://www.utl.is/

Hvað er bogið við þessa síðu?  Sérðu myndina af öllu litaða fólkinu í bakgrunninum á síðunni... og á þá þetta ekki að vera íslenskur eðalpiltu í forgrunninum? 

Kannski er hann bankastarfsmaður fyrst hann er í jakkafötum og svo er kannski allt litaða fólkið í hvítum skyrtum því það á bara skúra.

Þessi mynd er búinn að vera á vefsíðu UTL í áraraðir. Þar sem ég er giftur útlendingi og þekki til fordómana, bæði skrílsins og hjá ríkinu þá hefur mér alltaf þótt þessi vefsíða UTL mjög lýsandi um landið. 

Brengluð sjálfsímynd og hroki er eðli sem er í okkur íslendingum alið.  Allt líklega fylgikvilli sjálfstæðisbaráttunnar.  Áfram viðgengst heilaþvotturinn sem lækning gegn minnimáttarkennd okkar.  Kynþáttahatrið og tortryggning við allt erlent er svo eðlilegt hér að við lítum ekki einu sinni á það sem slíkt. Við viðurkennum ekki menntun og ekki yfirburði annara þjóða þó svo að við keyrum um á bílum, notum sjónvörp og tölvur þróaðar af margfallt hæfara fólki úr margfallt hæfari háskólum en hér á landi finnast.

Síðan berum við fyrir okkur. "Já en aðrar þjóðir eru verri við sína útlendinga... þetta er miklu verra annars staðar!"

Jonsi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 01:40

2 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé strangt til tekið undantekning, en gæti verið frekar "stór" eða fjölmenn undantekning.

En ógeðslegt er að lesa þetta, það er klárt.

Ég bý í Atlanta, Georgíu  í Bandaríkjunum sem er nú eitt hjarta kynþáttahatursins í denn, og það eimir sterklega af því hér á báða bóga. Sem betur fer er það hinsvegar ekki það mikið á yfirborðinu að það hafi áhrif á t.d. starf í skólum þar sem mínir drengir verja dögunum, en ca. 40% nemenda eru svartir, 40% hvítir og 20% asíumenn eða einhverskonar blanda. Það gengur áfallalaus. Væri nú óskandi að fólk hegðaði sér eins og eðlilegt fólk þarna heima.

En Ómar, hvar eru fréttaviðtölin og sjónvarpsupptökurnar af ofbeldismönnunum? Hér úti væri UMSVIFALAUST tekið viðtal við þessa kynþáttahatara. Hvar eru félagar þínir nú hjá RÚV? Mér heyrist þú vera gaurinn til að vinna í þessu.

Rúnar Þór Þórarinsson, 13.9.2010 kl. 03:11

3 Smámynd: Samúel Úlfur Þór

Spaugileg athugasemd með utl.is.

 En hvað hitt varðar, þá tæplega teljast þessir menn sem útlendingar. Þeir eru búnir að búa hér í um 10 ár! Ef þeir tala góða íslensku get ég ekki litið á þá sem annað en íslendinga. 

Því miður er hér fólk sem lítur á alla þá sem hafa ekki "hvíta húð, ljóst hár og blá augu" sem útlendinga, og ber hatur til þeirra og þetta er að aukast, ég get alveg lofað því. Ég hef fundið það í kringum mig sem og í skólum þessa lands að til er að verða hópur sem mætti kalla íslenska nýnasista.

Ég hef aldrei áttað mig á þessu útlendingahatri. En við þessu þarf að sporna áður en of seint er!

Persónulega, þá hef ég ekkert á móti fólki af erlendu bergi brotnu svo lengi sem það nennir að setja sig inní að vera íslendingar, og læra íslensku.

Sem dæmi, ef ég flyt til annars lands mun ég eftir fremsa magni reyna að aðlagast umhverfinu sem mest.

 kkv, Samúel Ú. Þór

Samúel Úlfur Þór, 13.9.2010 kl. 03:15

4 identicon

Kannski er hér á ferðinni eitthvað annað en rasismi, hugsanlega  samkeppni um hylli kvendýrs milli tveggja karldýra, sem hefur farið úr böndunum. En hvað svo sem er ferðinni , þá er þetta ekki gott mál, og vel að merkja Ómar þð kemur fram í fréttinni að þeir sem verða fyrir barðinu á þessu eru Íslendingar en ekki "Kúbverjar" , þótt uppruninn sé frá Kúbu, þú veist við hinir erum ekki Norðmenn, eða eitthvað svoleiðis :-). Og ég vona eins og þú að þetta sé eitthvað sem, sé eitthvað sem sé frekar undantekning frekar en merki um breyttan tíðaranda.  

Ég eyddi einu sumri  fyrir nokkrum áratugum í skoðunarferð um Evrópu og nágrenni , og var m.annara í samfloti með tveim ungum (hvítum) konum frá landi (S-Afiríku)  sem á þeim tíma var helsta dæmi heimspressunnar um kynjamisrétti, og nokkurskonar samnefnari fyrir slíkt í hugum flestra  Evrópubúa , og ef til vill Ameríkumanna líka.  Ekki ræddum við mikið um ástand heimalands þeirra , en rinhvrju sinni þegar þau bar á góma sagði önnur þeirra við mig "Mér líkar sko alls ekki hvernig staðið er að hlutunum heima, en ég verð samt að segja að margt af því umtali um landið mitt   sem ég sé í blöðum hérna meginn við pollinn, er hreinlega arfavitlaust, og ber  vott um ótúlega fáfræði um það", og ég gat ekki annað en hugsað sem svo að  hún hefði sennjlega rétt fyrir sér í því , þegar ég leit í eiginn barm , því raun vissi ég grátlega lítið um þetta mál annað en það sem heimspressunni þóknaðist að mata mig á. Og ég verð að segja að þessar ungu konur með rétta litarháttinn , frá landi aðskilnaðarstefnunnar, og ættu þess vegna að hafa verið týpiskir rasistar, voru svona eftir á að hyggja að mínu mati  gjörsamlega lausar við allt sem kallast kynþáttafordómar, hversu undralega sem það kann að hljóma. 

Og það rifjaðist upp fyrir mér meðan ég skrifaði línurnar hér að ofan að ekkert mörgum árum áður en ég fór í þetta ferðalag höfðu ungir Heimdellingar brennt kross að hætti Klu Klux Klan- manna  fyrir neðan glugga á Garði, þar sem bjó Afríkumaður sem stundaði nám í HÍ, sá hrökklaðist úr landi fyrir bragðið. Svo algjört einsdæmi er málið sem fréttin er um ekki, ef um fordómar v. hörundslitar eru neð í spilinu. 

En einhverra hluta vegna var ég nú að velta  fyrir mér um hérna um daginn, hvaða fyrirbæri  kynþáttafordómar (eða rasismi)  væri eiginlega og hvaðan slíkar hugmyndir væru komnar. Niðurstaðan ség ég fékk út á var eitthvað á þá leið að að fordómar eins hóps gagnvart úlititi (t.d. litarhætti ), siðum og atferli annrars hóps hefðu sjálfsagt að einhverju leiti alltaf verið fylgifyskur mannkynsins, og að einhverju leiti má rekja kynþáttafordóm þangar aftur, en að að rót vandan eins og við þekkjum hann í dag lægi í þeirri , að mínu viti , fáránlegu hugmynd að hægt sé að skifta mannkyninu upp í mismunandi kynþætti og flokka eftir slíkum línum, m.ö orðum það að nota yfirleitt orðið kynþáttur er argasti rasismi í eðli sínu , því að það býður heim restinni. Auðvitað er mannkynið bara einn "rasi", enda allt komið af út af  sex eða sjö stökkbreyttum apynjum einhvern tímann í fyrndinni, ef eitthvað er að marka erfðafræðingana sem hafa rannsakað þau mál,  það eru bara hjarðirnar og hjarðreglan  ( eða  kannski "the  tribe and the tribal structure " ) sem eru svolítið mismunnandi eftir búsetu og svoleiðis.  Rasiminn sem við könnumst best við  í dag , og hugmyndir tengdar honum er hinsvegar að miklu leiti afsprengi gervivísinda sem var almennt talinn heilagur sannleikur á áratugunum fyrir og eftir aldamótin 1900,  þessi svokölluðu"vísindi" kallast "eugenics" (veit ekki hvað íslenska heitið er finn það ekki í orðabókum, kannski að þýða sem " kynhreinsunarfræði") og eiga sér nokkurn hóp talsmanna enn þann dag í dag þó ekki sé hann neitt afgerandi , og flesir sem til þekkja álíta að um hrein dellu sé að ræða, þá lifir samt einhver arfur frá bullinni ennþá víða í málfari og ýmsum hugmyndum sem við meðtökum á lífsleiðinni, án þess að við raunverulega tökum eftir því, hugsanlega er þar með akurlendi fyrir einhvers konar blundandi rasisma í okkur öllum án þess að við höfum hugmynd um, sem lætur ekki á sér kræla fyrr en ægilegar mótsetningar skapast  í þjóðfélaginu. 

En nóg um það, smá saga í lokin, ég bjó fyrir allöngu um tíma í Kaupmannahöfn, í nágrenninu var lítið náttúruvísindasafn,  sem var opið alla daga vikunnar, enginn krafinn um aðgangseyri  og í einu horni þess var fyrirtaks Kaffitería með hóflega verðlagningu, svo ég vsr nokkuð reglulegur gestur, og kynntist fyrir bragðið einum safnverðinum lítillega. Eitt af því sem hann og kollegar hans höfu gert var að sækja sér mauraþúfu út í skóg og setja í glerkassa með öllum íbúum hennar, og koma svo fyrir sjónvarpsvélum á völdum stöðum á kassanum. Þannig var hægt að fylgjast með atferli mauranna á skjá "pá nært hold" og það gat oft á tíðum verið hin besta skemmtun. Safnvörðurinn kunninngi minn sagði mér einhvern tímann að þegar þeir voru að koma þessu upp þá reyndu þeir að bæta maurum úr fleiri þúfum í hópinn en það gekk bara alls ekki, því þeir sem fyrir voru réðust á nýbúana og drápu þá, þangað til einhverjum datt í hug að prófa að takka slatta af maurum úr þúfunni, setja þá  í bréfpoka, bæta síðan aðkomumaurunum í þann hóp og hrista duglega, og skila svo öllu saman í kassann, og viti menn nýbúamaurarnir fluttu inn í nýja heimilið án vandræða , sem fullgildir meðlimir hópsins. Og ég hugsaði þegar hann sagði mér frá þessu að það væri verst að ekki væri hægt að leysa samskiftatruflanir manna á jafn einfaldan hátt, og glotti svolítið út í annað. En auðvitað er þessi lausn fyrir hendi, í óeiginlegum skilningi, í mannlegu samfélagi, maurarnir í þúfunni þekkja "meðbræður" sína sennilega með einhvrskonar efnaafræðilegu lyktarskini, sem líka nýtist sem  einhvers konar boðskiftakerfi innan hópsins, og í mannlegu samfélagi er bréfpokinn það sama og að gera kröfu um að nýbúinn læri og aðlagi sig að hjarðreglu ( tungumáli og siðum ) samfélagsins sem hann velur að búa í, en reyni ekki að flytja méð sé sína gömlu hjarðreglu og þröngva henni upp á þá sem fyrir eru, a.m.k. ekki í meira mæli en en svo að nýja hjörðin getur meðtekið, með góðu móti.

Bjössi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 04:08

5 identicon

Eins og stundum las ég ekki yfir nógu vel, áður en ég ýtti á sendihnappinn, í fyrri athugasemd, á einum stað stendur:

"....sem lætur ekki á sér kræla fyrr en ægilegar mótsetningar skapast  í þjóðfélaginu. "

en ætlaði að skrifa :

"... sem lætur ekki á sér kræla fyrr en nægilegar mótsetningar skapast  í þjóðfélaginu."

Bjössi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 04:19

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hætti nú að lesa þessa langloku hjá "Bjössa" þegar hann sagði: "...Heimdellingar brennt kross að hætti Klu Klux Klan- manna  fyrir neðan glugga á Garði, þar sem bjó Afríkumaður sem stundaði nám í HÍ, sá hrökklaðist úr landi fyrir bragðið. "

Það er pólitískt vinstri skítalykt af þessari fullyrðingu og restin verður marklaus fyrir bragðið.

En varðandi þessa frétt; er ekki vel hugsanlegt en eitthvað fleira en kynþáttahatur, komi þarna við sögu, jafnvel fleira en einhver kvennamál?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 05:22

7 identicon

Hvaða bull er þetta í honum Jónsa ?

Viðurkennum ekki yfirburði annarra þjóða, þjóðum sem státa af miklu  hæfara fólki og betri skólum.

Við þjáumst af minnimáttarkennd, líklega af völdum skrílsins og ríkisins sem býr til áróðursmyndir að hætti nasista á vef UTL (maður þarf virkilega að leggja sig fram til að greina rasisma út úr þessari mynd, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi).

Svo erum við með brenglaða sjálfsmynd og hrokafull.

Ég bara spyr... hvaða þvæla er að gerjast í huga þínum Jónsi og frá hvaða háa stalli mælir þú?

Við erum ekki fullkomin, en kommon.. hófleg notkun lýsingarorða hefði gefið færslu þinni marktækari blæ.

Aðra eins þvælu og önnur eins öfgaskrif hef ég varla séð, yfirleitt væri svona hroði fjarlægður.

Sorinn væri í það minnsta fjarlægður ef honum hefði verið beint gegn annarri þjóð en Íslandi !

runar (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 10:43

8 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Ómar ! Og takk enn og einu sinni fyrir gott innlegg, gott væri ef fleiri hefðu þennann eiginleika þinn til að geta og þora að horfa á okkur manneskjur með gagrýnum augum á þennann hátt, næstum eins og þú takir þig á loft í "Frúnni" skoðir okkur eins og mauraþúfu ofanfrá, og hlífir sjálfum þér ekkert heldur.Ég hef lengi gengið með þann grun að við íslendingar séu meðal fordómafyllstu, þröngsýnustu og meistarar í alhæfingum, meðal vestrænna þjóða, ekki af því við séum svo miklu verra innrætt en aðrir, heldur hitt að hvað varðar t.d. kynþáttasamskipti, höfum við ekki reynsluna, bara af afspurn hingað til, og þá er mjög auðvelt að "halda" að maður sé umburðarlyndur á alla kanta.En annars er þetta alltaf að skjóta upp kollinum hér og þar, eitt af síðari alvarlegri tilfellum er kannski krafa Sarkozy frakklandsforseta um að vísa úr landi ”ÖLLUM” af ”Rómaníættum (sígaunar) bara af því sumir þeirra voru eitthvað til ama, gaman að sjá hvernig viðbrögð fransks almmenings  voru harðorð í garð hans fyrir þetta.En ég er samt um leið vongóður um að við munum taka okkur fljótt og vel á í þessum efnum, skynsemina skortir ekki, og viljann ekki heldur, aðeins reynsluna.Sjáið bara hversu fljótt við aðlöguðum okkur og sýnum samkynhneigðum umburðarlyndi, þannig að þau þurfa ekki að flýja land vegna ofsókna, eftir stendur að sýna "nýbúum" (sérstaklega ef hörundsliturinn er dekkri en okkar) sama umburðarlyndið, einnig er mikið verk óunnið gagnvart fátækum, öryrkjum og fötluðum almment, en held þetta komi allt fljótt og vel, ekki síst þegar fólk eins og þú Ómar er ekki hrætt við standa fram og segja meiningu sína og það án þess að byrja á neinu "skítkasti" eins og ber aðeins á hjá "Bjössa" (gott innlegg annars hjá honum) og viðbrögð Gunnars Th. við þeim.Góðar stundirMBKV að utan en með hugann "heima"KH

Kristján Hilmarsson, 13.9.2010 kl. 11:55

9 identicon

Rúnar,

Já en með svari þínu þá sannar þú það samt að ímyndin er viðkvæm og stoltið er auðsært.

Ég leyfir mér að fullyrða að við erum mun viðkvæmari og uppblásnari en flestar aðrar þjóðir.

Ef þú hefur einhverntíman búið erlendis þá manstu kannski hvernig þú talaðir sem sendiherra og erindreki fyrir Ísland. Fólk af stærra þjóðerni tekur fljótt eftir þessum einkennum í okkur, en sem betur fer finnst flestum það bara meinlaust og skondið

Um yfirburðakennd okkar, þá get ég gefið margar sönnur. Taktu til dæmis erlenda verkfræðinga sem sækja um störf hér. Veistu hvernig mörgum farnast, þó svo að þeir séu viðurkenndir af heimsþekktum háskólum og verkfræðingastéttarfélögum?  Taktu t.d. breska, japanska eða ameríska menntaskólanema sem vilja inngögnu í háskólagrunnnám í stærðfræði hér á landi.  Heldurðu að það gangi greitt þó svo að þeir hafa fullnægt skilyrðum þekktustu háskóla í heimi?  Sem eðlisfræðingur þá get ég lagt mat á þetta ósamræmi.

Við erum þó sjálfsagt sammála um eitt að yfirblásin sjálfsímynd, gort og annað slíkt er af hinu slæma. Ef mér leyfist að vitna í gamla bók,

"Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall"

"Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðingu hljóta"

 Við erum þó kannski ekki öll sammála um hvað flokkast undirdrambsemi og hroka.

Jonsi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 15:39

10 identicon

Takk fyrir Ómar að brýna okkur til góðra verka.

Smá athugasemd til Gunnars Th. : Skoðanir þínar á því sem þú kallar vinstri menn jaðra nú næstum við rasisma.  Er ég vinstrimaður og þar með ómarktækur í þínum augum ef ég gagnrýni ofsóknir á hendur erlendum námsmanni eins og Bjössi gerði?

Geir (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 15:51

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Bjössi" tiltók sérstakan stjórnmálaflokk og bendlaði hann við ku klux klan. Engum nema vinstrimanni dytti þetta í hug

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 17:59

12 identicon

Bjössi og Gunnar áhugaverð umræða á milli ykkar.

Er til gömul grein um þetta atvik sem þið getið bent mér á?  Þetta gerðist líklega áður en ég flutti aftur heim til Íslands.

Hvað voru þessi krakkar margir, og voru þeir allir í Heimdalli?  Eru þeir enn í Heimdalli?

Jonsi (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 18:32

13 identicon

There is only one race - The Human Race!

Guðjón (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 18:59

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég veit satt að segja ekkert um þetta mál, en það er út í hött að bendla Heimdall/Sjálfstæðisflokkinn við svona nokkuð.

Hvort einhverjir hafi haft svona tilburði og verið skráðir í einhverja stjórnmálaflokka, gerir ekki flokkana ábyrga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 19:10

15 identicon

Sæll aftur Jónsi.

Svo skemmtilega vill til að ég er einmitt staddur erlendis við verkfræðinám svo ég á vel heima í innihaldi seinni pistils þíns.

Ég flutti út 2007 í hámarki "góðærisins", kaus að nema erlendis því ég kunni ekki við Ísland árin 2004-2007.

Ég, sem sendiherra þjóðar minnar, talaði ekki fallega um bullið sem viðgekkst heima og var jafn undrandi og útlendingarnir yfir peningaflæðinu heima þessi ár.

Það var ekki fyrr en eftir hrunið að ég fór að halda málstað Íslands á lofti.

Að lokum vil ég minnast á að þeir verkfræðingar sem ég þekki, sem flutt hafa heim, hafa allir fengið vinnu,  svo fullyrðing þín um Íslenskt virðingaleysi gegn námi frá erlendum háskólum er ekki algjörlega rétt.

En hroka og hornaugu hef ég upplifað hér í danaveldi, svo sannarlega, bæði ég og börn mín.

Þessi skítur virðist eiga heima í öllum þjóðfélögum og því miður virðist maður þurfa að þola þetta...

Góða helgi Jónsi og ekki dæma alla landa þína út frá fámennum hópi heimskingja.

runar (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 20:56

16 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

@Gunnar Th. Gunnarsson

Bjössi "bendlaði" ekki Heimdellinga við Ku-Klux-Klan heldur sagði þá hafa "brennt kross að hætti Klu-Klux-Klan manna fyrir neðan glugga þeldökks innflytjanda".

Þú átt erfitt með svona einfalda hluti greinilega þannig að ég skal reyna að skýra þetta fyrir þér: Brennandi kross og hörundsdökkt fólk kalla aðeins upp EINA heimsmenningarlega  tilvísun - Klu Klux Klan og ofsóknir þeirra. Nú... hafi Heimdellingar gert þetta - Brennt krossinn fyrir utan hjá honum og hrakið hann úr landi þá tengja þeir sig sjálfir við íhaldskóngana í Klu-Klux-Klan alveg án aðstoðar Bjössa.

Hinsvegar ef þú ert ósáttur við að Bjössi rifji þetta upp um þína menn í félagi ungra sjálfstæðismanna þá ættirðu frekar að t.d. væna Bjössa um lygi og biðja um frekari tímasetningu á þessu.

Fyrir mitt leyti er þetta ekkert ótrúlegt, þótt það geti vel verið mýta að Heimdellingar hafi staðið í þessu (þótt sumir þeirra þeir séu "rétt" geðjaðir, þ.e. heillum horfnir íhaldsmenn sem hætta bara að lesa um leið og þeir sjá eitthvað sem þeim líkar ekki).

Rúnar Þór Þórarinsson, 15.9.2010 kl. 07:20

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú þarft ekki að útskýra neitt, Rúnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.9.2010 kl. 09:16

18 identicon

Um stjórnmálaglokka og fólk í þeim: oft á gott og illt samleið.

Sumir ganga í stríð til að drepa dáungan en aðrir frelsa hann, þeir geta þó verið í sama liði.

Jonsi (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 00:17

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

-"(þótt sumir þeirra þeir séu "rétt" geðjaðir, þ.e. heillum horfnir íhaldsmenn sem hætta bara að lesa um leið og þeir sjá eitthvað sem þeim líkar ekki). "

Það er nebblega það  

En það er rétt hjá þér, að þegar maður er að lesa eitthvað og áttar sig á því að það er bull, þá hættir maður auðvitað að lesa.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.9.2010 kl. 14:25

20 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Ertu þá búinn að segja upp Mogganum?

Rúnar Þór Þórarinsson, 24.9.2010 kl. 05:58

21 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2010 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband