28.1.2007 | 23:06
NÚ ÞARF AÐ META HINA NÝJU STÖÐU.
Staðan á leikvelli stjórnmálanna er að skýrast. Nú liggur vandinn í að meta hana rétt, skynja kall tímans og vinna þannig að málum að afstýrt verði þeirri martröð sem við blasir í kosningunum í vor að óbreyttu. Eftir landsþing Frjálslyndra liggur fyrir að þótt ríkisstjórnin falli verður áfram meirihluti á þingi fyrir stóriðju ef Frjálslyndir fá það fylgi sem þeir vonast eftir að fá út á innflytjendamálin.
Á landsþinginu gerðist það sem ég hafði óttast og búist við. Stór hluti ræðu formanns fór í innflytjendamál og hann mælti með "hóflegri stóriðju." Sem leiðir til ófarnaðar hinnar gölnu virkjanafíknar.
Ég sagði í sjónvarpsviðtali um daginn að rétt væri að bíða eftir landsþinginu til að sjá á hvort markið inni á vellinum liðin myndu spila í kosningunum í vor. Nú er það ljóst. Allar vonir frá því í snemma í haust um "Frjálslynda - græna" og þörfina á því að fjölga ekki framboðum fuku út í veður og vind.
Þetta setur aukinn vanda á herðar þeirra sem vilja að í vor myndist þingmeirihluti fyrir því að staldra við í stóriðjumálunum og þar með verði leyst úr læðingi þau öfl til nýrrar lífskjarasóknar sem hafa liðið fyrir ruðningsáhrif stóriðju- og virkjanaframkvæmda.
Í dag fór Jón Baldvin mikinn í Silfri Egils og hafði áhyggjur af minnkandi samanlögðu fylgi Samfylkingar og VG. Það var ekki bara athyglisvert í því ljósi að honum fyndist það slæm tilhugsun að stjórnin héldi velli út á minnkandi fylgi og lélega frammistöðu Samfylkingarinnar, heldur líka vegna þess að hann lagði því lið að stóriðju- og virkjanaframkvæmdir yrðu stöðvaðar og tók undir og útfærði frekar rökin fyrir því að það væri skynsamlegt.
Það munar um minna en að fá slíka umsögn eins helsta stjórnmálaforingja undanfarinna áratuga sem geysist nú inn á sviðið ferskari og frískari en nokkru sinni fyrr. Jón Baldvin sýnir með þessu að hann gerir sér grein fyrir breyttum aðstæðum í umhverfismálum á Íslandi og fyrir því að þau geta orðið þungamiðja breyttrar stefnu eftir kosningar.
Sú sýn í Silfri Egils fyrir viku um að Samfylkingin þurfi stuðningsaðila í umhverfismálum frá vinstri og hægri í íslenska flokkakerfinu hefur nú hlotið aukið vægi ef ekki á illa að fara í kosningunum í vor. Ofan á hinar slæmu fréttir af frjálslyndum bætast við nýjustu yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem felast í þessu þrennu:
1. Fagra Ísland verður ráðandi stefna hjá Samfylkingunni: Stóriðju- og virkjanastopp.
2. Ingibjörg Sólrún og þar með flokkur hennar munu engin afskipti hafa af aðgerðum heimamanna á hverjum stað í virkjanmálum.
3. Ef sveitarstjórnir setja virkjanir inn á skipulag verður ekki aftur snúið.
Þetta þrennt gengur ekki upp því liður númer 2 og 3 þýðir augljóslega það að virkjað verður ef heimamenn fara er af stað með það og Fagra Ísland verður marklaust plagg, því miður. Gott dæmi um það hvernig stóriðjuboltinn rúllar óstöðvandi af stað er nýjasta yfirlýsing Árna Sigfússonar um að ómögulegt sé að hafa atkvæðagreiðslu um álver í Helguvík, - of seint vegna þess að allt sé þegar komið af stað og atkvæðisgreiðsla yrði samningsbrot.
Ekki er hægt að sjá að Fagra Ísland geti stöðvað virkjanir úr því að Samfylkingin hefur engin ráð til að stöðva það að hennar fólk á hverjum stað hefji óstöðvandi virkjanaferli.
Er það von að Jón Baldvin hafi áhyggjur af slakri frammistöðu draumaflokks síns og gefi í skyn að þörf sé á stuðningsaðila fyrir Samfylkinguna í formi nýs framboðs?
Athugasemdir
Góða kvöldið aðeins að bera blak af Ingibjörgu Sólrúnu þar sem hún sagði á fundinum Sauðakróki var skv. www.samfylking.is :
"Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á opnum fundi á Sauðárkróki í gær, að það væri afdráttarlaus skoðun þingflokks Samfylkingarinnar að ekki bæri að virkja Jökulárnar í Skagafirði. Vísaði Ingibjörg í því sambandi í tillögur þingflokksins sem settar eru fram í plagginu um Fagra Ísland. "
"Ingibjörg lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum að ekki ætti að setja virkanir inn á aðalskipulag í Skagafirði. Ef það yrði gert gæti orðið erfitt fyrir sveitastjórn Skagafjarðar að hafa tök á málinu og koma í veg fyrir virkjanaframkvæmdir síðar. Ekki yrði aftur snúið. Mikilvægt væri að sveitarstjórnin héldi skipulagsvaldinu hjá sér eins lengi og kostur væri. Sagðist hún sannfærð um að fulltrúar Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Skagafjarðar myndu finna lausn á skipulagsmálum sveitarfélagsins þar sem fullt tillit yrði tekið til náttúruverndarsjónarmiða og framtíðarhagsmuna sveitarfélagsins"
Þú verður að athuga Ómar að hún hefur ekki vald til að reka eða setja nýtt fólk í sveitarstjórn Skagafirðar eða setja þeim úrslitakosti. Hvað á hún að gera annað en að benda þeim á vilja flokksins og benda þeim á í hverju þau gætu lent? Hún getur ekki rekið þau og sett aðra í staðinn.
Að öðruleyti fullkomlega sammála þér og fylgismaður baráttu þinnar og fleiri.
Magnús Helgi Björgvinsson, 29.1.2007 kl. 01:02
Sæll Ómar
Mig langar eiginlega bara að spurja að einu,
til hvers að vera stofna alltaf til nýrra framboðs?
gerir það ekki bara meira á það að þessi ríkisstjórn haldi velli?
ef svo væri að ríkisstjórnin falli í komandi kosningum eiga þá eftir að verða 3-4 flokkar í ríkistjórn?
ég bara einhvern segi þessa flokka engan veginn geta unnið saman.
Arnar (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 08:32
Ég er með þér í að stofna nýjan flokk, það er vissulega þörf á breytingum og ég persónulega kýs ekki samfylkinguna og eftir þetta rugl hjá frjálslyndum, þá er eins víst að þeir hafi misst sína lykil stöðu. Stjórnarflokkarnir eru búnir að hafa það allt og þægilegt, úr tengslum við almenning og eigum okkar landsmanna verið færðar nokkrum einstaklingum á silfurfati. Ég tek undir með Spaugstofunni, með ísmaurasamfélagið - Er ekki kominn tími til að vakna af þessum Þyrnirósarsvefni.
G.Helga Ingadóttir, 29.1.2007 kl. 10:09
Hér að ofan er spurt hvað Ingibjörg Sólrún geti gert meira en að ítreka gildi stefnuskrárinnar Fagra Ísland? Ekki geti hún vaðið yfir sveitarstjórnarmenn.
Svarið er einfalt við því. Það þarf að setja fram þá stefnu að breyta þannig lögum að sveitarstjórnarslysin geti ekki gerst. Setja þarf ákvæði um svona afdrifaríkar ákvarðanir í stjórnarskrá eins og er víða erlendis, til dæmis í Finnlandi.
Sveitarstjórn í tiltölulega fámennu byggðarlagi má sín lítils gegn ofurvaldi álhrings sem meira að segja Bandaríkjaforseti verður að taka tillit til.
Það að fórna mestu verðmætum lands sem talið er eitt af sjö undrum veraldar og ganga á rétt milljóna óborinna Íslendinga er ekki einkamál sveitarstjórna sem nú sitja og ekki heldur núlifandi Íslendinga.
Við erum vörslumenn verðmæta í eigu alls mannkyns og fengum þau að láni frá afkomendum okkar. Ég lýsi eftir víðtækari og skarpari stefnumótun Samfylkingarinnar, - stefnu sem nær raunverulegum árangri og kemur í veg fyrir þau umhverfisslys sem nú stefnir í að öllu óbreyttu.
Ómar Ragnarsson, 29.1.2007 kl. 11:34
Sæll Ómar og takk fyrir síðast. Stórbrotna flugferð yfir Kárahnjúka í haust. Bara eitt sem mig langar að segja við þig: Mér finnst villandi að segja að sveitarfélögin ráði því hvort stóriðja verður eða ekki. Virkjanaleyfi eru veitt, starfsleyfi, umhverfismat etc. Flest þetta er veitt af sitjandi valdhöfum, þ.e. ríkisstjórn. Auk þess eru gerðir raforkusölusamningar, við fyrirtæki sem stjórnvöld eiga meirihluta í.
Hvað er að gerast í Hafnarfirði? Ríkisstjórnin er búin að veita öll tilskilin leyfi. Alcan er til í tuskið. Orkusamningur hefur verið gerður. Allt þetta gerðist þegjandi og hljóðalaust. Meira eða minna eru þetta ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, enda er Geir fylgjandi þessum framkvæmdum.
Af hverju endar svo málið í fanginu á Samfylkingunni? Hvað rugl er það? Ef Samfylkingin í Hafnarfirði væri stóriðjuflokkur væri einfaldlega fyrir löngu byrjað að stækka. Ekkert í lögum eða nein staðar setur þá skyldu á herðar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að leggja málið í dóm kjósenda.
Staðreyndin er þessi: Hafnfirðingar geta núna stöðvað þetta mál. Og ég sé ekki betur en að það sé Samfylkingunni að þakka og ákveðinni lýðræðisstefnu sem hún aðhyllist. Ákvarðanir sem settu þetta mál á koppinn voru hins vegar að langstærstum hluta teknar annars staðar og nú er kominn tími til að þeir sem tóku þær -- iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra -- svari fyrir þá stóriðjustefnu sína.
Guðmundur Steingrímsson, 29.1.2007 kl. 14:05
Sammála Guðmundi Steingríms hér að framan: Virkjanaleyfin, starfsleyfin og orkusölusamningarnir eru allt lykilskrefin sem tekin eru með beinni aðkomu stjórnvalda og ef takast á að staldra við og ljúka forgangsröðun friðunar og í raun mótun alvöru atvinnustefnu þá verðum við að vinna það í gegnum Alþingi og ríkisstjórn. Ef við ætlum að sitja með hendur í skauti þar til allir sveitarstjórnarmenn hafa fallist á að axla ábyrgðina fyrir þjóðfélagið í heild, hver heima hjá sér, þá erum við að vinna umhverfinu tjón með óraunsæi.
Ef til vill þarf Ingibjörg Sólrún og sú nýja kynslóð Samfylkingarfólks, sem stendur þétt að baki þeirri framtíðarsýn sem birtist í Fagra Íslandi, fyrst og fremst á öflugum liðsauka að halda til að búa til frjálslynda og græna jafnaðarmannaflokkinn sem svo margir þrá.
Arng (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 15:41
Góðan dag, Ómar !
Ég er einn hinna fjölmörgu, sem kunnað hafa að meta þáttagerð þína, fyrir Sjónvarpið; í gegnum árin, s.s. Stiklur; og marga fleirri. Algerlega sammála þér og þínu ryckti, hvað varðar virkjanaframkvæmdirnar, nú þarf ögn að staldra við; enda þurfa komandi kynslóðir á möguleikum að halda, þegar líða tekur á öldina, og hinar næstu.
Hvet þig eindregið, Ómar; alls ekki setja fyrir þig góðar meiningar þjóðernissinna, hverjir stemma vilja stigu við sívaxandi straumi útlendra hingað, heldur miklu fremur þarf að skoða mál öll, í heild sinni, áratugi fram í tímann, ekki einungis nokkur misseri, eins og mönnum er gjarnt; í samtímanum.
Eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga er, að fjölmörg þeirra fyrirtækja og stofnana, hver verið hafa upp á ríkisins eykt, unz féllu til misviturra gróðamanna á liðnum árum, og misserum, þjóðinni til bölvunar og tjóns, hinum makráðu handhöfum til aukinnar uppivöðslusemi og alls lags fordildar; þessum hinum sömu ríkisfyrirtækjum og stofnunum þarf að koma í þjóðnýtingu, sem allra skjótast !
Mjög heyrist þessi dægrin, að koma þyrfti á málþingi þínu, og manna sem: Stefáns Ólafssonar , Guðmundar Ólafssonar kollega hans, Jóns Baldvins Hannibalssonar og nokkura annara valinkunnra, til stofnunar einskonar Þjóðarbandalags, gegn ríkjandi flokkum, hverjir á Alþingi sitja fyrir; til gagnsóknar nokkurrar, fyrir land og þjóð. Vel yrði, ef mætti !
Læt lokið, um hríð.
Með beztu kveðjum, úr Efra- Ölfusi, -Sunnlendinga fjórðungi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 17:43
ÓMAR, NÚ ÞARFTU AÐEINS AÐ SKAMMAST ÞÍN!
Í þessum nýjasta pistli þínum segirðu hreinlega ósatt. Ég veit það hlýtur að vera óvart en ég er mjög óhress með það af því ég var búinn að útskýra vendilega fyrir þér þennan misskilning þinn og af því að þú hefur talað eins og samherji í náttúruverndinni - hingað til. Ég skal samt góðfúslega skýra þetta út aftur.
Ingibjörg Sólrún hefur aldrei sagt að í framtíðinni eigi sveitarfélögin að ráða hvort þau skipuleggja hjá sér virkjanir eða ekki. Af hverju heldurðu að í Fagra Íslandi sé talað um að láta Rammaáætlun um náttúruvernd verða grundvallarplagg fyrir landsskipulag sem verði ráðandi við gerð aðalskipulags sveitarfélaga?
Það er til að breyta því ástandi sem nú er og við erum sammála um að gangi ekki upp. Þetta var ég búinn að útskýra fyrir þér en samt heldurðu áfram að fara með rangt mál. Það er ljóður á þínu annars ágæta ráði.
Eins og Guðmundur Steingrímsson rekur ágætlega hér að ofan þá er það vegna Samfylkingarinnar að nú er verið að kjósa um stækkun í Hafnarfirði. Það sama er uppi á teningnum í Skagafirði en þar vakti fyrir Samfylkingunni að fá loksins umræðu um málið, virkjanir hafa hreint ekkert verið settar á skipulag þar (nema Skatastaðavirkjun af fyrri meirihluta) og engar líkur á að það verði gert.
Það eina sem Ingibjörg Sólrún sagði varðandi þær ákvarðanir sem sveitastjórnir á þessum stöðum standa núna frammi fyrir var að hún mun ekki beita flokksvaldi Samfylkingarinnar til að knýja fram niðurstöðu í málinu. Hún mun leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang.
HINS VEGAR ER ALVEG Á HREINU AÐ EITT MEGIN MARKMIÐIÐ MEÐ FAGRA ÍSLANDI ER AÐ BREYTA SKIPULAGSLÖGUNUM TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR AÐ ÞESSI STAÐA KOMI AFTUR UPP. ÞAÐ Á AÐ RANNSAKA ALLT LANDIÐ, META VERÐMÆT NÁTTÚRUSVÆÐI, TRYGGJA VERNDUN ÞEIRRA OG LÁTA ÞÁ NIÐURSTÖÐU VERÐA GRUNN AÐ FREKARA SKIPULAGI Á LANDSVÍSU.
Þetta var ég búinn að útskýra vel og vendilega fyrir þér og skil þess vegna ekki af hverju þú velur að ráðast að Samfylkingunni með ósannindum. Það er ekki þinn stíll. Ég vonast til þess að þú leiðréttir þetta sem ég hlýt að afgreiða sem meiri háttar misskilning.
Með vinsemd,
Dofri Hermannsson.
Dofri Hermannsson, 29.1.2007 kl. 23:28
Ég þakka ykkur, Dofri og Guðmundur Steingrímsson, fyrir athugasemdir ykkar og tek þær til greina. Það er alveg rétt að það er samfylkingarfólki í Hafnarfirði að þakka að þar er hægt að eygja möguleika á að koma í veg fyrir umhverfisslys.
En ég vek athygli á skilningi okkar Ingibjargar Sólrúnar á þeim afleiðingum sem það hefur að afgreiða skipulag sem gerir ráð yfir virkjun eða álveri. Eftir það sé virkjanaleiðin greið og ekki aftur snúið. Hafnarfirði vantar þetta skipulag sem betur fer og þess vegna er enn möguleiki á að afstýra því sem þar vofir yfir.
Ég er alveg tilbúinn að biðja ykkur afsökunar, mínir góðu samherjar í umhverfismálum, ef ykkur finnst ég hafa tekið oft djúpt í árinni um vanmátt flokksins gagnvart einstökum sveitarstjórnum. Ég skil það þau takmörk sem núverandi lagaumhverfi setur og hef undanfarin ár gagnrýnt það umhverfi óttans sem ofríki Davíð innleiddi.
Hina brýninguna til ykkar verð ég hins vegar að ítreka að auk þess að gera ykkar fólki í héraði það ljóst núna að afdráttarlausar breytingar á lagaumhverfinu verði gerðar strax eftir kosningar ef ykkar stefna gengur fram, - verður að ganga lengra og þá vísa ég aftur til reynslunnar í Finnlandi.
Þar stóðu menn frammi fyrir mesta atvinnuleysi í Norður-Evrópu eftir að Sovétríkin féllu og ætluðu í örvæntingu að lvirkja langleiðina í eina Kárahnjúkavirkjun í Norður-Finnlandi. En vegna strangra stjórnarskrárskilyrða, sem vantar hér á Íslandi, varð ekkert af því.
Í staðinn fóru Finnar þá leið sem þarf að fara hér, - þeir nýttu mannauðinn og þá möguleika sem ESB-aðild gaf þeim til að byggja upp finnska efnahagsundrið með þekkingariðnaði og hátækni. Nókía er eitt af táknum þess.
Kannski er ein af ástæðum slaks gengis flokks ykkar í skoðanakönnunum um þessar mundir að þið séuð að reyna að þóknast of mörgum með þeim afleiðingum að stefnan útvatnast og verður ekki eins skýr og afdráttarlaus og þyrfti. Ég hvet ykkur til að skoða og skilgreina þennan vanda.
Að lokum: Hlutverk hugsanlegs mið-hægri umhverfisframboðs yrði fyrst og fremst að ná fylgi umhverfisverndarfólks frá stjórnarflokkunum þar sem það er læst inni. Ég bendi á viðtal við okkur Andra Snæ í blaði Framtíðarlandsins.
Ómar Ragnarsson, 30.1.2007 kl. 00:58
Ómar. Ég hef þó nokkurn áhuga á stjónrmálum og hef horft voteygður upp á það hvernig allt er að verða og hvernig enginn virðist taka eftir neinu óeðlilegu. Manni er skapi næst að öskra frá sér vitið því ekkert virðist heyrast.
Síðustu alþingiskosningar minntu mig svolítið á þegar Bush sigraði síðustu forsetakosningarnar í USA. Í framhaldinu hef ég stundum sagt að ef hægri stjórnin á Íslandi verður endurkjörin teldi ég það jafngilda að Bush fengi undanþágu til að sitja enn eitt kjörtímabilið þrátt fyrir allt mótlætið sem hann fær þessa dagana.
Ég hvet ykkur Jón til að láta slag standa og bjarga þjóðinni frá þeim hræðilegu örlögum sem allt stefnir í annars. Þið virðist vera þeir einu sem koma í sjónvarpið og sagja fólki hvernig hlutirnir eru og um hvað málin snúast; aðrir eru bara tíndir í einhverju rugli.
Ég geri mér fullkomnlega grein fyrir að hinir og þessir stjórnmálamenn geti fullyrt að þetta og hitt sé sem fram kom hjá Jóni í margræddum þætti sé nú í stefnuskrá Samfylkingarinnar o.s.frv. Aðalatriðið er hinsvegar þetta: Það er öllum alveg nákvæmlega sama því engum hefur verið komið í skilning um neitt. Þeir fáu sem eitthvað skilja vita svo aftur ekkert hvernig það mál tengist því næsta og engin heildarmynd fæst á neitt. Á endanum veit ungi kjósandinn ekki sitt rjúkandi ráð og kýs Sjálfstæðisflokkinn fyrir afa sinn, sem sjálfur getur verið áskrifandi af Sjálfstæðisflokknum síðan í gamla daga, nú píndur einhversstaðar og sveltur á elliheimili með alltof gamla stjórnmálastefnu.
Það sem vegur auðvitað þyngst er kemur að því að ná fylgi í kosningum er alvöru leiðtogi; einhver sem fólk hlustar á og tekur mark á; að mínu mati eru allir hættir að hlusta á gjammið í Ingibjörgu þótt vissulega veiti mér það fró að heyra hana stöku sinnum rasskella Geir Haarde með háðungum og öðrum mælskubrögðum sem hún tjaldar listavel til; þetta er bara orðið gamalt og innihaldslaust. Endausir frasar hitt og annað getur aldrei komið skýrri stefnu á framfæri. Stjórnin er líka þegar búin að klúðra svo rosalega að menn ættu að geta linað aðeins á þessum endalausta sandkassaleik og farið að einblína á hvað sé hægt að gera til að leysa þau vandamál sem blasa við, s.s. stóriðjustefnuna.
Ég segi því: Gleymið bara Samfylkingunni; þeir hljóta að fara sínar leiðir í þessu öllu og ég vona þrátt fyrir allt að þeir hljóti gott fylgi í næstu kosningum. Þú Ómar, Jón Baldvin og Lobbi á Bifröst, eruð búin að koma mér í meiri heildarskilning um þjóðmál á Íslandi, í einu viðtali í Silfri Egils-þætti en ég hef reitt hendur á í öllum öðrum ræðum og kappræðum sem ég hef horft á hjá og á milli alþingismanna. Frá mínum bæjardyrum séð eruð þið því eina framtíðarvon Íslendinga.
Sigfús Örn Einarsson
Sigfús Örn Einarsson (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:58
Eitt langar mig að vita varðandi álverið í Straumsvík. Af hverju seldi Hafnarfjörður Alcan land undir stækkun? Er ekki einhver bogið við þau skilaboð? Ég myndi túlka það þannig að mitt fyrirtæki mætti byrja ferli á stækkun þess. Og að fela sig svo núna á bakvið kjósendur í Hafnarfirði er frekar aumt.
Guðmundur H. Bragason, 30.1.2007 kl. 02:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.