FRJÁLSLYNDIR - STÓRIÐJUFLOKKUR.

Stóriðjusinnar á Íslandi hafa kallað sig hófsemdarfólk en þá sem hafa viljað staldra við öfgamenn. Nú kynnir formaður Frjálsynda flokksins "hóflega" stóriðju og álverastefnu flokksins. Með því vill hann í raun skipa sér með stjórnarflokkunum í þessu máli sem hafa alltaf pakkað stóriðjustefnunni inn í snakk um hófsemd, skynsemi og virðingu fyrir náttúrunni. 

Í orðinu stóriðja felst að hún sé stór. Fyrir liggja yfirlýsingar allra álfyrirtækjanna, líka Norsk Hydro, að álver séu ekki samkeppnisfær nema þau séu 5-700 þúsund tonn. Þess vegna þarf Alcan að stækka í Straumvík. Þess vegna mun Alcoa þurfa að stækka á Húsavík og álver í Helguvík verður aðeins fyrsti áfangi að risaálveri.

Einföld samlagning á orkunni sem þarf í þessi álver sýnir að þetta kostar að virkja alla orku Íslands, líka Jökulsá á Fjöllum, enda útilokar forsætisráðherra ekki það.

Guðjón Arnar segir að lausnin felist í því að hækka orkuverðið til álfyrirtækjanna, sem segja að þau séu ekki samkeppnisfær á núverndi orkuverði nema að reis risaálver. Þetta gengur augljóslega ekki upp. Forsendan fyrir veru álveranna hér er smánarlega lágt orkuverð.

 Guðjón Arnar, það er ekkert "hóflegt" til við framtíðarsýn þína. Hún felst í því að fórna einu af sjö undrum veraldar, íslenskri náttúru, mesta verðmæti sem Íslensku þjóðinni hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt og milljónir óborna Íslendinga, - fórna þessu verðmæti sem dýrmætara en sjálf handritin fyrir galna virkjanafíkn sem byggist á hæpnum og staðbundnum skammgróðasjónarmiðum.

Þú getur augljóslega ekki samþykkt að hætta virkjanaframkvæmdum í þau 6-15 ár sem það tekur að bíða eftir niðurstöðum af djúpborunum sem hugsanlega gætu skilað sömu orku með fimmfalt minni umhverfisspjöllum. Nei, þú vilt halda áfram í dansinum í kringum álkálfinn og segja síðan eftirá ef djúpborarirnar heppnast: Sorrý, ákvörðunin um áframhaldandi virkjanir var rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.

Við höfum báðir heyrt svona afsakanir áður, - hjá stjórnarflokkunum um Írak, - hjá Samfylkingunni ium Kárahnjúkavirkjun. Ég skora á þig áður en það er orðið of seint að skipa flokki þínum í fylkingu með þeim sem vilja staldra við áður en anað verður áfram. Ef þú og þínn flokkur gera það ekki hefur Frjálslyndi flokkurinn skipað sér í fylkingu með stjórnarflokkunum, - stóriðjuflokkunum, með Jóni Sigurðssyni sem heldur því blákalt fram að stóriðjustefnunni sé lokið.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Það er auðvitað alveg ljóst að gott væri að hægja á sér í stóriðjumálum.
En, hvað á að gera....... á að stoppa allar framkvæmdir úti á landi og flytja fólkið til Reykjavíkur vega þess að engin atvinna er í heimabyggð og ekki má byggja upp atvinnu með stóriðju.....?
"Eitthvað annað" hefur því miður ekki skilað árangri eins og sumir sem kenna sig við náttúruvernd halda fram að eigi að gera.
Ef ástandið er skoðað á Húsavík sést að fyrirtækin eru að flytjast frá svæðinu eitt af öðru og meðal annars út af háum flutningskostnaði.
Ég hugsa að allir stjórnmálaflokkar séu sammála um að eitthvað þurfi að gera í málinu og þá er álver vænlegur kostur, nema Vinstri Grænir sem eru á móti öllu... fólkinu í landinu líka finnst mér.
Ómar, þú segir að við eigum að bíða eftir árangri af þeirri rannsóknarvinnu sem djúpboranirnar gefa okkur.
Það er vissulega spennandi að sjá hvað kemur út úr þeim, en það er algjör firra að láta sér detta það í hug að einhver sátt verði hjá "náttúruverndarsinnum" um þær framkvæmdir frekar um aðrar.... öfgarnar eru svo miklar, því er nú verr og miður.
Þú talar um Jökulsá á Fjöllum og "náttúruverndarsinnar" láta oft sem svo að til standi að virkja Dettifoss. Upplýsingar eru teknar úr rannsóknarplöggum og þá eins og oft áður er bara sumt birt og annað látið óbirt þannig að ekkert samhengi næst og aðeins hálfur sannleikurinn er sagður og þannig er það oft hjá "náttúruverndarsinnum".
Kosningarnar hljóta að snúast um það að fólk geti lifað sómasamlega í landinu og þá þurfum við að horfa fram á við, við hugsum um náttúruna að sjálfsögðu, við verðum að byggja upp atvinnu o.s.frv.

Stefán Stefánsson, 27.1.2007 kl. 15:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stefán, undanfarin ár hefur verið hægt á öllu öðru í þjóðlífinu vegna stóriðjuframkvæmdanna, meðal annars hefur dregið úr vegaframkvæmdum vegna ruðningsáhrifa virkjanaframkvæmdanna. Þensla og sveiflur hafa stórskemmt fyrir því atvinnulífi sem nútíminn þarf mest á að halda.

Útrásarfyrirtækin og önnur fyrirtæki í landinul,sem skapa miklu meiri verðmæti en stóriðjan, hafa liðið fyrir þetta. Ef við beinum þessum hundruðum milljarða, sem virkjanaframkvæmdirnar kosta, til samgöngubóta og eflingar annars atvinnulífs munu verða stakkaskipti til hins betra.

Sú framtíðarsýn að úti á landsbyggðinni búi fyrst og fremst verksmiðjufólk en á suðvesturhorninu verði þau fyrirtæki sem skila mestum arði, tekjum og menntun mun það leiða til þess að breikka gjána milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

Það var sagt að landauðn yrði í Mývatnssveit ef Kísiliðjan hætti en aðeins átta hafa flutt burtu. Það var sagt að mörg hundruð manns yrðu atvinnulaus þegar herinn færi en nú finnst þetta atvinnulaus fólk ekki. Samt á að reisa risaverksmiðju án þess að fólkið finnist, sem á að vinna þar, - nema þá í Póllandi.  

Ómar Ragnarsson, 27.1.2007 kl. 17:33

3 identicon

það er allt miðað við ástandið núna, það er næg atvinna núna, ef það hefði verið atvinnuleysi upp á svona 5% þegar herinn fór væri mjög slæmt ástand á suðurnesjum núna,við getum ekki miðað allt við ástandið eins og núna, og ég vorkenni mjög svo þessum útrásarfyrirtækjum núna, þau berjast í bökkum eða þannig, og leiðinlegt að almenn fyrirtæki séu í vandræðum út af þessum framkvæmdum sem eru í gangi hér, hættum allri stóriðju og förum að vinna við þjónustustörf fyrir túrista

haukur kristinsson (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 22:27

4 Smámynd: Dofri Hermannsson

Frjálslyndir á þingi og frjálslyndir í borginni voru algerlega aðskildir flokkar hvað náttúruverndina varðar. Nú hefur það auk þess gerst að Margrét, sem borgarstjórnarflokkurinn lýsti yfir stuðningi við, hefur verið hrakin úr flokknum. Það liggur því beint við að Ólafur F og hans fólk taki höndum saman með Margréti á hvaða vettvangi sem það verður. Sumir hafa sagt að þar munir þú Ómar koma að málum.

Hvort sem það er rétt eða rangt er ljóst að fulltrúar "frjálslyndis" á þinginu eru ekki og hafa aldrei verið neitt fyrir náttúruvernd.

Mér finnst ástæða að vekja athygli Hauks á orðum Ingibjargar Sólrúnar hvað varðar atvinnu á Reyjanesinu. Á næstu 20 árum er búist við að störfum í Leifsstöð fjölgi um 100 á ári. Það eru störf sem falla mun betur að smekk kvenna en álstörfin en atvinnuleysið á þessu svæði hefur verið mest á meðal kvenna.

Það er reiknað með að fjárfestingin á bak við hvert starf við flugstöðina sé um 10 milljónir. Fjárfestingin á bak við hvert starf í Fjarðaráli er um 500 milljónir. Hvort er nú gáfulegra?

Dofri Hermannsson, 28.1.2007 kl. 03:24

5 identicon

Ómar, þú þarft nauðsynlega að fara í pólitíkina. Annað hvort að stofna flokk, eða ganga til liðs við t.d. Vinstri græna. Eða Frjálslynda flokkinn, sem þú gagnrýnir fyrir sofandahátt í stóriðjumálunum. En þar gætir þú hrist upp í flokknum með þínum sannfæringarkrafti.

Ég hef löngu séð þig fyrir mér í pontu á Alþingu. Séð þig töfra fram orðræðu sem heillar þá sem á hlýða. Ég veit líka að þá og þar mun þjóðin fylgjast með þér, og drekka það í sig, sem þú dregur úr viskubrunni þínum, um nauðsyn þess að staldra við og spyrja; hvort við eigum að spilla og /eða sökkva landinu svo við getum selt ódýrt rafmagn til álframleiðslu og mengað andrúmsloftið, fyrir milljarðamæringa, sem svo fara með gróðann úr landi. Eða lokað verksmiðjunum þegar þeim hentar. Eigum við ekki betri kosta völ að lifa hér í þessu landi, en þetta hlutskipti. Og hvað með framtíðina og börnin okkar, verður það þeirra hlutskipti, að vaða álreyk í náttúruperlulausu landi. Eða flýja þau land. Guð forði þeim frá því. Kveðja, Janus Hafsteinn.

Janus Hafsteinn Engilbertsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 04:04

6 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég er sammála, það er ekki til neitt sem heitir hófsöm stóriðja. Það er reyndar merkilegt að fylgjast með rökum stóriðjusinna. Ráðlegg þeim öllum sem einum að lesa Draumalandið, því þar er að finna allskonar hugmyndir sem m.a. náttúruverndarsinnar hafa lagt mikla vinnu í að móta sem býður landsmönnum upp á meira spennandi framtíðarsýn fyrir börnin okkar og barnabörn en Álbræðsluland. Möguleikarnir á annarri atvinnustarfssemi eru óendanlegir og enginn nema þeir sem ekkert hafa kynnt sér málin geta haldið því fram að fjölbreytni í atvinnulífi sé ekki hagkvæm. Hvernig getur það verið hagkvæmt að fórna náttúrunni okkar fyrir stóriðju?

Stóriðja mengar, stóriðja verður úrelt, þeir sem trúa mér ekki ættu að keyra um sveitir Rúmeníu og sjá allar niðurgrotnandi verksmiðjurnar þar sem líta út eins og holdsveiki á fallegum og ræktarlegum sveitum landsins.

Frjálslyndi flokkurinn er hvorki fugl né fiskur án Margrétar, minnir mig helst á landreka hval ef eitthvað er.

Birgitta Jónsdóttir, 28.1.2007 kl. 08:46

7 identicon

Ómar þú mátt vita það að ef þú ferð í pólitíkina þá færðu atkvæði mitt. Ég er meira segja svo ákveðinn að ef þú vilt þá skal ég bjóða mig fram með þér á lista. 

Kv
Hilmar

Sigurður Hilmar Guðjónsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband