Galopnað fyrir athugasemdir.

Fyrir nokkrum dögum kvartaði maður við mig yfir því að ekki gætu allir sett inn athugasemdir á bloggsíðuna mína.

Þetta kom mér á óvart, því að hafi ég einhvern tíma vitað af því að þetta væri takmarkað, var ég löngu búinn að gleyma því. 

Í dag gerði ég því gangskör í því að opna alveg fyrir athugasemdir, bæði hvað stendur þá sem mega senda inn og einnig varðandi tímatakmarkanir. 

Stundum hafa þeir sem hafa rökrétt hér á síðunni kvartað hvor yfir öðrum vegna vafasamra ummæla en sem betur fer hef ég aldrei þurft að fjarlægja athugasemd þótt nærri hafi stundum legið. 

Eina skiptið sem þetta var gert var það yfirstjórn blog.is sem gerði þetta og skilst mér að viðkomandi hafi þá verið úthýst í leiðinni af mbl. is.

Þá voru búnar að vera háværar kvartanir vegna grófra athugasemda frá umræddum manni, sem leyndist undir dulnefni. 

Gott er að þeir sem nýta sér það að enginn tímarammi er nú settur (var áður 14 dagar) átti sig á því að eftir meira en 14 daga eru nánast allir hættir að lesa bloggið svo langt aftur. 

Síðan vona ég að þessi tilraun mín til að galopna síðuna heppnist vel.

Hér verði sem málefnalegust og drengilegust umræða, hressandi og upplýsandi hvað varðar upplýsingar og skoðanaskipti. Það er mikilvæg trygging fyrir því að ekki þurfi að taka neinar takmarkanir upp. 

Að svo mæltu býð ég alla þá velkomna sem nú geta bæst í hóp þeirra sem gera athugasemdir hér á síðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég les bloggið frá þér þegar ég get og er lang oftast mjög ánægður með það sem þú hefur fram að færa.

Svo eru líka þeir sem ekki vilja vera innskráðir á mbl.is. Margir hafa ekki geð í sér að koma að neinu sem heyrir undir MBL.

Ég tel að þú fengir mun meiri lestur og meiri viðbrögð, ef þú værir með blogg hjá öðrum en mbl.is

Stefán Ásgeir Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 21:05

2 identicon

Þetta er flott hjá þér Ómar!
Ég er nokkuð ánægður með að hafa aldrei eytt athugasemdum þegar ég var hér á blogginu.. nema þegar mbl menn komu og þvinguðu mig í ritskoðun og leiðindi.
Fátt pirrar mig meira en menn sem ritskoða sín blogg, banna jafnvel þá sem eru ekki á sama máli.
Þar fer JVJ fremstur í flokki, ásamt mörgum öðrum trúuðum sem þola ekki að heyra gagnrýni, og eða sannleikann.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 21:52

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er með blogg á eyjan.is og fæ líka athugasemdir þar en byrjaði seinna þar.

Á eyjan.is eru ekki birtar flettingar og innlit eins og á mbl.is svo að ég átta mig ekki á því hve mikil umferð er þar. 

Ástæða þess að ég er áfram á mbl.is á rætur allt aftur til þess þegar ég var níu ára og var kominn með ástríðuþunginn áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum. 

Þá bar ég út blöð og seldi líka blöð sem blaðsöludrengur niðri í miðbæ í keppni við Óla blaðasala og aðra stráka. 

Foreldrar mínir voru mikið Sjálfstæðisfólk og hafði meira að segja kosningaskrifstofu á heimilinu þegar kosið var. Þau voru að sjálfsögðu áskrifendur að Morgunblaðinu og það meira að segja áður en þau höfðu efni á að fá sér síma. 

Ég beit það strax í mig að vera í umhverfi þar sem sem allra flest sjónarmið væru á boðstólum. Ég gerðist því áskrifandi að Þjóðviljanum fyrir peningana sem ég fékk fyrir útburð og blaðasölu til þess að á heimilinu væri ávallt gagnstæð sjónarmið á boðstólum. 

Ég vissi að Þjóðviljinn var gagnrýnislaus málpípa alheimskommúnismans og Stalíns, þess mikla fjöldmorðingja. Ég vissi að með því að kaupa Þjóðviljann væri ég að styrkja þetta málgagn. 

En ég vissi líka að Þjóðviljinn var aðal málgagn verkalýðshreyfingarinnar og málstaðar hennar og að Morgunblaðið væri þeim ríkustu þóknanlegt en jafnframt málsvari frelsis og lýðræðisþjóða. 

Blöðin voru andstæðir pólar í utanríkismálum og með því að fjölskyldan á efri hæðinni á Stórholti 33 keypti bæði þessi blöð væri æskilegt jafnvægi í upplýsingum og framsetningu mismunandi skoðana á þessu heimili. 

Meðan börn okkar hjóna voru á heimilinu fengu þau að lesa öll dagblöðin fjögur sem þá voru gefin út af fjórflokkunum. 

Margt var við málflutning þeirra og málstað að athuga og það hvernig fjármálum þeirra var háttað.

Með því að vera áskrifandi að þeim öllum studdi ég þau en hitt vó þyngra að skoðanaskiptin væru aðgengileg á heimilinu. 

Mér er umhugað um að hér á landi séu að minnsta kosti tvær sjónvarpsstöðvar í samkeppni og sömuleiðis minnst tvö dagblöð andstæðra fylkinga og sjónarmiða. 

Samkeppni og sem litskrúðugust flóra í fjölmiðlun er lífsnauðsyn fyrir lýðræðið. 

Ómar Ragnarsson, 13.1.2011 kl. 21:54

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Og nú er komin ný síða á netinu sem gerir manni kleift að setja inn athugasemdir á hvaða síðu sem er, líka þeim sem eru lokaðar fyrir athugasemdum. :-)

www.pushnote.com

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 13.1.2011 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband