Mikil hugmyndaauðgi.

Á þeim stutta tíma, sem liðinn er síðan Hæstiréttur felldi úrskurð sinn, hef ég hitt margt fólk og heyrt furðu margar hugmyndir varðandi lausn á Stjórnlagaþingsmálinu. Þær eru svo sannarlega af ýmsum toga og fleiri en þær þrjár leiðir, sem nefndar voru í gær.

Á Austurvelli vatt sér að mér maður, sem sagðist vera mjög ósáttur við það að öllum yrði frjálst að bjóða sig fram og neyta kosningaréttar síns ef kosið yrði upp á nýtt.

Aðeins þeir, sem buðu sig fram síðast, ættu að vera í framboði og einungis þeir sem greiddu atkvæði þá, ættu að fá að greiða atkvæði. "Við gerðum ekkert rangt" sagði maðurinn, og ef það á að "endurtaka" kosninguna verður að gera það svona."

Ein hugmyndin sem ég heyrði var sú að Alþingi skipaði 25 Stjórnlagaþingfulltrúa og að síðan gæfist þjóðinni kostur á því í kosningum að samþykkja það eða hafna því. 

Þetta vakti misjöfn viðbrögð hjá þeim sem heyrðu. Tvær mótbárur komu fram: Annars vegar að það væri eins og í alræðisríki að aðeins væri boðinn fram einn listi og ekki hægt að velja á milli hans og annars lista. 

Hin var þess eðlis að ef fólk stæði frammi fyrir því að samþykkja annað hvort þessa 25 eða engan, væri hætta á því að það hafnaði öllum 25 af því að það vildi kannski ekki að einn eða tveir úr hópi 25-menninganna. 

Einn viðmælandi sagði: "Bjóðið þið bara fram til Alþingis, þessi 25, ef ekki verður Stjórnlagaþing."

Enn eitt var nefnt, það er að ekki væri víst að allir þeir, sem Alþingi myndi tilnefna sem Stjórnlagaþingmenn, myndu kæra sig um að fara á þann hátt inn á þingið. 

Á móti þessu hefur verið sagt að í úrskurði Hæstaréttaar felist engin athugasemd við atkvæðatölurnar sem komu upp úr kjörkössunum og því sé aðeins um tæknilega útfærslu að ræða varðandi það að þessi 25 setjist inn á löglegt Stjórnlagaþing. Þau geti gert það án þess að véfengt sé að þau hafi í raun umboð til þess. 

Andsvar við þessu hefur verið að út í frá "lykti" þetta af því að löggjafar- og framkvæmdavaldið séu að fara fram hjá úrskurði Hæstaréttar með því að láta ekki fara fram kosningar að nýju. 

Bent hefur verið á það sem galla að verði kosningar aftur muni þau sem voru kosin í haust fá ósanngjarnt forskot yfir aðra, sem yrðu í framboði vegna þeirrar miklu kynningar, sem þau hafa fengið undanfarnar vikur. 

Þessu hefur verið andmælt með því að sé þetta svona, séu Alþingiskosningar ósanngjarnar, af því að sitjandi þingmenn hafi fengið forskot í kynningu.

Einn viðmælandi minn í miðborginni í dag að ef kosið yrði að nýju, myndi kjörsóknin verða minni en í haust og úrslitin kannski nokkuð önnnur. Það væri heldur ekki sanngjarnt úr því að hvorki kjósendur eða frambjóðendur hefðu gert neitt rangt.

Öll hefur þessi samræða á förnum vegi í dag verið áhugaverð og skemmtileg. Áhuginn virðist vera all nokkur hjá almenningi varðandi þessa mál. 

Ég kasta þessu hér fram svona til fróðleiks. Tel mig vera þolandi í málinu en ekki geranda og vil að svo komnu máli ekki reyna að hafa áhrif á hvað  gert verður að undanskildu því að Stjórnlagaþing eigi að halda á þann skásta hátt sem þeir finna til þess, er um það eiga að véla. 

 

 


mbl.is Verði skipaðir í stjórnarskrárnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Sé ekki að þú hafir fengið óþarfa kynningu umfram þá sem þú hefur fengið í gegnum starf þitt sem fréttamaður og skmmtikraftur í áratugi. Niðurstaðan var að þetta var að sumu leiti VIP þing, þar sem flestir sem voru kjörnir voru þjóðþekktir einstaklingar og fáir einstaklingar voru kjörnir þarna sem hægt hefði verið að kalla bara venjulegt fólk.

Svona miðað við kostnaðinn má spyrja sig hvort ekki þyrfti einfaldlega að fjölga verulega þinmönnum og fá betri þverskurð þjóðarinnar. Í leiðinni væri jafnframt tryggt að fleiri þáttakendur kæmu af landsbyggðinni.

Til að mæta þessar aukningu er ekkert að því að lækka launin fyrir starfið, miðað við framboð af fólki sem var tilbúið í þetta verkefni má ætla að menn þurfi ekki endilega þingfararkaup til að taka það að sér.

TómasHa, 26.1.2011 kl. 23:22

2 identicon

Rétt athugað Ómar.  Eins og þú bendir á gerðu hvorki frambjóðendur né kjósendur neitt af sér, sem fór í bága við lög.  En  landskjörstjórn ber að endurtaka kosninguna sem fyrst.  Við erum því stödd á sama stað og kvöldið fyrir kjördag.  Aðeins framboðin frá í haust eru gild og bæði frambjóðendur og kjósendur eiga rétt á að fá löglega kosningu.  Því á að endurtaka atkvæðagreiðsluna en ekki kemur til greina að stofna til nýrra kosningameð nýjum framboðum.  Það verður að ljúka þeirri sem hafin var 27. nóv. á lögmætan hátt  - og það sem fyrst - fyrir 15. febrúar.

Erlingur Sigurðarson (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 00:24

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hefði átt að "sigta niður" þennan fjölda frambjóðenda. Það hefði t.d. mátt gera með meiri fjölda meðmælenda. Eða jafnvel að þeir 50-100 sem fengu flesta meðmælendur, hefðu verið kjörgengir. Þegar fólk þurfti að velja úr 25 af rúmlega 500 manns, þá féllust mörgum hendur.

Úr því sem komið er væri einfaldast (og ódýrast) að Alþingi skipaði þessa 25 í "stjórnarskrárnefnd".

Annars finnst mér gæta misskilnings hjá ansi mörgum varðandi þetta stjórnlagaþing. Þetta þing var ekki að fara að búa til nýja stjórnarskrá. Það stóð aldrei til.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.1.2011 kl. 01:54

4 identicon

Þar sem að þetta stjórnlagaþing átti aðeins að vera ráðgjafandi er þá ekki lausnin husanlega fólgin í því að þessi 25 manna hópur taki sig saman og búi til samstarfshóp með það markmið að endurskoða stjórnarskránna og sækja um fjárhagslegan styrk til ríkisins til þess. Með því er eins og ég sé þetta í huganum ekki gengið framhjá dómi hæstaréttar. Bara smá hugmynd.

Þórður (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 07:37

5 identicon

Af hverju ekki að fara lýðræðisleiðina.

Þeir sem telja sig hafa eitthvað að bjóða í þessu máli, gangi út og beiðast undirskriftar og stuðnings almennings á framboði sínu.  Fáir þú nægilega margar undirskriftir, getur hvorki Hæðstiréttur né alþingi meinað þér máls þíns ...

Notaðu lýðræðið, til þess er það ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 09:15

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessi dómur Hæstaréttar er skandall. Auðvitað voru ýmsir annmarkar á framkvæmd kosninganna sem þó fóru fram á lýðræðislegan hátt og engin svik eða misferli fóru fram.

Með því að ógilda kosnunguna er Hæstiréttur að taka fram fyrir meirihluta Alþingis sem vildi hafa þennan hátt á. Einungis 3 einstaklingar sem allir hafa lýst því yfir að þeir vildu engu breyta, voru kærendurnir.

Hæstiréttur er að blanda sér inn í deilumál þar sem stjórnarandstaðan vinnur bæði leynt og ljóst að grafa undan ríkisstjórninni með öllum tiltækum ráðum. Í stað þess að dtaga úr deilum, kyndir Hæstiréttur undir þær. Er það hlutverk Hæstaréttar að verka verkfæri í höndunum á stjórnarandstöðunni?

Ekki er ólíklegt að sú umræða fari á flot að spillingin teygi arma sína inn í Hæstarétt. Embættavertingar þ. á m. í Hæstarétt hafa verið stórpólitískar. Allir núverandi hæstaréttardómarar hafa væntanlega allir með tölu verið skipaðir af Sjálfstæðisflokknum með vitund Framsóknarflokksins.

Eitt af þeim atriðum sem væntanlegt stjórnlagaþing hefði að öllum líkindum tekið á, ar að breyta þessu fyrirkomulagi og að val ríkisstjórnar á hæstaréttardómara verði að hljóta staðfestingu þingsins. Víðast hvar hefir þetta fyrirkomulag tíðkast en hér ekki enda hafa margar veitingar embætta hæstaréttardómara verið ansi umdeildar að ekki sé dýpra tekið í árina.

Verst er, að Hæstiréttur getur ekki tekið kolranga ákvörðun til baka þó á þeim bæ átti menn sig á því að hvaða vitleysu menn hafi komist þar að niðurstöðu. Henni verður ekki skotið til enn æðri dómstóls né yfirvalds vegna ákvæða laga um Hæstarétt. Þar er greinilega um mjög einbeitta ákvörðun að ræða.

Dómur Hæstaréttar var pólitískur en ekki skynsamur.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 27.1.2011 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband