"Ekki er ég vel góður enn!"

Þegar ég var í Bandaríkjunum haustið 2008 var gaman að fylgjast með kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar.

Gamanið var þó full mikið þegar Sarah Palin átti í hlut því að varla var hægt að hugsa sér óhönduglegri kosningabaráttu en hún háði.  Hvað eftir annað kom hún upp um vanþekkingu sína og fljótfærni og þegar hafður var í huga hár aldur John Mc Caine leist mönnum ekkert á blikuna við þá tilhugsun hvað gæti gerst ef hann gæti fallið frá.

Má segja að Palin hafi, án þess að vilja það, lagt Barack Obama lið því að axarsköft hennar voru margfalt fleiri en varaforsetaefni George Bush eldri á sinni tíð, sem tókst að ná kjöri þrátt fyrir mistök varaforsetaefnis síns. 

Nú hefur Sarah Palin haft þrjú ár til að læra af óförunum 2008 en virðist lítið hafa farið fram. 

Hún minnir mig á söguna, sem faðir minn sagði mér af því þegar Jón nokkur hækill mistókst á hjólaferð sinni niður Túngötuna. 

Þá stóð húsið Uppsalir á horni Túngötu og Aðalstrætis og var veitingastaður í kjallaranum. 

Dag einn, þegar menn sátu grandalausir við borð inni í Uppsalakjallaranum kom Jón Hækill hjólandi í gegnum glugga og féll með hjólinu og glerbrotum niður á milli tveggja borða.  Brá mönnum, sem sátu við borðin mjög við þetta. 

Jón stóð upp, reisti hjólið við og sagði stundarhátt við sjálfan sig: "Ekki er ég vel góður enn." 

Leiddi hann síðan hjólið upp tröppurnar að dyrunum að kjallaranum og fór út. 

Mér sýnist Sarah Palin vera á svipuðu róli og geta sagt svipað og Jón Hækill forðum: "Ekki er ég vel góð enn." 


mbl.is Söguþekking Palin gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar, fyrst þú ert að blogga hér um sögu og söguþekkingu, þá langar mig að spyrja þig, vilt þú virkilega vera skrifaður í sögubækur sem einn af þeim sem settu ákvæði í stjórnarskrá okkar um að fullveldi Íslands sé hægt að framselja ?

Eru Íslands 1000 ár liðin?

Er stjórnlagaráð bara að vinna að því að auðvelda ríkisstjórninni að koma okkur í esb?

Og að lokum langar mig að spyrja þig, hvar höfum við þig og aðra stjórnlagaráðsmenn í esb málinu? villtu esb eða sjálfstætt Ísland?

Ef svarið er sjálfstætt Ísland, þá langar mig að spyrja þig af hverju þú telur það í lagi að koma með tillögu að fullveldisframsals ákvæði í stjórnarskrá okkar?

Af hverju er ekki einmitt barist fyrir því að það sé sett ákvæði um að fullveldið sé aldrei hægt að framselja og að ekkert þing geti breytt því?

Ég biðst afsökunar á því að hafa farið off topic hér a blogginu þínu, en eftir að hafa lesið um þessa fullveldisframsals tillögu stjórnlagaráðs þá finnst mér við eiga skilið að fá svör...

Kv. PÞ

PÞ (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 21:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem nú liggur fyrir í áfangaskjali hjá Stjórnlagaráði myndi hvorki gera Íslendingum auðveldara né erfiðara að ganga í ESB.

Um það mál verður þjóðaratkvæðagreiðsla hvort sem okkar ákvæði gilda eða ekki.

Íslendingar hafa þegar gengist undir óteljandi atriði varðandi það að ákveðin atriði heyra undir alþjóðlega samvinnu.

Ef framinn er stríðsglæpur á Íslandi, erum við væntanlega skuldbundnir til að framselja hinn ákærða til alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins.

Mannréttindabrot á Íslandi er kærð til Mannréttindadómstóls Evrópu og vegna slíkrar kæru fékkst því óréttlæti til dæms aflétt á íslandi að sami maður rannsakaði og dæmdi í málum eins og hér viðgekkst.

Vegna aðildar okkar að Sameinuðu þjóðunum hlutaðist mannréttindanefnd þeirra um kvótakerfið íslenska.

Við höfum innleitt mannréttindaákvæði í tengslum við aðild okkar að Sþ og strax við inngönguna í EFTA 1970 fór dómstóll EFTA að hafa lögsögu í ákveðnum málum.

Upptalningin á svona málum er óralöng og varðandi umtalsvert framsal á valdi verður samkvæmt áfangaskjali Stjórnlagaráðs ekkert slíkt framsal nema að um það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla.

Erlendir sérfræðingar hafa undrast orðafæð kaflans um utanríkismál og dómsmál í íslensku stjórnarskránni og af þeim sökum var til dæmis svo umdeilt og erfitt að ákveða, hvað gera skyldi þegar EES var innleitt.

Sem dæmi um það hve háð við erum öðrum þjóðum má nefna að við erum matvælaframleiðsluþjóð sem ekki getur selt afurðir sínar erlendis nema að hlíta skilyrðum kaupendanna um gæði afurðanna.

Ómar Ragnarsson, 6.6.2011 kl. 23:12

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Smá viðbót. Varla munu menn telja að Norðmenn séu ekki fullvalda þjóð. Þeir gerðu tvívegis aðildarsamning við ESB sem fór í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin kvað sjálf upp sinn dóm.

Ómar Ragnarsson, 6.6.2011 kl. 23:14

4 Smámynd: Páll Þorsteinsson

Sæll aftur Ómar, takk fyrir að svara mér.

Nú hef ég ekki kynnt mér alla utanríkismála samninga Íslands en trúi þér að listinn sé langur, en ég veit að enginn af þeim er einsog esb samningur mun vera, þar sem þarf beinlínis að framselja fullveldi Íslands. 

En þá langar mig að spyrja þig að þessu:
Ef það verður þjóðaratkvæðagreiðsla um esb hvort sem þetta ákvæði taki gildi eða ekki, er þá ekki frekar hægt að setja bara mjög skýrt ákvæði um að það megi gera samninga við önnur ríki og ríkjasambönd um ákveðin atriði, með því skilyrði að þing og þjóð samþykki í þjóðaratkvæðargreiðslum og að þjóðin geti alltaf með einhverjum hætti beðið um að fá atkvæðagreiðslu um hvort eigi að halda áfram samningi eða ekki?
Af hverju þarf að vera fullveldisframsals ákvæði í stjórnarskrá okkar? Hver bað um það? Var það búsáhaldabyltingin? ríkisstjórnin? alþingi? eða kanski einhverjir esb sinnaðir stjórnlagaráðamenn?


Að hafa sérstakt ákvæði um að það megi framselja fullveldinu í stjórnarskrá hjá sjálfstæðu landi finnst mér ekki vera rökrétt, eiginlega bara stórfurðulegt, finnst þér það ekki?

Annars virðist Lýður Árnason nefndarfélagi þinn í stjórnlagaráðinu líta allt öðrum augum á málið og segir meðal annars þetta í kommentakerfinu á blogginu sínu:
"...Óbreytt staða þýðir að Ísland geti farið inn í evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðsu og það þykir mér óásættanlegt.  Með þessu ákvæði er  þjóðaratkvæðagreiðsla tryggð og á þeim vettvangi mun ég tala mínu máli og una svo niðurstöðunni."
lydurarnason (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 14:18
Hérna er linkur á bloggið og commentin, mæli með því að þú kíkir á það ef þú hefur ekki nú þegar gert það:
http://lydurarnason.blog.is/blog/lydurarnason/entry/1171687/

Þið sitjið í sömu nefnd á stjórnlagaráði og einn segir að það muni verða þjóðaratkvæðagreiðsla um esb hvort sem þetta ákvæði ykkar muni gilda eða ekki, og annar segir að þetta ákvæði þurfi nauðsynlega til að tryggja að alþingi geti ekki eitt og sér komið okkur í esb án þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þú hlýtur að skilja að maður er orðinn svolítið ringlaður, hverjum á maður að trúa? hvað er í gangi?
Getur þú sagt mér hver átti upprunalega hugmyndina að því að fjalla um þetta?

Og ef þetta tengist esb ekkert hver er þá raunverulegur tilgangur þessarar fullveldisframsals tillögu?

Ættum við ekki frekar að gera ráð fyrir því í stjórnarskrá okkar að Við hljótum að geta verið þjóð meðal þjóða án þess að þurfa nokkurn tímann að framselja fullveldi okkar? við hljótum að geta haldið áfram að gera góða utanríkismála samninga við ríki og ríkjasambönd án þess að framselja fullveldi okkar og við hljótum að geta sagt okkur úr slæmum samningum með þjóðaratkvæðagreiðslum, þ.e. ef þið vinnið vinnuna ykkar vel í stjórnlagaráðinu.

Og í sambandi við Norðmenn þá þekki ég ekki esb sögu þeirra en tel þá vera fullvalda þjóð, en ég er með spurningu fyrir þig, settu þeir fullveldisframsals ákvæði í stjórnarskrá sína fyrir kosningar?

Páll Þorsteinsson, 7.6.2011 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband