Minnir á síðustu ár Sovétríkjanna.

Á síðustu árum Sovétríkjanna upp úr 1980 var svo komið að einungis aldraðir og heilsuveilir menn voru valdir til að veita þeim forystu.

Leoníd Breznef ríkti til dauðadags og sama gilti um Juri Andropov og Victor Chernenko, sem báðir létust eftir skamman valdatíma.

Þetta þótti mörgum sem merki um að dauðans hönd væri að leggjast yfir sovéska heimsveldið, sem stóð þá á brauðfótum, einkum vegna aðgerða Sádi-Araba sem juku olíuframleiðslu sína að beiðni Ronalds Reagans með þeim afleiðingum að heimsmarkaðsverð á olíu féll og það stórskaðaði olíuútflutningslandið Sovétríkin.

Það að auki gátu Sovétríkin, sem áður gátu státað sig af því að vera "kornforðabúr Evrópu" ekki lengu brauðfætt sig og voru, eins og Norður-Kórea er nú, háð innflutningi á korni.

Þegar Michael Gorbatsjev tók við völdum var það orðið of seint, - ekkert gat lengur bjargað Sovétríkjunum frá falli.

Sádi-Arabía er hyrningarsteinn í utanríkisstefnu Bandaríkjanna vegna hins mikla olíuauðs landsins.

Engir vita eins vel og Sádarnir hvað líður olíuforða heimsins og valdastaða þeirra er miklu sterkari en í fljótu bragði er hægt að koma auga á.

En einveldið þar ber mörg merki þess að vera komið að endalokum, þrátt fyrir gríðarlegan hernaðarlegan stuðning og aðgerðir Bandaríkjamanna til þess að fresta hinu óhjákvæmilega, að einveldi valdaættarinnar í landinu líði undir lok.

Vegna mikils hernaðarmáttar Sádi-Arabíu er þar falin púðurtunna ef upp úr sýður og allt valdajafnvægið og þar með heimsfriðurinn í hættu ef illa tekst til.

Það er að vísu úr nokkru mannvali að moða í konungsættinni þegar hinir elstu fara að tína tölunni en alls óvíst hvaða menn þeir hafa að geyma sem gætu komist þar til valda.

Eitt eiga þeir þó allir sameiginlegt, að þekkja ekkert annað en það bílífi og firringu sem ótakmörkuð völd gefa.  Vald spillir og mikið vald gerspillir.  Dæmi um það blasti við á ferð minni um Klettafjöllin fyrir nokkrum árum þar sem krónprins Sádi-Arabíu hafði í fyrsta sinn verið í skíðaferðalagi þar í stað þess að fara til Alpafjalla.

Hann fékk hundrað herbergi á aðal hótelinu og var með þyrlur og limmúsínur í röðum.

Um dómskerfið og margt annað í þjóðskipulagi Sádi-Arabíu þarf ekki að fjölyrða, - þar ríkir einræðisleg forneskja sem ekkert virðist geta haggað.

Valdhafarnir nota hluta olíuauðsins til þess að standa fyrir framkvæmdum og þjónustu sem sefar lýðinn, en það gerðu þeir Gaddafi og Saddam Hussein líka þótt í minna mæli væri, enda olíuauðurinn margfalt minni en í Sádi-Arabíu.

Líkast til mun saga Sádi-Arabíu á næstu árum og áratugum verða samofnari sögu mannkynsins en flestra annarra landa, - slíkt lykilhlutverk í orkubúskap heimsins leikur landið.

Þess vegna er það svo athyglisvert að reyna að rýna í það sem er að gerast þar.

Sovétríkin hrundu með þverrandi olíutekjum og það mun einveldið í Sádi-Arabíu líka gera þegar þar að kemur.  

 


mbl.is Krónprins Sádi-Arabíu látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hugsa samt að það sé styttra í að ólýðræðislegt og handónýtt stjórnsýsluapparat ESB- kerfisins hrynji heldur en steinrunnið einræðið í Saudi Arabíu.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 09:58

2 identicon

Mér finnst þetta nú bera keim af frétt sem birtist öðru hvoru í fjölmiðlum-Elsti maður á íslandi látinn.hvað er hann eiginlega búinn að deyja oft þessi maður?

josef asmundsson (IP-tala skráð) 22.10.2011 kl. 14:14

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þetta minnir mig nú mest á Jóhönnu Sigurðardóttur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 22.10.2011 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband