Klakinn þráast við.

Í venjulegum ís eða klaka er bundin alveg ótrúleg tregða. Þetta sést iðulega á vorin á hálendi Íslands þar sem land er oft orðið að mestu autt á sama tíma sem öll vötn eru enn í klakaböndum.

Sem dæmi má nefna Þórisvatn og Hálslón, en oft hefur svæðið norður af Vatnajökli norður um Herðubreiðarlindir verið autt í margar vikur áður en ís leysir á Hálslóni.

Eftir marga hlákudaga með allt að 7 stiga hita sýnist mér að klakinn, sem verið hefur á bílastæðinu fyrir utan blokkina síðan í nóvember, sé loks að fara.

Óvíst er þó hvort hann fer allur af götunni, sem liggur hingað, húsagata til á þriðja hundrað manna byggðar, sem aldrei hefur verið mokuð undanfarin ár, heldur hefur henni verið leyft að verða ófær og síðar, þegar íbúarnir hafa brotist um hana og komist leiðar sinnar, hún snjórinn verið orðin svo þjappaður, að myndast hefur þykkur klaki sem ekkert fær unnið á nema langvarandi hláka.

Gatan liggur þvert á aðal skafrenningsáttina og fyllist því yfirleitt af snjó í hríðarveðrum.

Það var ekki fyrr en eftir mánaðarlanga ófærð og snjóa sem þessi gata var mokuð í vetur og þá var það fyrir löngu orðið of seint vegna þess hve þykkur og fastur klakinn var orðinn.

Tveggja mánaða kulda- og ófærðarkaflinn, sem ríkti hér frá lokum nóvember til loka janúar var að vísu sjaldgæflega langur en slíkir kaflar geta engu að síður alltaf komið.

Venjan hefur verið sú að moka ekki umrædda götu og margar svipaðar í borginni vegna þess að oftast komi nógu langur hlákukafli til að sjá um verkið.

Ef hins vegar hefði verið sest niður og lagðir saman þeir dagar sem þessar hliðargötur hafa verið ófærar eða illfærar á hverjum vetri hefði komið út furðu há tala, þótt dagarnir hafi verið fáir í hvert sinn.

Síðari hluta snjóakaflans í janúar var loksins farið að moka þessa hliðargötu af og til, en vegna þess hve klakinn var þykkur og ruðningarnir orðnir miklir, hefur hún verið illfær mestan þennan tíma.

Ég skrifa þennan pistil ekki af því að þetta snerti mig persónulega, því að ég á gamlan lítinn Suzuki jeppa árgerð 1986, fornbíl, sem er minnsti jöklajeppi landsins og eftir þá reynslu að hafa dögum saman ekið honum um þveran og endilangan Vatnajökul kvíði ég ekki snjóalögum í Reykjavík.

Og ég hafði meira heilsubót og ánægju en ónæði af því að draga bíla verstu dagana,

Á hinn bóginn hefði ég ekki p1013580_1072869viljað vera í sporum hinna fjölmörgu, sem þetta ástand bitnaði á.    


mbl.is Afbrigðilega hlýtt veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ein mjög góð en nokkuð seinvirk aðferð að losna við skafrenning er að planta trjágróðri, gjarnan sem tekur vel á sig vind og nóg af trjám! Sitkagrenið er mjög gott, vex að vísu nokkuð hægt til að byrja með en brátt tekur að togna vel úr því. Vöxturinn getur orðið allt að metri á ári, jafnvel meira enda verður sitkagrenið um 100 metrar í heimkynnum sínum. Þetta er pottþétt aðferð til að losna við skafrenninginn og það er draumur minn að öflug skjólbelti verði ræktuð á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, Eyjafjöllum, Öræfum og þar sem sterkur vindstrengur hefur áhrif á umferð.

En ekki veit eg hvað þið segið þarna á Háaleitisbrautinni þegar ekki sést lengur til Esjunnar og „vítt og breytt um veröld alla“ og trén byrgja ykkur sýn. En það tekur hálfan mannsaldur!

Góðar stundir! 

Guðjón Sigþór Jensson, 7.2.2012 kl. 13:54

2 identicon

Það er stórkostleg vöntun á samgöngu-skógrækt á Íslandi!

Hér þumbast heilt samfélag í óþörfum skafrenningi. Skipulag þéttbýlis tekur lítið tillit til skafrenningsins og sáralítið er um markvissa skjólskógrækt til að stýra hvar snjósöfnunin á sér stað.

Og það er heldur ekkert náttúrulögmál að þjóðvegir neðan skógarmarka (þmt. Víkurskarð) skuli vera lokaðir og/eða þarfnast umfangsmikils snjómoksturs vegna skafrennings. Þetta samfélag býr yfir þekkingu og fjármunum til að planta snjógildrum sem minnka skafrenning um 90% og gera samgöngur greiðari ódýrari og öruggari. Samgönguskógrækt ætti að hafa forgang yfir viðarframleiðsluna.

Þetta er einfaldlega spurning um að kunna að búa í landinu.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.2.2012 kl. 14:15

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eigi hefi eg heyrt minnst á samgönguskógrækt.  Þetta nýyrði segir allt. Við skulum leggja aukna áherslu á samgönguskógrækt um nánustu framtíð en í guðanna bænum „gerum engin átök“, þetta lákúrulegsa orðatiltæki merkir nefnilega að í raun verði ekki ekkert aðhafst.

Samgönguskógrækt: bestu þakkir Sigurður fyrir þetta góða nýyrði.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 7.2.2012 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband