Vatnajökull = "Skaflinn"

Vatnajökull á enga hliðstæðu í heiminum vegna langstærsta samspil elds og íss á jörðinni. Hann er 20 sinnum stærri en Jóstadalsjökull í Noregi, sem er stærsti jökull á meginlandi Evrópu.

Vatnajökull býr oft til sitt eigið veðurkerfi. í 2000 metra hæð yfir sjó er á öllu von. Ferðir um hann eru engu líkar.

Það er að segja þangað til farið er yfir Grænlandsjökul. Grænlandsjökull er nefnilega um 200 sinnum stærri en Vatnajökull. Leiðin yfir hann liggur upp í 3000 metra hæð.

Þegar komið er upp á jökulinn er tilfinningin sú þegar skyggnið er gott í heiðskíru veðri að leiðin liggi alltaf upp á við þótt hæðarmælirinn sýni að halli undan fæti.

Ég sagði stuttlega frá þessu á sínum tíma í bókinni "Ljósið yfir landinu" þar sem ljósbrot og ljósbjögun Grænlandsjökuls er lýst.

Hin hvíta birta jökuhvelsins mikla er svo skær að himinninn er ekki heiðblár eins og á Vatnajökli heldur ljósblár.

Manni finnst maður alltaf vera í risastórri lægð og allar leiðir liggja upp á við jafnvel þótt maður sé staddur á hæsta staðnum.

Á leiðinni niður í Syðri-Straumfjörð er farið yfir svo stóran og úfinn skriðjökul að þeir íslensku blikna.

Þegar síðan er komið niður af jöklinum tekur við fágætlega flott landslag með íshömrum, flúðum, fossum, fjöllum, dölum, hálsum og sléttum.

Yst í löngum dal á leiðinni til botns Kangerlussuak (Syðri-Straumfjarðar) er allt í einu komið í eyðimörk með sandöldum eins og í Afríku.

Og viti menn: Þegar komið er yfir hæð eina blasir við alþjóðaflugvöllur með flugvélum allt frá tveggja manna vélum, sem verið er að ferja yfir hafið upp í stærstu Boeing 747 "Bumbur" (Jumbó).

Meðalhitinn í febrúar er meira en 20 stiga frost en í júlí 16 stig að degi til, alger andstæða við Tingmiarmiut á sömu breiddargráðu á austurströndinni, þar sem meðalhitinn í júlí er 3,5 stig!

Eftir þrjár ferðir til Grænlands þar sem ein var þvert yfir jökulinn, önnur með flugvél upp á hann við Gunnbjörnsfjell sem er 3700 metra hátt og hin þriðja í einn af fjörðunum á Blossvervilleströndinni, hef  ég sagt í hálfkæringi: "Hornbjarg úr djúpinu rís" hvað? og kallað Vatnajökul "Skaflinn".

Það eru þessar yfirgengilegu stærðir og stærðahlutföll sem eru stór hluti af töfrum Grænlands.

Eftir sem áður kemst landið ekki á blað sem eitt af 40 helstu náttúruundrum veraldar. En hinn eldvirki hluti Íslands er á þeim lista.


mbl.is Ævintýraleg ferð yfir Grænland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ekkert yfirnáttúrlegt við að finna sandöldur á Grænlandi álíkar þeim sem getur að líta í Norður Afríku nú á dögum: fyrir um 350 milljón árum, þá var Grænland staðsett við miðbaug, sólbrennt hrjóstugt eyðimerkuland, en síðan tók það að reka í norðurátt og er enn á þeirri leið, eftir um 100 milljónir ára í viðbót verður það á norðurpólnum.

Bjorn Jónsson (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 15:10

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sandöldur á Skeiðarársandi eru áhugaverðar og þar er kominn birkiskógur sem segir sína sögu um svæði sem ekki eru beitt. Moskunaut virðast einnig þrífast vel við Syðri-Straumfjörð. Áhugavert er að göngumenn fara sömu leið og margæsin yfir jökullinn. Fuglinn flýgur sömu vegalengd á sjö stundum og heldur svo eftir skamma dvöl við vesturströnmdina í norður til Devoneyja. Meir en 1600 km. á nokkrum klukkustundum.

Flugið tekur ekki nema 7 - 8 stundir yfir jökullinn sem er mun skemmri tími en yfir hafið frá Íslandi til Grænlands sem er lítið lengri fjarlægð. Flughraði fuglsins er ótrúlegur, hátt í 100 km á einni klukkustund . Ekki slær hann af þegar farið er yfir til Hellulands og þaðan til varpstöðvanna í eyjaklasanum sem kenndur er við Elísabetu drottningu. Oddaflug margæsa er tignarlegt og nýtist fuglinum vel. Vindar, niðurstreymi af jökli og sólfar eru þættir sem án vafa eru hjálplegir fuglinum og innbyggt í hans leiðsögunet. Forvitnilegt væri fyrir flugmenn og fuglaáhugamenn að rannsaka nákvæmlega hvað gerir margæsinni kleift að fara svo langa leið á skömmum tíma.

Nú hafa margæsir verið merktar á Álftanesi og á þá sett senditæki sem segir sína sögu um hið norræna flug. Skíðagöngumenn sem fara yfir Grænlandsjökull eru einnig að afla þekkingar og frásögn þeirra af þeirri göngu á netinu er nákvæm og áhugaverð. Þeir fara hæst í um 2500 m. hæð og frostið er stundum yfir 20°C. Fuglinn er sagður fara yfir jökullinn þar sem hann er um 2400 metra og eflaust í snjókomu og miklu frosti eins og göngumenn hafa upplifað. Gaman væri hinsvegar að vita hvort gæsin velji hagstæðari vindáttir og hafi kannski sjónflug yfir jökullinn?

Sigurður Antonsson, 20.5.2012 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband