11.6.2012 | 01:44
Set spurningarmerki við "busun" í formi pyntinga.
Busunin svonefnda, sem Bjarki Már Elísson talar um í tengdri frétt á mbl.is, er víst fólgin í rækilegri kaghýðingu. Það var gert uppskátt á sínum tíma, að þetta væri gert við landsliðsnýliða, og hefur nú breiðst út eins og faraldur sem eitthvað voðalega fínt til yngri flokkanna í boltaíþróttunum.
Ég hef heyrt dæmi um að unglingar hafi verið svo illa farnir eftir þessa meðferð, sem fyrr á öldum var talin til ómannúðlegra refsinga, að þeir hafi hvorki getað setið né legið í marga daga á eftir.
Eins og flest af þessu tagi, getur þetta farið út í öfgar, og mig grunar að svo sé í mörgum tilfellum. Tilfellin, sem ég hef heyrt af, hafa smám saman einfaldlega orðið of mörg.
Mér finnst kominn tími til að íþróttahreyfingin láti rannsaka, hversu langt sé gengið í þessu og taki í taumana. Ég sé ekkert frumlegt eða sniðugt við þessar pyntingar.
Mér finnst að minnsta kosti vera takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í því að pynta börn undir lögaldri, en verstu dæmin um þessa kaghýðingarbusun eru ekkert annað en pyntingar og ofbeldi, - og það sem verst er, - um þetta ríkir ákveðin þöggun, því enginn þorir að segja neitt af ótta við að vera settur utan garðs og lagður í einelti fyrir að kjafta frá ef barsmíðarnar fara úr böndunum.
Undanfarin ár hefur verið reynt að sporna við einelti en hýðingarnar hafa á sér yfirbragð eineltis, - hópurinn fær útrás við að niðurlægja og ganga í skrokk á einum einstaklingi.
Á hinum viðkvæmu unglingsárum ríkir oft á tíðum grimm hjarðhegðun þar sem hinum óhörðnuðu unglingum finnst þeir verða að lúta vilja hjarðarinnar.
Og tryggðin við íþróttafélagið er ofar öllu öðru.
Bjarki: Þakka Guði fyrir að Sigfús skuli vera hættur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þarna hittir þú naglann á höfuðið Ómar, varðandi þessa dellu. Miðlungs og minna megandi íþróttafólk, sem þó gæti orðið afreksfólk með tíð og tíma, einfaldlega hrekst út íþróttum, sökum grimmilegrar meðferðar, fíflagangs og einhverrar aulafyndni þeirra sem lítið eða svipað geta, en tekst að brúka kjaft og hylma þannig yfir eigin linkind. Það hefur margur snillingurinn horfið af sjónarsviðinu sökum þessa.
Halldór Egill Guðnason, 11.6.2012 kl. 02:54
Þetta þykir mér skrítið hjá þér Ómar. Þér finnst þetta ekki í lagi, en á sama tíma þá má lemja einstaklinga meðvitundarlausa með boxhönskum. Þú meira að segja kallar það íþrótt
Jón Páll Haraldsson, 11.6.2012 kl. 10:33
Ég veit ekki til þess að hér á landi "megi lemja einstaklinga meðvitundarlausa með boxhönskum". Það er leyft í atvinnumannahnefaleikum erlendis en bannað hér.
Hér eru leyfðir áhugamannahnefaleikar þar sem menn eru með hlífðarhjálma og fá stig við snertingu, loturnar eru stuttar og fáar.
Þessir hnefaleikar eru mjög svipaðs eðlis og júdó, karate, tækvandó, skylmingar og aðrar bardagaíþróttir, þ. e. að gengi manna í íþróttinni felst í því að færa sönnur á að þeir hafi yfirhöndina án þess að reka menn á hol, "hengja" þá o. s. frv.
Tveir einstaklingar ákveða fyrirfram af fúsum og frjálsum vilja hvort þeir hafi áhuga á því að fást við viðkomandi íþrótt á jafnréttisgrundvelli.
Enginn er neyddur til að stunda þessar íþróttir.
Á hinn bóginn felst andlegt og líkamlegt ofbeldi í því að verða að gangast undir þá kvöl og niðurlægingu sem kaghýðing getur verið til þess að fá inngöngu í íþrótt, þar felur alls ekki í sér atferli af þessu tagi.
Ég fæ bara alls ekki séð að hýðingar eigi að koma boltaíþróttum neitt við eða eigi erindi við drengi innan lögaldurs.
Ómar Ragnarsson, 11.6.2012 kl. 10:56
Gefur ekki leið auga hvers konar hneigðir blunda innra með þeim sem taka þátt í þvílíku athæfi?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.6.2012 kl. 11:52
Mjög gott hjá þér Ómar að taka þetta upp. Fólk hlær að þessu og finnst þetta bara skondið. Þykir jafnvel svo eðlilegt að nýjir landsliðsmenn gera ráð fyrir því að vera flengdir af nautsterkum landsliðsmönnum. Ég varð sjálfur vitni að sambærilegum aðförum hjá mun yngri iðkendum eða 3. flokki í knattspyrnu. Nokkrir iðkendur röðuðu sér upp og beygðu sig fram. Aðrir röðuðu sér ca 4 metrum frá og tóku svo einn og einn að sparka knetti með öllum kröftum í rassin á þeim. Greinilegt var að þeir sem fengu boltann í sig engdust. Þjálfari kaus að líta undan þegar þetta var.
Ég tilkynnti þetta reyndar nokkuð harkalega þá til stjórnar þess félags sem brást nokkuð vel við. Veit ekki hvort þetta viðengst ennþá. eflaust samt.
Hans Rúnar Snorrason (IP-tala skráð) 11.6.2012 kl. 14:44
Þetta kann að vera eitt af þeim fyrirbrigðum, þar sem smám saman færist meiri harka í leikinn. Ég á fimm afastráka yngri en tólf ára sem eiga kannski eftir að stunda boltaíþróttir og eiga á hættu að lenda í þessu. Mér rennur því blóðið til skyldunnar og vil ekki að þeir þurfi að búast við svona löguðu.
Ómar Ragnarsson, 11.6.2012 kl. 16:17
Það á að hætta alveg með þetta busunar(Níð) rugl... það er skömm að þessu fyrir alla viðkomandi... nema náttlega þann sem er busaður(níðst er á)
DoctorE (IP-tala skráð) 11.6.2012 kl. 16:23
Þetta er góð og þörf umræða.
Jens Guð, 12.6.2012 kl. 00:38
Eftirfarandi birtist á ekstrabladet.dk í dag. Ekki bara á Íslandi sem þetta tíðkast: http://ekstrabladet.dk/sport/fodbold/landsholdsfodbold/em2012/article1775373.ece
Tómas Örn (IP-tala skráð) 13.6.2012 kl. 13:58
Athæfið er ekki hóti betra þótt það þrífist annars staðar.
Ómar Ragnarsson, 13.6.2012 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.