Mótsagnir krónunar og þjóðarsáttin fræga.

Tilvera krónunnar felur í sér margar mótsagnir.

Þekktir erlendir fræðimenn telja að hún hafi hjálpað til við að við komumst út úr Hruninu, en aðal ástæða þess bjargræðis fólst reyndar í því að gengisfelling hennar gerði kleift að rýra kaupmátt almennings og auka skuldir hans í einu stóru stökki og hefur slíkt ekki fyrr verið talið til fyrirmyndar af mörgum þeirra sem mæra krónuna nú.

Íslenskir stjórnmálamenn voru ekki fyrr búnir að taka upp íslenska krónu en þeir fóru að hrekjast undan viðfangsefnum sínum með gengisskráningu hennar.

Hægri stjórnin, sem sat til 1927 hækkaði gengi hennar með svipuðum afleiðingum og enn hærri gengishækkun hægri stjórnarinnar gerði í aðdraganda Hrunsins 80 árum síðar.

Í kreppunni á fjórða áratugnum var tekin upp þvinguð gengisskráning með gjaldeyrishöftum og haftabúskap. Hljómar kunnuglega núna?

1939 varð ekki hjá því komist að fella krónuna og síðan aftur áratug síðar.

Kaupmáttur launa 1945 er óraunhæfur viðmiðunarpunktur, rétt eins og kaupmátturinn 2007, því að í bæði skipti byggðist kaupmátturinn á of hátt skráðri krónu og innspýting fjármagns um stundarsakir.

1945 var það stríðsgróðinn, sem var kláraður á aðeins tveimur árum, og 2007 lána-, banka- og gengisbólan, þannig að bæði 1945 og 2007 var í gangi algerlega ósjálfbært góðæri og neyslu- og eyðslufyllerí, sem hlaut að enda með ósköpum, haftabúskap og óhjákvæmilegri kjaraskerðingu.

Ónýtir íslenskir ráðamenn stunduðu það síðan í áratugi með vaxandi hraða að ástunda svonefnda "víxlverkun kaupgjalds og verðlags" með tilheyrandi spillingu haftabúskapar og sjálftöku valdamanna.

Þegar litið er yfir þessa 80 ára sögu stendur einn atburður upp úr: Þjóðarsáttarsamningarnir 1990, - sem ekki er fráleitt að nefna sem mesta stjórnmálaafrek síðustu aldar.


mbl.is Krónan mesti óvinur launamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég hef alltaf haldið að þú værir vel greindur og vel að þér í flestum málum.  En það er nokkuð ljóst að í efnahagsmálum ert þú alveg út á þekju og alls ekki fær um að tjá þig um þessi mál.  Það er ósköp einfalt að staða krónunnar er tilkomin vegna ráðstafana misvitra stjórnmálamanna og helsta orsökin er sú að landsmann AFLA minna en þeir EIÐA.

Jóhann Elíasson, 9.10.2012 kl. 14:34

2 identicon

@1   Ég held að þetta komi nú alveg fram hjá Ómari (þ.e að misvitrir stjórnmálamenn hafi um vélað) sem vel að merkja hefur fylgst með þessu ferli góðan hluta þess tíma sem um ræðir.   Ég fæ samt ekki séð að tilvera krónunnar ÞURFI að fela í sér mótsagnir, við þurfum aðeins að lagfæra kerfið. Hugmyndir þær sem Frosti Sigurjónsson talar fyrir eru t.d. mjög athygliverðar.

Á hitt er að líta Ómar, að þrátt fyrir allan þennan darraðardans með krónuna síðustu áratugi þá var byggt hér upp frábært samfélag!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.10.2012 kl. 15:53

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verð á íslenskum sjávarafurðum hefur verið hátt erlendis undanfarin ár og verður það áfram vegna mikillar eftirspurnar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur því enga þörf fyrir gengisfellingu íslensku krónunnar, sem hækkar hér verð á aðföngum, til að mynda skipum, varahlutum, olíu, veiðarfærum og kosti.

Og sömu sögu er að segja af öðrum útflutningsgreinum hér, til að mynda iðnaði og ferðaþjónustu, þar sem lækkun á gengi íslensku krónunnar þýðir til dæmis verðhækkun á bifreiðum, tækjum, varahlutum, olíu og bensíni.

Og í landbúnaði hækkar gengisfelling íslensku krónunnar verð á til að mynda dráttarvélum, olíu, varahlutum, tilbúnum áburði og kjarnfóðri.

Þar af leiðandi hækkar hér verð á sjávarafurðum, iðnaðar- og landbúnaðarvörum, svo og innfluttum byggingavörum, verðbólgan eykst því og öll verðtryggð lán hækka.

Sjómenn jafnt sem forstjórar þurfa þar af leiðandi að greiða hér hærra verð en áður fyrir til dæmis matvörur, bifreiðar, bensín, varahluti og íbúðarhúsnæði.

Allir launamenn krefjast því launahækkunar til að vega upp á móti gengisfellingunni.

Og að sjálfsögðu eru Hádegismórarnir og aðrir "Sannir Íslendingar" hrifnir af því.

Þeim finnst gott að pissa í skóinn sinn.

Það er hlýtt og notalegt.

Þorsteinn Briem, 9.10.2012 kl. 15:59

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa verið miklu hærri en á evrusvæðinu og voru komnir í 13,3% í júní 2007, 15,5% í maí 2008 og 18% í október 2008.

Og verðbólgan var 18,6% í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá bankastjóri Seðlabankans.

Stýrivextir hérlendis og á evrusvæðinu 2002-2007


Seðlabanki Evrópu ákveður stýrivexti á öllu evrusvæðinu
og þeir eru nú 0,75% en stýrivextir Seðlabanka Íslands 5,75%.

Og hér á Íslandi hafa verið gjaldeyrishöft síðastliðin fjögur ár.

Á Írlandi eru hins vegar engin gjaldeyrishöft.

Áttatíu prósent Íra ánægð með evruna

Þorsteinn Briem, 9.10.2012 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband