"Eitthvað annað" gildir líka í ferðamennsku.

"Eitthvað annað" hefur verið notað sem skammaryrði um hugmyndir sem snúa að "einhverri annarri" atvinnusköpun en stóriðju.

Gaman væri að vita hve miklu við Íslendingar töpuðum í ferðaþjónustunni vegna þess að við héldum að það gæti ekki verið að erlendir ferðamenn vildu sjá "eitthvað annað" en við sjálf.

Við héldum að útlendingarnir vildu helst sjá skóga, og gættum þess að myndirnar af landinu bentu til þess að hér væri heiðskírt og heitt.

Það að Einar Ben reyndi að selja norðurljósin var aðhlátursefni okkar í heila öld og hugmynd Jóhannesar Kjarvals árið 1948 um það að hægt væri að selja hvalaskoðunarferðir voru taldar dæmi um það hvað karlinn hefði verið klikkaður.

Við ályktuðum sem svo að af því að okkur fannst hraun, sandar, urðir og öræfi ljót þá væru útlendingar sama sinnis. Sömuleiðis hlaut það að vera afleitt hvað hér gat verið mikill vindur og slagviðri á sumrin hgo hvað það væri kalt og dimmt á veturna og því vonlaust að reyna að fá hingað erlenda ferðamenn nema um hásumarið.

Ég hef áður sagt frá því hve mjög ferð mín til suðvesturstrandar Írlands 1993 breytti viðhorfum mínum til lögmála ferðamannaþjónustunnar, þegar ég sá að markhópar Íra voru Suðurlandabúar sem vildu upplifa það að standa í grenjandi saltstorkinni og kaldri rigningunni á ströndinni af því að það var "eitthvað allt annað" en þeir þekktu heima hjá sér og voru löngu orðnir hundleiðir á, steikjandi hitamolla og logn.

Loksins er komin einhver hreyfing á það að hlíta hinu sígilda lögmáli sölumennsku, að þegar selja þarf hluti, hefur kaupadinn alltaf rétt fyrir sér.


mbl.is Hundruð vilja sjá norðurljósin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Frú Valgerður Benediktsson [eiginkona Einars Benediktssonar] segir:

"Margar fáránlegar sögur gengu um Einar [Benediktsson] á þessum árum. Gengu þær flestar í þá átt að sýna, hve slyngur kaupsýslumaður hann væri og laginn að vefja útlendingum um fingur sér í fjármálum.

Sú saga var mjög útbreidd meðal almennings að hann hefði selt útlendum auðmönnum bæði norðurljósin og jarðskjálftana á Íslandi og fengið stórfé fyrir.
""

Væringinn mikli - Ævi og örlög Einars Benediktssonar, útg. 1990, bls. 319.

Þorsteinn Briem, 17.12.2012 kl. 08:54

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Engin hefur notað "eitthvað annað" sem skammaryrði, Ómar. Þetta er tilbúningur í þér. Allt hugsandi fólk fagnar nýjum atvinnuskapandi hugmyndum sem verða að veruleika.

Hins vegar hafa náttúruverndarsinnar komið ákveðnu óorði á þennan frasa vegna þess að þeir nota hann ótt og títt af ábyrgðarleysi. T.d. eru Vestfirðingar enn að bíða eftir þessu "einhverju öðru" sem náttúruverndarsinnar sögðust geta skapað ef hætt yrði við Kárahnjúkavirkjun. Þeir buðu nefnilega þeim sem héldu þessu fram að koma vestur með hugmyndir sínar. Ekkert bólar á þeim.

"Við héldum að útlendingarnir vildu helst sjá skóga,..." segir þú. Ég hef engan heyrt tala um þetta, enda er það alveg út í hött. Skógrækt á Íslandi hefur aldrei verið hugsuð sem "tourist attraction". Þig hlýtur að hafa dreymt þetta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2012 kl. 13:27

3 identicon

Ekki aðeins Suðurlandabúar, ég fór túr á Dingle skaga um miðjan júní í sumar í grenjandi rigningu og roki og um 12 stiga hita (eftir að hafa verið á Suðvesturhorninu á Íslandi í byrjun júní í sól og 15-20 stiga hita). Ég fílaði þetta í botn. :)

Ari Egilsson (IP-tala skráð) 17.12.2012 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband