Frankie Laine átti 3 sent og svaf úti á bekk 1949.

Dale Vince er dæmi um það hvernig hægt er að rísa úr öskustó til velgengni fyrir sakir hæfileika og þrautseigju.

Frankie Laine var næsta óþekktur jazz- og sveitassöngvari 1949 og hafði verið að basla í 17 ár við að syngja, en árangurinn var ekki meiri en svo, að 1949 svaf hann úti á bekk í Central Park í New York og var svo blankur, að einn daginn átti hann aðeins 3 sent. 

Hann þekkti flesta frægu söngvarana, sem þá voru hvað vinsælastir, en féll ekki inn í stílinn sem var allsráðandi. 

En skyndilega fór hann að vekja athygli fyrir öðruvísi söngstíl og lagaval en fólk var vant. 

Þetta var eitt af mörgum dæmum þess að þegar ákveðin tónlist sé búin að vera svo lengi næsta óbreytt, er kominn tími á eitthvað nýtt. 

Þegar Laine datt niður á lagið "Jezebel" og söng það með griðarlegum tilþrifum og tilfinningahita, sló hann hressilega í gegn. Textinn fjallaði um kvendjöful sem eyðilagt hafði líf þess, sem söngurinn var lagður í munn, og Laine, sem var svo raddsterkur, að hann var kallaður "maðurinn með stálraddböndin" dró hann ekki af sér.beinlínis titraði af geðshræringu sem skín í gegn í söng hans.

Sárindin og reðin skinu út úr hverjum tóni og túlkunin var blanda af dramatískum óperustíl og "soul"tónlist.

Ef þið farið inn á YouTube og spilið lagið þar, þá útgáfu sem er undir svart-hvítri mynd af Laine á upprunalegu plötuumslaginu, heyrið þið hvað ég á við.

Athyglisvert er að á þessum árum, þegar allir stórsöngvararnir sungu lög allra í kross, lagði enginn þeirra í að syngja lögin Jezebel eða Moonlight gambler heldur létu Frankie Laine um það einan. 

Í næstu tíu ár var Laine hvað eftir annað með lög við toppinn, lék í kvikmyndum og söng einkennilslög frægustu kvikmyndanna, svo sem "Rawhide" og "High Noon" og var svo vinsæll í Bretlandi, að honum var boðið að koma til fundar við Bretadrottningu.

Hann seldi yfir 100 milljón plötur á þessum árum og var einn þeirra allra vinsælustu, enda gat hann sungið allar tegundir tónlistar og gerði það svo sannarlega. 

En um 1960 var sótt að honum úr tveimur áttum, annars vegar voru það soulsöngvarar á borð við Ray Charles og hins vegar hressileg lög Presleys og rokksöngvaranna. 

Annar Bandaríkjamaður, James J. Braddock, lapti dauðann úr skel 1935, var marg handarbrotinn hnefaleikari sem hafði tapað 24 bardogum og orðinn svo fátækur, að hann varð að leita á náðir fátækrahjálparinnar til þess að bjarga fjölskyldunni um mat og húsaskjól. 

En hann gafst ekki upp, og bardagahlé gaf honum færi á að láta höndina jafna sig og vegna þess hve mikið hann varð að nota hina hendina í uppskipunarvinnunni, styrktist sá handleggur mjög.

Hann datt óvænt inn í þýðingarmikinn bardaga og með góðum umboðsmanni tókst honum að fylgja óvændum sigri eftir með því heppni, sem fólst í hentugum keppinautum sem skilaði honum á óvenju skömmum tíma rétti til að berjast við heimsmeistarann, Max Bear.

Bear tók bardagann létt og hélt að Braddock yrði jafn auðveld bráð hinn risavaxni fyrrverandi heimsmeistari, Primo Carnera, hafði verið, en Bear hafði gjörsigrað hann og niðurlægt.

En með bardagavilja, útsjónarsemi og úthaldi tókst Braddock að sigra og verða heimsmeistari, aðeins ári eftir að hann byjaði að keppa á ný eftir handarbrot. 

Fyrir bragði fékk hann heitið "Öskubuskumaðurinn" (Cinderella Man) og gerð var samnend kvikmynd um hann fyrir nokkrum árum.  


mbl.is Var húsnæðislaus en á núna 20 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er nú ekkert!

Frankie Laine átti þrjú sent en tugþúsundir Íslendinga eiga miklu minna en ekki neitt og Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa þá áfram í þeirri öskustó með því að halda dauðahaldi í íslensku krónuna.

Þorsteinn Briem, 5.1.2013 kl. 16:50

2 Smámynd: Már Elíson

Jæja, Steini Briem er ennþá að hugsa um hamfarir mörlandans á meðan við hinir tökum feginshendi svona upplýsingum frá þér, Ómar. - Lá aðeins yfir Youtube og Frankie Laine, hörkusöngvari, mikil útgeislun og ég minnist núna raddarinnar. - Maður hlustaði á þetta ungur maður en var þá eðlilega ekkert að spá hver syngi. - Magnað síðan hvað hann var snöggur upp á toppinnhvað hann var þar lengi og hvað hann var eftirsóttur sem rödd "Country and western". Síðan skoðaði ég og hlustaði á eitt videóið þar sem hann kom fram 92ja ára með röddina í toppstandi en dó árið eftir. Frábær náungi og eldklár söngvari. - Meira af þessum fróðleik, Ómar, það lyftir upp andanum. - Hvað segirðu, Steini Briem, hvernig fannst þér ?

Már Elíson, 5.1.2013 kl. 19:57

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Már Elíson,

Öllum sem lesa athugasemdir við þetta blogg er nákvæmlega sama hvað mér finnst um hitt og þetta.

Hér birti ég fyrst og fremst staðreyndir og það skiptir mig engu máli hvað öðrum finnst um þær.

Þorsteinn Briem, 5.1.2013 kl. 20:38

4 Smámynd: Már Elíson

Sæll Steini, - Öllum sama um þig, segirðu - Það er ekki víst. Ég spurði bara hvað þér fyndist um Frankie Laine, annað var það nú ekki. Þú virðist (að mér finnst) alltaf skauta yfir menningarlega hluti en þér hugnast betur að liggja með hroka oft á tíðum, í öllu sem tilheyrir myrkum málum og átt erfitt með að komast út úr því. - Þú ert samt duglegur að copy / paste og gerir það vel (oft einum of vel) og mér finnst það í lagi. Sleppi bara að skoða það. - Gangi þér vel í lífinu, Steini, og mundu að það er líka ljós í lífinu.

Már Elíson, 6.1.2013 kl. 11:09

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Már Elíson,

Ég veit ekki betur en ég hafi birt hér fjöldann allan af gamanvísum sem ég hef sjálfur samið.

Og ég mun halda áfram að birta hér alls kyns staðreyndir en ekki hvað mér finnst um þær og er vanur slíku úr margra ára blaðamennsku á Morgunblaðinu áður en Netið kom til sögunnar.

Á Facebook er ég með síðu, þar sem ég á fimm þúsund vini, og birti þar alls kyns fréttir, til dæmis um menningu, enda væri nú harla einkennilegt ef ég hefði engan áhuga á þeim málum.

Sonur minn er við nám í London í einum virtasta leiklistarskóla heims og ég styrki hann þar til náms. Hann hefur leikið í Þjóðleikhúsinu og íslenskum kvikmyndum.

Og móðir hans hefur í mörg ár séð til dæmis um kvikmyndaþætti í útvarpi og sjónvarpi.

Hér heima á ég mörg þúsund bækur um alls kyns málefni og hef lesið þær allar.

En allt er þetta mjög myrkt og ég hef engan áhuga á menningu, að þínu mati.

Þorsteinn Briem, 6.1.2013 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband