Flóttamannaleiðin, Hallærisplanið, Rúnturinn og Klambratún aftur !

Örnefni öðlast að mínum dómi ekki aðeins aukinn verndarrétt með tímanum heldur einnig með því hvað þau eru í munni margra. Þá er ekki aðeins um að ræða örnefni sem komast á kort og í nafnaskrár heldur líka örnefni sem sköpuðust af sjálfu sér í munni þúsunda manna.

Leiðin ofan gömlu byggðanna á höfuðborgarsvæðinu frá Elliðaárdal í suður fyrir vestan Elliðavatn til Vífilsstaða og þaðan á Kaldárselsveg fékk nafnið "Flóttamannaleið" 1941 þegar breska hernámsliðið lagði þennan veg til að bæta samgöngur á svæðinu, búa til nokkurs konar hringleið og hringleiðir og leggja ekki allt á aðeins einn veg, Hafnarfjarðarveg.

Íslendingar voru fljótir að finna af þessu lykt, lykt af hræðslu Breta við innrás Þjóðverja, sem allir vissu að var til staðar, því að annars hefði ekki verið svo fjölmennt lið Bandamanna hér.

Á árunum 1941 og 1942 voru Bretar alls staðar á flótta undan Þjóðverjum, Japönum og Ítölum nema í Austur-Afríku.

Þeir létu hrekjast frá Balkanskaga og Krít vorið 1941; Rommel hrakti þá í nauðvörn austur í Egyptaland 1941 og 42 og Japanir tóku Suðaustur-Asíu 1942 þar með talið djásnið breska, Singapúr, sem enginn átti von á að gæti fallið og 80 þúsund hermenn gefist upp fyrir ferfalt fámennara innrásarliði.

Sýndist gráglettnum Íslendingum augljóst að nýja leiðin ofan byggða milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar yrði notuð á flótta Breta ef Þjóðverjar sýndu sig hér og hlaut hún því strax nafnið Flóttamannaleið í munni almennings.

Þetta nafn lifði góðu lífi í 40 ár enda fékk það nýja merkingu þegar ökumenn sem höfðu kannski fengið sér aðeins og mikið neðan í því, notuðu hana til að komast fram hjá eftirliti lögreglunnar eða undan henni á flótta.

Nú er búið að leggja malbik á leiðina frá Elliðavatni og suður á Kaldárselsveg og mér finnst alveg tilvalið að skrásetja endanlega og merkja leiðina þessu frábæra og sögulýsandi nafni: Flóttamannaleið.  

Svipað tel ég að gildi um þann hluta Ingólfstorgs, sem varð að auðu svæði eftir að Hótel Ísland brann 1944. 

Þarna hópaðist saman ungt fólk við beygjuna á Rúntinum, "piltar í stelpuleit" eins og Sigurður Þórarinsson orðaði það í Vorkvöldi í Reykjavík, og fljótlega fékk þetta malbikaða plan þar sem stelpur og strákar hímdu oft mánuðum saman ár eftir ár það stórskemmtilega og lýsandi nafn "Hallærisplanið" í munni almennings.

Þarna mætti setja upp skilti með nöfnunum Hallærisplanið og Rúnturinn og hafa á því smá skýringar um þennan hálfrar aldar tíma í sögu Reykjavíkur. 

Illu heilli var nafninu Miklatún klíint á tún bæjar, sem hét Klambrar og stóð á þessu túni allt fram á sjöunda áratuginn.

Með þessum gerningi var að óþörfu valtað yfir söguna í furðulegu mikillæti með því að leggja af nafnið "Klambratún" og taka í staðinn upp hið oflátungslega og hlægilega nafn Miklatún yfir þennan túnbleðil.

Nú þarf að festa nafnið "Klambratún" aftur rækilega með því að setja á góðum stað upp skilti með nafninu Klambratún og myndskreyttum upplýsingum um sögu svæðisins, almenningi og ferðamönnum til fróðleiks og skemmtunar. 


mbl.is Breytingu hafnað vegna örnefnaverndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll vertu Ómar,

það er gaman að þessum gömlu örnefnum og eru þau enn notuð á mínu heimili þrátt fyrir að ég hafi ekki alist upp á höfuðborgarsvæðinu. Það má nefna að ég hef kallað flóttamannaleiðina því nafni í mörg ár og er ég enn undir fertugu, en margir sem eru yngri en ég og aldir upp í borginni vita ekki hver sú leið er hvað þá að það hafi hugmynd um hvar Hallærisplanið sé.

En að þessu sögðu þá mun ég styðja þig í þeirri viðleitni að fá borgina til að merkja þessa staði svo þeir sem yngri eru fái að vita söguna enda er hún fróðleikur...

Með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 15.1.2013 kl. 16:01

2 identicon

Þetta er ágætur pistill.  Þó langar mig til að gera smá athugasemd.  Klambrar á Klambratúni voru á stofn settir einhverntímann á 3ja áratug tuttugustu aldar og þar búið í ,til þess að gera, örfá ár.  Þegar menn veltu vöngum um hvort skyldi hafa Klambratún eður Miklatún voru fróðustu menn þeirrar skoðunar að Miklatún væri eldra og upprunalegra.  Því varð það ofan á.  Síðan er kannski óþarft að fella mörg tár yfir meintri ósmekkvísi því þann 8. júní 2010 samþykkti borgarráð, að tillögu Gnarrs borgarstjóra, að bletturinn skyldi heita Klambratún.

Sjá t.d. um þetta: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4137145

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 16:07

3 identicon

Ég dreg það hér með til baka að Miklatún sé eldra og upprunalegra; en hitt liggur fyrir að Klambratún er sáralitlu eldra, og heitir Klambratún.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 16:10

4 identicon

1942 er svolítil alhæfing, Því að taflið snerist gjörsamlega bandamönnum í vil 1942 í N-Afríku. Það voru þau einu átök Þjóðverja og Breta sem voru á landi það árið.
Og á Atlantshafi voru átökin að snúast Bretum í vil 1942.
Frá og með sumri 1942 eru Bretar bara í vörn í Asíu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 19:49

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Taflið í N-Afríku snerist ekki við fyrr en seint í október. Bretar töpuðu Singapúr í febrúar 1942 sem var mesti einstaki ósigur þeirra, því að þrátt fyrir ófarirnar í Dunkerque björguðust nær allir hermennirnir, en 80 þúsund hermenn féllu Japönum í skaut í Singapúr og fengu skelfilega meðferð hjá Japönum.

Átökin í orrustunni um Atlantshafi snerust ekki Bandamönnum í vil fyrr en í apríl 1943. 

Á útmánuðum það ár sökktu kafbátar Þjóðverja margfalt fleiri skipum en nokkru sinni fyrr og útlitið var aldrei svartara en þá. En alger umskipti urðu í apríl-maí, svo mikil, að Dönitz dró kafbátana til baka. 

Ómar Ragnarsson, 15.1.2013 kl. 20:15

6 identicon

Var ekki stál í stál við fyrri orrustu El-Alamein í Júlí '42? Um það bilið eru Bretar hættir að hörfa og teknir að snúa við blaðinu. Okt '42 eru Þjóðverjar komnir á harðasprett á flótta, og hálfu ári síðar búnir að tapa Afríku gersamlega.
Og Asía....hún er langt í burtu. Öngvir Japanir á leið hingað....

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 09:32

7 identicon

Þegar ég verð bóndi ætla ég að kalla bæin minn Kropp. Ég hef alltaf jafn gaman af að ræða bæjarnöfn og örnefni við ferðamenn eins og Stóri Kroppur og Raufarhólshellir.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband