Aðeins brot af dýrðinni en má helst ekki vitnast.

Tom Cruise segir landslag og birtu á norðaustanverðu landinu vera einstæða á heimsvísu en samt hefur hann aðeins kynnst broti af þeim landshluta og veit ekkert um það, að á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum einu og sér er magnaðasta, fjölbreyttasta og einstæðasta eldfjallalandslag jarðarinnar.

Ef slíkt svæði væri í Bandaríkjunum væri það ekki einu sinni til umræðu að gera þar virkjanir og svæðið væri þar allt þjóðgarður.

En meðal um hundrað virkjanakosta, sem eru á blaði hér á landi, eru að minnsta kosti tólf á blaði á svæðinu norðan Vatnajökuls til sjávar í Öxarfirði, og af þeim eru sjö nýir virkjanakostir.

Sumir eru í biðflokki og á sínum tíma lýstu tveir ráðherrar Framsóknarflokksins því yfir að friðun svæða hefði þann stóra kost að þegar "þyrfti að koma hjólum atvinnulífsins af stað" sem væri ævinlega verkefni hverrar ríkisstjórnar, væri sjálfsagt að aflétta hvað friðun sem væri.

Það kostaði baráttu að koma Vatnajökulsþjóðgarði á fót en samt er hann allt of lítill og verið í alvöru að bollaleggja virkjanir á þessu einstæða svæði. IMG_6998

Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur var fenginn til að leggja mat á svæðið norðan Vatnajökuls og bera saman við þau svæði annars staðar á jörðinni sem helst kæmu til greina í samanburði.

Hin svæðin voru: Kamtsjatka, Alaska, Norðvestur-Kanada, Norðvestur-Bandaríkin, Andesfjöll, nyrðri eyja Nýja-Sjálands, og Suðurskautslandið.

Fyrirbrigðin, sem skapa fjölbreytnina á þessu svæðum eru: Móbergsstapar, móbergshryggir, gígaraðir, hraunabreiður, dyngjur, sandar, stór eldfjöll, stór gljúfur, stórir jöklar, eldvirkni undir jöklum og jökulhlaup/hamfarahlaup.

Öll þessi ellefu fyrirbrigði er að finna á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum, en að meðaltali eru hin eldfjallasvæðin hálfdrættingar með 3 til 6 af þessum 11 fyrirbrigðum. Alaska skorar hæst af þessum erlendu eldfjallasvæðum með 6 fyrirbrigði af 11.

Myndin, sem ég ætla að láta fylgja þessum bloggpistli var tekin í september 2011 og er eina myndin sem náðst hefur í brúklegum skilyrðum á þeim stað sem hún er tekin á.

Hún birtist í Morgunblaðinu á fyrsta Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2011. 

  IMG_1134

Ástæðan er sú, að Kollóttadyngja, sem er fremst á myndinni, er dökkgrá og tiltölulega aflíðandi og útlínur hennar renna saman við dökkgrátt umhverfið á sumrin og á veturna er allt hvítt yfir að líta.

Það er aðeins þegar fyrsti haustsnjórinn fellur þannig að hann nær ekki alveg niður að rótum fjallsins, sem eru áfram dökkgráar, að fjalli "teiknar sig" eins og það er kallað á fagmáli.

Á myndinni sjást eftirtalin eldfjallafyrirbæri:  Dyngja, stapi (Herðubreið), móbergshryggur (Herðubreiðartögl) og stórt eldfjall (Snæfell)

Þess má geta að myndin sem hefur verið í baksýn efst á síðu minni er af eldfjallalandslagi á svæðinu norðan Vatnajökuls, sem nú þegar er grafið í margra metra þykkan aur á botni Hálslóns og á eftir að verða á botni meira en 100 metra þykks aurs eftir 100-200 ár.


mbl.is Cruise heillaður af íslensku sumri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verulega Valgerðar,
vingjarnlegar dætur,
voðalega vel gerðar,
vildu spjallabætur.

Þorsteinn Briem, 6.4.2013 kl. 22:18

2 identicon

Einstök er hún. Takk takk

Pálmi Einarsson (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 00:24

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Bara flott...

Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.4.2013 kl. 00:46

4 identicon

Rosalega flottar myndir hjá þér Ómar.
Landið er náttúrulega einstakt til kvikmyndagerðar, og til þess að gera "nýuppgötvað" til slíks.
Ég átti mánuð sem statisti í Eastwood myndinni "Flags", og hafði af því gaman mjög. Það sem ég hjó eftir var það hvað tökuliðið var lengi að átta sig á hinum íslenska "sólarhring" og dægursveiflunni í veðrabrigðunum, - allt frá vindi, skýjafari og að sjávarföllum
Þegar það var komið gekk allt eins og smurt.
Svo var Eastwood kallinn ósköp þægilegur, og við átum saman heil ósköp af saltstöngum. En það er nú önnur saga.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband