"Fólk er fífl" 2: Þarf að skoða vel hið keypta.

Þessi bloggpistill er eiginlega framhald af pistli frá í gær með heitinu "fólk er fífl"  um það hvernig maður getur verið "fífl" árum og áratugum saman. 

Dæmi frá því í fyrradag.  

Ég kynnti mér lauslega laglegan átta ára gamlan japanskan 4x4 bíl af smærri millstærð , sem var auglýstur til sölu og myndi kannski henta konu minni. Í stórri handbók um alla bíla heims var gefið upp að hægt væri að fá bíla af þessari gerð og þessari árgerð bæði sjálfskipta og beinskipta, og að þessi var sjálfskiptur.

Gefið er upp í öllum bestu handbókunum um þetta módel að sjálfskiptingin sé svonefnd CVT-skipting, sem er stiglaus án gíra og velur sjálf óendanlega mörg þrep. Gefin upp sem sparneytnari skipting en þessar venjulegu. 

En þegar litið var á bílinn kom hins vegar í ljós að svo var ekki, heldur var þetta venjuleg sjálfskipting og ekki aðeins það, heldur af afar einfaldri, ódýrri og leiðinlegri gerð sjálfskiptinga með aðeins tveimur þrepum, efri stig og neðra stig, sem Japanir hafa lengi vel framleitt fyrir allra ódýrustu og einföldustu bíla sína.

Einhvern veginn hefur skolað þarna til landsins bíl með öðruvísi sjálfskiptingu en gefin er upp fyrir Evrópumarkað.  

Í handbókum er gefið upp að þetta sé svonefndur "jepplingur" með 17 sm veghæð.

Þegar bílstjórinn er sestur upp í bílinn lækkar hann niður í 15-16 sm og þegar hann er fullhlaðinn er veghæðin orðin 12 sm og bíllinn auðvitað þá ekki jeppi frekar en hvaða fólksbíll, sem er. Auk þess er hann ekki með háu og lágu drifi eins og sannir jeppar verða að hafa. 

Í gangi er nefnilega alheims blekkingaleikur varðandi veghæðir bíla sem byggist á því að ljúga engu en segja aðeins hálfan sannleikann, sem getur verið verri en lygi.

Í þessum leik taka allir þátt, framleiðendur, bílablöð og bílablaðamenn, að mér sjálfum meðtöldum, því að enginn þorir að taka sig út úr og fara að leggja fram önnur gögn en orðin eru að staðli til samanburðar. Það var fyrst í gær sem ég gaf mér tíma til að framkvæma mælingar sjálfur á veghæð "jepplings" til að sannreyna það sem ég hef vitað í hálfa öld. 

Hér áður fyrr var oftast gefin upp veghæðin þegar bíllinn er fullhlaðinn. Gamla Bjallan var gefin upp með 15 sm veghæð, en var óhlaðin með veghæð, sem nú yrði talin vera veghæð "jeppa". 

Fyrir 15 árum var eitt bandarískt neytendatímarit sem mældi þetta sjálft en hætti því síðan af ókunnum orsökum, enda voru veghæðartöliurnar hjá flestum "jeppunum" og "jepplingunum" aðeins 11-14 sm og öll hin blöðin héldu sig við veghæð á bílnum, sem enginn maður ók og hældu jafnvel torfærueiginleikum þeirra í umsögnum !   

En aftur að "jepplingnum" sjálfskipta. Ekki gafst tími til að athuga hvort skipt hefði verið um tímareim við 100 þúsund kílómetra á þessum bíl, en bíllinn var ekinn 130 þúsund kílómetra.

Bíllinn seldist nefnilega á augabragði. Nýr eigandi trúir því væntanlega að hann aki um á jeppa eða jepplingi með fullkomnustu og nýtískulegustu sjálfskiptingu sem völ er á og hefur sennilega engar áhyggjur af því þótt tímareimin geti farið hvernær sem er með minnst 100 þúsund króna kostnaði en hugsanlega margfalt meiri kostnaði.

Í skilmálum vegna sölu á bílum segir að kaupanda sé skylt að kynna sér hvað hann kaupir og ef hann gleymir að athuga hvort skipt hafi verið um tímareim á réttum tíma, ber hann ábyrgð á því.

Veghæðina og að bíllinn sé sjálfskiptur "jepp"lingur getur seljandinn auglýst með góðri samvisku.

Eitt umboðið auglýsir nú að nýr 4x4 bíll, sem það selur, sé "jeppi" með 21 sentimetra veghæð.

Þegar fjórir hafa sest upp í "jeppann" með sinn farangur er veghæðin sennilega 14 sentimetrar og nef bílsins skagar flatt langt fram úr honum og er líkara tönn  á veghefli en framenda á "jeppa".

Ekkert lágt drif er á þessum "jeppa" frekar en öðrum svipuðum. Hátt og lágt drif er reyndar til frekar lítils á "fullkomnum jeppa" sem er aðeins með 12-13 sm veghæð, þegar hann er fullhlaðinn.

Hvernig stendur á því að við tökum öll þátt í þessum leik? Svarið er einfalt: Kannanir sýna að meira en 95% þeirra, sem kaupa þessa svonefndu "jeppa", "jepplinga" eða "sportjeppa" aka bílnum aldrei um slóðir, sem krefjast jeppaeiginleika. Bílarnir eru í raun tískufyrirbrigði og stöðutákn hjá flestum og rokseljsast sem slíkir.

Og slíku verður að viðhalda vegna þess að þar með erum við komin að einum helsta drifkrafti guðs okkar tíma, "hins veldisvaxandi hagvaxtar" og "aukningar neyslu og framleiðslu" sem verður að þenja áfram af vaxandi hraða, hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti "hrun" þegar auðlindir jarðar þverra.

Þjóð sem ekki þenur hagvöxt, er ekki samkeppnisfær.   

Ég hef orðið vitni að og heyrt margar sögur af atvikum, þar sem ferðafólk lenti í vandræðum á óbyggðaslóðum á Íslandi vegna þess að það trúði því að það væri að ferðast um á "jeppa".

En slíkar sögur liggja yfirleitt í þagnargildi því að enginn vill viðurkenna að um svona lagað gildi setningin "fólk er fífl".  

  


mbl.is Vandræði fylgja rafbílum frá Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

"Hálfsannleikur oftast er / óhrekjandi lygi."

Annars varðandi leynda galla, seljandi bíls ber ábyrgðina á þeim og dugir oft að hann hafi ekki vakið sérstaklega athygli kaupandans. T.d. í dæminu sem þú nefndir um sjáklfskipta jepplinginn er ekki ólíklegt að kaupandi "mætti hafa ætlað" að búið væri að skipta um tímareim í bílnum, ef hann hefur verið ekinn 130 þúsund. 

Hjá FÍB eru til miklar upplýsingar um dæmi af þessum toga, sum eru um dómsmál, jafnvel upp í Hæstarétt.

En, annars: Hvaða japanskur jepplingur er með tveggja gíra sjálfskiptingu? 

Það var nú trúlega allt öðruvísi skipting áður fyrr hjá Kananum, PowerGlide, og þótti ekkert slor þótt bara væru tveir gírar.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 17.5.2013 kl. 12:57

2 identicon

Margt eldra fólk skiptir yfir í jepplinga vegna þess að það einfaldlega kemst ekki út úr þessum lágu bílum, þar sem viðkomandi situr nánast á götunni. Persónuleg reynsla.

Að vísu fást í dag ágætir smábílar sem eru háir og hægt er að setjast inn í en ekki ofaní.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 17.5.2013 kl. 18:43

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Hvenær verður fólksbíll að jeppling og hvenær verður jepplingur að jeppa?

Allir eru sammála að t.d. fjórhjóladrifinn VW Golf og Subaru Legacy eru fólksbílar. Samt eru þessir bíla með fjórhjóladrifi og veghæðin undir Subaru lítið lægri ef nokkuð, en hjá mörgum bílnum sem kallast jepplingur og seldur sem slíkur. Jafnvel má taka Subaru sem dæmi um þetta, Legacy er fólksbíll en Forester sagður jepplingur. Þessir tveir bílar eru byggðir á sama undirvagni. Svipaða sögu má segja af hinum nýju BMW bílum sem seldir eru sem jepplingar, en eru í raun byggðir á undirvagn fólksbíls. Fleiri dæmi má nefna.

Ekki er auðveldara að skilja á milli jepplings og jeppa. Fyrir nokkrum áratugum hefði skilgreining jeppans verið einföld og á þá leið að hann hefði sjálfstæða burðargrind, heilar hásingar og millikassa. Í dag er varla hægt að fá keyptann jeppa með heilum hásingum og nokkrir alvöru jeppar hafa um nokkurt skeið verið framleiddir með burðargrindina sambyggða boddý. Millikassar eru kannski enn í flestum jeppum en margir skipta einungis milli háa og lága drifs, svipað og beinskiptur Subaru Legacy. Eins og þú bendir á, Ómar, þá er veghæð varla mælikvarði.

Stundum hefur verið nefnt að svokallaðir SVU bílar sé ágætis greining á jeppling. Það getur þó varla talist rétt skilgreining, bæði vegna þess að ameríkaninn er farinn að teygja þetta nafn verulega í báðar áttir. Bílar sem vart geta talist annað en fólksbílar bera nú þessa skilgreiningu þar vestra og bílar sem gætu talist ágætis jeppar einnig.

Þá er ekki hægt að nota stærð og þyngd til að skilgreina jeppa frá jeppling, þar sem einn duglegast jeppi sem seldur er hér á landi er léttari en flestir aðrir bílar, Suzuki Jimny.

Það er svo spurning hvort það saki eitthvað þó hver og einn skilgreini sinn bíl í þann flokk sem hann kýs. Ef eigandi Subaru Forester er sáttari við að segjast aka á jeppling, eða ef eigandi Hyundai Santa Fe er sáttari við að segjast eiga jeppa, ætti það ekki að skaða neinn. Aðalmálið er að hver og einn viti eigin getu og getu þess bíls sem hann ekur, hvort sem það er á þjóðvegum eða vegleysum.

Staðreyndin er nefnilega að það er aldrei hægt að kenn bílnum um þegar hann festist, heldur ökumanni. Annað hvort er hans geta ekki næg eða hann ofmetur getu bílsins.

Svo veldur er á heldur.

Gunnar Heiðarsson, 17.5.2013 kl. 19:17

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Eru þá til hagvaxtarfífl? Háskólagengnir glópar sem öskra á verðbólgu og hvetja til álhagvaxtar. Byggingu álvera sen skapa láglaunastörf samkvæmt upplýsingum Steina Briem. Stjórnmálamenn hafa uppgötvað að skattar geta aukið þjóðarframleiðslu. Hagvöxt.

Áhrifamenn í launþegahreyfingunni trúa á hagvöxt og hann er þeirra vonarpeningur. Getur það verið að við séum á villigötum með hagsýslunni og hagfræðingum. Högum okkur eins og fífla eða heimsk kona.

Sjálfur er ég ekki sannfærður um að jeppalingur sé fíflaskapur. Fjórhjóladrifinn bíll er góður í snjó og á ís, sunnan heiða.

Sigurður Antonsson, 17.5.2013 kl. 20:50

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reglugerð nr. 44, 15. janúar 2003 um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki.

Reglugerð nr. 46, 15. janúar 2003
um starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala.


Reglugerð nr. 45, 15. janúar 2003
um námskeið og próf til að öðlast leyfi til sölu notaðra ökutækja.

Þorsteinn Briem, 17.5.2013 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband