Fágæt iðrun og yfirbót stórþjóðar.

Þjóðverjar voru hataðir um allan heim í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Þeir höfðu fóstra nasismann, mestu villimennsku síðustu alda.

Sú villimennska skildi þeirra eigið land eftir í rústum og tuga annarra landa í sárum, auk dauða tuga milljóna manna. 

Sigurvegararnir gátu farið með Þjóðverja eins og þeim sýndist, enda urðu 14 milljónir þýskumælandi manna að flytjast frá heimkynnnum sínum, sem að stærstum hluta höfðu verið byggð Þjóðverjum og undir þeirra stjórn síðan 1774.

Að vísu höfðu Þjóðverjar komist yfir mest allt af sínum hluta af skiptu Póllandi með hervaldi seint á 18. öld og því var skiljanlegt að Pólland yrði endurreist.

Þjóðverjar ákváðu, í stað þess að mögla til dæmis yfir því að Austur-Prússland félli undir Sovétríkin, sem var að mörgu leyti fáránleg ráðstofun, að rífa sig siðferðilega sem þjóð upp frá grunni, taka sig á svo um munaði, og það hafa þeir lagt svo mjög fram um um að gera síðan, að fágætt er hjá stórþjóð.

Auðvitað gat verið pottur brotinn í einstökum málum, eins og til dæmis varðandi Adolf Eichmann, sem hafði sambönd inn í þýska kerfið og Þjóðverjar hefðu sjálfir getað handtekið á undan Ísraelsmönnum.

En hin opinbera og einbeitta viðleitni til umbóta, til dæmis varðandi fólk af öðrum kynstofnum og tregðu til að taka þátt í beitingu hervalds er mjög áberandi í þýsku þjóðlífi. Reynt er eins og kostur er að gera upp við fortíðina og tryggja að hryllingur nýnasisma og þjóðernishroka nái ekki fótfestu á ný.  

Hafa allt á hreinu eins og kostur er. 

Fyrir nokkrum árum var í gangi skrýtla, að mig minnir nokkurn veginn svona: Veröldin er greinilega að ganga af göflunun: Besti kylfingur heims er svartur, besti rapparinn hvítur, Frakkar saka Bandaríkjamenn um hroka og stærilæti og Þjóðverjar neita að berjast.

Þjóðverjar eru betur meðvitaðir um umhverfismál en flest önnur stórveldi og mér finnst áberandi hve áhugasamir Þjóðverjar og þýskar sjónvarpsstöðvar hafa verið um þessi mál í samskiptum við mig.

Ég held að að frátöldum Færeyingum séu Þjóðverjir bestu vinir Íslands og Íslendinga. Í þeim efnum er ég sammála Styrmi Gunnarssyni.

Það má ekki rugla saman kynþáttaórum nasista og hrifningu Þjóðverja af germanskri menningu og þar með af ómetanlegum þætti Íslendinga til að standa vörð um sameiginlegan menningararf norrænna þjóða.

230px-RichardWagner

Richard Wagner, sem átti 200 ára afmæli í fyrradag, var hugsanlega sá listamaður í fremstu röð í Evrópu sem íslenskastur var.

Ég hef í áratugi gengið með þá hugmynd í maganum að taka tæplega hálftíma úrval úr Niflungahringnum og gera mynd af flugferð um landið um leið og hún er spiluð.

Snjáð blöðin í Íslendingasögunum í Wagnersafninu í Bayeruth bera vitni um það, hvaðan hann sótti sér efnivið.

1993 gerði Kristín Helga Gunnarsdóttir sjónvarpsþátt í tilefni af 20 ára afmæli Eyjagossins og notaði tónverkið Finlandiu til að lyfta myndefninu.

Ég fékk upphringingar fólks daginn eftir sem kvartaði yfir því að erlend tónlist eftir tónskáld þjóðar, sem væri alls óskyld Íslendingum, væri notuð í Eyjagossmyndinni.

Ég andmælti þessu á þeim forsendum að Sibelíus hefði verið af sauðarhúsi tónskálda, sem voru undir mjög miklum áhrifum af Wagner, svo miklum, að ef enginn vissi eftir hvern Finlandia væri, myndu menn getað giskað á Wagner.

Á móti sögðu þeir, sem hringdu, að Wagner væri heldur ekki af norrænu bergi brotinn.

Gegn því tefldi ég þeim rökum, að Wagner hefði sótt efnivið öðru fremur sinn úr norrænum fornbókmenntum og að tónlistin eftir hann gæti þess vegna alveg eins verið eftir íslenskan höfund. 

Ég endaði símtalið með því að syngja þýska þjóðsönginn og "Yfir voru ættarlandi" og blanda lögunum saman á víxl þannig að ekki heyrðist hvenær var farið úr öðru laginu yfir í hitt til þess að sýna, að íslensk tónskáld hefðu orðið fyrir jafn miklum áhrifum af þýskum tónskáldum og Magnús Eiríksson, KK og Jón Múli hefður orðið fyrir miklum áhrifum af bandarískum djassi og blús.  

Það er í tísku hjá sumum að agnúast sem mest út í Þjóðverja af því að þeir eru valdamesta þjóðin í Evrópu og hefur gengið vel með sín mál. 

Það er vegna þess að þeir hafa gert gríðarmiklar kröfur til sín sjálfra og hafa því kannski meira efni á því en margir aðrir að gera kröfur til annarra, en slíkt er lítt fallið til vinsælda.  


mbl.is Þýskaland vinsælasta ríki heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslendingar eru flestir hverjir ekkert líkir öðrum Norðurlandaþjóðum eða Þjóðverjum.

Þessir þjóðir leggja almennt fyrir, eru sparsamar, skipulagðar og afkasta miklu í sínu starfi, þveröfugt við flesta Íslendinga, sem drolla og dunda sér "í vinnunni", í mörgum tilfellum til að fá sem mesta yfirvinnu.

Íslenskur trésmiður fékk vinnu í Noregi og klukkan fjögur síðdegis lögðu Norðmennirnir niður störf. Mörlandinn spurði þá hvort komið væri kaffi en rak upp stóru augu þegar honum var sagt að þeir ynnu alltaf í átta tíma á dag.

Og launin mun hærri en á Íslandi.


Þetta þótti hinum íslenska kollega Krists stórundarlegt, þar sem hann hafði á Íslandi vanist því að hefja "vinnudaginn" á því að fá sér kaffi og kaffitími var klukkan tíu, matartími klukkan tólf, annar kaffitími klukkan fjögur og kvöldmatur klukkan sex.

Og oft "unnið" til klukkan tíu á kvöldin.

Eftir þetta vann Mörlandinn eins og brjálæðingur í átta tíma á dag til að vinna vel fyrir sínum góðu launum í Noregi, fékk sér kaffi eingöngu áður en hann fór í vinnuna á morgnana og aftur þegar hann kom heim síðdegis.

Aldrei áður hafði honum fundist kaffi jafn gott og Norðmennirnir voru ánægðir með þennan harðduglega Íslending, sem byrjaði á því fyrst í Noregi að leggja fyrir, brosti nú út að eyrum á hverjum degi en bölvaði Íslandi í sand og ösku.

Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 19:21

2 identicon

Góður Steini Briem !!!!

Jóhanna (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 19:37

3 identicon

Ég verð nú að koma til varnar Íslendingum, sem flestir eru þekktir fyrir dugnað og ósérhlífni, enda mjög vinsæll starfskraftur í Noregi. Norðmenn ku taka hádegishlé og kaffipásu, veit ekki með smókpásu. (hún gæti verið aðeins lengri en hér, þar sem þeir vefja helst retturnar sjálfir í sparnaðarskyni).
Mesta pásukerfi sem ég hef upplifað var í landvinnslu á fiski. Það var reyndar nauðsynlegt, því mikið var unnið í kulda og í köldu vatni, þannig að kaffibollinn nýttist vel til þíðinga á beinstífum puttum.
Nokkuð var af erlendum starfskrafti þar, og fór ekki allt of vel á með þeim og mörlandanum þegar skipt var úr akkorði yfir í tímavinnu, - Íslendingarnir nenntu sem sé ekki að slóra til að fá yfirvinnu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 06:43

4 identicon

Ég sigldi á fraktskipum milli landa hér í den og var þá hlegið að íslendingum hvar sem þeir komu fyrir fáránlega vinnuhegðun.

Erlendir (norskir) skipstjórar sögðu að það væri fínt að hafa einn íslending á dekkinu en ef þeir væru tveir eða fleiri þá færi allt í fyllerí og vitleysu.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að íslendingar upp til hópa þjást af minnimáttarkennd gagnvart útlendingum sem hafa fyrir löngu lært að reka siðmenntuð samfélög. Útlendingar vita líka í hverju orðið samfélag felst.

Karl (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 13:02

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gaman að þessum ofurmennishugmyndum Íslendinga um sjálfa sig.

Íslendingar almennt afkasta litlu á hverri klukkustund og framleiðni hér á Íslandi er því ekki mikil.

Laun í dagvinnu eru hér lág og því hafa margir Íslendingar viljað vinna sem mesta yfirvinnu en eru orðnir þreyttir á kvöldin.

Íslendingar almennt hafa því haft mun minni tíma með fjölskyldu sinni en aðrir Norðurlandabúar og Þjóðverjar, sem kunna að skipuleggja sína vinnu, þannig að þeir afkasti sem mestu á hverri klukkustund.

Þar af leiðandi er hægt að greiða þeim mun hærra tímakaup í dagvinnu en menn fá greitt hér á Íslandi.

Og frægar eru sögurnar af Íslendingum sem héngu fram á skóflurnar í Bretavinnunni hér á Íslandi í Seinni heimsstyrjöldinni.

En sem betur fer eru til harðduglegir Íslendingar, sem kunna að skipuleggja sína vinnu eins og aðrir Norðurlandabúar og Þjóðverjar.

Og þeir eru að sjálfsögðu eftirsótt vinnuafl hvar sem er í heiminum.

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 13:57

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í skýrslu forsætisráðherra frá síðastliðnu vori kom skýrt fram að ástæða launamunar milli Danmerkur og Íslands er að framleiðni er mun meiri í Danmörku.

Þetta kom meðal annars fram í áætlunum um landsframleiðslu á vinnustund.

Í ljós kom að Ísland var í svipuðu sæti meðal OECD-ríkja bæði þegar tímakaup var skoðað og áætluð landsframleiðsla á unna klukkustund."

(Á Alþingi 1996-1997.)

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 14:05

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

25.5.2013 (í dag):

"Íslendingar eru óstundvísir, ófærir um að skipuleggja fram í tímann og verða móðgaðir ef útlendingum þykir auðvelt að læra íslensku.

Í augum Norðmanna eru Íslendingar tækifærissinnaðir.
Þetta má lesa á bloggsíðu Gry Ek Gunnarsson, sem gift hefur verið íslenskum karlmanni frá árinu 1978 og búið hér á landi um árabil."

"Ég þekki Íslendinga sem líta ekki á þessa einstaklinga sem fullgilda, ekki verðir sömu virðingar, umburðarlyndis, tillitssemi og tækifæra og "alvöru" Íslendingar - og einstaka Norðmaður fær."

"Ég hélt lengi vel að með tímanum myndi ég breytast Íslending, fyrstu tíu árin hélt ég það en svo fór það að renna upp fyrir mér að það yrði aldrei."

"Þessi ósýnilegu mörk eru óstundvísin og "þetta-reddast-hugmyndafræðin".

"Gry segist ítrekað leggja sig fram um að vera mætt fimm mínútum fyrr þegar hún þarf að hitta fólk en það þýði alla jafna hér á Íslandi að hún þurfi að bíða í korter eftir fólkinu sem hún ætlar að hitta og það stríði einfaldlega gegn hennar þjóðarsál."

"Hinn venjulegi Ola Norðmaður fær kvíðakast ef hann getur ekki skipulagt sig þrjár vikur fram í tímann. Hann þolir mjög illa "þetta-reddast" og túlkar það sem kæruleysi en það er Íslendingum í blóð borið."

"Þegar Norðmaðurinn ætlar að framkvæma eitthvað byrjar hann á því að leggja allt niður fyrir sér, kynna sér lög og reglugerðir um málið og gera kostnaðaráætlun."

"Í augum Norðmanna eru Íslendingar hins vegar ákaflega tækifærissinnaðir, allar ákvarðanir á Íslandi virðist vera teknar á staðnum og miðað við aðstæður hverju sinni."

Í augum Norðmanna eru Íslendingar ákaflega tækifærissinnaðir

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband