Ýmis afmæli og tímamót.

Það teljast tímamót í úrvalsdeildinni að KR-ingar hafi tapað fyrsta leiknum í henni í sumar. Gaman að mínir menn, Framarar, skyldu verða til þess að hagga við Vesturbæjarliðinu og þoka sér upp á töflunni um leið. 

Ég sé líka að flettingar á þessari síðu hafi í dag farið yfir 4 milljónir frá upphafi síðunnar 2007 og vil þakka fyrir líflega umferð, flettingar, innlit og góðar umræður á síðunni þennan tíma.

Þessa dagana eru rétt 70 ár frá því að það lá nokkuð endanlega ljóst fyrir að Öxulveldin myndu bíða ósigur í heimsstyrjöldinni síðari.

Hitler varð að afturkalla sóknina miklu við Kursk í mestu skriðdrekaorrustu sögunnar fram að því, sem átti að verða úrslitatilraunin og upphafið að því að snúa vörn í sókn á á austurvígstöðvunum.

Eftir það tókst þeim aldrei að sækja fram.  

Rússar höfðu með frábærum njósnurum komist á snoðir um sóknina og gátu því brugðist við á besta hátt og leikið her Þjóðverja grátt.

Hinir nýju og mikilfenglegu Tiger skriðdrekar Þjóðverja voru öflugustu skriðdrekar, sem framleiddir voru í styrjöldinni, - komu þarna fram í fyrsta sinn og áttu að ráða úrslitum. Þjóðverjar töldu að einn Tiger skriðdreki gæti varist tíu T-34 skriðdrekum.

En Tiger-drekarnir voru dýrir, flókin smíð, eyðslufrekir og skammdrægir, erfiðir í viðhaldi og máttu sín ekki gegn margfalt fleiri T-34 skriðdrekum Rússa, sem voru framleiddir í 50 sinnum fleiri eintökum en Tiger I og II samanlagt, eða í yfir 80 þúsund eintökum.

T-34 skriðdrekinn var eitt af 4-5 vopnum Bandamanna, sem réðu mestu um hernaðinn í stríðinu.

Ofan á þetta réðust Vesturveldin inn á Sikiley 10. júlí með hátt á annað hundrað þúsund manna liði og meira en 3000 flugvélum.

Með því efndu þeir loforð sín við Stalín um aðrar vígstöðvar, þar sem ráðist yrði á hinn "mjúka kvið krókódilskins" eins og Churchill lýsti innrásinni á teikningu fyrir Stalín.

Hitler neyddist til að senda liðsauka þangað en skömmu síðar var Mussolini sviptur völdum og settur í fangelsi á fjallinu El Sasso og Ítalir gáfust upp.

En Þjóðverjar hernámu þá mestallt landið á snjallan hátt og stofnuðu fasistiskt leppríki. 

Skorzeny bjargaði Mussolini af El Sasso með Stork-flugvélum á ævintýralegan "James Bond"-líkan hátt og mig hefur alltaf dreymt um að komasta þangað og sjá staðinn, þar sem Skorzeny lét Störkinn með El Duce falla fram af þverhnípinu.  

Innrásin á Ítalíu heppnaðist ekki nema að hluta til, því að herir Bandamanna festust í heilt ár við víglínu í gegnum klaustrið Monte Cassino og komust ekki fyrr en um seinan norður eftir landinu.

Hinn mjói skagi með erfiðu fjalllendi hentaði afar vel til varnarhernaðar.

Helgin er á enda með sundurlausum þönkum um sveiflur stríðsgæfu á knattspyrnuvöllum og vígvöllum fyrir 70 árum.


mbl.is Fyrsta tap KR-inga í deildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Með mikinn var og mjúkan kvið,
Mussolinis herinn,
eins er Fram með lélegt lið,
leitt að allt þar fer inn.

Þorsteinn Briem, 15.7.2013 kl. 04:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband