Ótrúlegt fólk !

Ég kynntist DAS-bandinu og fólkinu á Hrafnistu auk kórfélaganna í kór eldri borgara í Mosfellsbæ, sem söng í DAS-sjónvarps- og útvarpsauglýsingunni.

Tökurnar á auglýsingunum hófust snemma að morgni og stóðu stanslaust fram á kvöld. Líklega hefur fólkið sungið lagið minnst 60-70 sinnum, því að það voru kröfuharðir atvinnumenn á besta aldri sem stóðu að upptöku lagsins.

Ég er ansi hræddur um að fólk á besta aldri hefði kveinkað sér yfir og orðið þreytt í svona törn eða farið að missa röddina.

En það var sami krafturinn í því í lokin og í byrjun, DAS-bandið dró ekki af sér og allir fóru að dansa eins og þeir væru 60 árum yngri.

Gamla fólkið tók vel í það að gantast væri inn á milli til að halda dampinum og lét sig ekki muna um að syngja aukreitist nokkrar útgáfur, sem ég spann upp til gamans, eins og til dæmis útgáfu sérstaklega fyrir þá á Hrafnistu sem væru hallir undir dóp og syngju: "Gras, gras, gras og aftur gras!" eða þá sem væru fyrir flöskuna og syngju "Glas, glas, glas og aftur glas!"

Síðar var hægt að henda gaman að því að engu hefði verið líkara en að ráðamenn Hrafnistu hefðu heyrt um síðari útgáfuna, því að ekki voru liðnir margir mánuðir þangað til búið var koma upp bar á Hrafnistu ! 

Ég hef heyrt að þetta hafi reynst mun betur en sumir áttu von á, því að það væri alveg jafn sjálfsagt að þessir ellismellir gætu sest þarna niður á svona stað, til dæmis með gestum sínum, vinum og vandamönnum eins og annað fólk gæti gert það niðri í bæ.


mbl.is Eldri borgarar tjútta á dansleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Alveg hreint með óliíkindum að ekki skuli hafa verið hægt að fá sér í GLAS á Hrafnistu fyrr. Er fólk bara "affólkað" á Hrafnistu eða öðrum sambærilegum heimilum? Tónlist, dansleikir og annar mannfagnaður, er okkur öllum kærkomin tilbreyting og skemmtun. "Elliheimili" er ljótt orð og legg ti að það verði notað eins lítið og hægt er og jafnvel aflagt í Íslenskri tungu. Allt val tekið frá fólki og það baðað, þvegið, skeint og strokið eftir EES staðli. Gleymum ekki að þarna dvelur fólk. Þetta fólk er aðeins eldra en við hin, en á algerlega sömu réttindi, ef ekki meiri, á almennilegri þjónustu og afþreigingu í hvaða mynd sem er. Einn góðan veðurdag, ef við sem yngri erum náum þessum aldri, gæti DAS-bandið orðið eilíft. Vonum að svo verði, þó skipta þurfi reglulega um liðsmenn.

Halldór Egill Guðnason, 28.7.2013 kl. 03:22

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Falleg athugasemd, Halldór Egill. En það eru ekki orðin heldur hugarfarið, sem ráða því hvort orð eins og "elli" og "gamall" hljóma vel eða illa.

Það á bara að kalla hlutina því sem þeir eru í raun. "Vitskertur" var upphaflega réttasta lýsingin á því að skorta vit í mismunandi miklum mæli.

Síðan var farið að nota það um snarvitlaust fólk og þá kom orðið "vangefinn" í staðinn, sem var í raun lakara orð þótt það sýndist betra í fyrstu.

Síðan var farið að nota það sem skammaryrði og þá tók við orðið "þroskaheffur" sem er á sömu leið og hin orðin.

"Eldri maður" og "eldri kona" er teprulegt að mínum dómi. Eldri en hvað?

Enn fráleitara er að nota orðið "fullorðinn" um roskið eða gamalt fólk. Fullorðinsárin byrja upp úr tvítugu og með því að nota orðið "fullorðinn" um gamalt fólk er verið að skapa rugl.

Mér finnst þetta fyrir mína parta mjög einfalt: Ég er gamall maður, kominn á elliár og sé bara ekkert athugavert við það að þetta ástand sé kallað sínu rétta nafni.  

Ómar Ragnarsson, 28.7.2013 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband