"...gerir ekkert til héðan af..."

Ég hef oft sagt, að það sé aldrei of seint að læra að fljúga. Gæti bætt því við að það sé aldrei of seint að fara í fyrsta flugið.

Þegar amma mín heitin, Ólöf Runólfsdóttir, missti mann sinn, fór ég að suða í henni að fara með mér á æskustöðvar sínar, að Hólmi í Landbroti fram að sjö ára aldri, og eftir það að Svínafelli í Öræfum.

Ævinlega sagðist hún ekki vera nógu góð til heilsunnar og vildi ekki að taka áhættu, svona gömul, að fara í jafn langa ferð, jafnvel þótt ég flygi með hana í stað þess að aka.

Árin liðu og síðustu áratugina dvaldi hún á Hrafnistu.

Ég var farinn að halda að þetta þýddi ekki neitt og væri orðið of seint og hætti því að suða í henni, en spurði hana þó alltaf, þegar ég heimsótti hana eða hitti hana, hvernig heilsan væri.

Þegar hún var komin um nírætti minntist ég samt á þetta í tilefni af þessum háa aldri. Þá brá svo við að enda hún teldi sig varla geta farið í svona langt ferðalag, heilsunnar vegna, hefði hún ákveðið að slá til

Ég spurði hana hvort heilsan væri þá, þrátt fyri aldurinn, eitthvað skárri en venjulega.

"Nei", sagði hún, "en núna er ég bara orðin svo gömul og búin að lifa miklu lengur en ég gat vonast til, að ég gef bara skít í heilsuna og fer með þér. Það gerir ekkert til héðan af þótt ég drepist út af þessu ferðalagi", bætti hún við og hló.

Ferðalagið með henni varð ógleymanlegt, sérstaklega fyrir mig, því að hún spaugaði og sagði gamansögur af Skaftfellingum hennar tíma, bæði fyrir vestan og austan sand.

Þegar við flugum yfir Lakagíga og ég sýndi henni Tjarnargíg, sem ber líka nafnið Eldborg eða Eldborgígur, sagði hún mér frá sveitunga sínum forðum tíð, sem þótti ekki vera að sligast undan þekkingu eða vitsmunum og gjarn á að misskilja hlutina.

Konan hans hét Sigurborg eða Eldborg, - ég man ekki lengur hvort, - en hún var kölluð Bogga og þau hjónin áttu aðeins tvær dætur.

Hann var eitt sinn spurður hvort hann hefði komið í Eldborg og þá svaraði hann: "Það var tvisvar, - þegar við áttum hana Gunnu okkar og hana Siggu okkar."

Hann var eitt sinn spurður af því hvort hann hefði komi í Eldborg.

Við lentum á Svínafellstúninu og þetta var mikið ævintýri fyrir gömlu konuna, sem hafði hvorki flogið né komið að Svínafelli í meira en sjötíu ár.

Á leiðinni til baka hafði þessi háaldraða amma mín miklar áhyggjur af því að ég hlyti að vera orðinn mjög þreyttur og var að gauka að mér sælgæti og hressingu !

Hún amma Ólöf var einstök kona, þeim mun skemmtilegri og líflegri sem hún varð eldri.  

   


mbl.is 106 ára flaug í fyrsta skipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband