Mikið gagn, - en þó með undantekningum.

ABS hemlar og önnur sjálfvirk tölvustýrð kerfi, sem nú eru á flestum bílum, geta komið sér afar vel fyrir venjulega ökumenn, sem ekki hafa að baki öfluga og langvarandi þjálfun rallökumanna í mörg þúsund beygjum við að stjórna bílum þegar þeir skrika í hálku, á malarvegi eða jafnvel á bundnu slitlagi.

En í rallkeppni eru slík tækni aðeins til trafala og engir rallökumenn nota slíkt.

Dæmi um slíkt kom upp í akstursprófun með ABS-hemla, sem íslenska Audi-umboðið lét fara fram fyrir tæpum 20 árum.

Bílablaðamenn voru látnir aka á lokaðri braut á 100 kílómetra hraða. Þegar komið var fram yfir ákveðna línu, áttu þeir að hægja á sér eftir getu til þess að ná snarpri beygju til vinstri, sem var skammt fram undan, hægja aftur á sér eftir því sem hægt var, áður en enn snarpari beygja kom, að þessu sinni til hægri.

Fyrst var bílunum ekið með ABS-hemlana tengda og okkur sagt að viðfangsefnið væri einfalt: Um leið og bíllinn væri kominn yfir upphafsbeygjuna, skyldum við hemla í botn og standa stanslaust á hemlunum um leið og við stýrðum bílnum klakklaust í gegnum báðar beygjurnar.

Okkur tókst þetta öllum auðveldlega nema mér, sem rétt slapp með skrekkinn.

Það var sama þótt ég reyndi að hafa það í huga að standa fast á hemlunum alla leiðina í gegnum báðar beygjurnar, - gömul þaulæfð viðbrögð urðu yfirsterkari, en þau fólust í því að hemla fyrst af alefli, sleppa síðan hemlunum eldsnöggt um leið og stýrt væri í gegnum fyrri beygjuna, hemla síðan aftur af alefli, en sleppa hemlunum síðan aftur eldsnöggt í gegnum seinni beygjuna.

Vegna þess að ég sleppti hemlunum eldsnöggt tvisvar, tapaði ég hemlunartíma og því stóð tæpast hjá mér að sleppa í gegn, allir gerðu þetta betur og öruggar en ég. 

Síðan var komið að seinni hluti hemlunarprófuninnar, en þá voru ABS-hemlarnir aftengdir við að framkvæma sama akstur í gegnum beygjurnar tvær.

Þá brá svo við að dæmið snerist alveg við, - enginn komst klakklaust í gegnum beygjurnar nema ég. Gömlu viðbrögðin mín, sem aðrir blaðamenn höfðu ekki æft, svínvirkuðu.

Til eru þær aðstæður á möl þar sem ABS-hemlarnir gera ógagn, en það er þegar þær valda því að bíllinn skautar ofan á mölinni án þess að ná nægilegri eða jafnvel nokkurri hemlun.

Í vissum malarskilyrðum nær venjuleg hemlun, þar sem hjólin ná að læsa sér alveg, hins vegar stundum að valda því að dekkin rífa sig niður í gegnum mölina þannig að hemlunargrip við undirlagið náist, þótt það sé ekki nema að hluta til.

ABS-tæknin og önnur tækni til að aðstoða ökumenn til að hafa vald á bílnum er góðra gjalda verð og yfirleitt til góðs. En eins og ofangreind dæmi sýna, eru til undantekningar á því.


mbl.is Skriðstillir hættulegur í hálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll Ómar

Sjálfur er ég á þeirri skoðun að flest öll þessi tækni komi til með að vera til vansa fyrir okkur sem höfðum lært þetta útfrá gamla skólanum. Ég bý enn að því að gamall rallýökumaður kenndi mér ýmislegt varðandi akstur. Eftir þessa kenslu hjá þessum rallökumanni þá er ég hrifnari af gömlu "power" bremsunum en þessu ABS, ALB, eða hvað þær heita allar þessar bremsugerðir í dag.

Kveðja

Ólafur Björn Ólafsson, 6.12.2013 kl. 11:25

2 Smámynd: Þorkell Guðnason

Ég er þér sammála Ómar. Það er engum vafa undirorpið: Ég væri ekki til frásagnar hér, ef ABS hemlar eða þaðan af fullkomnari búnaður hefði verið í bílunum sem ég ók "í árdaga". Þar á meðal minnist ég oft "dauðastundar" sem ekki varð, þar sem ég tautaði við sjálfan mig "þetta verður ógeðslegt, aumingja fólkið sem þarf að koma að þessu slysi" Út úr þeim vandræðum er útilokað að ég hefði komist, nema ÁN hjálpar ABS.

Þorkell Guðnason, 6.12.2013 kl. 13:15

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hann er þar með abéess,
öllu eftir tekur,
Ómar kallinn ætíð hress,
eftir minni ekur.

Þorsteinn Briem, 6.12.2013 kl. 13:36

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, Ómar. Talaðu ekki ógrátandi um allt það drasl sem hlaðið er á nýja bíla sem gerir þá dýrari og þyngri en þeir þyrftu að vera. Ef ég ætti að hanna bíl handa sjálfum mér myndi ég byggja hann á gamla BMW M3 með fjögurra strokka vél. Með nútíma tækni þyrfti þannig bíll ekki að vera meira en um 1000kg, ef sleppt er öllu drasli eins og loftpúðum, ABS, og svo endalaust framvegis... 

Ég missti álitið á BMW og mörgum öðrum bílategundum þegar þeir fóru að leggja meiri áhersli á "gimmik", eins og alla þessa stafasúpu og minni áherslu á góða hönnun, aksturseiginleika og endingu.

Núna virðast þessir bílar hannaðir til að endast í 10 ár eða svo en síðan hrynja. Það er til dæmis engin leið að skipta um olíu á gírkassa sumra þeirra eins og þeir koma frá verksmiðjunni, kassinn er alveg lokaður og ef á að skipta um olíu þarf að bora göt í hann. Þar að auki eru alls konar hlutir úr plasti, sem endist ekki alltaf mjög vel... 

Hörður Þórðarson, 6.12.2013 kl. 18:42

5 identicon

Mér var sögð sú saga fyrir löngu að þegar fyrstu bílarnir með ABS komu til landsins (Saab?) voru þeir prófaðir á plani í Skeifunni.  Saabinn mældist með styttri bremsuvegalengd en nokkur annar bíll, en samt fengu þeir ekki skoðun fyrr en búið var að aftengja ABS kerfið.  Ástæðan?  Jú, þeir drógu ekki öll hjól eins og reglugerðin kvað á um!

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 21:32

6 identicon

Ég sýndi konunni virkni alvöru fjórhjóladrifs og ABS-hemla tvinnað saman í eitt einn frostdag síðasta vetur þegar ég náði í hana í vinnuna. Ókum við stutta götu þar sem enginn annar bíll var á ferðinni í afturdrifinu (um er að ræða japanskann jeppa með venjulegu fjórhjóladrifi) á lítilli ferð og bremsaði ég svo ABS-kerfið gerði vart við sig. Bíllinn var nokkuð lengi að stoppa enda snjóhálka á veginum. Svo setti ég bílinn í fjórhjóladrifið og gerði sama leikinn aftir. Konunni fannst mikið til koma hvað bíllinn var fljótari að stoppa. Þarna var sýnd og gefin samvinna samtengdrar drifrásar í gegnum alvöru "gamaldags" millikassa og læsivarðra hemla.

Hörður Þórðarson. Skil ekki hvaðan þú hefur þær upplýsingar að svona rafmagnsbúnaður eins og ABS sé eitthvað að bæta mikilli þyngd við bíla. Hann hlýtur að vega um 2 kg í það heila ef teknir eru skynjarar við öll hjólin og þeir vírar sem tengja þá við stjórntölvu bílsins. Svo má kannski bæta því við að allir nútímabílar verða að uppfylla ákveðnar lágmarks öryggiskröfur til að ná í gegnum strangt framleiðsluferlið. Og að lokum liði mér betur í nútímafólksbíl sem vegur meira en 1 tonn og hefur engann öryggisbúnað að neinu tagi eins og þú talar um að sé í þínum "draumabíl". Það er nefninlega þyngdin og stærðin sem felur í sér töluvert öryggi líka.

Hafþór Atli Hallmundsson (IP-tala skráð) 6.12.2013 kl. 21:48

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Já, Ómar, í fljótandi hláku þegar maður vill dempa létt á ABS bremsurnar þá er það varla hægt, endalausir smellir þegar kerfið er að endurreikna einfalt dæmið (man eftir BMW sem átti þetta til). En að vísu skilur Volvo Cross Country ABS-ið hálkuna vel.

Ívar Pálsson, 6.12.2013 kl. 22:13

8 Smámynd: Hörður Þórðarson

Hafþór. Ég er frekar sérvitur hvað bíla varðar og ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir að flestir hafa allt annan smekk en ég hef. Mér finnst gaman að aka um á kraftmiklum bílum sem svara vel á allan hátt, inngjöf, stýri og bremsum. Ég er venjulega á tæki sem er með minna en 2kg á hvert hestafl, ekkert ABS, enga loftpúða og ekkert rugl, að minnsta kosti ekki að mínu mati.

Flestir virðast eiga þann draum heitastann að sleðast um á ofurþungum jepplingum sem leggjast á hliðina við minnstu beygju (ef þeir velta þá ekki á hliðina eða þakið) og komast varla fram úr neinu vegna þyngdar og máttleysis. Ég hef ekkert við það að athuga en ekki biðja mig um að kaupa svoleiðis vélvædda búðarkörfu. Vinsmalega leggðu mig inn á elliheimii þegar ég fer að sýna áhuga á slíku.

Hörður Þórðarson, 7.12.2013 kl. 07:00

9 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Sæll Ómar.

Þú ert að blogga við frétt um hraðastilli en fjallar um ABS bremsukerfi.

Hættan við hraðastillinn tengdan, er sú að í hálku er hætta á að bíllinn spóli þegar hraðastillirinn gefur vélinni ótæpilega inn eldsneyti til að halda innstilltum hraða.Ég hef oft reynt hvað bíllinn er snöggur að skrika til í spóli í mikilli hálku.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 7.12.2013 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband