14.1.2014 | 20:35
Svo dæmalaust íslenskt "að láta á það reyna."
Meðal þess sem hvatti menn til þess að sigla út á úfið úthaf til nema fjarlæga eyju langt úti í Atlantshafi var tvennt: "Þetta redddast", - og "að láta á það reyna."
Það reddaðist yfirleitt að láta á það reyna, og síðan hefur það verið djúpt í íslenskri þjóðarsál að trúa á slíkt í sem flestum og ólíkustu tilfellum.
Atvikið í Hvalfjarðargöngunum, þar sem ruðst var inn í göngin og þau og vinnuvél og búnaður flutningabíls og gananna sjálfra er ekkert einsdæmi hér á landi, en versta dæmið sem ég þekki er það þegar bílstjóri flutningabíls virti að vettugi mjög lágan hámarksþunga á gamalli járnbitabrú í uppsveitum Árnessýslu hér um árið og virti líka að vettugi ákvæði um hámarksbreidd bíla á brúnni.
Hann óð út á brúna á bílnum, en vegna allt of mikils þunga bílsins svignaði brúargólfið og seig í miðjunni, en við það bognuðu hliðarbitarnir aðeins inn á við og þrengdu brúna.
Ef bílstjórinn hefði farið ofurvarlega og löturhægt inn á brúna úr því að hann ætlaði að brjóta fyrirmælin, hefði hann hugsanlega orðið var við það á nógu hægum hraða að bíllinn rækist utan í hliðarbita brúarinnar til þess að stoppa og bakka rólega til baka.
En í þess stað virtist hann hafa ætlað að fara svo hratt yfir brúna að hún hefði ekki tíma til að bregðast við hinum mikla þunga og að það væri meiri líkur til að hann gæti troðið bínum í gegnum brúna með svipaðri aðferð eins og menn spana í skafl og treysta því að þungi bílsins og hraði skili honum í gegnum fyrirstöðuna.
Fyrir bragðið skemmdi bílinn alla brúna endilanga og stórskemmdist auðvitað sjálfur.
En bílstjóranum fannst alveg sjálfsagt að "láta á það reyna" hvort "þetta reddaðist" því að eftir á gat hann sagt þegar hann virti fyrir sér stórskemmdan bíl og brú: "Ég komst þó yfir. Hefði ekki komist yfir ef ég hefði ekki "látið á það reyna."
Rakst harkalega á gangamunna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svona ske slysin. Það þarf öryggisbúnað til að hafa vernda fólk fyrir sjálfum sér og öðrum. Fyrirliggjandi búnaður er greinilega hættulegur. Létt slá með skynjara sem blikkar og vælir ef eitthvað nálgast í tiltekinn fjarlægð og vissri hæð, er hvorki að vera tæknilega flókinn, né dýr. En það má flækja allt.
NKL (IP-tala skráð) 14.1.2014 kl. 21:03
Noreg flúðu margir menn,
Mörlandar nú heita,
allir þangað aftur senn,
aldrei floti neita.
Þorsteinn Briem, 14.1.2014 kl. 21:13
Ómar, horfðu á video sem fylgir. Þetta gerðist fyrir hádegi í gær á hraðbraut í Sviss. Ökumaður á eftir vörubílnum tók myndina.
Kveðja frá Sviss.
http://bazonline.ch/panorama/vermischtes/Leserreporter-filmte-Baggerunfall-auf-A-1/story/28816061?dossier_id=2519
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.1.2014 kl. 21:17
Hver getur þrætt fyrir það að hafa ekki hugsað svona, - "þetta reddast" eða "ég tek sjensinn"
Hvað þá Ómar sjálfur, hehehe ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.1.2014 kl. 22:32
Það eru nú fleiri en Íslendingar sem eru í því að taka sénsa. Ég hef lengi vel hlegið yfir þessu vídeói hérna : http://www.youtube.com/watch?v=6NUTpMNIhrE , eftir nokkur slys þarna þá voru settir upp skynjarar sem mæla hæð bílanna og ef þeir eru of háir þá blikka ljósin sem sést þarna í nokkrum árekstrunum.
Sumt fólk eru bara svo mikil fífl að það þarf 3x3metra stórt STOP merki til að það stoppi, einsog þekka myndband sem sýnir hvernig vatnaskiltið virkar http://www.youtube.com/watch?v=Dk9DjO-_rT8
Magnús (IP-tala skráð) 15.1.2014 kl. 03:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.