Gamalt bragð.

Þegar ég sé frétt á mbl.is þessi efnis að bílþjófar hafi skipt um númerapötur á stolnum bíl, rifjast það upp fyrir mér að enda þótt þjófnaðir eru yfirleitt ekkert skemmtiefni, en þó eru undantekningar þar á eins og flestu öðru.

Fyrir áratug bar svo við, að við Helga vöknuðum við hávaða fyrir utan blokkina, sem við bjuggum þá í við Háaleitibraut um klukkan fjögur um nótt á bjartri júnínótt, Helga þó á undan, því að hún var fyrr út í gluggann og sagði við mig: "Það er verið að stela bílnum þínum. Flýttu þér út og hringdu í leiðinni á lögregluna!

Ég stökk í föt og sá hvers kyns var út um gluggann á stigaganginum á niðurleið: Þrír unglingar voru að búnir að brjótast inní tvo gamla örlitla bláa Cuore-bíla, sem stóðu hlið við hlið við bílskúrsdyr og voru þjófarnir einmitt að bruna af stað á öðrum þeirra.

Ég tilkynnti lögreglunni að búið væri að stela bláum Cuore-bíl með einkanúmerinu STREIT og að bíllinn sýndist vera á leið niður í Ármúla. Ég skyldi fara austur fyrir og koma þaðan að þeim ef lögreglan kæmi vestan frá, þannig að þeir yrðu króaðir inni. Bíllinn væri auðþekktur, það væri hagt að telja svona bíla í umferð á fingrum annarrar handar.  

Í þeim svifum kallaði Helga að bíllinn væri kominn niður á malarþakið bílastæði við Fjölbrautarskólann við Ármúla, og spólaði þar í hringi.

Þegar ég stefndi þangað úr austurátt ók ég beint í flasið á lögreglubíl, sem setti sírenur og blikkandi ljós á til að stöðva mig.

Ég renndi niður bílrúðunni Tveir ábúðarfullir lögreglumenn komu út og sögðju við mig: "Þú ert á stolnum bíl."

"Nei," svaraði ég. "Ég á þennan bíl sjálfur."

"Nei," svaraði annar þeirra. "Það var verið að tilkynna að þessum bíl, bláum Cuore, hefði verið stolið."

"Já," sagði ég, "en hann er með einkanúmerinu Streit eins og tilkynnt var. Þessi bíll er alveg eins og með númerið A-304 eins og þið sjáið, gömlu númeragerðinni."

"Já, ekkert svona!" var svarið hjá lögregluþjóninum. "Það er alvanalegt að bílaþjófar byrji á því að skipta um númer á bílum þegar þeir hafa stolið þeim."

"Já, en ég á tvo eins, bláa Cuore-bíla, svaraði ég. "Hinum var stolið. Það var ég sem hringdi í ykkur. Þið haldið þó ekki að ég hafi stolið mínum eigin bíl, skipt um númer á honum og tilkynnt lögreglunni það á meðan. Það gengur ekki upp."

Þetta var alveg gráthlægilegt. Þarna hafði lögreglan stöðvað mig á eftirför eftir bílaþjófum, sem höfðu stolið bílnum mínum og höfðu fyrir bragðið fengið nú nægan tíma til að komast undan.

Þessu var ekki lokið. Næsta skref var að við fórum niður á lögeglustöð þar sem fylla þurfti út langa skýrslu um málið með viðeigandi útskýringum. Fyrir bragðið fengu bílþjófarnir allan tíma í heiminum til að láta sig hverfa, því að gerð skýrslunnar tók gersamlega ótrúlega langan tíma.

Lögreglumaðurinn, sem yfirheyrði mig, pikkaði á eldgamla ritvél, með pappír og kalkipappír, löturhægt. Ég spurði hann hvort þetta væri lögreglustöð eða deild í Þjóðminjasafninu. Honum þótti spuringin ekkert fyndin og lýsti fyrir mér þeim hremmingum sem sparnaður í rekstri lögreglunnar leiddi af sér.

Bíllinn fannst tveimur kvöldum síðar gerónýtur suður í Hafnarfirði eftir hroðalega þeysireið, sem vitni höfðu greint frá og talið ógna vegfarendum þegar hann fór í loftköstum yfir umferðareyju nálægt Breiðholti. 

"Unglingavandamál?" spurði ég hafnfirska lögregluvarðstjórann. "Nei, ekki endilega," var svarið. "Oftast eru þetta foreldravandamál, óreglusamir foreldrar skilja vanrækta unglingana eftir í reiðileysi um helgar og þeir leiðast út í vandræði."

Athyglisvert og umhugsunarvert svar hjá honum og hann bætti því við að þegar um þjófagengi væri að ræða, reyndu þeir oft að brjótast inn í tvo bíla á sama tíma og bruna í burtu á þeim, sem fyrr færi í gang. Og skiptu síðan oft um númersplötur við fyrsta tækfæri.  

Nokkrum dögum síðar hitti ég ljúflinginn Geir Jón Þórisson þáverandi yfirlögregluþjón á gangi útvarpshússins og sagði honum frá þessu. Sjaldan hef ég heyrt mann hlæja eins hátt og innilega og Geir Jón.

Ég sagði við hann að í lögreglunni væri sem betur fer nokkurs konar þverskurður þjóðfélagsins, margir afbragðsmenn en einn eða tveir kynnu að vera fyrirmynd Spaugstofunnar að Geir og Grana.

Síðan bætti ég við: "Geir Jón, ég held að fyrir alla aðila þessa máls sé hægt að draga dýrmætan lærdóm."

"Og hver er hann?" spurði Geir Jón. "Ég bíð spenntur eftir að heyra það."  

"Jú," svaraði ég. "Ef það er stolið frá þér bíl skaltu ekki elta þjófana á alveg eins bíl."  

 


mbl.is Bílinn kominn með nýjar plötur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

 Ómar Ragnarsson verður áreiðanlega handtekinn fyrir að þykjast vera hann sjálfur.

Þorsteinn Briem, 15.1.2014 kl. 08:46

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Ómar. Ég lenti í þeim Geir og Grana þegar Mattías Máni stal byssunum mínum um jólin í fyrra. Það átti að kæra mig ! Fékk þær loksins aftur eftir mikið þras.

Jón Kristjánsson, 15.1.2014 kl. 11:42

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Snillingur.

Sigurður Haraldsson, 15.1.2014 kl. 14:33

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Eitt sinn þegar ég var í Reykjavík þá varð konan mín vitni af því að kyrrstæður bíll rann úr stæði við blokkina sem við bjuggum í. Rann hann frá blokkinni niður brekku og endaði á gám við verslun og skemmdist tallsvert við það. Ég fór og kannaði aðstæður og hringndi á lögreglu sem kom innan skamms en ekki á rétt plan svo ég varð að hlaupa smá spotta og vinka í hana, komu þeir til mín þar sem bíllin var við gámin klesstur. Tóku sýrslu af mér og spurðu spurninga allt virtist vera elðilegt hvað þennan bíl varðar nema hvað þegar ég gaf upp kennitölu mína sem tilkynnandi sem er 10.09.64 og kennitölu þáverandi kærustu minnar sem er 10.09.64 sem vitni að atburðinum þá leit lögregluþjónnin á mig rannsakandi eins og ég væri á dópi og gæfi aftur sömu kennitölu. Það var ekki fyrr en þeir voru búnir að hringja í kærustu mína og fá upp hennar kennitölu frá henni sjáfri sem þeir trúðu mér. Svona geta staðreyndir fallið í grýttan jarðveg á ögurstundum Ómar.

Sigurður Haraldsson, 15.1.2014 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband