Ikarus fórst, en andi hans lifir í "mannflugi".

Fræg er fornaldarsagan af Ikarusi, sem setti á sig vængi til að fljúga, en í sólarhitanum bráðnuðu þeir svo hann féll til jarðar og fórst.

Þessi saga hefur endurtekið sig allt frá því að fyrstu loftbelgirnir fóru að fljúga á seinni öldum og margir hafa farist, bæði í flugi á þeim og einnig varð mikið manntjón hjá fyrstu ofurhugunum sem voru brautryðjendur í nútíma svifflugi, vélflugi og fallhlífarstökki, og geimflugi.

Ein af nýjustu tegundum flugs má kalla steypisvifflug, eða "mannflug", þar sem menn líkja nær algerlega eftir flugi fugla eins og sjá má af þeim myndum, sem fylga frétt um tvöfalt banaslys í svona flugi í Sviss.

Ljóst er að mikla nákvæmni og aðgát þarf í þessu flugi, og ekki minnkar það áhættuna, að greinilega er mikil eftirsókn í það að ná sem allra glæfralegustum og mögnuðustum myndskeiðum þegar menn steypa sér niður þröng gil, rétt sleikja fram hjá hamraveggjum og flúga jafnvel í gegnum klettagöt með smámyndavélar á sér sem taka allt flugið upp, séð í allar áttir.

Síðan er það greinilega orðin listgrein að fljúga í "mynsturflugi" (formation) þar sem tveir eða fleiri fljúga nálægt hver öðrum.

Þegar við bætast varasamir sviptivindar eru menn farnir að nálgast Ikarus ansi mikið, nema að nú eru það vindar og nálægð við jörð eða samflugsmenn en ekki sólbráð, sem ógna.

Af lagi vængbúninganna má sjá að loftfræðilega svipar þessu flugi til flugs á hraðskreiðum orrustuþotum með "delta"vængjum, sem skrokkurinn og fæturnir mynda afturhelming lyftikraftsins og svonefndum "canard" vængjum sem handleggirnir mynda að framanverðu.

Í fljótu bragði sýnist mér að vænghleðslan sé ekki minni en á þeim flugvélum, þar sem hún er allra hæst, en það þýðir að hraði flugsins verður að vera mjög mikill, varla minni en 200-250 kílómetrar á klukkustund,  og hlutfallið á milli lyftikrafts og loftmótstöðu er greinilega mjög óhagstætt, en það hefur í för með sér afar bratt fall, vel yfir 50 til 60 gráður til þess að missa ekki allan lyftikraft.

Ljóst er að þeir færustu í þessari grein hafa náð ævintýralegri færni í stjórnun flugsins og að spennan og hraðinn eru óviðjafnanleg.

Enn verður að bíða og sjá, hverju fram vindur í þessu sporti áður en endanlegur dómur er felldur.

Fyrir 20 árum var talað um að banna "glæfraíþróttir" á skíðabrettum og einnig skíðafimi eða skíðafimleika vegna þess hve hættulegar þessar íþróttir væru.

Nú eru þetta einhverjar skemmtilegustu kepppnisgreinar á hverjum Vetrar-Ólympíuleikum og með réttum og markvissum þjálfunaraðferðum virðist vera hægt að minnka svo slysatíðnina að hún verði nógu lág.

Svipað gæti gerst með steypi-svifflugið eða "mannflugið", sem kannski er besta heitið, því að í engu flugi sýnist vera líkt jafn mikið eftir flugi fugla og þessu nýja og æsandi flugi.   

 

 


mbl.is Létust eftir misheppnað stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margt er lífsins púl og pus,
prufa sumt þó gaman,
Ómar þar og Ikarus,
undur góðir saman.

Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband