"Finnlandisering" Úkraínu?

Rússar höfðu ráðið yfir Finnlandi í meira en öld þegar þeir urðu að gefa Finnum frelsi í kjölfar ósigurs síns fyrir Þjóðverjum 1917. Rússar höfðu líka tekið þátt í að sundurlima Pólland seint á átjándu öld, og það land fékk ekki aftur sjálfstæði fyrr en eftir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Bæði Finnum og Pólverjum var í nöp við Rússa og Rússar tortryggðu báðar þjóðirnar. Þeir lögðu hálft Pólland undir sig 1939 og gerðu landakröfur til Finna sem átti að tryggja það að þeir héldu Finnum vel frá sér vestan við Leningrad, fengju herstöð vestar í Finnaflóa og skæru aðgang Finna að Norður-Atlantshafi í burtu.

Finnar neituðu en Rússar fóru þá í vetrarstríð við þá sem reyndist báðum þjóðum dýrkeypt.

Þeir hernámu þó ekki landið en Finnar réðust síðan á Rússa í slagtogi við Þjóðverja sumarið 1941.

Eftir stríðið þurftu Finnar að greiða himinháar skaðabætur, vera í náninni hernaðarsamvinnu og vöruviðskiptum við Rússa og stunda utanríkisstefnu, sem var svo háð tilliti til Rússa, að til varð hugtakið "Finnlandisering". 

Hinn grimmi einvaldur og harðstjóri Stalín gat hins vegar verið býsna raunsær í utanríkisstefnu sinni þegar sá var gállinn á honum og lhann og eftirmenn hans eyfðu Finnum að viðhalda vestrænu lýðræði og samvinnu við Norðurlandarþjóðirnar ef tryggt var að hlutleysi þeirra væri á þann veg sem þeir sættu sig við.

Mikið slaknaði á þessu eftir lok Kalda stríðsins og má til dæmis merkilegt heita að finnski flugherinn haldi uppi loftrýmiseftirliti yfir Íslandi í samvinnu við NATO-þjóðir án afskipta Rússa.

Rússar hafa núna Hvíta-Rússland sem stuðpúða milli sín og NATO-ríkisins Póllands en mun aldrei sætta sig við að Úkraína gangi í NATÓ.

Í þeirra augum er það svipað því og Bandaríkjamenn hefðu litið á það ef Kanada hefði gengið í Varsjárbandalagið á sínum tíma.

Hugmyndir Rússa um að Úkraína verði hlutlaust ríki minna svolítið á Finnlandiseringuna á sínum tíma.

Í Finnlandi komust fasísk öfl og öfga hægrimenn aldrei til markverðra áhrifa eftir 1945, heldur voru finnsku ríkisstjórnirnar svipaðar öðrum ríkisstjórnum á Norðurlöndum, hófsamar lýðræðisstjórnir með félagslegu ívafi.

Rússar kunna að hugsa sér "Finnlandiseringu" Úkraínu á svipuðum nótum og mesta hættan, sem núna er uppi kann að vera sú að hörð og fasísk hægriöfl komist þar til valda.   


mbl.is Úkraína verði hlutlaust sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Finnland og Svíþjóð eru ekki í Atlantshafsbandalaginu (NATO), en hafa átt samvinnu við NATO og bæði ríkin fengu aðild að Evrópusambandinu árið 1995.

Mörg Evrópuríki vilja hins vegar vera bæði í Evrópusambandinu og NATO, til að mynda Eistland og Lettland, sem eins og Finnland eiga landamæri að Rússlandi.

Lettland og Eistland fengu aðild að Evrópusambandinu og NATO árið 2004.

Og Úkraína á landamæri að Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Rúmeníu, sem öll eru bæði í Evrópusambandinu og NATO.

Úkraína er sjálfstætt ríki sem þarf ekki að spyrja Kremlarherra að því frekar en Lettland og Eistland hvort það megi ganga í NATO og Evrópusambandið.

Fjórðungur af íbúum Eistlands og Lettlands
eru af rússnesku bergi brotnir en 17% af þeim sem búa í Úkraínu.

Hins vegar þurfa ríkin í NATO og Evrópusambandinu að samþykkja aðild Úkraínu og það verður nú ekki á morgun.

Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 23:23

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Úkraína liggur miklu austar en fyrrnefnd ríki og teygir sig meira í áttina að hjarta Rússlands. Kænugarður hefur sérstakan sess í augum Rússa, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, sem engin önnur höfuðborg í ofangreindum löndum hefur.

Í Úkraínu hefur verið framleiðsla tengd bæði hernaðarlegri og borgaralegri tækni sem hefur verið stolt þeirra þarna austur frá.

Nú síðast í gær var ég að horfa á heimildaþátt um Antonov An-225, stærstu flugvél heims, sem ásamt öðrum af helstu flugvélum fyrri Sovétríkja er framleidd þar.

Úkraína við suðurjaðar Rússlands hefur ekki ólíkan sess og Kanada við norðurjaðar Bandaríkjanna.

Sæmilegur friður milli Rússlands og Úkraínu er álíka mikilvægur og friður milli Bandaríkjanna og Kanada, burtséð frá því hvers konar stjórnvöld eru í þessum löndum.

Ómar Ragnarsson, 31.3.2014 kl. 10:54

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Moskva er um 700 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Lettlands en um 550 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Úkraínu.

Mismunurinn er því aðeins
um 150 kílómetrar, vegalengdin frá Reykjavík að Skógum undir Eyjafjöllum.

Næst stærsta borg Rússlands, Sankti Pétursborg, þar sem fimm milljónir manna búa, er einungis um 200 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Finnlands, svo og Eistlands, sem er í Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Og Tyrkland, sem einnig er í NATO, er aðeins í um 200 kílómetra fjarlægð frá Krímskaga.

Og um 80 kílómetrar eru á milli Rússlands og Bandaríkjanna við Beringssund.

Rússland er stærsta land heimsins en þar búa aðeins 144 milljónir manna, einungis um þrefalt fleiri en í Úkraínu (45 milljónir), tæplega tvöfalt fleiri en í Þýskalandi (81 milljón) og um tvöfalt færri en í Bandaríkjunum (318 milljónir).

Þorsteinn Briem, 31.3.2014 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband