Undarleg frétt og að hluta röng um Skódann góða.

1964 urðu tímamót í sögu hinna virtu Skoda verksmiðja í Tékkóslóvakíu. Verksmiðjurnar höfðu smíðað marga góða hluti bæði til hernaðarþarfa og almennra þarfa.

Stór hluti skriðdrekanna, sem Hitler notaði við innrás í Niðurlönd og Frakkland vorið 1940 voru Skoda-skriðdrekar, en Hitler hafði hernumið Tékkóslóvakíu ári fyrr.

Verksmiðjurnar fjöldaframleiddu bíla eftir stríðið og fluttu meira að segja út,  og voru til dæmis keyptir bæði fólksbílar af gerðinni 1101 og strætisvagnar til Íslands á árunum 1946-47.

Það er því rangt í tengdri frétt á mbl.is að Skoda 1000 MB hafi verið fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn hjá verksmiðjunum þótt framleiðslan hafi aukist hjá þeim á áratugunum eftir stríð eins og hjá öðrum bílaframleiðendum.

Hitt er rétt að endurbætur urðu í framleiðsluferlinu með tilkomu 1000MB.

Á sjötta áratugnum hófst aftur innflutningur á Skoda til Íslands á tveimur gerðum, "Blöðru"Skodanum, sem var svipaður í útliti og Kaiser-Frazier og fleiri nýtískulegir bílar fyrstu eftirstríðsáranna, og síðan voru fluttir inn Skoda 440 og 445, sem komu fram 1955 og voru nýtískulegustu Austur-Evrópubílarnir þá.

Þótt Skoda hefði rofið tengsl og samvinnu við vestræna bílaframleiðendur eftir stríðið og landið orðið að kommúnistaríki þótti Skoda einna skásti bíllinn frá þeim löndum hvað gæði snerti.

Hann var allan þennan tíma með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, sem var óvenjulegt, en leið fyrir það að vera með þverfjaðrir í stað gorma.

Alla síðustu öld fram til 1987 framleiddi Skoda eingöngu bíla með drifi á afturhjólunum þannig að fullyrðing um að Skoda 1000MB hafi verið fyrsti Skódinn með drifi á afturhjólunum er algerlega rangt.

Fram á sjöunda áratuginn höfðu gæði Skoda verið viðunandi miðað við lágt verð bílanna, en með tilkomu Skoda 1000MB fór að síga á ógæfuhliðina, ekki endinlega varðandi tæknina sem slíka heldur gæðin, og það svo mjög að í virtum bílabókum er talað um að gæðunum hafi hrakað svo mjög fram undir 1990 að Skodabílar hafi verið "international joke".

Í frétt mbl.is er sagt að það hafi verið mikil nýjung í bílasmíði að Skoda 1000MB hafi verið með vélina aftur í.

Þetta er líka rangt.

1964 voru 26 ár síðan Volkswagen Bjallan kom fram í Þýskalandi og síðan NSU Prinz og BMW 600 1958. 

Í Frakklandi hafði Renault framleitt Renault 4CV, Dauphine og Renault 8 í 18 ár og Simca 1000 var kominn á markað.

Á Ítalíu komu Fiat 600 og 500 fram á árunum 1956 og 57 og í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu höfðu bílar með vélina afturí verið langmest seldu bílarnir í mörg ár áður en Skoda 1000MB kom fram.

Í Bretlandi kom Hillman Imp fram 1963 og í Bandaríkjunum Chevrolet Corvair 1959.

Það er rétt, að miðað við Austur-Evrópu ríkin var Skoda 1000MB nýtískulegasti bíllinn en þó hafði Zhaporotez komið fram í Sovétríkjunum á svipuðum tíma.

Hönnunar- og tæknilega séð gaf hinn "goðsagnakenndi" Skoda 1000MB vestrænum keppinautum sínum lítið eftir. Hann eyddi litlu, var með góða sjálfstæða gormafjöðrun á öllum hjólum, léttbyggða og nægilega kraftmikla vél, ágætt rými og farangurspláss.

Rassvélin tryggði gott veggrip og dugnað í hálku og snjó, en "pendúl"fjöðrunin að aftan gerði hann hættulega yfirstýrðan í kröppum beygjum.

"Rall-Skódinn", Skoda Rapid, stóð sig bara býsna vel í rallakstri og skrifaði nafn sitt í sögu upphafsára rallsins hér á landi. Var kallaður "Porsche fátæka mannsins."

Síðast en ekki síst var Skódinn ódýr.

Skoda 1000MB og arftakar hans, 110 og 120 seldust vel á Íslandi og víðar alveg fram undir 1990.

Ég notaði Skoda 120 1984 módelið í þrjú ár við kvikmyndagerð á austurhálendinu og hann var duglegur og skemmtilegur á sinn hátt á vondum vegum og slóðum þótt á endanum færi svo, að þegar ég ætlaði að láta gera við hann fyrir skoðun og bað um að fá að vita, hvað þyrfti að gera fyrir hann, fékk ég svarið á einu blaði með einu orði: "ALLT!"  

Vélin vildi ofhitna þarna afturí í Skoda 1000MB og arftökunum,  og til að lagfæra það var vatnskassinn fluttur fram í nef á bílnum síðustu árin, svipað eins og gert var á Porsche 911 síðar.

En Skoda var ekki Porsche. Vatnsleiðslurnar í Skodanum voru langar, óaðgengilegar og lélegar og þegar þær byrjuðu að leka eins og á mínum bíl, var komið að endalokum.

Ég skrönglaðist á honum vestur í Ystafell og þar er hann nú á safninu þar við hliðina á Skoda stórvinar míns sáluga, Ingimars Eydals.

Þetta er eini bíllinn, sem ég hef átt, sem er á safni. Ég hneigi mig djúpt fyrir honum og Skoda Ingimars þegar ég kem þarna og á ekkert nema góðar og skemmtilegar minningar um þennan "sérvitring" í líki bíls og um minn nána vin og samstarfsmann, Ingimar Eydal.

Þegar VW keypti Skoda tók þeir Skoda Favorit og gerðu á honum 528 breytingar til að geta haldið áfram að selja hann undir nafninu Skoda Felicia.

Síðustu 20 ár hefur Skoda risið úr öskustó og er nú orðin ein af virtustu bílaverksmiðjum heims.

Bilanatíðnin er meira að segja minni en hjá móðurfyrirtækinu Volkswagen. Tatra_77A_dutch_licence_registration_AM-44-01_pic10[1]

 

P. S. Skelli inn mynd af Tatra 77, 34 módelinu, tékkneskum snilldarbíl, sem á áttræðisafmæli á þessu ári og kemur við sögu í athugasemdum hér á eftir og bloggpistli, skrifuðum á eftir þessum.    


mbl.is Goðsagnakenndur Skoda fimmtugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Er ekki komin vísa um Skoda?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.4.2014 kl. 14:14

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er alla vega komin ný mynd af Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni.

Þorsteinn Briem, 2.4.2014 kl. 14:20

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vilhjálmur í Vero Moda,
var í kvenmannsdressi,
ekur nú á Ofur-Skoda,
eins og Barça Messi.

Þorsteinn Briem, 2.4.2014 kl. 14:31

6 identicon

Þar sem ég hef ekki sömu yfirgripsmiklu þekkingu á bílasögunni og hinn ágæti bloggari  get ekkert dæmt um fullyrðingar Ómars um rangindi í frétt þessari.

Allt sem þar stendur er byggt á fréttatilkynningu frá Skoda. Þar segir m.a.: "The first Czech mass-produced car made its debut in spring 1964". Og einnig: "As the first ŠKODA with rear wheel drive, a rear engine "

Væri ekki rétt að hann sneri sér líka til höfundar tilkynningarinnar sem er:

Vítezslav Kodym,           

Communication Sponsoring & Classic            

P +420 326 8 11784

vitezslav.kodym@skoda-auto.cz

Annars er gott að fá svona innlegg, það eykur á þekkingu manns.

Ágúst Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.4.2014 kl. 17:57

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vitleysan fer ekki eftir því hver segir hana heldur eftir því hvers eðlis hún er sjálf.

Sem betur fer eru nógu margir Íslendingar enn á lífi sem muna eftir Skoda bílunum, sem voru fluttir inn til Íslands á árunum 1946-88 og voru, hver einasti og einn, með drifi á afturhjólunum.

En Skoda 1000 MB var fyrsti Skódinn með vélina afturí, það er rétt.

Það fer síðan eftir því hvar menn draga mörkin varðandi "mass-production" hvernig hún er skilgreind.

Þannig er almennt viðurkennt að hinir stórmerkilegu tékknesku Tatra fólksbílar voru ekki voru ekki fjöldaframleiddir, þótt þær væru kannski nokkur hundruð á ári.

Ómar Ragnarsson, 2.4.2014 kl. 21:01

8 identicon

Það er vitaskuld ljóst að það sem átt er við með afturdrifið er að þessi merki skódi er sá fyrsti sem er með afturdrif OG vélina afturí, eins og fólksvagninn var löngu búinn að sanna sig með. En það kom ekki fram í fréttinni í mogganum.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 2.4.2014 kl. 21:06

9 identicon

Ég gef þér tíu fyrir umfjöllun um Skoda en þekkir þú tékkneska lúxusbílinn Tatra?

lambi haraldsson (IP-tala skráð) 2.4.2014 kl. 22:42

10 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Þú segir Gústi að þú hafir ekki næga þekkingu til að dæma um fullyrðingar Ómars um rangindi í fréttinni. Ég hef næga þekkingu til þess og get staðfest að allt það sem Ómar bendir á er rétt. Raunar með ólíkindum ef upphaflegi textinn, sem þú vitnar í á ensku, hefur komið frá Skoda (eða Volkswagen AG), þá er nú bleik brugðið.

 Allt eru þetta grundvallaratriði í sögu bílaframleiðslu og sýnir að betra er að tékka á einhverjum atriðum til að kanna hvort textinn sem fréttin er unnin upp úr byggist á réttum atriðum. 

Þórhallur Birgir Jósepsson, 2.4.2014 kl. 22:47

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tékkneski lúxusbíllinn Tatra 77 1934 var einhver merkasti tímamótabíll í sögunni.

Hans Ledvinka hét snillingurinn sem hannaði hann og vegna þess að sjálfur Ferdinand Porsche stældi og stal hugmyndum hans, bæði um útlit, driflínu og undirvagn, borguðu Volkswagen verksmiðjurnar síðar bætur fyrir það.

Nýjungarnar voru ótrúlega margar:

1. Straumlínulag, ca cx 0,36. Það leið hálf öld þar til bílar urðu svo straumlínulagaðir ef undan eru skildir Citroen DS 1955 og NSU Ro 80 1967.

2. Heilsoðinn bíll; grind og undirvagn, en byggt á svipuðu miðlægu röri (tubular) og Bjallan var síðar byggð með.

3. Vélin fyrir aftan afturhjól.

4. Farþegarýmið í fullri breidd en ekki mjókkandi fram og með stórum stigbrettum. Liðu 14 ár þar til sú nýjung breiddist út.

5. Loftkæld V-8 vél.

6. Sjálfstæð fjöðrun á öllum hjólum.  

Þrátt fyrir þunga sinn og lítið vélarafl var hægt að ná 160 kílómetra hraða á bílnum vegna hinnar litlu loftmótstöðu. Ekkert slíkt var í boði hjá neinum öðrum sambærilegum bíl.

Þýskir liðsforingjar elskuðu það á stríðsárunum að aka þessum bíl hratt og slösuðu sig og drápu í hrönnum, enda var hann hættulega yfirstýrður eins og allir rassvélarbílar þessara tíma.

Tatra framleiddi mjög svipaða arftaka allt fram að aldamótum, að vísu nokkuð kassalaga síðustu áratugina en þetta voru lúxusbílar fyrir útvalda kommisara.

Ég man eftir svona Tatra niðri á Rauðarárstíg á fyrstu árunum eftir stríð og mikið rosalega væri gaman að krækja í einn.  

Ómar Ragnarsson, 3.4.2014 kl. 01:26

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því má bæta við að vélin var með þurr smurningu (dry sump) og "hemi"löguðu sprengirými, næstum 20 árum áður en Chrysler kom með sínar hemi-vélar.

Tölur um loftmótstöðuna voru svolítið á reiki og sumar voru undir 0,30 þannig að talan hér að ofan er líklega of há! 

Ómar Ragnarsson, 3.4.2014 kl. 02:02

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hans Ledwinka er skrifað með w, ekki v.

Ómar Ragnarsson, 3.4.2014 kl. 02:19

14 identicon

Ég þakka þér fróðleg og skemmtileg skrif Ómar.  Man eftir Tatra vestur í bæ nálægt Holtsgötunni. Einhver sagði mér að hann væri 12 sýlindera.  Getur það verið?

Þorsteinn Jón óskarsson (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband