Ég skynja svipaða óvissu og þegar Sylvía Nótt keppti.

Tilurð fígúrinnar Sylvíu Nætur 2006 verður eitt af því sem mun vekja athygli þeirra í framtíðinni, sem reyna að kafa ofan í ástand þjóðfélagsins og þjóðarsálarinnar í næsta aðdraganda Hrunsins.

Lag Þorvalds var magnað og vann yfirburðasigur hér heima og túlkun Ágústu Evu á persónunni Sylvíu Nótt hitti í mark og færði henni Edduverðlaun hér heima ef ég man rétt. Það byggðist meðal annars á því að "plottið" hafði fengið nægan tíma til að komast inn hjá þjóðinni, - tilbúna persónan Sylvía Nótt var alþekkt hjá þjóðinni og hafði fengið rækilega auglýsingu hæfilega löngu áður en forkeppnin hér heima byrjaði.

Fígúran átti kannski ekki jafn brýnt og augljóst erindi erlendis og hér heima, en þó stefndi umheimurinn inn í mestu efnahagskreppu í 70 ár.

Við öllu mátti því búast þegar Sylvía Nótt byrjaði að fara sínum hamförum í undankeppninni, - hún gat slegið í gegn, en þetta gat líka misheppnast herfilega af því að erlendis fékk hún hvergi nærri þá langvinnu athygli sem gat skilað sér jafnvel og hér heima.

Hvorugt gerðist reyndar, en fyrir mistök, sem fólust í því að Evrópa áttaði sig ekki á ádeilunni sem fólst í hrokafullri hegðun Sylvíu urðu það ekki nógu margir á hinum erlenda vettvangi sem áttuðu sig á því hvað tilvist hennar snerist um og því komst lagið ekki áfram, Íslendingum til en einna vonbrigðanna í Evróvisionkeppni.

En fall Sylvíu verður í framtíðinni skoðað sem algerlega rökrétt og raunar nauðsynlegt til þess að dæmisagan gengi upp til fullnustu, og þess vegna svo er svo gott að eiga það til framtíðar. Með því að þessi íslenska fígúra var túlkuð svona vel, varð Sylvía að frábærri forspá um það hvernig sambærileg hegðun okkar Íslendinga myndi verða okkur að falli í Hruninu, sem framundan var.

Í aðdraganda Hrunsins sýndum við umheiminum dæmalausan hroka, -  sýndum reyndum erlendum bankamönnum fyrirlitningu, þóttumst vera ofurmenni, undrabörn og snillingar, sem hefðu fundið upp alveg ný lögmál og aðferðir í fjármálum og  efnahagsstjórn, nánast útvalin af almættinu, sem hefði hert þá hæfustu til að komast af í gegnum erfiðar aldir til að veita allri heimsbyggðinni forystu og fordæmi í stíl við landkönnuði Víkingaaldar.  

Pollapönk er af allt öðrum toga, - strákarnir eru líflegir, einlægir og fjörugir og gera eins vel og þeir geta. Allt gott um það að segja.  

En ég skynja samt svipaða óvissu núna og 2006, og held að víð eigum að vera við öllu búin um gengi Pollapönks.

Mér finnst lagið ekki njóta sín eins vel með enska textanum og hinum íslenska, hinn íslenski vera hnitmiðaðri og meira grípandi, enda þurfti á einstaka stað að fjölga nótunum í laginu til þess að enski textinn passaði við það.

Engu að síður var ákvörðunin um að syngja lagið á ensku rétt, því að efni textans og boðskapur hans er aðalatriðið í þessu lagi, hvort sem hann nær í gegn eða ekki.

Hvort hann fellur Evrópubúum í geð í keppni, þar sem ánægja og samheldni meðal þjóða á að ráða ríkjum, er hins vegar vafasamt.

Þýska lagið "Smávegis af friði" (Ein Bishen Frieden) var ósköp þægilegur, blíðlegur og sakleysislegur texti hér um árið.  

Ástandið í Úkraínu hefur valdið róti og uppnámi þessa daga, einmitt þegar svona samevrópskur viðburður á sér stað, og það fer kannski eftir fréttum dagsins, hvernig stemningin verður.

Mig grunar meira að segja deiluaðilar í Úkraínudeilunni muni forðast óþarfa átök þangað til keppnin er afstaðin.   


mbl.is Stigatöflur fyrir Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég skynja ekki neitt þegar á Eurovisjón kemur. Er það hættulegt?

FORNLEIFUR, 6.5.2014 kl. 11:01

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér leist reyndar aldrei á að senda Silvíu Nótt út, þó ég skildi hvað um var að ræða, þá var ég alveg viss um að Evrópa var ekki tilbúin fyrir hana, enda lék hún af sér svo eftir var tekið.

Ég er líka ósátt við lag Pollapönkarana, illa samið og ekki batnaði það þegar þurfti að aðlaga það að ensku máli. En þeir fengu samt prik hjá mér með því að mæta í kjólum til að mótmæla misrétti kvenna. Þeir munu líklega ekki komast upp úr undankeppninni, en þeir hafa komið að punkti sem tekið var eftir. Þeir munu því sennilega lifa í minningu um einkennileg uppátæki, rétt eins og Sylvía Nótt og Páll Óskar. Enda listamenn af guðsnáð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2014 kl. 12:02

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mér finnst nú Jóhanna Guðrún sætari.

Þorsteinn Briem, 6.5.2014 kl. 16:23

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

... en Pollapönkarar.

Þorsteinn Briem, 6.5.2014 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband