Ástin á "Móður Rússlandi" skóp sigurinn yfir Hitler.

Rússland var, er og verður land mótsagna. Stalín hefur verið kennt um dauða að minnsta kosti 20 milljóna manna og mikil mistök í stríðinu við Þjóðverja 1941-45.

Grimmdarleg iðnvæðing landsins, harðneskjuleg þjóðnýting landbúnaðins og miskunnarlaus útrýming og dráp allra, sem þessi ofsóknarbrálæðingur stóð fyrir fyrir stríðið, ollu því að ólíklegt var að slíkur maður gæti þjappað þjóðinn að baki sér gegn stærstu innrás allra tíma.

En Stalín var slóttugur, slakaði á klónni, tók aftur upp heiðursmerki í hernum og höfðaði til föðurlandsástar Rússa, - þess að verja þyrfti "Móður Rússland", hvað sem það kostaði.

Þegar SS-sveitirnar hófu útrýmingarherferðir sínar í kjölfar innarásarinnar sá þjóðin að hún átti um ekkert að velja nema að þjappa sér á bak við Stalín og það gerði hún.

Það kostaði að minnsta kosti 20 milljónir mannlífa og fyrstu tvö ár stríðsins báru Sovétmenn hitann og þungann af striðinu. Herafli Rommels í Norður-Afríku var aðeins 5% af herafla nasista í Rússlandi, þ.e. 20 sinnum fleiri hermenn voru þar.

Sigur Breta við El Alamain markaði ekki straumhvörfin í stríðinu heldur sigrar Rússa í Stalingrad og við Kursk.  

Herafli Rommels var meira að segja aðeins hálfdrættingur á við herafla Þjóðverja í Noregi einum.

Bandaríkjamann máttu hafa sig alla við að tapa ekki fyrir Japönum á árinu 1942 en auðvitað munaði samt um þátttöku Vesturveldanna í stríðinu þótt heimsbyggðin eigi það fyrst og fremst Rússum að þakka að Bandamenn réðu niðurlögum Hitlers, Mussolinis og japönsku heimsveldasinnanna.

Það er kaldhæðni og mótsögn fólgin í því, að ef iðnvæðing Stalíns hefði ekki verið svona skefjalaus, hefði stríðið sennilega tapast. Hvort hægt hefði verið að ná þessari iðnvæðingu fram án hinna hrikalegu mannfórna er síðan önnur saga.  

Á sama hátt og föðurlandsást réði úrslitum í mesta hildarleik hernaðarsögunnar er það aðeins önnur hliðin á peningnum.  Á hinni hliðinni er sú hætta, sem því fylgir að hægt sé að misnota þessa sterku kennd.

Rússland, víðfeðmasta ríki heims, liggur á mörkum Evrópu og Asíu og Rússar hafa alltaf verið tvístígandi og átt erfitt með að vinna úr því.

Þeir eiga mjög slæmar minningar frá ásælni Napóleons og Hitlers í völd og áhrif í nágrannaríkjunum Rússlands, en þessar minningar koma óhjákvæmilega og skiljanlega upp með réttu eða röngu þegar NATO og ESB fá vaxandi hljómgrunn í hlaðvarpa Rússlands.  

Rússar hafa alla tíð verið veikir fyrir sterkum stjórnendum, jafnvel grimmum eða spilltum einræðisherrum.

Nöfn eins og Katrín "mikla", Pétur "mikli" segja ákveðna sögu, - og veldi Lenins og Stalíns á sínum tíma sýnir svipað.

Ýmislegt sem Pútín segir og gerir þessar vikurnar vekur vonir um að haldi skynsamlega á sínum spilum svo harmsaga stórfelldra átaka endurtaki sig ekki á aldarafmæli Fyrri heimsstyrjaldarinnar.

  

  


mbl.is Pútín hrósar föðurlandsást Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Rússlandi heitir Seinni heimsstyrjöldin Föðurlandsstríðið mikla.

Hinn mikli sigur - Sendiherra Rússlands á Íslandi

Þorsteinn Briem, 9.5.2014 kl. 14:05

3 identicon

SS sveitirnar (einsatztruppen) fóru um í kjölfar innrásarliðs, og stunduðu fjöldamorð á allslags fólki. Þetta var svona í Póllandi, og átti ekki að koma Rússum á óvart að svo yrði einnig í þeirra landi.
En það var meira varðandi innrásina í Sovétríkin. Áætlun Hitlers var ekki bara að leggja undir sig Sovétríkin, heldur að eyða rauða hernum alveg. Þetta var kallað "kesselschlacht" á þýsku, - "cauldron battle" á ensku.
Í stað þess að brjóta sig í gegn um línur og ná undir sig mikilvægum stöðum hratt eins og í leifturstríði Þjóðverja í V-Evrópu var tilgangurinn að innikróa heilu herdeildirnar í einskonar "suðukatli" og tortíma þeim.
Þetta tók sinn tíma og olli töf á framsókn Þjóðverja, - einn fídusinn í því að þetta tókst ekki hjá þeim.
Rússum er gjarnt að gera lítið úr framlagi vesturveldanna í sigri á Þjóðverjum. m.a. tengist þetta Stalingrad og Kursk, og þessu mannafli sem vesturveldin voru EKKI að tuskast við eins og Sovétmenn. En......:
Þó að herafli Rommels væri ekkinema 5% af herafla Þjóðverja í Sovétinu, þá var Rommel þó í Afríku. Var reyndar ekki viðstaddur el-alamein v. veikinda ef ég man rétt.
En...El Alamein skilaði afgerandi niðurstöðu, og setti Þjóðverja á hraðan flótta á meðan allt stóð í tæpu stáli við Stalingrad. Tap þjóðverja við Stalingrad á sér tímalega samsvörun við fall Túnis. Í stalingrad töpuðu öxulveldin ca. 850.000 manns. Allur pakkinn. Bara við fall Túnis misstu hinir sömu um 300.000 sem fanga! Þannig að Afríkudæmið var ekki svo smátt.
Og þetta verður bara betra. Þjóðverjar misstu fleiri flugvélar í N-Afríku um þetta leyti en yfir Stalingrad og kring. Þeir sendu meir að segja flugvélar í massavís FRÁ Stalíngrad til að reyna flóttaloftbrú frá Túnis.
Flugfloti þjóðverja við innrásina í Rússland var reyndar engu stærri en það af flugvélum og flugmönnum sem þeir misstu frá maí-Sept 1940, aðallega fyrir hendi Breta. Og við innrásina var hálfur flugfloti bundinn vesturfrá, ásamt mestöllum flotanum og mannskap við vesturmúrinn um þúsundir kílómetra,  -þ.m.t. allt þeirra lið í Noregi.
Það sem ég er að fara með þessu er einfaldlega það, að Rússar mega þakka Bretum sinn sigur. Hefðu Bretar svara ákalli Hitlers 1940 (appeal to reason) má leiða líkur á því að þeir hefðu rúllað yfir Sovétríkin með tvöföldum herstyrk. Og hefði sú leið farið samningsveginn, - t.d. með afléttingu hernáms í Frakklandi á móti afléttingu hafnbanns á Miðjarðarhafi, - þá fyrst hefði fjandinn verið laus hjá Rússum, - því hægt hefði verið að nálgast þá mánuði fyrr (1941) að sunnan, - af sjó.
8 og 9 maí er því ekki síður prik fyrir Breta.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 15:28

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er stutt síðan álíka var til umræðu hérna - og þetta er rétt hjá Ómari. Punktur.

En svo maður tali samt aðeins um þetta, að þá ætti að verða óumdeilt að sigur Sovét/rússa við Stalingrad og Kursk mörkuðu straumhvörf og í framhaldi almennt sú staðreynd að rússar hrundu árás Nasista og í raun yfirbuguðu þá og hófu að reka flóttann í vesturátt með gríðarlegum mannfórnum og óhugnalegri ískaldri einbeittni á það markmið að gefast ekki upp fyrir nasistum heldur berjast og berjast til síðasta manns.

Flugvélar per se skiptu ekkert öllu máli. Sem sést í Stalingrad þar sem nasistar sprendu allt í tætlur, teppalögðu borgina - samt gáfust rússar ekki upp heldur notuðu rústirnar til að verjast, þ.e. neyddu nasista til að berjast í návígi.

Þetta er nefnilega athyglisvert þegar búi er að segja það, að nasista herinn var lítið að berjast í návígi þangað til rússar neyddu þá til þess.

Það er auðvitað allt annað að berjast í návígi heldur en að nota aðallega stórtæk vopn úr fjarlægð, tangarsóknir og einangra heri og svæði. Allt annað.

Í návígi fer þetta að reyna á. Ekki síst andlega. Rússnesku hermennirnir reyndust sterkari á þessu sviði. Sennilega skiptir máli líka að rússar voru að verja föðurlandið en nasistar komnir langt í burtu inní ókunnugt umhverfi o.s.frv.

Það segir líka ákveðna sögu um taktík nasista að þegar þeir komu að Leningrad þá réðust þeir ekki inní borgina sem allir bjuggust við. Þeir hófu umsátur. Umsátur í 900 daga.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.5.2014 kl. 17:15

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ps. það er nefnileg athyglisvert eða punktur varðandi nasista og hermenn þeirra, að furðuleg bjartsýni og einhver draumóratrú virðist hafa fylgt þeim. Það var þessi tru að germanski stofninn væri -llum æðri og aðrir ættu bara ekki roð í þá vegna þess hve frábær nefndur stofn væri.

Í byrjun eru þeir svo vel vopnum búnir og beittu ákveðinni taktík sem eg ætla ekki að rifja upp.

Sagt er að rússnesku herstjórnendurnir hafi fundið út að eina leiðin til að eiga við þetta væri að komast í návígi.

Í návígi og langvarandi brútal bardögum á stuttu færi var ljóminn fljótur að fara af nasistadraumórunum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.5.2014 kl. 17:37

6 identicon

það að sprengja allt í tætlur úr fjarlægð, verða með allt niður um sig í návígi og tal um "öllum æðri" (Obama) minnir óneitanlega mikið á BNA nútímans...

en hvað varðar "kaldhæðni og mótsögn fólgin í því, að ef iðnvæðing Stalíns hefði ekki verið svona skefjalaus, hefði stríðið sennilega tapast" - skrítið að halda að þetta hafi verið tilviljun. Þetta voru einfaldlega strategískar ákvarðanir teknar út frá njósnaupplýsingum um þróun mála á Þýskalandi.

VAT (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 18:46

7 identicon

Punkturinn minn var nú einfaldlega sá, að hefðu Bretar ekki haft Þjóðverja fasta í sínu rekankeri, þá hefðu Þjóðverjar náð Moskvu, og suðursókn þeirra (sem var vitleysa eiginlega) hefði líkast til tekist.
Niðurstaða, - algert fall Sovétríkjanna strax í desember 1941.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 19:34

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Búinn að svara spurningu þinni frá því í morgun, Jón Logi.

Þorsteinn Briem, 9.5.2014 kl. 19:48

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Varðandi Moskvo, að þá er það heldur ekkert neitt flókið. Nasistar vanmátu styrk rússa. Heinz Guderian viðurkenndi það og skrifaði: "the offensive on Moscow failed ... We underestimated the enemy's strength, as well as his size and climate."

Jú jú, eins og hann bendir á þá spilaði veturinn inní.

Nasistar treystu sér ekki til að ráðast inní Moskvu.

Skrítið hve sumir eiga erfitt með að fallast á að sovéski eða rússneski herinn hafi einfaldlega sigrað nasista af eigin rammleik.

Nú er eg td. ekki hrifinn af sovét eða kommunisma sem var þar - en eg horfi bara kalt yfir stöðuna og það er auðvelt að fá vitneskju og fróðleik um þetta efni með víðtækum lestri. (Ekki nóg að lesa útleggingu einhvers eins fræðimanns eða sagnfræðings).

Þetta er í raun staðreynd að rússar eða sovéski herinn sigraði nasistana og þeirra bandamenn og við það urðu krúsíalt straumhvörf í seinni heimstyrjöldinni.

Það sem er jafnframt eftirtektarvert eða umhugsunarvert er hve ráðamenn í sovétríkjunum hikuðu ekki við að fórna mönnum í því skyni að ná heildarmarkmiði. Það skipti ekkert öllu þá margir féllu. Það komu bara nýjir í staðinn.

Ennfremur hlýtur að hafa verið einhver trú hjá sovésku hermönnunum eða einhver æðri tilgangur. Svo sem að verja Föðurlandið. Jafnframt er spurning hvernig þeir hafi litið á nasistana því rússar hljóta alveg að hafa vitað að nasistar litu á slava sem hálfmenni.

Rússar td. beittu sjálfsmorðsárásum. Það kom flatt uppá nasista.

Í heildina virkar nokkuð augljóst að nasistar vanmátu getu og baráttuþrek rússa/sovétmanna og vilja þeirra til að leggja sig fram.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.5.2014 kl. 20:10

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í viðtölum Hitlers við Mannerheim 1942 og í ræðunni sem hann hélt það ár um innrásina í Sovétríkin sagði hann berum orðum að Þjóðverjar hefði aldrei órað fyrir hinni gríðarlegu framleiðslugetu Rússa. Hitler talar í bæði skiptin um verksmiðju sem framleiddi 35 þúsund skriðdreka á ári!

Það er yfirgengilegt og nær óskiljanlegt hvernig Rússar gátu flúið með stórar verksmiðjur austur að Úralfjöllum eða jafnvel yfir þau síðsumars 1941 og um haustið.

Þetta afrek og fleiri eru feykileg.

En þau eru fleiri. Þegar De Gaulle var í opinberri heimsókn og fékk að standa á bakka Volgu í Stalingrad, andvarpaði hann: "Hvílkt afrek var þetta!"

"Hjá okkur, já", svaraði Breznef.

"Nei, hjá Þjóðverjunum, að komast alla leið hingað" svaraði De Gaulle.  

Það er ekki rétt orðalag að Þjóðverjar hefðu ekki lagt í að taka Moskvu. Þeir gátu það einfaldlega  engan veginn í 40 stiga frosti, en hefðu getað það ef þeir hefðu ekki sóað sex vikum í herför suður í Úkraínu í ágúst og september, þar sem þeir að vísu umkringdu og eyddu stærri her í einni umkringingu en dæmi eru um í hernaðarsögu síðari alda, en misstu misstu fyrir bragðið af rútunni til Moskvu.

Og þegar fyrstu sveitirnar með T-34 skriðdrekunum helltust yfir Þjóðverja í fyrsta sinn, sagði Guderian: "Þetta er búið spil."

Reyndi að koma vitinu fyrir Hitler en var rekinn.  

Ómar Ragnarsson, 10.5.2014 kl. 00:13

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þó youtubemyndbönd geti stundum verið vafasöm og einfaldir miklar o.s.frv. - þá eru líka youtubemyndbönd sem væta fræðandi yfirsýn á mjög stuttum tíma. Hér er td. allt í lagi band, Zhukov vs van Boch battle of Moscow. Þetta er allt í lagi band, að mínu mati, passlega langt. Ótrúlega mörg atrið sem dregin eru fram á stuttum tíma. Hægt að læra mikið af þessu. Td. er eitt atriði um mun á nazista hernum og þeim sovéska. Konur voru líka í sovéska hernum:

http://www.youtube.com/watch?v=X4VWOLhof2g

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.5.2014 kl. 00:15

12 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mér finnst það líklegt að ef Þjóðverjar hefðu komið vel fram við rússneska borgara og sýnt þeim stuðning og vináttu hefði Hitler getað unnið sigur á Stalín. Framkoma þjóðverja þeirra gagnvart borgurum var hins vegar svo slæm að Rússar vildu frekar Stalín en Hitler. Þess vegna fór sem fór.

Hörður Þórðarson, 10.5.2014 kl. 06:03

13 identicon

Ómar Bjarki:
"Skrítið hve sumir eiga erfitt með að fallast á að sovéski eða rússneski herinn hafi einfaldlega sigrað nasista af eigin rammleik."

Hér liggur hundur nokkur grafinn.
Í fyrsta lagi - ekki einfaldlega, heldur með verulegri fyrirhöfn. Það var tæpt um tíma, og ekki algerlega augljóst fyrr en sumarið 1943, - nærri 2 árum eftir innrásina.
Í öðru lagi sigraði rauði herinn ekki nasista bara si svona, heldur nær hálfan herstyrk þeirra. Herstyrkurinn er jú landher, flugher, floti, framleiðslugeta, flutningur og annað. Það vita t.d. ekki margir að Þjóðverjar notuðu meiri skotfæri til loftvarna vestan til en í öllu stríðinu á austurvígstöðvunum!


Svo þetta með það sem Hörður bendir á, - smá saga.
Sovétborgarar lentu ekki alltaf undir járnhæl og morðmaskínu nasista. Það gat farið eftir svæðum. Sumstaðar unnu sovétborgarar ágætlega með Þjóðverjum, en fengu að gjalda grimmilega fyrir það við stríðslok.
Gamall kunningi minn sem var á austurvígstöðvunum frá 1941-1945 að mestu sagði mér af fólki sem snerist á Þýska sveif við hernám Þjóðverja. Þetta var múslímskt fólk suð-austan til á línunni, ekki langt frá Krímskaga. Fólkið hörfaði svo vestur um með þjóðverjum til stríðsloka, og var í Austurríki ef ég man rétt við stríðslok. Var afhent rauða hernum yfir landamærin sem sovétborgarar. Allir voru líflátnir, - karlar, konur og börn.
Punkturinn með framkomu Þjóðverja er engu að síður gildur. Með góðri framkomu í stað fyrir framkomu morðsveita hefðu þeir hæglega haft hlutina mun auðveldari, - sérstaklega sunnan til, og að mikilvægasta leyti í Úkraínu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.5.2014 kl. 17:06

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sko, eg veit það ekki. Jú jú, það má velta þessu fyrir sér abstrakt, em samt sem áður getur svona innrásarstríð og tilgangurinn sem nazistar voru með aldrei innifalið að vera góður við þá sem fyrir innrásinni verða.

Það er í raun sjökkerandi að horfa á sum youtubemyndböndin af þessum tímum. Allt öðruvísi en lesa af bók. Að vísu eru nú sömu myndskeiðin augljóslega af mismunandi bardögum - en það breytir ekki öllu.

Hann segir þarna þulurinn í myndbandinu um bardagann um Moskvu, minnir mig, að í einni árás, hvort það var ekki bara einn dagur eða nokkrir dagar, fórust svo margir sovétmenn að það jafngilti helming allra Bandaríkjamanna sem fórust í öllu stríðinu. Þetta eru svo stórar tölur eða stærðargráðan, fórnirnar, eru svo miklar að hugurinn getur varla fangað það.

Að öðru leiti sem Ómar bendir á með veðrið, að haustið og veturinn gerði það að verkum að nazistar áttu erfitt um vik o.s.frv. og Hitler fyrirskipaði vissulega suðursók fyrst og tafði þannig aðför að Moskvu - en samt sem áður er ekki þar með sagt að ótafin innrás í Moskvu hefði borið árangur.

Eg er nefnilega ekki viss um það. Og rökin á bak við þá afstöðu mína eru aðallega þau að það sýndi sig viðar að þar sem harðir bardagar í návígi fóru fram - að þá höfðu rússar betur. Þeir gáfust ekki upp í návígi. Þeir voru auljóslega staðránir í að berjast í návígi í stórborgum. Eins og Stalíngrad sannar.

Mótstaða rússa/sovétmanna fór sí-vaxandi eftir því sem nazistar sóttu innar inní landið. Sovétmenn/rússar þróuðu varnarstratgíu þar sem Georgy Zhukov varð hæstráðandi. Georgy Zhukov vr bændasonur alinn upp við fábreytta lífshætti og fátækt og sannfærður kommúnisti. þ.e. hann trúði því að kommunisminn myndi koma í veg fyrir að fólk þyrfti að lifa við aðstæður eins og hann ólst upp við.

Zhukov var svo virtur að hann mátti mótmæla Stalin. Í einhverju tilfellinuvildi Stalin hefja sókn kringum Moskvu. Zhukov sagði það kæmi ekki til greina. Það ætti að útbúa heljarmikla varnartaktík og varnarkerfi. Hann fékk að ráða því.

Er soldið merkilegur ferill. Zhukov byrjaði uppgang sinn í stríðinu við Japani, síðan var hann við Leningrad og Stalin kallaði hann loks til til þess að verja Moskvu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.5.2014 kl. 18:44

15 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Ekki má gleyma því að í Seinni heimstyrjöldinni fengu Rússar hergögn frá Bandamönnum, aðalega Bandaríkjunum.

Wilhelm Emilsson, 10.5.2014 kl. 19:42

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú jú, þá er sá vinkill líka til. Vissulega fengu þeir aðstoð að einhverju leiti. Td. kemur fram í youtubebandinu um orrustuna um Kursk, minnir mig, að Sovétmenn höfðu upplýsingar um áætlun Nazista. Þá var það þannig að Bretar höfðu ráðið dulmál Nazista á Austurvígstöðvunum og sendu Stalin nákvæmlega sóknaráætlun Nazista uppá mínútu. 10 mínútum áður en Nazistar hófu árás þá hófu Sovét mikla gagnárás sem truflaði þá heildarstrategíu Nazista. Allt svona skiptir einhverju máli.

Að öðru leiti er forvitnilegt að sjá hvað td. blöðin her heims sögðu um efnið. Td. ef maður slær in stalingrad á timarit.is og fer í 1942 og moggann, að þá kemur fram að menn voru forviða á því að Stalingrad skildi ekki falla. Mogginn vitnar oft í einkaskeyti frá Reuter. Sýnir líka hve ótrúlega breyttir tímar eru varðandi fjölmiðlun. Samt verður að segjast að umfjöllun er oft merkilega ítarleg þó hún sé stutt.

,,HVERSVEGNA FELLUR EKKI BORGIN?

Þýska útvarpið reynir nú eins og það getur að skýra drátt þann, sem orðið hefir á falli borgarinnar, og segir meðal annars að bardagarnir í borginni sjálfri hafi það í för með sjer, að framsóknin verði hæg. Önnur skýringin var sú, að varnarmáttur Rússa væri svo mikill, að hann yrði ekki brotinn á bak aftur, nema á löngum tíma. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=105841&pageId=1246782&lang=is&q=HVERSVEGNA%20FELLUR%20EKKI

,,CYRIL FALLS RÆÐIR HORFURNAR.

Hinn kunni breski hernaðar sjerfræðingur Cyril Falls, flutti erindi í breska útvarpið í gærkveldi um horfurnar í Stalingrad. Kvað hann engan þurfa að vera hissa á því, þótt borgin verðist lengi, því hvérgi væru sóknarskilyrði erfiðari en í stór borgum, sem ekki væri hægt að umkringja. Á slíkum stöðum, og eins þar sem sterk virkjakerfi hafa yerið bygð, er ekki hægt að heyja leifturstríð, það fengum við áð reyna við Dieppe, og það fengu Rússar að reyna við Leningrad í fyrravetur, þeim tókst aldrei að hrinda Þjóðverjum úr virkja kerfi sínu þar. Varnaraðferðir eru líka að verða fullkomnari, en þær voru í byrjun styrjaldarinnar.

Með þessu kvaðst Cyril Faíls alls ekki vera að spá því, að ekki væri hægt að vinna Stalingrad. Hann sagði að alla staði hiætti sigra að lokum En vegna þess, að hún stendur

við Volgu hefir hún orðið Þjóðverjum erfiðari en þeir hafa búist við." http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=105850&pageId=1246850&lang=is&q=Stalingrad

Á síðastnefnda linknum má líka sjá að Gobbels var reiður við svía og skammaði þá:

,,Göbbels reiður við Svía.

Dr. GÖBBELS hefir nýlega ritað grein í þýska blaðið Das Reich segir í frjettum frá Sviss, og segir þar m. a.: ,,Það eru til smáríki í Evrópu sem láta ekkert tækifæri ónotað til þess að láta í ljósi vanþóknun sína á hinu nýja skipun þrátt fyrir það, að þeim hefir ekki verið gert neitt til miska. En það er aftur vegna þess, hvað þau eru hernaðarlega þýðingarlítil og lítilfjörleg yfirleitt."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.5.2014 kl. 20:49

17 identicon

Ukraina tók Þjóðverjum sem frelsisher, en hroki og kinþáttastefna Nasista varð til að þeir nýttu sér ekki þennan sterka bandamann sem þeir höfðu þarna heldur litu á þá sem rik sem þurfti að sópa í burtu. Sorglegt allt, en þarna hefðu þeir haft tækifæri sem hefði kanski breitt gangi sögunar.

Gunnlaugur Sig (IP-tala skráð) 10.5.2014 kl. 21:22

18 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Edit: ,,Að öðru leiti er forvitnilegt að sjá hvað td. blöðin hér heima sögðu um efnið".

Ps. að öðru leiti má sjá af samtímaheimildum og af afstöðu manna á síðari tímum - að menn einfaldlega vanmátu vilja rússa til að fórna sér fyrir móður Rússland.

Nazistar vanmátu þetta líka. Hitler á að hafa sagt að það þyrfti lítið annað en sparka upp hurðinni á Sovétríkjunum - þá myndi húsið hrynja.

Þetta reyndist alrangt. Því lengra sem nazistar fóru inn í landið - því harðari var mótstaðan hægt og bítandi.

Það er með ólíkindum hve rússar/sovét varðist td. við Moskvu, Kursk og víðar. Þrátt fyrir gríðarlegan mátt nazista hersins, þrautþjálfun, fullkomin vopn, og reynslu - þá var framsóknin einhverjir nokkrir kílómetrar stundum á mörgum mörum dögum með miklum áföllum og skaða fyrir nazista herinn miðað við það sem legst af var. Þetta gekk allt vel hjá nazistum í Blítskríg taktíkinni. Þá gekk það fínt. Þeirri taktík var hinsvegar ekki hægt að beita endalaust. Rússar voru svo staðfastir og viljugir til að fórna sér að þeir börðust hús úr húsi í vissum borgum eins og búið er að fara yfir.

Mitt mat í aðalatriðum: Fyrst rússar/sovét voru svo staðráðnir í að verjast og fyrst viljinn var svo gríðarlegur til að fórna sér fyrir móður Rússland - þá var þetta óvinnandi verk hjá nazistum. Nazistar ofmátu genatískan frábærleika sinn og yfirburði yfir aðra.

Þegar trúin eða draumórarnir eru svona óraunhæfir eins og hjá nazistum - þá er voðinn vís. Dramb er falli næst.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.5.2014 kl. 22:36

19 identicon

Mannfall Rússa var ægilegt, fyrri partinn í vörn, seinni partinn í sókn.
Fyrri partinn vegna þess að Þjóðverjar stunduðu útþurrkunarstríð, seinni partinn vegna aðferða Rússa í sókn.
Ekki held ég nú að þeir hafi endilega viljað fórna sér, heldur var svipa kommisaranna skammt undan. Þeir voru að baki og skutu hiklaust menn sem hopuðu í stærri sóknum.
Svipað var í háloftunum, þar sem flugmenn Rússa voru lengst af brytjaðir niður í ótrúlegu magni.
Ég hef aðra niðurstöðu en þú Ómar Bjarki. Þetta var ekki óvinnandi verk hjá nasistum ef vesturveldin hefðu verið utan við jöfnuna. Þeir gengu það nærri Rússum, að það tók nærri tvö ár að skera út um það hvor hefði betur.
En eins og þetta var gert, var það nær óvinnandi, og það skrifast á Hitler að miklu leyti. Þrjú atriði standa upp úr:

1: Innrásin fer af stað nyrst. Það er mánaðar munur á vorkomu nyrst og syðst í Sovétinu.
2: Útrýmingarhernaðurinn að fyrirskipun Hitlers tafði framsóknina mjög.
3: Ákvörðunin um að taka sveiflu til suðurs á undan Moskvu(suðursóknin) kostaði gríðarlegan tíma og nudd, - þetta var aukakrókur upp á þúsundir kílómetra. Guderian varð svo gáttaður að hann flaug rakleiðis til Berlínar til að fá þessa ákvörðun staðfesta svona beint úr hrosstrantinum. Hann var staðfastur til æviloka á því að hefði sókninni verið beint strax á Moskvu, hún tekin, og síðan haldið suður í sumaraukann, þá hefði þetta gengið upp nokkuð auðveldlega.

Svo kom veturinn og drap fleiri Þjóðverja 1941-1942 heldur en rauði herinn. Og enn eitt, - það sem bjargaði Moskvu 1941 voru hersveitir Zhukovs sem sendar voru frá Síberíu. Þær stóðu vörð um víglínuna gagnvart Japönum sem voru jú bandamenn Þjóðverja. En njósnarinn Sorge, staddur í Tókýó, gaf þær upplýsingar á ögurstundu, að Japanir hygðust ekki á landvinninga þar austur frá í bili. Þær reyndust réttar, og gerðu Sovétmönnum kleyft að koma því liði inn í jöfnuna og til gagnárásar í desember 1941. En með áætlun Guderians í góðum gír hefði það ekki hafst. Moskva hefði fallið í Október. Það að "bíta hausinn af snáknum" hefur löngum virkað.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.5.2014 kl. 08:43

20 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir fróðlegt svar, Ómar.

Wilhelm Emilsson, 11.5.2014 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband