Meðmæli ekki sama og yfirlýsing um stuðning í kosningum.

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn bjó yfir skrá yfir alla kjósendur í Reykjavík og voru þar færðar til bókar þær upplýsingar, sem kunnugt var um varðandi stjórnmálaskoðanir kjósendanna.

Enginn flokkur var með neitt viðlíka gott skipulag á kosningabaráttu sinni og Sjallarnir. Ég komst snemma í snertingu við þetta, því að í hverjum kosningum var kosningaskrifstofa á heimili foreldra minna og sumrin 1959 og 1960 var ég starfsmaður á aðalskrifstofu flokksins í Reykjavík, fyrra sumari í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og seinna sumarið í nýrri skrifstofu við Melatorg.

1959 voru tvennar Alþingiskosningar og hin smurða flokks- og kosningavél var keyrð af kunnáttu og nákvæmni.

Þessi sumur skemmti ég á öllum héraðsmótum og helstu fundum flokksins og var því á ferðalagi um landið milli héraðsmóta hálfa vikuna eða rúmlega það og gat því ekki haldist í neinni fastri vinnu, nema að flokkurinn skaffaði mér hana sjálfur.

Einu sinni í einhverjum gassagangi í fjöri á skrifstofunni við Austurvöll datt ég á borð svo að það féll um koll með uppröðuðum um 10 þúsund kjósendum, sem dreifðust um allt gólfið !  

Í fyrst leit út fyrir nokkurra daga vinnutap, en í ljós kom að kjósendurnir höfðu raðast það vel út um gólfið að miklu fljótlegra var að koma þeim í rétta röð á ný en leit út fyrir.

Mér fannst þá mikil mótsögn fólgin í þvi að sá íslenski stjórnmálaflokkur sem gagnrýndi réttilega alræðið, skoðanakúgunina og persónunjósnirnar í kommúnistalöndunum skyldi um leið vera sá flokkur hér á landi, sem reyndi mest allra flokka að njósna sem allra mest um kjósendur.

Og einnig er það mikil mótsögn, að það íslenskt stjórnmálaafl, sem mest og best gagnrýndi það að félagsskírteini í kommúnistaflokki Sovétríkjanna skyldi vera skilyrði fyrir því að starfa í dómskerfinu þar í landi, skuli hafa ráðið yfir dómsmálaráðuneyti Íslands nær samfellt í bráðum heila öld og lagt á það ofuráherslu að í dómskerfið bæri merki um það.

Einn virðist eima eftir af viðleitni til sem mestra njósna um kjósendur og er þessi árátta furðu langlíf.  

Nafn á meðmælendalista segir auk þess ekkert ákveðið um stuðning viðkomandi við einstök framboð, heldur einungis það að hann telji frambjóðendurna á listanum og þar með listann sjálfa boðlegan í kosningunum, burtséð frá þeim stjórnmálaskoðunum sem listinn beitir sér fyrir.

Eina skilyrðið er að meðmælandinn sé á kjörskrá í viðkomandi kjördæmi og að hverjum einum sé ekki heimilt að mæla með nema einum lista.

Í ljósi þessa finnst mér illskiljanlegt að fara að skipta sér af starfi kjörstjórnar og hnýsast í meðmælendalistana.


mbl.is Hluti af gamalli og úreltri pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þarfagreinir

Er þetta ekki bara fyrst og fremst af því viðkomandi getur hnýst í þetta?

Sem oddviti framboðs í Reykjavík get ég upplýst að engan veginn er gætt að því að hálfu kjörstjórna að tryggja að framboð og þeir sem skrifa undir meðmælalista séu upplýst um stöðu þessara gagna og hvernig þau gætu verið notuð. Í leiðbeiningum til framboða kemur þetta hvergi fram og þetta kemur ekki fram á þeim eyðublöðum sem framboðum er boðið til útprentunar. Þetta kemur að vísu fram á öðrum stað á kosningavef innanríkisráðuneytisins en það dugir skammt þegar um er að ræða hluti sem sumum er annt, að vita hvað er gert eða gæti verið gert við þau gögn sem fólk lætur frá sér. Þarna tel ég aðalbrotalömina vera.

Þarfagreinir, 11.5.2014 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband