Dýr bera oft nöfn með reisn.

Nöfn dýra geta oft verið stór hluti af sambandi þeirra við umhverfi sitt eins og nafn verðlaunahanans Ólafs Ragnars ber vitni um.

Þegar ég var í sveit hétu kettirnir nöfnunum Eisenhower og Stevenson og báru þessi nöfn með sóma.

Var sá fyrrnefndi ötull við það hlutverk sitt að herja á rottur og mýs.

Heimilisköttur á heimili okkar Helgu um árabil hét Carl Möller og gaf hinum mennska nafna sínum lítið eftir hvað snerti persónuleika og góð áhrif á alla, sem kynntust þessu magnaða dýri.

Í Hvammi voru landnámshænsn og vel man ég eftir því hvað hænan Tuðra var sérlega glæsileg.

Ég og Dinni (Birnir Bjarnason), sem vorum 13 ára síðasta sumarið sem við vorum báðir á bænum, bjuggum til í miklum hugarspuna heilmikið félags- og stjórnmálalíf dýranna á bænum.

Þetta var sumarið 1953 þegar kosið var til Alþingis og við spunnum upp kosningar til Hvammþings dýranna. Tuðra var formaður hæsnafélagsins en afburðakýrin Branda var forseti bandalags dýrafélaganna.

Hún var stærsta kýrin, mjólkaði mest og þeirra langvitrust. Hún var á fremsta básnum og gekk fyrst út á morgnana og inn á kvöldin. Í haganum var hún mögnuð forystukýr, gekk ævinlega fremst upp í fjall og til baka og réði þvi hvar þær bitu gras.

Sumir segja að nautgripir séu heimskir og notað er orðið nautheimskur um vitgranna menn. Samt höfðu þessir gripir í Hvammi vit á því að láta heildina nýta sér hæfileika afburðakýrinnar Bröndu.   


mbl.is Sýna Ólafi Ragnari litla virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 24.5.2014 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband