Meira en 95% aldrifsbíla aldrei ekið á malarvegi.

Nokkur lönd í Evrópu skáru sig lengi vel úr varðandi hlutfall malarvega í vegakerfi þeirra. Einna verst var ástandið á Íslandi en í Finnlandi var meira en helmingur vegakerfisins malarvegir fram á níunda áratug síðustu aldar.

Vegakerfið í Rússlandi var líka lengi með stórt hlutfall malarvega þótt mér sé ekki kunnugt um prósentutöluna.

Afleiðingar þessa sáust í ýmsu. Á sínum tíma fékk ég að kynnast malarvegakerfinu í Finnlandi í aksturskeppni á malarvegum þar, sem voru krókóttir og með sérstaklega mörgum blindhæðum.

Þessar aðstæður löðuðu fram hæfileikaríka rallökumenn, sem urðu heimsmeistarar og margfaldir meistarar og fengu viðurnefnið "fljúgandi Finnarnir", og enn í dag eru svona aðstæður á frægustu sérleiðum Þúsund vatna rallsins, sem er liður í heimsmeistarakeppninni ár hvert og eru sömu sérleiðirngar og ég kynntist 1985.

Norðmenn tóku þá ákvörðun að láta malbikun vega hafa forgang fram yfir aðrar vegaumbætur og því er furðu stór hluti norska vegakerfisins með merkilega mjóum, krókóttum og varasömum vegum, þótt malbikaðir séu.

Rússneskir vegir eru enn mjög lélegir og 2006 undraðist ég hvað vegurinn milli milljónaborganna Moskvu og St. Pétursborgar var enn í ótrúlega lélegu standi.

Á nokkrum landsvæðum Evrópu er enga malarvegi að finna. Hið árlega Korsíkurall, sem er liður í HM, fer eingöngu fram á malbiki.

Þegar jepplingar urðu einhver vinsælasti og ábatasamasti hluti bílaframleiðslunnar komust framleiðendur fljótlega að því í skoðanakönnunum að meira en 95% aldrifsbílanna og jepplinganna fóru aldrei útaf malbikinu.

Stuttar heimreiðir að sumarbústöðum eru yfirleitt eknar á litlum hraða og reyna því ekkert á hæfni ökumanna og getu bílsins.

Afleiðingin af þessu varð sú að jepplingarnir urðu lægri og hægt var að fá þá með framdrifi eingöngu.

Við hleðslu síga þeir niður og missa veghæðina, sem er oft nauðsynleg á lélegum vegum og slóðum og í snjó.  

Nú eru sumir svona bíla ófáanlegir með aldrifi, heldur eingöngu framleiddir með framdrifi, svo sem Renault Captur.

Við það lækkar verð bílsins og kaupendurnir láta það nægja að hann lítur út eins og jepplingur og er flottur bíll, þar sem setið er aðeins hærra og rými örlítið betra en ef bíllinn væri lægri en samt af sömu stærð.

Hlutfall malarvega og frumstæðra vegaslóða er enn hátt hér á landi og í myndinni Akstur í óbyggðum sem sýnd var í Sjónvarpinu í gærkvöldi var því nauðsynlegt að mínu mati að fjalla svolítið um þetta atriði auk annarra atriða sem geta dregið úr vandræðum, óhöppum og skemmdum á viðkvæmu landi.     

 


mbl.is „Aldrei á sinni ævi ekið á malarvegi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband