Honda nálægt sigri í torfærukeppni.

Honda haslaði sér upphaflega völl með vélhjólum, en þegar verksmiðjan sneri sér að bílaframleiðslu urðu minnstu bílarnir fyrir valinu, Honda 360 og 600, sem eins og nafnið bendir til voru með 360cc og 600cc smávélum sem mikið afl var kreist út úr.

Bílarnir voru 5 sentimetrum styttri en Mini og 11 sentimetrum mjórri.

En aðeins stærri bíll, Honda Civic, var bílinn sem sló í gegn um allan heim. Síðar stækkaði hann og stækkaði eftir því sem tryggir eigendur urðu eldri og efnaðri. 

Honda er trú þessum uppruna með þvi að framleiða smáþotu. Lear og siðar Cessna Citation voru brautryðjendur í smíði slíkra þotna á 7. og 8. áratugnum, en Lear hvarf og Citation fór að stækka.

Fyrir um aldarfjórðungi innleiddi Árni Kópsson byltingu í torfærukeppni hér á landi með því að koma með alveg nýja hugsun í sérsmíðuðum bílum sem fékk nafnið Heimasætan.

Árni áttaði sig á gildi þess að enda þótt hátt þyrfti að vera undir bílinn væri mikilvægt að þyngdarpunktur hans væri sem neðst og næst miðjunni og sem fjærst öllum hjólunum.

Heimasætan var því með langt á milli hjóla, sem voru alveg úti í hornum bílsins og vélin var alveg fyrir aftan framöxul.

Ökumaðurinn sat lágt og nálægt afturhjóliunu og hafði því góða yfirsýn yfir stöðu bílsins en það gat bitnað á því að sjá það sem væri næst framendanum.

Vélin var í grunninn V-8 "small-block" af þrautreyndri amerískri gerð og "tjúnuð" upp í mörg hundruð hestöfl eftir bandarískri fyrirmynd eftir kúnstarinnar reglum með turbó og nítróinnspýtingu.

Sagt er að sá kraftmesti í Egilsstaðatorfærunni í gær hafi haft yfir á annað þúsund hestöflum að ráð, að vísu í stutta stund í einu.

Þegar ég kom á svæðið í fyrradag vakti hins vegar sérstaka athygli mína bíll, sem mér sýndist strax að gaman yrði að fylgjast með.

Höfuðatriði þess var gerólík uppsetning, miðjumótor fyrir aftan ökumannssætið.

Eins og glöggt sést í Formúlunni og með því að skoða frábærustu sportbíla heims er þetta besta fyrirkomulagið, af þvi að þyngstu hlutum bílsins er komið fyrir í miðju hans.

Um vélina í bílnum notuðu sumir orðið móðgun, því að hún var minna en helmingur að rúmtaki V-8 vélanna í hinum bílunum, 2,4 lítra fjögurra strokka Honda.

Margt annað var ekki frá Honda, svo sem skiptingin sem var frá Chrysler.  

Fljótlega komu í ljós kostir þessa bíls Guðna Grímssonar, sem bar nafnið Kubbur. Aðal kosturinn er léttleikinn, aðeins rúmlega 1000 kíló, en flestir hinna voru um 500 kílóum þyngri.

Þrautirnar voru sex og þegar fimm var lokið, var Hondan með nauma 20 stiga forystu, en í síðustu þrautinni, tímaþrautinni, gafst Chrysler sjálfskiptingin upp og Kubburinn og Guðni Grímsson duttu niður í annað sætið.

Sigurvegarinn, "Kórdrengurinn" sem var smíðaður með gamla laginu, var léttastur hinna bílanna og kostir þess birtust í árangrinum, auk þess sem Snorri Þór Árnason sýndi snilldartakta og sýndi, að Íslandsmeistaratilillinn í fyrra var ekki tilviljun ein.

Snorri náði langbestum tíma í hraðaþrautinni og hefði líklega komist hvort eð er upp fyrir Guðna.  

En það verður gaman að sjá hvort "Formúlu"-formúlan á torfærubíl á erindi í torfærukeppnina og byltir þar kannski álíka miklu og Heimasæta Árna Kópssonar gerði á sínum tíma.

Enn hefur ekki verið hægt að leysa það viðfangsefni að vera með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, en aldrei er að vita nema það muni gerast þótt síðar verði.  

  


mbl.is Honda framleiðir einkaþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Markaður fyrir einkaþotur virðist góður, þrátt fyrir að okkar ofurmenni, "poets of enterprise", séu fótgangandi og haltir.

"Pilatus Aircraft of Switzerland" framleiðir PC-24 einkaþotu með frábæra eiginleika.

Vélin er „certified for single-pilot operation“.

 

Þjóðin ætti að gefa Ómari Ragnarssyni PC-24. 

http://www.pilatus-aircraft.com/#275

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.6.2014 kl. 19:20

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mín draumaflugvél er gömul lítil tveggja hreyfla vél af Cessna 336 gerð á stórum dekkjum með Robertson STOL búnaði.

Ómar Ragnarsson, 29.6.2014 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband