Kunnuglegar fréttir.

Kunnuglegar fréttir og fyrirsagnir má sjá í fjölmiðlum um þessar mundir. Líkt og 2003 á að dæla peningum út til þeirra sem helst hafa tekjur og vilja til að eyða þeim svo að hagkerfið lifni heldur betur.

Nú á að reisa hærri turna en í gróðærinu mikla og stærstu byggingarkranar Íslandssögunnar koma til skjalanna um þessar mundir.

2,5 % hagvöxtur er ekki nóg, heldur er að sjálfsögðu stefnt að 3,5% hagvexti. Skortur er á fólki til starfa og gullæðisglampar sjást í augum margra þeirra sem ætla að sópa sem mestum fjármunum í ferðamannasprengjunni, skítt veri með það hvernig farið verður með landið eða umgengnin verður og hvaða áhrif það hefur til frambúðar á náttúruverðmætin og orðspor okkar.

Þetta er alls ekki nóg, því að eftir sem áður er í fullu gildi fyrsta verkefnið, sem ríkisstjórnin auglýsti á fyrsta vinnudegi sínum og lýsti yfir einróma stuðningi við, risaálver í Helguvík með tilheyrandi virkjunum um helming landsins, og sem allra flest erlend fyrirtæki í orkufrekum iðnaði.

Það vantar bara að drífa fram að nýju gömlu kosningaspjöldin "Árangur áfram - ekkert stopp!" og "Traust efnahagsstjórn frá árinu 2007 til að myndin sé fullkomnuð.

Ef svipaðar efasemdarraddir heyrast nú og hér um árið eru þar aftur komnir "úrtölumenn", "kverúlantar", "þeir, sem vilja að við förum aftur inn í torfkofana".

Séu þetta útlendingar eru þeir auðvitað "öfundarmenn" og ef þeir kunna eitthvað fyrir sér, "þurfa þeir væntanlega að fara í endurhæfingu".

Sífellt meiri líkur eru á átökum á vinnumarkaði í haust með tilheyrandi afleiðingum, hinum gömlu kunningjum verðbólgu og gengisfellingu krónunnar.   

  


mbl.is Skortur á rútubílstjórum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Frétt úr DV, 27. apríl, 2012:

„Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og formaður stjórnlagaráðs, segir Íslendinga ekki hafa dregið þann lærdóm af hruninu sem ætla mætti. „Ég var að vonast til að þjóðin drægi lærdóm af hruninu, tæki því alvarlega og það yrði hvati til breytinga. Við erum hins vegar ekki að draga þann lærdóm af hruninu sem við þyrftum,“ segir hún í viðtali við Fréttablaðið."

Ég man óttann og skelfinguna rétt eftir hrun. Þjóðin var allt í einu orðin „hnípin þjóð í vanda". Ég hafði aldrei upplifað slíkt áður. En vegna þess að „þetta reddaðist allt" að lokum er líklegt að lærdómurinn sem hægt er að draga af hruninu verði miklu minni en margir bjuggust við. Og því lengra sem líður frá hruni minnka líkurnar á því.

Ég leyfi mér að vitna í Hjalta Hugason, kennara við HÍ. Hann skrifar þetta 1. mars 2012:

„Verður kosið um sögutúlkun?

Mörg okkar líta svo á að Hrunið verði í framtíðinni talið einn af stóratburðum sögu okkar á hinni nýbyrjuðu öld og í því hafi fjármálakerfi okkar ekki aðeins lagst á hliðina heldur hafi Hrunið verið stóratburður er haft hafi áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og um margt skekið undirstöður samfélagsins. Afleiðingar þessara atburða eru þó enn ekki komnar fram að öllu leyti og enn of snemmt að kveða upp sögulega dóma sem ætla má að standist tímans tönn. Þá er það líka mat okkar margra að Hrunið hafi ekki verið „náttúruhamfarir“ og ekki einvörðungu verið hluti af alþjóðlegri lánsfjárkreppu heldur átt sér sértækari, innlendar orsakir sem helst sé að leita í þeirri stjórnmálastefnu sem hér var drottnandi allt frá síðustu áratugum 20. aldar. Þetta mat á sér stoð í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ýmsir þættir málsins eru þó enn í rannsókn m.a. hjá embætti sérstaks saksóknara. Skjalasafn þess verður í framtíðinni mikilvægt við sagnfræðilegar rannsóknir.

Svo eru aðrir sem skoða málið út frá allt annari hlið. Æ oftar heyrist nú frasinn: „Hið svokallaða hrun“. Í hvert sinn sem við heyrum hann verðum við að muna að þar er sögutúlkun á ferð. Í orðunum felst smætting á Hruninu. Það er litið á það sem storm í vatnsglasi, smáatburð og í raun aðeins óhjákvæmilegan eftirskjálfta af alþjóðlegri þróun hlaut að gera vart við sig hér á landi eins og annars staðar.

Milli þessara tveggja sjónarmiða liggur víglína um söguna. Í næstu kosningum verður að meira eða minna leyti kosið um sögutúlkun. Það verða greidd atkvæði um „Hrunið“ eða „hið svokallaða hrun“. Þetta er meira en leikur að orðum."

Wilhelm Emilsson, 6.7.2014 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband