Gott hjá Páli. Umræðan hefur verið allt of grunn.

Frá upphafi á þessarar bloggsíðu hefur mátt sjá heilann haug af athugasemdum "kuldatrúarmanna" þar sem þeir hafa tínt til allt tiltækt til að afsanna það, sem 95% vísindamanna telja öruggt og hefur aldrei verið staðhæft ákveðnara en nú í síðustu skýrslunni, sem gefin er út af Saneinuðu þjóðunum, að mannkynið er valdur að hlýnun lofthjúps jarðara sem er með margfalt fleiri og særri neikvæðar afleiðingar en jákvæðar.

Enginn deilir um það að magn koltvísýrings í lofthjúpnum og þar með gróðurhúsaáhrif hans hafa ekki verið meiri í 800 þúsund ár. 

Kuldatrúarmenn hafa hins vegar í öll þessi ár barið hausnum við steininn og verið alveg makalaust iðnir við að leita uppi ýmsar sveiflur og afbrigði frá meginþróuninni til þess að sanna að í raun fari loftslag kólnandi ef eitthvað er og að engar sveiflur séu af mannavöldum.

Hefur áður verið bent á það hér á síðunni hve óskaplega þröng sjónarhorn menn hafa notað í þessum sparðatíningi til að afsanna þá meginþróun sem sést vel á því þegar skoðuð er meðaltalslína dregin í gegnum toppa og botna sveiflna síðustu 150 ára og sýnir vel hina almennu þróun.

Þegar í upphafi á notkun tölvuforrita til þess að spá fyrir um afleiðingar útblástursins var þess getið, að á einstökum svæðum, svo sem í norðvesturhluta Evrópu, gætu afleiðingarnar orðið kólnun, en að langlíklegast yrði um mikla aukningu úrkomu að ræða.

Einstök frávik gætu líka orðið öðruvísi og annars staðar en tölvulíkönin kunna að spá, og sömuleiðis hefur verið mjög athyglisverð kenningin um að mikill vöxtur á hreinu vatni, sem streymir frá bráðnandi jöklum út í Norður-Atlantshafið geti truflað hringekju sjávarstrauma sem Golfstraumurinn er hluti af, og þar með valdið stórkostlegum hitabreytingum sem birst gætu í skaðlegri kólnun sem truflun á Golfstraumnum hefði í för með sér.

Því er kærkomið að Páll Bergþórsson lyfti umræðunni aðeins upp fyrir þröngssýna skammtímahugsunina sem mikið hefur verið beitt í rökræðum og vangaveltum um þessi mikilsverðu mál.

Of sjaldan er minnst á aðalatriði málsins og byggist á reynslu manna af því að ráðskast stórkarlalega með náttúruna sem oft hefur haft hörmulegar afleiðingar, svo sem eins þegar Sovétmenn ollu stórtjóni með stórfelldum vatnaflutningum á suðurjaðri ríkisins sem áttu að skapa mikil ræktarlönd en ollu gríðarlegri jarðvegseyðingu.

Þetta aðalatriði er einfaldlega það forðast að rugga bátnum of mikið, einkum þar sem um afar flókin og stór álitamál er að ræða eins og loftslagsbreytingar af mannavöldum.   

 


mbl.is Tali ekki bara um hlýnunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Auðvitað eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hrifnir af mengun.

Þorsteinn Briem, 3.11.2014 kl. 20:42

2 identicon

Og eftir þessa messu signdi presturinn sig og fórnaði 10 geitum til að friða veðurguðina. Minna mátti það ekki vera samkvæmt virtustu vísindamönnum og reynslu aldanna. Elstu menn mundu ekki annað eins veðurfar og því var augljóst að eitthvað hafði ættbálkurinn gert til að vekja reiði guðanna. Nú reið á að hverfa til hinna fornu gilda og láta af nýjum siðum sem guðunum voru ekki þóknanlegir. Rök efasemdarmanna höfðu endanlega verið afsönnuð, veður batnar þegar geitum er fórnað.

Hannes (IP-tala skráð) 3.11.2014 kl. 21:22

3 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Trúarþörf mannsins virðist vera honum eðlislæg. Þegar hefðbundin trúarbrögð gefa eftir á Vesturlöndum, taka önnur við. Nýaldartrú var mikið í tísku fyrir nokkrum árum, vísindatrú og trú á hlýnun af mannavöldum er nú mest áberandi.

Mörgum trúarbrögðum fylgja líka dómsdagsspámenn, iðrist og þér munuð bjargast.

Vísindamenn og aðrir sem benda á staðreyndir sem stangast á við það sem trúað er, eru afgreiddir sem afneitunarsinnar, málpípur djöfullegra olíufélaga eða þaðan af verra.

Óumdeilt er að það hefur hlýnað á jörðinni síðustu 100  árin, óumdeilt er líka að losun af CO2 hefur farið jafnt og þetta vaxandi allan þennan tíma.  Samt kom tímabil milli 1945 og 1975 sem kólnaði samfellt á jörðinni. Til er myndskeið frá BBC ca. 1975 þar sem Magnús Magnússon sjónvarpsmaður stendur upp á fjallstoppi og lýsir miklum áhyggjum vísindamanna af því að jörðin stefni í kjarnorkuvetur vegna mengunar mannanna.

Síðan komu nokkur ár þar sem hlýnaði en síðustu 15 árin eða svo hefur ekkert hlýnað.

Ljóst er af þessu að ekkert beint samband er milli losunar CO2 og hlýnunar. Það hljóta að vera einhverjir aðrir þættir, náttúrulegir líklegast, sem sveifla hitanum á jörðinni. Fjöldi kenninga er á lofti um hvað veldur. Augljóslega geta þær ekki allar verið réttar. Þangað til áhrif þessara náttúrulegu þátta hafa verið skýrð er útilokað að fullyrða um áhrif mannsins.

Fyrir nokkrum árum lét Þór Jakobsson veðurfræðingur hafa það eftir sér í Viðskiptablaðinu að hann teldi að 10-15% hlýnunar stafaði af mannavöldum. Trausti Jónsson vildi ekkert fullyrða um hlut manna í hlýnun. Nú stígur Páll Bergþórsson fram með enn eina kenninguna um áhrif náttúrulegra sveiflna.

Ef það er eitthvað sem hægt er að lesa úr loftslagssögu jarðar er að hitinn hefur alltaf verið að sveiflast, aldrei sá sami til lengdar. Hvernig menn fara að því að lesa úr fyrirliggjandi gögnum að hitinn stýrist að mestu leyti af mannavöldum er mér ráðgáta.

Helst má ímynda sér að þetta stafi af oftrú manna á vísindum, kannski skiljanlegt í ljós mikilla vísindafreka sem unnin hafa verið.

Nú höfum við staðfest dæmi um heila fræðigrein sem lenti á villigötum, hagfræðina. Hagfræðingar sem höfðu áhyggjur af alheims efnahagskreppu árin fyrir 2008 voru afgreiddir sem sérvitringar sem vissu ekki hvað þeir væru að tala um. Yfirgnæfandi meirihluti virtra hagfræðinga var sannfærður um að framfarir í efnahagsstjórn gerðu slíkt óhugsandi. Raunveruleikinn reyndist annar. Hver getur fullyrt að loftslagsfræðingar séu ekki líka á villigötum?

Finnur Hrafn Jónsson, 3.11.2014 kl. 21:39

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu eigum við að menga sem mest vegna þess að "loftslagsfræðingar séu hugsanlega á villigötum".

Þorsteinn Briem, 3.11.2014 kl. 21:50

5 Smámynd: Már Elíson

"Hver getur fullyrt að loftslagsfræðingar séu ekki líka á villigötum"? - Þú meinar..."Hver getur fullyrt að loftslagsfræðingar séu á villigötum.."? - Ekki satt ? - Hvað ert þú annars að gera á daginn, herra blindi "besservisser" ? - Þetta er greinilega ekki þitt fag.

Már Elíson, 3.11.2014 kl. 21:51

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Már Elíson er greinilega gæsalappafræðingur.

Gæti best trúað að hann fari að flytja út "íslenskar gæsalappir".

Þorsteinn Briem, 3.11.2014 kl. 22:01

9 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ahugasemd Finns Hrafns er aldeilis frábær og ætti að fara víðar.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.11.2014 kl. 22:56

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Eitt sinn andmæltu 100 vísindamenn kenningum Einsteins í kveri sem nefndist "Hundert Autoren Gegen Einstein". Þegar Einstein sá það varð honum að orði "Hvers vegna 100 höfundar, hafi ég haft rangt fyrir mér, þá hefði einn nægt".  Þessir hundraðmenningar hlupu auðvitað rækilega á sig. Sjálfsagt hafa þeir orðið að ganga með veggjum næstu árin.

Það er ekki alltaf sem fjöldinn ræður í vísindum eins og dæmin sanna. Í vísindaheiminum er "samdóma álit" oft byggt á hjarðhugsun. Menn greiða einfaldlega ekki atkvæði um hvað sé rétt eða rangt í vísindum.  Það eru hinir sterku og heiðarlegu sem að lokum standa uppi sem sigurvegarar. Einstein var aðeins einn þeirra.


http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/img/100_gegen_einstein-400w.jpg





Ágúst H Bjarnason, 3.11.2014 kl. 23:06

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Alveg makalausir gaurar þessir afneitarar hlýnunar Jarðar af mannavöldum.

Maður skildi ætla að þeir mundu hugsa sinn gang pínulítið við síðustu fréttir - en nei!

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.11.2014 kl. 23:22

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ágúst H Bjarnason er sterkur og heiðarlegur.

Gleymum því ekki börnin mín stór og smá.

Mengum sem mest.

Þorsteinn Briem, 3.11.2014 kl. 23:25

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Finnur segir réttilega hér að ofan að það sé óumdeilt að hiti jarðar hafi farið hækkandi sl. 100 ár og líka að losun CO2 hafi farið jafnt og þétt vaxandi allan þennan tíma. Samt talar hann um að ekkert beint samband sé milli CO2 og hlýnunar. Þetta finnst mér ekki vera eðlileg ályktun því það hefur akkúrat hlýnað eins og óumdeilt er þótt hún sé ekki stöðug. Hlýnunin hefur átt sér stað með afgerandi tímabilum hlýnunar og tímabilum stöðnunar á milli, en aldrei með afgerandi kólnunartímabilum, þótt kólnað hafi stundum á milli ára. 

Auðvitað eru alltaf einhverjir náttúrulegir þættir sem hafa áhrif til kólnunar og hlýnunar. Það er ekkert umdeild heldur. Því má alveg álykta að vegna aukins útblástur CO2 þá hafi farið í gang undirliggjandi hlýnun sem magnar upp hlýnunartímabilin og að sama skapi vinnur gegn kólnunartímabilum. Niðurstaðan í heild er því hlýnun þegar til lengri tíma er litið.

Ef allt þetta tal um hnattræna hlýnun vegna uppsöfnunar CO2 er bara einhver vitleysa þá hlýtur að fara að koma að því að það fari að kólna almennilega á jörðinni, sem er reyndar ekki að gerast núna og ekkert sem bendir til þess á næstunni. Árið 2014 stefnir t.d í að vera með allra hlýjustu árum - verður jafnvel það allra hlýjasta á jörðinni síðan mælingar hófust. En það má alltaf bíða eftir kólnuninni, með þolinmæði.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.11.2014 kl. 00:08

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu snýst málið ekki um mengun, heldur hver hafði rétt fyrir sér um hlýnun, kólnun eða hvorugt.

Mengum sem mest.

Þorsteinn Briem, 4.11.2014 kl. 00:15

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

(Halldór Laxness, Innansveitarkronika.)

Þorsteinn Briem, 4.11.2014 kl. 00:19

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Smjörklípa er hugtak sem Davíð Oddsson kom í umferð og er notað yfir þá aðferð í opinberri umræðu að beina athyglinni frá eigin vandamálum eða athöfnum með því að benda á eitthvað annað bitastæðara.

Hugtakið er rakið til Kastljóssþáttar 3. september 2006 en þar var Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri spurður um aðferðir sem hefðu gagnast honum í pólitík.

Hann sagði þá sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilisköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum í smá tíma."

Þorsteinn Briem, 4.11.2014 kl. 00:24

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg verð að segja það - að eg botna barasta ekkert í tali þeirra sem afneita hlýnun af mannavöldum. Það er ekki heil brú í tali þeirra. Það er líka engu líkara en þeir skilji ekki um hvað málið snýst.

Þetta á við fleiri mál. Eg botna td. ekk neitt í tali ESB-hatara. Skil ekki hvernig fólk getur fengist til að hatast útí samband eins og ESB og vera sínkt og heilagt alla daga að snúa öllu á haus varðandi það efni.

Jafnframt botna eg ekkert í muslimatali sumra. O.s.frv.

Ennfremur skil eg alls ekki hve algengt er meðal íslendinga að hatast útí Jafnaðarprinsipp pólitískt séð. Mjög sérkennilegt.

Oft fara þessi 4 ofannefnd atriði saman hjá sömu mönnunum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.11.2014 kl. 00:46

18 identicon

The Coming Ice Age - 1978

 http://www.youtube.com/watch?v=1kGB5MMIAVA

 1970s Global Cooling Scare

 http://www.youtube.com/watch?v=tUYnHxtFYlM

 Global Cooling 40 Years Ago!

 http://www.youtube.com/watch?v=Zr2vXCg0h0c

 1970s Global Cooling Scare - Continued Terror

 http://www.youtube.com/watch?v=116WFc3Gmko

 George Carlin on Global Warming

 http://www.youtube.com/watch?v=BB0aFPXr4n4

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 4.11.2014 kl. 11:24

19 identicon

gott hjá Páli global warming will make the coming winters colder

 Athugasemd Finns Hrafns er goð

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 4.11.2014 kl. 11:41

20 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Páll er ekkert að mótmæla hlýnun Jarðar af mannavöldum.

Meginatriðið í athugasemd Finns er að hann viðurkennir í raun hlýnun af mannavöldum - óvart.

Þið bullið svo mikið hlýnunarafneitar að bullið nær álíka stigum og hjá Anti-ESB bullurum. Hvergi heil brú í ykkar máli. Bara bull.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.11.2014 kl. 12:13

21 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það vantar aðeins í grein Finns að benda á að af þeim koltvísýringi (CO2), þessum mikla skaðvaldi, sem áætlað er að mannkyn hafi losað frá upphafi hefur meira en 25% losunar átt sér stað eftir 1998, á sama tíma og lofthitastig jarðar hefur staðið í stað.

Páll segir ennfremur m.a. sjálfur: "Það hlýn­ar ekki í hlut­falli við kolt­ví­sýr­ing­inn sem safn­ast í lofti því það koma til aðrar mikl­ar nátt­úru­leg­ar hita­bylgj­ur sem hafa staðið í mörg hundruð ár." [feitletrun og undirstrikun mín]

En vitanlega á ekki að sérvelja svona einstök ummæli úr innihaldsmeiri texta eins og hjá Páli því breytingaferli loftslags er mun flóknara en haldið hefur verið fram af SÞ til þessa, og það tölvulíkan er ekki til sem getur spáð rétt fyrir um þróun hitastigs á jörðunni í framtíðinni. Þau geta aðeins hermt eftir aðstæðum fortíðar og því aðeins með sífelldum breytingum á forsendum til að aðlaga sig að mismunandi aðstæðum á hverjum tíma. (Hef reyndar séð því fleygt að stærfræðilíkan (loftslagslíkan) með fleiri en 5 breytum geti hermt eftir hvað aðstæðum sem er). Svo mikið er nú að marka það sem frá þeim kemur.

Þá er líka rétt að benda á að loftslagskýrsla SÞ tekur reglulegum breytingum. Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafa verið frá fyrstu útgáfu er áætlaður líftími CO2 í andrúmslofti. Í fyrstu útgáfunni var hann sagður 50-200 ár. Í nýjustu útgáfunni er hann orðinn 5-200 ár. Neðri mörk hafa lækkað umtalsvert. Hver verður líftíminn áætlaður næst?

Engu að síður berja menn sér hér á brjóst með tilvísunum um að "Ég skrifað svo og svo lengi..." og tala svo niður til þeirra sem ekki eru þeim sammála og lýsa efasemdum, uppnefna sem kuldatrúarmenn, segja þá berja hausnum við steininn og tala um sparðatíning, og veifa þessari staðhæfingu um samþykki 95% vísindamanna, sem löngu hefur verið kveðin í kútinn og auðvelt er að finna á netinu.

Samt fíflast menn áfram, "Ég hef skrifað svo mikið...", og "Ég hef rétt fyrir mér en ekki þið", þó ekki sé notað beint þetta orðalag sem ég geri hér. 

Það er einfaldlega full ástæða til að efast um þessi ætluðu afgerandi áhrif koltísýrings á loftslag þegar engar hitabreytingar eru mælanlegar svo árum skipti, þvert á útkomu allra tölvulíkana sem hafa verið notuð til að spá fyrir um loftslag og vinna með koltvísýring sem aðalbreytuna. Og menn eiga bera virðingu fyrir þeim rökum en ekki gera gys að með nýyrðasmíði.

Erlingur Alfreð Jónsson, 4.11.2014 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband