Skásti leikurinn í stöðunni hjá Bjarna, en þó ekki nýjung.

Bjarni Benediktsson stóð frammi fyrir erfiðu vali á ráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Í þingflokknum stóð valdið á milli nokkurra sterkra kandídata og líklegt mátti telja var að þeir þeirra, sem ekki fengju djobbið, yrðu ekki ánægðir með það og því síður fylgismenn þeirra.

Konur yrðu óánægðar með það ef slagsíða á milli karla og kvenna í ríkisstjórninni ykist og ekki yrði ánægja með það að enginn ráðherra kæmi úr Reykjavík úr því að Hanna Birna hafði komið þaðan.

Í bollaleggingum manna um málið datt engum í hug að Bjarni myndi leita út fyrir þingflokkinn.

Samt var fordæmi fyrir hliðstæðu þegar Davíð Oddsson leitaði út fyrir borgarstjórnaflokk Sjálfstæðismanna 1991 til að velja sem eftirmann sinn á borgarstjórnarstóli.

Valið núna var hliðstætt valinu 1991 að í bæði skiptin var leitað til manneskju, sem hafði áður verið framarlega í forystu flokksins en þó ekki gegnt embættinu sem í boði var.

Markús Örn Antonsson hafði verið forseti borgarstjórnar en farið úr borgarpólitíkinn yfir í starf útvarpsstjóra. Innan borgarstjórnarflokksins stóð valið einkum á milli Árna Sigfússonar og Katrínar Fjeldsted, gott ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kom ekki líka til greina, en Davíð átti erfitt með valið og virðist hafa óttast, að ef hann gerði upp á milli þeirra kynni það að valda sárindum. 

Ef ekkert þeirra var valið gat gamla máltækið gilt að "sætt er sameiginlegt skipbrot." 

Og það er ekki langt síðan Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður auk þess sem hún hafði setið í þingnefndum þar sem málefni innanríkisráðuneytisins komu inn á borðið. Einnig starfað um hríð í samgönguráðuneytinu.

Hún er lögfræðingur og heppileg til þess að skila dómsmálaráðuneytinu á tryggan hátt að nýju í hendur Sjálfstæðismanna. 

Sem sagt: Öflugur stjórnmálamaður. 

 

Auðveldara var að ná algerri samstöðu í þingflokknum ef komist var hjá því að gera upp á milli þingmanna.

Þótt aðferðin nú sé svipuð og hjá Davíð 1991 er ekki víst að það spilist eins úr henni nú og þá.

1991 spilaðist ekki vel úr stöðunni því að þá sá enginn það fyrir, að fyrsta sameiginlega framboð minnihlutaflokkanna myndi verða til og gerbreyta hinu pólitíska landslagi í Reykjavík svo mjög til frambúðar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei borið sitt bar þar eftir það í höfuðborginni.

Ekki ætti að vera ástæða til þess nú að óttast neitt hliðstætt nú þótt auðvitað sé ævinlega erfitt að spá fyrir framvindu í stjórnmálum.   

 


mbl.is Ólöf: Ákvörðunin lá fyrir í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Næsta lítið nýjabrum,
nýtist þó til verka,
Ómars karlsins ekkert skrum,
afar telur merka.

Þorsteinn Briem, 5.12.2014 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband