Göngum hægt um gleðinnar dyr. Skoðum staðreyndir.

Í Barcelona á Spáni hefur myndast öflug hreyfing borgarbúa, sem andæfa því að mannlíf í stórum hluta borgarinnar hefur verið deytt að stórum hluta vegna skefjalauss gullgrafaraæði í ferðamennsku. 

Svipað er að gerast gömlu miðborginni okkar í Reykjavík. Nú þegar hefur borgarbragurinn gerbreyst þannig að vissa daga yfir sumartímann er maður hættur að hitta Íslendinga í gamla miðbænum, - þetta er erlend borg.

En margir útlendinganna eru komnir hingað til að kynnast íslensku þjóðlífi.  

Fleira fylgir hinni skefjalausu hótelvæðingu. Sum hótelanna þurfa lóðir, þar sem nú eru bílastæði. Þeim fækkar þegar hótelið er risið, en þriðjungur hótelgestanna er á bílaleigubílum! 

Hvar eiga þeir að fá stæði? Ef útlendingarnir væru á reiðhjólum kæmu nýju hjólastígarnir sér vel. En ferðamannirnir eru ekki á reiðhjólum. 

Við sum hótelin hafa breytingar á götum og gangstéttum komið í veg fyrir að rútur komist að þeim og frá með töskurnar sínar. Þeir sem eru í rútunum eru ekki á reiðhjólum. 

Enn skortir mikið upp á að bílastæðahús borgarinnar séu fullnýtt. Fólk kvartar yfir því að stæðin í þeim séu dýr. 

Í Santa Barbara í Kaliforníu fóru menn þá leið til að endurlífga miðborgina að reisa 15 bílastæðahús og ókeypis er í þau öll í 90 mínútur fyrir hvern bíl. 

Miðborgin lifnaði við og er á ný iðandi af lífi. Þetta var kynnt fyrir mér þegar ég var þar á ferð fyrir nokkrum árum. 


mbl.is Margir vilja í hótelrekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú ættir einmitt að skoða hér staðreyndir, Ómar Ragnarsson.

Þriðjungur erlendra ferðamanna í miðbæ Reykjavíkur ekur þar ekki um á bílaleigubílum en ef þannig væri í pottinn búið væru bílastæðahús þar að sjálfsögðu fullnýtt.

Langflestir erlendir ferðamenn og Íslendingar ganga en aka ekki í miðbænum og þar hittist fjöldinn allur af íslenskum vinum og kunningjum á kaffihúsum og matsölustöðum, þar sem þú sést væntanlega aldrei.

Þú vilt frekar aka niður Laugaveginn og undirritaður hefur séð þig á bíl með númerinu ÁST, þar sem þú hafðir lagt honum í Bankastræti og varst þar að spjalla við íslenskan kunningja þinn.

Menn eiga að sjálfsögðu ekki að aka niður Laugaveginn eingöngu til að kanna hvort þar sé fólk sem þeir þekkja og eitra þannig loftið á Laugaveginum gjörsamlega að óþörfu, þegar þeir geta hæglega ekið Sæbrautina.

Undirritaður fer nær daglega í miðbæ Reykjavíkur og þar eru Íslendingar í meirihluta en miðbærinn iðar nú af lífi, meðal annars vegna útlendinganna sem þangað fara.

Þorsteinn Briem, 12.12.2014 kl. 11:16

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hótel og gistiheimili í miðbæ Reykjavíkur eru rúmlega eitt hundrað en örlítið brot af öllum húsum í póstnúmerinu 101 Reykjavík.

Þar áttu 15.708 lögheimili 1. janúar 2013 og miðað við að þrír búi í hverri íbúð, eins og í Hafnarfirði árið 2006, eru um 5.200 íbúðir í 101 Reykjavík.

Og þar er nú verið að reisa mörg íbúðarhús.

Um tvö hundruð verslanir eru við Laugaveg einan, þar sem um eitt þúsund manns starfa, um tvöfalt fleiri en í Kringlunni, og fjölmargar verslanir eru við Skólavörðustíg.

Fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum kaupir alls kyns vörur í þessum verslunum.

Og mun fleiri en áður ganga nú, hjóla og fara með strætisvagni í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 12.12.2014 kl. 12:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta eru beinharðar tölur, Steini. Þriðjungur erlendra ferðamanna taka bílaleigubíl. Þeir nota hann þar með ekki endilega í að snatta um miðborg Reykjavíkur svo heitið geti, en þeir koma samt til borgarinnar á þessum bílum og notað þá til að komast að gististöðum borgarinnar, þó ekki sé annað. 

Furða er að fárast yfir því að ég skuli hafa dirfst að koma á minnsta og léttasta bíl í umferð hér á landi og með minnstu bílvél landsins niður í miðbæ. 

Ómar Ragnarsson, 12.12.2014 kl. 22:05

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn var að fárast yfir því að þú akir í miðbæ Reykjavíkur, hvort sem bíllinn er stór eða lítill, Ómar Ragnarsson.

Ég var að gera athugasemd við það að menn aki niður Laugaveginn eingöngu til að kanna hvort þar sé fólk sem þeir þekkja og eitra þannig loftið fyrir þeim fjölmörgu gangandi vegfarendum sem þar eru, gjörsamlega að óþörfu.

Og sem "umhverfisverndarsinni" ættir þú að skilja það vel og þakka ábendinguna, í stað þess að fárast yfir henni.

Það er ekki alltaf hægt að afsaka sig með því að vera á litlum bíl og fjöldinn allur af íslenskum bílstjórum er á litlum bílum.

Og að sjálfsögðu ekur ekki þriðjungur erlendra ferðamanna að gististöðum í miðbæ Reykjavíkur á bílaleigubílum.

Langflestir erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands um Keflavíkurflugvöll, fara með rútu að Umferðarmiðstöðinni (BSÍ) í Reykjavík og ganga eða taka leigubíl þaðan til síns gististaðar í miðbæ Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 13.12.2014 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband