Stundum reynast "rangar ákvarðanir" réttar.

Sumar ákvarðanir í lífinu virðist ómögulegt að taka af skynsemi, hvað þá ef umhugsunartíminn er nánast enginn. Fyrir rúmri hálfri öld tók ég ákvörðun á sekúndubroti sem var kolröng miðað við þær aðstæður sem virtust blasa við. NSU Prinz R-10804

Skammt austan við Reykjavík kom ég á minnsta bíl landsins á mikilli ferð á leið til borgarinnar að breiðri brú yfir lítinn læk skammt vestan við Grafarholt, og var brúin á að giska 10 metra löng. 

Ég ók á móti sígandi kvöldsól og á undan mér var amerískur fólksbíll á löturhægri ferð, en rými virtist feyki nóg til að fara fram úr honum á þessari breiðu brú, sem var með um það bil 40 sentimetra háa steinkanta sitt hvorum megin í stað járnhandriða. 

Allt í einu byrjaði bíllinn fyrir framan mig að beygja í veg fyrir mig og síðar sagði ökumaðurinn mér að hann hefði blindast af sólinni.

Ég var á miklu meiri hraða en hann og svo stutt var á milli okkar að útilokað var að hemla, heldur stóð valið um það að reyna að komast framhjá bílnum framundan í gegnum hratt minnkandi opið á milli hans og steinkantsins.Chevrolet 55

Á allra síðusta sekúndubroti var ljóst að bilið yrði of mjótt og að valið stæði um að lenda á bílnum sem ég var að fara fram úr eða á steinhandriðinu.

Enginn tími var til minnstu vangaveltna og steinhandriðið varð fyrir valinu, sem var kolröng ákvörðun miðað við þær forsendur sem virtust ríkja, því að á þessum minnsta bíl landsins var aðeins fet frá tánum á mér fram á stuðara og þetta þýddi að á þessum hraða myndi bíllinn fara í mask á hörðum steinvegg.

Eina útskýringin á þessari ákvörðun eftir á er sú að í undirmeðvitundinni búi viðleitni til að komast hjá því að lenda á lifandi veru sem var undir stýri á bílnum, sem ég var að fara fram úr og í þann veginn að fara inn á brúna og lenda frekar á dauðum hlut.

Augnablikið, sem steinstólpinn blasti við mér, er ógleymanlegt, því að í stöðunni gat það ekki verið annað en síðasta andartak lífsins.

En í þann veginn sem bíllinn var að skella á handriðinu, lyftist hann upp og fór upp á rönd á tveimur hjólum fram úr bílnum með hjólin hægra megin rétt yfir handriðinu ( það var vinstri umferð á þessum tíma ).

Ég smaug því framhjá stóra bílnum, örfáa sentimetra frá honum á tveimur hjólum, án þess að snerta hann né steinhandriðið, sem hjólin strukust yfir án þess að snerta það !  

Það munaði litlu að bíllinn ylti en ég náði stjórn á honum og var svo felmtri sleginn að ég ók án viðkomu alla leið vestur á Seltjarnarnes á meðan ég var að átta mig á því að hafa sloppið svona ótrúlega frá bráðum bana. Þar sat ég dágóða stund í sjokki.  

Ökumanninn á hinum bílnum hitti ég fyrir tilviljun nokkrum vikum síðar og hitt hann síðan enn og aftur fyrir fáum árum í ökuferð Fornbílaklúbbsins þar sem við rifjuðum þetta upp saman í hópi klúbbfélaga. 

Við athugun á vettvangi nokkrum dögum eftir atvikið kom í ljós, að við enda steinhandriðanna á brúnni leyndust lágar malarhrúgur, sem þar urðu eftir þegar vegheflar fóru yfir brúna og lyftu tönninni og færðu hana til við brúarendana til að komast framhjá steinhaköntunum.

Þessar malarhrúgur hækkuðu smám saman við endurtekna heflun.

Í blindandi sólinni sá ég aldrei malarhrúguna sem þeytti Prinzinum mínum upp á rönd á tvö hjól og bjargaði bæði lífi mínu og forðaði bílstjóranum á hinum bílnum frá árekstri við minn bíl.

Vegna tilvistar hennar, reyndis kolröng ákvörðun rétt þegar upp var staðið. Annars væri ég ekki til frásagnar nú.  


mbl.is Þurfti að velja á milli barnanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Þetta var skynsöm ákvörðun hjá mömmu.“

Aldrei hefði þér samt dottið í hug að taka svona til orða?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 26.12.2014 kl. 09:31

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnars ökufær,
oft á tveimur hjólum,
karli væri kannski nær,
að kenna í ökuskólum.

Þorsteinn Briem, 26.12.2014 kl. 10:39

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ákvörðunin að taka framúr á brúnni og með sólina á móti var að sjálfsögðu röng - og er það enn.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.12.2014 kl. 13:33

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hárrétt hjá þér, Axel Jóhann. Enda fjallar pistillinn ekki um það, heldur þá ákvörðun sem af hinnni röngu ákvörðun leiddi. 

Ég var aðeins nítján ára þegar þetta gerðist og þetta atvik, þar sem ég mátti þakka fyrir lífgjöf, varð tímamótaatvik varðandi akstur minn. 

Ómar Ragnarsson, 26.12.2014 kl. 15:31

5 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Get ekki verið sammála þér Ómar. Ákvörðunin var röng og varð ekki rétt á neinum tímapunkti. Heppni fyrir þjóðina alla að þú lifðir. Lifðu sem lengst.

Birgir Þór Bragason, 27.12.2014 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband