Bakaradrengurinn man ekki svipað.

Ég er bakarasonur, og afi var líka bakari, fyrst í Bernhöftsbakaríi en síðast í Hlíðabakaríi. Ég segi stundum í gamni að ég hafi verið alinn upp á vínabrauðsendum. Sem voru reyndar líka verðmæti eins og vínarbrauðslengjurnar, - endunum safnað saman og gefnir hænsnunum í hinu stóra hænsnabúi Bakarameistarafélags Íslands rétt ofan við Múlakamp. 

Siggi heitinn póstur, sérkennilegur maður með hvellan og norðlenskan talanda hér í miðri flatmælgi borgarbúa auk þess sem s-ið hans fossaði fram af vörunum líkt og foss, blanda af íslensku s-i og þýzkri zetu, enda mikill aðdáandi alls sem þýszzkT var, kom oft í Hlíðabakarí og hafði gaman af að spjalla við bakarana í önn og svækju dagsins.

Ofan á þessi sérkenni bættist álkulegt og langleitt andlit sem vakti svipað bros hjá manni og andlit gamanleikarans Alfreðs Andréssonar.  

Þegar hann kom eitt sinn niður í kjallarann, þar sem bakað var, var ég líka í heimsókn þar, á að giska átta ára, að háma í mig vínabrauðsenda, sem voru þar í hrúgu á borðsendanum.

Siggi starði á mig og spurði pabba, hvað gert væri við alla þessa vínabrauðsenda, sem til féllu. Sá hann í hendi sér að varla gæti ég, þessi krakki, étið þá alla.

Pabbi sagði að þeir væru gefnir hænsnum.

"Og þrífaszzt þau virkilega á svona szzæTindum?" spurði Siggi áhyggjufullur, með sitt hvella sz-hljóð og harða norðlenska T í síðasta orðinu og virtist hafa minni áhyggjur af bakarabarninu en hænunum.    

Hvað um það, rúnnstykkið í Bernhöftsbakarí ku hafa hækkað um 60% og kostar nú 80 krónur. Gamall bakarasonur man ekki eftir meiri hækkun á rúnnstykkjum í 70 ár, jafnvel þótt brýnt tilefni til hækkunar hafi verið tíundað og verðið sagt það lægsta í bransanum.

En líklega hefur verðið á rúnnstykkjunum bara verið rúnnað af.

Nú bíður maður eftir því hvort verð á vínarbrauðum lækki í takt við afnám sykurskattsins þannig að ódýrara verði að fæða bakarabörn nútímans.

Nema að nýjustu bakstursaðferðirnar séu þannig að vínarbrauðsendum hafi verið útrýmt.

Enda hænurnar ofan við Múlakamp fyrir löngu úr sögunni.    


mbl.is Rúnstykkin hækka um 60%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"No good deed ever goes unpunished." segja enskumælandi. Þegar gengið féll og verslunin hækkaði ekki verð til samræmis en tók á sig lægri álagningu fékk hún engar þakkir. En þegar gengið fór að jafna sig og hækka var verslunin sökuð um græðgi fyrir að lækka ekki vörurnar til samræmis við gengið. Að halda verðinu í 50 krónum í 10 ár meðan aðrir hafa hækkað í 160 krónur kallar bara á óánægju þegar síðasta strá kostnaðarhækkana fær bakarann til að hækka í 80 krónur. Laun heimsins eru vanþakklæti.

Hábeinn (IP-tala skráð) 4.1.2015 kl. 02:01

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Álfgrímur fékk kaffi hjá Kristínu hringjarans og vonaðist til að fá vínirbrauð með sem hann vissi að hún átti."

Af hverju heitir vínarbrauð þessu nafni? - Vísindavefurinn

Þorsteinn Briem, 4.1.2015 kl. 02:18

3 Smámynd: Snorri Hansson

Fyrir um 60 árum síðan var fullyrt við mig að um helmingur af efninu sem notað  væri  í vínarbrauð væri gömul vínarbrauð.  Þetta góða í brauðinu væri úr þeim gömlu !?

Snorri Hansson, 4.1.2015 kl. 03:11

4 identicon

Ég á góðar minningar úr kjallaranum þarna, dásamlegir vínarbrauðsendar!

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 5.1.2015 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband