Körfuboltinn er íþrótt ársins.

Körfuknattleikur er meðal vinsælustu íþróttagreina heims, gagnstætt handboltanum og vinsældum hans er jafnar dreift um lönd og álfur en vinsældum knattspyrnunnar, því að í Norður-Ameríku er körfuboltinn risinn, knattspyrnan litli maðurinn og handboltinn nær óþekktur eins og víðast annar staðar. 

Körfuboltinn hefur lengi notið þess að mun minni keppnisvöll þarf fyrir hann en handboltann. Strax á upphafsárum hans hér á landi naut hann þess á sama tíma og fara varð í íþróttahús bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli til þess að leika löglega landsleiki í handbolta og allt of lítill hermannabraggi við Hálogaland í Reykjavík var eina húsið sem hægt var nota til að keppa í handbolta.

Körfuboltinn varð sömuleiðis og er enn afar vinsæll á landsbyggðinni og ómetanlegur fyrir hana.

Vegna skorts á hentugu húsnæði þegar ég var unglingur, var aðeins kenndur körfubolti í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, og var íþróttahús Jóns Þorsteinssonar notað í því skyni. 

Þetta var kvöl fyrir mig, því að ég var og hef ætíð verið lélegasti körfuboltamaður á Íslandi. 

Að sama skapi dáist ég ákaflega af þeim sem geta leikið hann af fallega, allt frá Edvardi bróður mínum upp í NBA í Bandaríkjunum. 

Ég var hins vegar svo heppinn að vagga íslensks handbolta var í MR þegar Valdimar Sveinbjörnsson innleiddi hann þar, svo að handboltinn kom í staðinn fyrir körfuboltann, Guði sé lof. 

Veturinn 1967-68 spilaði ég í áhugamannahópi um sport, þar sem Kolbeinn Pálsson, sá eini sem hefur verið útvalinn íþróttamaður ársins, var meðal iðkenda, og kynntist vel hæfileikum hans. 

Þó ekki í körfubolta heldur í innanhússknattspyrnu! 

 

Á þeim tíma sem körfuboltalandsliðið íslenska vinnur sér keppnisrétt á erlendu stórmóti í fyrsta sinn og við eigum heimsklassa leikmann erlendis er kominn tími á að íþróttin hljóti þá þreföldu viðurkenningu sem hún fékk í kvöld með íþróttamanna ársins, liði ársins og inntöku Péturs Guðmundssonar í Heiðurshöllina.

Til hamingju, íslenskt körfuboltafólk!   


mbl.is Jón Arnór íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Körfuknattleikur er meðal vinsælustu íþróttagreina heims....Svona hefst grein þín og það er vel. Því það er eina ástæðan fyrir því að körfuboltinn hlaut þessa viðurkenningu, eina ástæðan fyrir því að körfuboltinn komst á blað. Það eru vinsældir boltaíþróttanna meðal íþróttafréttamanna sem ræður för en ekki afrek íþróttamanna. Körfuboltinn og körfuboltamenn hafa staðið sig vel, en ég hef ekki séð nein sérstök afrek sem réttlæta þessa viðurkenningu en marga íþróttamenn og greinar sem staðið hafa sig mun betur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íþróttafréttamenn verða sér til skammar, og var ekki úr háum söðli að detta. Leiðinlegt að þessi veiting sé orðin eins og sjálfvirkar orðuveitingar forseta.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.1.2015 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband