Sem betur fer fældu þeir þá bestu í burtu.

Ekki þarf að fara í grafgötur með vilja þeirra kumpána Adolfs Hitlers og Benito Mussolinis til að framleiða gereyðingarvopn. 

Þeir þorðu ekki að beita eiturgasi af ótta við að slíkar árásir yrðu endurgoldnar en framleiðsla kjarnorkusprengju var heillandi í augum Hitlers.  

Tveir vísindamenn þessa tíma eru einkum tengdir við gerð kjarnorkusprengjunnar, Albert Einstein og Enrico Fermi. Einstein ásamt fleirum vakti athygli ráðamanna Bandamanna á möguleikunum til framleiðslu kjarnorkusprengju og Fermi var talinn "faðir kjarnorkusprengjunar" því að hann var aðalmaðurinn á bak við hina tæknilegu og eðlisfræðilegu hlið smíði hennar. 

Einstein hraktist úr landi undan Gyðingaofsóknum nasista og Fermi flúði líka frá Ítalíu til Bandaríkjanna vegna kynþáttaofsókna Mussolinis.

Þetta er kannski það eina jákvæða sem hægt er að finna varðandi kynþáttaofsóknir nasista og fasista.

Annað jákvætt er það hve óhæfir margir af helstu stjórnendum nasista voru.

Hafa sagnfræðingar í vaxandi mæli þakkað það vangetu þeirra að þeir töpuðu stríðinu.

Sagt er að þegar Churchill var í miðju stríðinu greint frá fyrirhuguðu banatilræði við Hitler hafi hann beðið menn fyrir alla muni að láta hann í friði, því að lifandi væri hann besti bandamaður þeirra.

Hafði Churchill vafalaust í huga þráhyggju Hitlers þegar hann bannaði lífsnauðsynlegt undanhald og setti ofan í við eða rak frábæra hershöfðingja eins og Heinz Guderian og Erwin Rommel um stundarsakir ef þeir dirfðust að mögla.

Von Manstein var snjallasti hershöfðingi Hitlers, skipulagði einhverja snjöllustu herför allra tíma inn í Niðurlönd og Frakkland í maí-júní 1940 og var snillingur í undanhaldshernaði hugmyndafræðinni á bak við hana, svo sem björgun hersveita frá Krímskaga, Sardiníu og Austur-Prússlandi.  

Hermann Göring var afleitur eins og best kom fram í orrustunni um Bretland og hinni fráleitu áætlun um að nota loftbrú til að bjarga 6. hernum í Stalingrad frá ósigri. Hann lét glepjast af snilldarlegri björgun meira en 100 þúsund manna herafla Þjóðverja, sem lokaðist inni í rúma þrjá mánuði við bæinn Demyansk norðvestur af Moskvu í ársbyrjun 1942.

Þá tókst með loftbrú að flytja hátt í 20 þúsund særða hermenn í burtu, álíka marga bardagahæfa inn, birgja herinn upp af hergögnum og vistum og ná honum út úr herkvínni.

Við Stalingrad var um að ræða þrefalt stærri her auk þess sem lofther Rússa var orðinn miklu öflugri en við Demyansk.  

Þegar Albert Speer var falið að taka yfir skipulagningu á hernaðarframleiðsu Þjóðverja tók hún risastökk fram á við svo að vopnaframleiðslan var meiri 1944 en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir hinar hrikalegu eyðileggingu sem loftárásir Bandamanna olli.

Það sýndi hve óhæfir fyrirrennarar Speers höfðu verið.

Þegar Ernst Udet, afburða flugmaður, var gerður að yfirmanni, kom fljótt í ljós að hann var algerlega vonlaus í slíku starfi og hlutverkið var honum svo gersamlega um megn að hann framdi sjálfsmorð.

 


mbl.is Fundu leynilegt kjarnorkuver nasista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Benediktsson

Margir á http://www.alternatehistory.com/ halda því fram að Nasistar hefðu ekki getað unnið undir nokkrum kringumstæðum. Fyrst og fremst vegna þess að framleiðslugeta þeirra miðað við bandamenn var margfalt minni en líka eins og þú segir, þeir voru vanhæfir margir hverjir.

Hitler gerði líka þau mistök að setja pólitík nasistaflokksins alltaf ofar hernaðarpraxís.

Halldór Benediktsson, 7.1.2015 kl. 21:09

2 identicon

Feður fyrstu kjarnorkusprengjunnar voru fleiri en einn.

Og Enrico Fermi var á meðal þeirra, en skylt er að nefna Robert Oppenheimer, sem fór með stjórn "Manhattan Projects". 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.1.2015 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband