GRÆNIR OG GRÁIR ÞINGMENN

Nýjustu tölur úr söfnun undirskrifta undir Sáttmála Framtíðarlandsins sem birtar voru í gærkvöldi í Hafnarfjarðarleikhúsinu voru áhugaverðar. Enginn þingmaður frjálslyndra hefur skrifað undir og heldur ekki neinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fjórir þingmenn Samfylkingar hafa ekki skrifað undir.

Af framsóknarmönnum hefur aðeins Jónína Bjartmarz skrifað undir. Einn varaþingmaður Sjálfstæðismanna, Katrín Fjeldsted, hefur skrifað undir og staðið einmana vakt þar á bæ, einu sinni enn.

Allir vinstri grænu þingmennirnir hafa skrifað undir og komi Íslandshreyfingin mönnum á þing í vor í samræmi við skoðankönnun Fréttablaðsins er rétt að upplýsa að þeir , sem þar koma til greina, eru búnir að skrifa undir.

Skoðanakannanir sýna reyndar vel að þeir sem geta hugsað sér að kjósa Íslandshreyfingun eru nær allir andvígir stækkun álversins í Straumsvík.   

Í panelumræðum í Hafnarfjarðarleikhúsinu kom vel fram hve samstíga talsmenn vinstri grænna og Íslandshreyfingarinnar voru í virkjana- og stóriðjumálunum, sem til umræðu voru, þótt ágreiningur geti verið á milli þessara framboða í ýmsum málum sem ekki tengjast umhverfismálum og voru ekki rædd á fundinum.

Þar sem talsmenn framboða koma fram um þessar mundir hefur fjölgað um eina græna rödd. Ingibjörg Sólrún hélt ágætlega fram sínu Fagra Íslandi og mælti með stóriðjuhléi, en það hlýtur að hafa skyggt á fyrir henni að sjá á stórum skjá gráu samfylkingarþingmennina fjóra  sem ekki hafa skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir hvað stendur þessi Íslandshreyfing annað en að vera á móti stækkun í Straumsvík þ.e. stóriðjustop? Það væri afar fróðlegt Ómar Ragnarsson, að þú upplýstir það hér á síðunni þinni fyrir hvað þitt framboð stendur að frátöldum umhverfismálum. Hver er framtíðarsýnin? Hvar eru tillögur að atvinnuuppbyggingu? Mér finnst það ódýrt fyrir þig Ómar að koma sí og æ í fjölmiðla og hafa ekkert fram að færa annað en að þú ert á móti stóriðju. Þú misnotar frægð þín og það er sorglegt vegna þess að þú varst góður fréttamaður. Það er óábyrgt að gapa hér endalaust á bloggsíðunni sinni og hafa ekkert fram að færa og ætla sigra kosningar með því að vera á móti stóriðju.

   Ég spyr þig Ómar, hvers vegna ertu á móti stóriðju á Bakka við Húsavík? Hvað leggur þú til að gert verði í atvinnuuppbyggingu verði ekki af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru?

   Ég bið þig að vitna ekki í sáttmála samtaka Framtíðarlandsins. Það er ómerkilegur málflutningur að stilla þjóðinni upp við vegg og spyrja ertu grár eða grænn og ef þú ert ekki grænn ertu grár. Hvers virði er þessi sáttmáli? Fyrir hvað stendur hann? Í hvaða tilgangi er hann settur fram?

   Ein spurning varðandi sáttmála samtaka Framtíðarlandsins til þín Ómar. Hvað finnst þér um það að börn eru notuð í auglýsingaskyn vegna sáttmálans? Ég bið þig um leið að setja þig í þau spor ef Alcan hefði notað börn í sínum auglýsingum vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík!

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 01:58

2 identicon

Hugsa að töluvert fleiri hefðu skrifað undir þennan sáttmála ef hann hefði verið betur skrifaður og ekki fullur af mótsögnum og tekið breytingum frá fréttatilkynningunni og svo endanlegum lista.

Sáttmálann mátti einnig túlka á tvenna vegu, tökum dæmi:

Ákvæði 2: Við viljum því að áður en ráðist verður í nokkrar frekari virkjunar- eða stóriðjuframkvæmdir verði búið að afgreiða og samþykkja fyrsta og annan áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að Rammaáætluninni í heild verði gefið lögformlegt vægi. Þar til því ferli er lokið verði ekkert frekar aðhafst í stóriðju- og virkjanauppbyggingu. Þetta útilokar ný álver í Helguvík og á Húsavík, sem og stækkun álveranna í Straumsvík og á Grundartanga.

Þennan texta er hægt að skilja þannig að með undirskrift sáttmálans er maður að útiloka t.d. álveg við Húsavík um ókomna framtíð, þótt það sé ekki meining sáttmálans.

Í fréttatilkynningunni sem send var út var í síðustu setningunni "á tímabilinu" þ.e. meðan gerð rammaáætlunarinnar færi fram.

Hvers vegna sáu Framtíðarlandsmenn sig knúna til að taka út setninguna "á tímabilinu" ?

Af þessum ástæðum sá ég mig ekki reiðubúinn til að skrifa undir þennan sáttmála þótt ég að öðru leyti sammála honum, veit um fleiri sem fannst eins og þeir væru að útiloka frekari stóriðjuframkvæmdir um ókomna tíð.

"Grátt eða grænt? Spyrja þeir hjá Framtíðarlandinu í nýframlögðum sáttmála um framtíð Íslands þar sem m.a. er lagt til að stöðvaður verði undirbúningur álversframkvæmda við Húsavík"
Leiðari Skarps á Húsavík í síðustu viku.

Þannig að ástæða þess að ekki eru fleiri undirskriftir á þessum lista en raun ber vitni má rekja til lélegs orðalag sáttmálans sem gerði það að verkum að fullt af fólki, sérstaklega úti á landi vildi ekki skrifa undir sáttmálann.  

Ámundi (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 08:30

3 identicon

Ég bíð enn eftir að Ómar komi með rök gegn álveri á Húsvík, Hef oft spurt hér á vefnum en aldrei fengið svör. Ég vil BARA rökin gegn álveri á Húsavík.  Og svo eru menn að agnúast út í þingmenn Samfylkingar á NorðAusturlandi af því þeir vilja heilbrigða uppbyggingu atvinnulífs á Húsavík. Þá eru þeir allt í einu orðnir gráir landráðsmenn. Þið eruð öfgaflokkur og það leggst afar illa í mig, hefði líkað mun betur við ykkur ef þið væruð alvöru umhverfisflokkur, því að ég er umhverfissinni og BÍÐ enn eftir umhverfisframboði sem er laust við öfgar og hefur getu og vit til að tala um fleiri umhverfismál en álver.

SIF (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 09:26

4 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Ágætu Húsvíkingar og Hjálmar Bogi. Það er ekki rétt að Íslandshreyfingin lifandi land einblíni á stöðvun stóriðju. Það eru fjölmörg önnur mál sem við leggjum áherslu á og þar á meðal atvinnuuppbygging út um allt land. EN við einblínum ekki á sértækar ríkisaðgerðir í þeim efnum emð hrikalegum afleiðingum fyrir umhverfið og óheillavænlegum jaðaráhrifum á efnahagslífið. Við leggjum áherslu á að almennar aðgerðir í skattamálum, hvetji einstaklinga og fyrirtæki til dáða. Bættar samgöngur,háhraðateningar um allt land er eitt mörgu sem getur bætt lífsgæði fólks á landsbyggðinni.

Varðandi álver á Húsavík  má alveg nota sömu rök og eru notuð gegn stækkun álvers í Straumsvík. Aukin mengun, aukin losun gróðurhúsalofttegunda, sjónmengun, ruðningsáhrif á byggingartíma sem valda verðbólgu, hárri krónu og þennslu á vinnumarkaði og einhæf atvinnustarfsemi sem hefur of mikil ítök í atvinnulífi staðarins. Og svo er það náttúrulega ekki bara Húsavík sem vill álver, heldur eru á teikniborðinu stækkun í Straumsvík, nýtt álver í Helguvík og áform eru um álvinnslu á Þorlákshöfn. O Þessi áform kalla á nýtingu nær allrar nýtanlegrar orku landins og valda gífurlegum umhverfisspjöllum.

Og SIF ef þú kallar áhyggjur okkar af þessari þróun mála  öfgar þá skaltu spyrja sjálfa þig ef þú ert einlægur umhverfissinni hvort að þetta sé í lagi.

Lárus Vilhjálmsson, 29.3.2007 kl. 10:44

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ef menn skrifa ekki undir, eru þeir þá orðnir gráir og þar með fjandsamlegir öllu góðu í landinu er varðar umhverfismál og annað er snýr að framtíð landsins? Þetta lyktar orðið af einhverskonar fasisma, þegar farið er að benda á að þessi eða hinn hafi eða hafi ekki skrifað undir. Hugnast þetta engan veginn og mun aldrei skifa undir svona lagað. Að auki er yfirlýsingin loðin og opin og á köflum illa orðuð. 

Halldór Egill Guðnason, 29.3.2007 kl. 10:47

6 identicon

Sæll Lárus

Éf þú þið einblínið ekki á sértækar ríkisaðgerðir þá er það flott, því þá getið þið ekki hindrað álverið á Húsvík. Það er nefnilega EKKI sértæk ríkisaðgerð heldur er þarna erlent fyrirtæki sem er tilbuið að fjárfestaí orku og mannauði á Húsavík. ÞAð þarf hinsvegar sértæka ríkisaðgerð til að stöðva slíkt.

Þú veist vel að það eru ál verður framleitt ámeðan það er eftirspurn það kostar 10 sinnum meiri útblástur að gera það með kolum. eins höfum við meiri möguleika enn aðrar þjóðir til að binda hluta af útblæstrinum og gæti Alcoa samið um það. Þá værum við bæði að selja orku og bindingu. 

Hvaða gildu rök eru þá gegn álveri á Húsavík? Þarna er ekki verið að sökkva landi, þarna er ekki verið að kaffæra útvistarsvæði borgarinnar með virkjunum og háspennulínum. Þarna er ekki verið að troða inn verksmiðju þar sem fyrir eru næg tækifæri. Þarna er ekki verið að nota orku sem gæti farið í annað. Þarna er ekki verið að stöðva nýsköpun og sprotafyritæki.

Þetta er ekkert líkt Kárhnjúkum og þensluáhrifin eru hlægileg í samanburði við Kárahnjúka. Í fyrsta lagi hefur íslenska hagkerfið stækkað um helming síðan farið var af stað með Kárahnjúka. Það þýðir auðvitað að þenslu- og ruðningsáhrif eru hlutfallslega miklu mun minni. Í öðru lagi er Reyðarál næstum helmingi stærri verksmiðja en Bakki og því umhverfis og hagfræðileg áhrif mun minni fyrir álverið á Bakka. Ekki koma svo með fáranleg rök sem segja að það sé pottþétt að álverið stækki svo um helming, það er líklega ekki einu sinni næg orka á svæðinu fyrir slíkt. og óhagkvæmni álversins í Straumsvík er ekki síst vegna aldurs þess frekar en stærð.

SIF (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 10:57

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn og aftur er fullyrt að ef ekki verði reist álver á Íslandi verði þau reist í löndum þar sem kolaorka er notuð. Þetta er ekki rétt. Óbeisluð vatnsorka í öðrum löndum er meira en hundrað sinnum meiri en á Íslandi og nær væri að virkja þar til hagsbóta fyrir bláfátækar þjóðir en á Íslandi þar sem eyðilegging náttúruverðmæta er mun meiri.

Í Noregi er óvirkjað hreint og tært vatnsafl en á Íslandi en Norðmenn snerta það ekki heldur vilja láta okkur virkja fyrir álver Norsk Hydro hér á landi svo að þeir geti lagt niður álver í sínu landi.

Í Ameríku verða lögð niður tvö álver knúin vatnsorku þegar álverið á Reyðarfirðí tekur til starfa.

Það sem er að gerast núna í Hafnarfirði og gerðist 2000 í sambandi við virkjun á Austurlandi þegar álverið var stækkað úr 120 þúsund tonnum í 340 þúsund tonn á eftir að endurtaka sig á Húsavík þegar heimtað verður að álverið þar fari upp í 500 þúsund tonn og þar með verði öll orka Norðurlands virkjuð frá Skagafirði til Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum.  

Í grein í Morgunblaðinu í dag bendi ég á mun skaplegri möguleika til orkunýtingar þar sem um er að ræða útibú tölvufyrirtækja úti á landi, - einnig hef ég bent á stórkostlega möguleika á frægasta eldfjallaþjóðgarði heims sem næði frá Vatnajökli niður í hlaðvarpa Húsavíkur með milljarða í tekjur ef menn bara hefðu vilja til þess að setja það í svipaðan forgang og álverin hafa haft til þessa.

Ómar Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 11:11

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vkiðbót við andsvar: Við leggjum til að gefið verði rými í áföngum til sóknardagkerfis smábáta sem stunda vistvænar veiðar. Kvóti yrði ekki tekinn af neinum heldur þeim gert skylt að skila kvóta sem ekki nota hann og að ríkið kaupi einnig kvóta til þessara nota sem hleypa mun lífi í sjávarbyggðirnar.

Húsavík gæti orðið notið góðs af hvalaskoðun, lifandi mannlífi við sjávarsíðuna og nálægð við frægasta eldfjallaþjóðgarð heims.  

Ómar Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 11:16

9 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Grænir og gráir? Þetta er strax orðið úrelt Ómar. Svona slagorð lýsa engu nema skilningsleysi á skoðunum annara og er það ekki sæmandi manni sem vill komast á þing að halda svona áróðri uppi.

Allir sem ég hef rætt þessi mál við eru umhverfissinnar en flestir þeirra þó ekki "grænir" þegar kemur að þessum málaflokki, heldur hafa kynnt sér málið og myndað sér skoðun út frá því. Fólk getur verið umhverisverndarsinnað án þess að vera sammála þeim "grænu" flokkum og félögum sem komið hafa fram.

Það er ekki styrkur Íslandshreyfingarinnar að allir innan hennar vilji stopp á stóriðjustefnuna heldur er það veikleiki hennar (þó það megi ekki heldur fara á öfgarnar á hinn veginn eins og hjá samfó, þar sem hver hendin virðist vera á móti annari í þessum málaflokki) og mun valda því að Íslandshreyfingin verður aldrei stór hreyfing. Það sýnir einungis að þetta er eini málaflokkurinn sem fólk hefur tekið eftir og kýs hana eingöngu þess vegna. Stjórnmálaflokkar sem byggðir eru einungis á einu málefni farnast aldrei vel. Þetta þurfið þið að laga og það fljótt ef þið ætlið að koma manni á þing. Vona að ykkur beri gæfa til þess.

Með bestu kveðjum úr sveitinni og vorinu

Ágúst Dalkvist

Ágúst Dalkvist, 29.3.2007 kl. 11:38

10 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Skora á ykkur að skoða þessar framtíðarpælingar hér

Ágúst Dalkvist, 29.3.2007 kl. 11:45

11 identicon

Sæll Ómar

Þetta er ekki rétt hjá þér því að ólíkt flestum ríkjum sem hafa mikið vatnsafl þá er Ísland eyja og ótengt öðru raforkukerfi.  Lestu nú vel svo þú miskiljir þetta. Þú hefur bent á möguleika t.d. Suður ameríku að virkja vatnsafl.  Vonandi gera þeir það og minnka þannig hlutfall jarðefnaeldneytis í rafmagnsframleiðslu sinni. Við erum með 100% endurnýjanlegt rafmagn og getum því ekki minnkað hlutfall jarðefnaeldneytis með virkjunum. Ég vona að þú skiljir muninn svo að svona rök komi ekki upp aftur.

Annað af sama meiði. Auðvitað getur Norsk hydro ekki samið um orku í noregi Af því að hægt er að selja orkuna annað þar enda tengdir evrópunetinu. Við getum það EKKI. Vissulega eru Norðmenn ekki með nein stórvirkjanaform enda eru þeir búnir að vera lengur að vega þetta og meta og eru búnir að fara í gegnum sína kosti. Við störldrum líka við og fullt af virkjunarkostum verða ekki virkjaðir hér vegna náttúrusjónarmiða. Þeir eru þó enn í smærri virkjunum en það má auðvitað ekki nefna það

Nú ertu að gleyma þér Ómar því nú ertu orðinn Stjórnmálamaður og getur ekki sagt hluti eins og þessa ".....á eftir að endurtaka sig á Húsavík þegar heimtað verður að álverið þar fari upp í 500 þúsund tonn og þar með verði öll orka Norðurlands virkjuð frá Skagafirði til Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum." Þetta er með eindæmum óábyrgt tal og til þess fallið að villa um fyrir mönnum.  Alcoa hefur engan virkjunarétt og Íslendingar sjálfir ráða hvort þeir myndu heimila stækkun sem aldrei hefur verið nefnd hjá neinum nema ÞÉR.  Þú bara mátt ekki tala svona.

Þetta eru fínar hugmyndir hjá þér og það sem meira er Þá hafa t.d. menn frá Google komið hingað og skoðað aðstæður.........EN hvar er þá tilboðið þeirra. Ég hvet þig endilega til að koma með staðfestan áhuga frá þeim og þá fagna allir því að flestir kjósa meiri fjölbreytni í orkuiðnaði.

Ég vil líka benda þér á sem þú auðvitað veist að Húsavík hefur lengi verið í nánd við Þjóðgarð þau tvö störf sem þar hafa myndast eru varla samanburðarhæf við álver.

 ENN vantar sem sagt rökin gegn álveri á Húsavík

SIF (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 12:12

12 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Þessi umræða er löngu orðin græn mygluð og morkin af vitleysunni

Leifur Þorsteinsson, 29.3.2007 kl. 12:42

13 identicon

Hárrétt hjá þér (SIF) Alcoa hefur engan virkjunarrétt á Íslandi, ekki Alcan heldur, en finnst þér eðlilegt að erlent stórfyrirtæki eins og Alcan skuli standa í opinberri kosningabaráttu með tilheyrandi áróðri um það HVERNIG VIÐ ÍSLENDINGAR VILJUM HAFA LANDIÐ SEM OKKUR HEFUR VERIÐ TRÚAÐ FYRIR.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 15:30

14 identicon

http://orrismara.blogspot.com/2006_12_01_archive.html

EF menn vilja lesa rök fræðimanns sem hrekur margt í Draumalandi Andra Snæs þá lesið þetta.

Fáum okkur svo einn gráan sem bragðast betur en grænn!

Sigurður (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 15:49

15 identicon

Já.... þetta er farið að minna á ofstæki málflutningurinn hér.

Það sem sáttmáli Framtíðarlandsins snýst um er þetta; Viltu stöðva frekari virkjanaframkvæmdir í bili eða ekki? Við vitum að frekari virkjanar og stóriðjuáform skapar aukna þennslu t.d. hærri verðtryggingu á lánunum okkar og óafturkræfan skaða á náttúrunni. Sáttmálin þýðir sem sagt; Viltu staldra við?... Það má líkja þessu við manneskju sem hefur verið á kaupfylleríi með visakort.. hægri heili biður hana um að staldra nú aðeins við og einbeita sér að reikningunum, fara í ræktina og gera bara eitthvað allt annað en að kaupa.. en vinstri heili biður hana um að halda áfram að kaupa og kaupa og kaupa.. Ef þú skrifar undir sáttmálan þá ertu að lýsa yfir þínum stuðningi á að hægja.. stoppa eyðsluna.. þú villt skoða hvernig landið liggur og þjóðfélagið þróast ÁÐUR en þú heldur áfram. Þú villt hlúa að því sem þú hefur nú þegar keypt..

 Hér er ekki verið að dæma neinn sem ekki skrifar undir.. en það er mikilvægt fyrir okkur sem viljum staldra við að geta skrifað undir slíkan sáttmála svo rödd okkar heyrist og þrýstingur skapist á stjórnvöld.

Því það skiptir okkur íslendinga svo GRÍÐARLEGA miklu máli hvernig við förum með verðmætin í landi okkar núna næstu ár.

Það er mikilvægt að náttúran og almannahagsmunir gangi fyrir einkahagsmunum. Við verðum að hugsa þannig..

Hafið bjartan dag

Björg F (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:20

16 identicon

Einn helsti forvígismaður "einhvers annars" á Íslandi var beðinn um það af eigin flokksmönnum (VG) á Húsavík að tilgreina og afhenda þetta "eitthvað annað", ekkert kom annað en innihaldslítið hugmyndaglamur, svo þeir fundu sig knúna til að velja stóriðjuleiðina, sennilega sér þvert um geð.  Ef Íslandshreyfingin og VG koma með raunverulegar lausir, drög að samningum eða raunverulegar viljayfirlýsingar frá marktækum aðlium sem tilbúnir eru að fjárfesta í "öðrum" atvinnutækifærum þá er kominn grundvöllur til að velja "eitthvað annað".  Valið fyrir flesta á milli álvers eða takmarkaðra atvinnumöguleika úti á landi er ekkert erfitt, það er álver þangað til boðið er upp á raunverulegan valkost.  Vinsamlegast gerið ykkar lausir að marktækum valkosti.

Björn Maríus (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 16:57

17 identicon

Ég skil nú ekki alveg þessar hugmyndir um að það sé verið að vinna öll þessi umhverfisódæðisverk á Íslandi.  En ég er hrifinn af nýjum stjórnmálahreyfingum þótt ég sjálfur sé pólitískt viðrini af sverustu sort.  Sérstaklega þótti mér vænt um stjórnmálaafl sem kallaði sig "Vinstri, hægri - snú" hérna um árið.  Allir vilja fá völd og fé og búa sér til málefnastöðu til að það geti ræst.  Þegar til kastanna kemur þurfa menn svo að fást við blákaldan veruleikan og þá eru hugsjónirnar fljótar að gleymast.

Ég óska öllum frambjóðendum velfarnaðar og vona að þeir fái hluta þeirra valda sem þeir vilja.  Ég vona samt að þeir eyðileggi ekki fyrir fólki lífsafkomuna og lifibrauðið.  Það er auðvelt að gera það, yppa svo öxlum og kenna einhverjum öðrum um.

Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 18:05

18 identicon

JÖKLARNIR HÉR BRÁÐNA NÚ ALLIR MJÖG ÖRT, vatnsmagnið eykst því núna en mun síðar minnka stöðugt í jökulánum og eftir nokkra áratugi verður það alveg horfið, nema frá Vatnajökli sem er þriðji stærsti jökull í heimi á eftir Suðurskautsjöklinum og Grænlandsjökli. Miðlunarlónin hér fyllast smám saman af auri og Vatnajökull verður horfinn eftir rúm 100 ár. Hvaðan ætlið þið þá að fá allt vatnsaflið fyrir ykkar stórvirkjanir, stóriðjusinnar? Úr bergvatnsánum kannski? Og þegar allar jökulárnar eru horfnar hvað á þá að gera við allar stórvirkjanirnar, stóriðjuverin, heljarinnar raflínumöstur og raflínur út um allar koppagrundir?!

Á þá að ráða Kínverja til að taka niður allt draslið og hvað myndi það kosta, svona sirka? Það myndi kosta um 800 milljónir króna að leggja raflínur í jörð smáspotta við Hafnarfjörð, eins og álverið þar hefur verið að guma af undanfarið. Hvað þá með allt landið? Hvað myndi það kosta? Í Danmörku kostar það um 500 milljarða íslenskra króna og er þó Danmörk flöt, góð yfirferðar og rúmlega tvisvar sinnum minni en okkar stórskorna og fjöllótta land.

VEXTIR MUNU ÁFRAM HALDAST HÉR MEÐ ÞEIM HÆSTU Í HEIMINUM verði álverið í Hafnarfirði stækkað, álver reist í Helguvík og á Húsavík. Það þýðir að við þyrftum að greiða billjónum króna meira en ella fyrir húsnæðislánin okkar. Einnig yfirdráttinn en hann er svipaður hér á mann og hinn digri olíusjóður Norðmanna á mann. Þegar olía þeirra er uppurin ganga þeir í Evrópusambandið og þá er allt búið með Evrópska efnahagssvæðið.

HÉR ER GRÍÐARLEG ÞENSLA og hún mun engan veginn minnka verði álverið í Hafnarfirði stækkað, álver reist í Helguvík og á Húsavík. Það er ekkert atvinnuleysi hér og framkvæmdirnar á Austurlandi undanfarið hafa dregið að sér starfsfólk úr öðrum greinum, sem sárvantar nú starfsfólk. Ferðamannaþjónustan fer hér stórum vaxandi árlega og laun í þeirri grein er hærri en í öðrum greinum, samkvæmt Hagstofu Íslands. Mörg hótel eru byggð hér árlega og ferðaþjónustan mun skila okkur um 400 milljörðum króna á ári með margfeldisáhrifum eftir nokkur ár. Við höfum verið með þúsundir útlendinga í vinnu hér undanfarin ár og það mun að sjálfsögðu ekki breytast ef stækka á álverið í Hafnarfirði og reisa ný í Helguvík og á Húsavík.

Það er aftur á móti nauðsynlegt að draga hér mikið úr framkvæmdum á næstunni en ekki bæta í þær með tilheyrandi gríðarmikilli verðbólgu, geysilega háum vöxtum og stórhækkunum á öllu verðlagi í hverjum mánuði. Viljum við slíkt?! Aðalatriðið er engan veginn hversu há launin eru hér, heldur kaupmátturinn, verðlagið og vextirnir. Nú þurfum við að greiða um 80 milljónir króna á 40 árum fyrir íbúð sem keypt er á 20 milljónir króna, með 5% föstum vöxtum og 2,5% verðbólgu. Á evrusvæðinu er verðbólgan innan við 2% en við þurfum að greiða fyrir þessa íbúð um 240 MILLJÓNIR KRÓNA, UM 6 MILLJÓNIR KRÓNA Á ÁRI, samkvæmt Glitni, miðað við núverandi verðbólgu, 7%. ÞAÐ MISSA FLESTALLIR ÍBÚÐIRNAR SÍNAR! VILJA MENN VIRKILEGA LEGGJA ÞÆR Í SÖLURNAR FYRIR ÁLVER??!!

Steini Briem (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 18:28

19 identicon

Mér finnst vanta alla frumkvöðlahugsun og sjálfsbjargarviðleytni hjá fólki sem vill fá álver í hvert landshorn (og nokkur á sama stað jafnvel).  Það er hins vegar ekki öllum gefið að sýna frumkvæði og þor t.d. að koma snjöllum hugmyndum sínum í framkvæmd.  Í stað þess vill fólkið sem þorir ekki og er passíft fá skaffað álver í garðinn sinn, ekki af því að það sé svo þjóðhagslega hagkvæmt, heldur til að fá öryggið og "hlýjuna" þ.e. atvinnuöryggi og það er alveg eðlilegt en á kostnað hvers?  Er ekki jafn gott að fá bara fleiri ríkisstofnanir út á land og skapa fólki vinnu í gegnum það???  Nei þetta er náttúrlega ekki svona einfalt en það er hlutverk ríkisins að sjá til þess að gera fólki og byggðarlögum fært að byggja upp samfélag á hverjum stað fyrir sig sem tryggir atvinnu t.d. með öflugum samgönguleiðum, uppbyggingu netsambands, breyta kvótakerfinu o.s.frv.  Fólkið sjálft verður svo að sýna frumkvæði.  Það gæti jú verið að byggja álver á staðnum en hverju á að fórna til að koma því á koppinn??  Náttúruperlum???  Tel að smáiðnaðurinn sé langskynsamlegasta leiðin sem víðast um allt land og ríkið á að gera smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðvelt fyrir í þeim efnum.  Álver er allt of umdeilanlegt til að ráðast í slíkar framkvæmdir á kostnað landsins gersema, við förum ekkert á hausinn eins ríkasta þjóð veraldar þó álver verði blásin af.

Þið sem segið að "græningjar" eigi þá að koma með hugmyndir að "einhverju öðru" af því að álver megi ekki koma, svarið þessu bara sjálf, finnið upp á öðrum hlutum, sér í lagi fólk sem býr á þeim stöðum sem álver eiga að rísa.  Það er þeirra hlutverk.  Það er ekki hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að skaffa vinnu hvar sem, heldur opna hlið svo fólk bjargi sér sjálft.

Samúel (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 21:34

20 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Get ekki að því gert, að mér finnst það háskaleg,liggur við að segja heimskuleg, einföldun að  skipta þingmönnum þjóðarinnar  í  græna og gráa. Les: Góða  og slæma. Veröldin er  ekki  hvít eða  svört.  Hún er  heldur ekki græn eða grá. Hún er í öllum regnbogans litum. Meðan ræðst er við á þessum nótum verður umræðan aldrei vitræn.

Fróðlegt væri að sjá mat á því  hve mikil mengun fylgir komu  einnar milljónar ferðamanna, -  eða  einnar og  hálfrar milljónar ? 

Hvað þola náttúruperlur  okkar mikinn ágang?  Hef hvergi séð mat á þessu.

Eiður Svanberg Guðnason, 29.3.2007 kl. 21:35

21 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

"Tel að smáiðnaðurinn sé langskynsamlegasta leiðin sem víðast um allt land og ríkið á að gera smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðvelt fyrir í þeim efnum."  Og  "Það er ekki hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að skaffa vinnu hvar sem, heldur opna hlið svo fólk bjargi sér sjálft." Ótrúlegt en satt, þá eru þetta bútar úr sömu færslu hér að ofan (Samúel) Málefnalegt? Dæmi hver fyrir sig. Milljón túristar, milljón lopapeysur, rok, rigning og slagveður. Má sjálfsagt selja þetta allt saman, en spurning hvernig landið liti út eftir það. Hvernig á til að mynda að koma þessum fjölda um helstu náttúruperlur landsins ef ekki má einu sinni leggja vegi til að komast þangað? á að láta liði labba Kjöl? Skil hvorki upp né niður í þessari umræðu orðið. Lái mér það hver sem vill. (Mátti til að tuða aðeins um þetta.)

Halldór Egill Guðnason, 29.3.2007 kl. 21:55

22 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Þetta græna/gráa della er þess valdandi að fjöldafæling frá annars háleitum markmiðum á sér stað. Ég hef verið að spjalla við þó nokkra sem hafa verið heldur hallir undir náttúrvernd sem segjast vera komnir með æluna uppí háls af þessu og þó er þessi sleggjudæming ekki nema nokkurra daga gömul. Kannski á það erftir að bjarga framboðinu ykkar hversu stutt er til kosninga... mér segir svo hugur að fólk fái nóg af svona öfgafullum sleggjudómum.

Ég tek það fram að ég er ekkert of hrifinn af þessari álveravæðingu og allri þenslunni sem hún hefur og á eftir að orsaka. Hvað Kárahnjúka varðar þá vissi varla kjaftur á landinu af þeirri "paradís" fyrr en til stóð að virkja. Mér finnst ágætis hugmynd að virkja þessar sprænur margar en mér  hins vegar illa við að rafmagnið sé sett á útsölu til nýrrar og nýrrar stóriðju. Held að rafmagnið verði einn mesti fjársjóður okkar áður en allt of langur tími er liðinn og eitt er víst að það á ekki eftir að verða ódýrara né auðfengnara í hinum vestræna heimi svo það er áhyggjulaust frá minni hálfu að slappa aðeins af.

Þorsteinn Gunnarsson, 29.3.2007 kl. 22:18

23 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Sæl öll

Upplifun mín á undirskriftarsöfnun Framtíðarlandsins er jákvæð.  Það að vera grænn eða grár fer ekki í mína fínustu taugar eins og það virðist gera hjá sumum sem hér tjá sig.

Þeir sem unna umhverfinu og vilja ekki stóriðju þurfa alls ekki að koma með hugmyndir í staðinn.  Afstaða þeirra getur t.d byggst á tilfinningu sem er fyllilega leyfileg afstaða og ekki verri  en hver önnur.

Og þótt ég sé ekki að hrífast með framboði Íslandshreyfingarinnar, get ég á engann hátt sagt eða upplifað að þetta sé "öfgaflokkur" .  Er eiginlega hissa á hversu viðkvæmir sumir hér á síðunni eru gagnvart þessu framboði.  Ómar sjálfur virðist mér vera gætinn og einlægur.

Eitt er víst að umhverfissinnum hefur á lýðræðislegan hátt tekist að efla hreyfingu sína á undanförnum árum.  Það er bara staðreynd þótt hún sé óþægileg fyrir suma.

Kær kveðja

Eyjólfur

Eyjólfur Sturlaugsson, 29.3.2007 kl. 23:36

24 identicon

Kæri Halldór,

Hvað í veröldinni fær þig til að býsnast yfir mínum orðum hér að ofan, því engin eru rökin fæ ég séð?  "Ótrúlegt en satt, þá eru þetta bútar úr sömu færslu hér að ofan (Samúel) Málefnalegt? Dæmi hver fyrir sig. Milljón túristar, milljón lopapeysur, rok, rigning og slagveður. Má sjálfsagt selja þetta allt saman, en spurning hvernig landið liti út eftir það. Hvernig á til að mynda að koma þessum fjölda um helstu náttúruperlur landsins ef ekki má einu sinni leggja vegi til að komast þangað? á að láta liði labba Kjöl?"   Já það er óhætt að segja að umræðan sé komin út á skuggalega grunnhyggna hlið svo ekki sé meira sagt.  Lítilsvirðingin fyrir skoðunum á einhverju öðru en álveri og því sem stjórnvöld skaffa til handa þeim sem sjá ekki lengra en nef þess nær lekur um allt.  Hver sagði að ekki væri hægt að leggja vegi að náttúruperlum til að njóta þeirra en ekki sökkva þeim Halldór????  Hvað gera Bandaríkjamenn, Spánverjar og Guð má vita hvað margar aðrar þjóðir í veröldinni til að gera ferðamönnum kleyft að komast um lönd þeirra til að sjá sögu þeirra og náttúruleg fyrirbrigði á fjölmörgum stöðum?  Ég geri fastlega ráð fyrir að ferðamenn í þessum löndum séu fleiri en ein milljón á ári og ekki fer allt í klessu yfir því og smáiðnaðurinn þar snýst m.a. um ferðaþjónustu og þar er sjálfsagt fólk sem prjónar peysur eins og hér á landi.  En það var ekki það sem ég meinti, nema að takmörkuðu leyti því hanverksprjón hér á landi er ekki nema agnarögn af heild smáiðnaðar sem ég ber þó mikla virðingu fyrir.  

Ég held að þú Halldór ættir að lesa betur textann sem þú hnýtir, lesa á milli lína og tuða minna.......a.m.k. áður en stungið er niður penna.  Eigðu svo góða daga.

Samúel. 

Samúel (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband