Kokhraustur methafi í 2007 ruglinu.

Ekkert sveitarfélag á Íslandi hefur komist með tærnar þar sem Reykjanesbær hefur hælana í bruðli og óráðsíu 2007 ruglsins. Það er ekki eitt heldur allt. 

40 milljarða skuld er hins vegar léttvæg fundin í fréttaviðtali hjá fyrrverandi bæjarstjóra og hann hælist um hve miklu af því, sem peningunum var eytt í, er ekki hægt að ná til baka upp í hina risavöxnu skuld. 

Sparisjóðsmálið er oftast nefnt, en þá gleymist það stærsta, þar sem siðleysið var algert, en það var hvernig skrifað var undir samninga þriggja aðila um risaálver í Helguvík, tekin skóflustunga og hafnar framkvæmdir án þess að búið væri að útvega fjármagnið, án þess að búið væri að ganga frá samningum við minnst tólf sveitarfélög og aðila til þess að leggja risaháspennulínur og afla orku, og án þess að orka væri fyrir hendi eða búið að semja um orkuverðið. 

"Túrbínutrixið" svonefnda 1970 byggðist á því að stjórn Laxárvirkjunar keypti stórar túrbínur í virkjun, sem að engu leyti var búið að semja um við landeigendur eða aðra samningsaðila. 

Þegar andstaða kom fram í héraði, var mönnum stillt upp við vegg fyrir framan gerðan hlut, algerlega siðlausan kúgunargerning. 

Lögfræðingur bænda sneri túrbínutrixinu upp á þá, sem ætluðu að beita því. 

Hann sýndi fram á að Laxárvirkjunarstjórnin bæri ábyrgðina af kaupunum á túrbínunum, sem keyptar höfðu verið á siðblindan hátt. 

"Túrbínutrixið" varðandi álverið í Helguvík fær gamla trixið frá því 1970 til að líta út eins og smámuni. 

Það var vaðið út í verkefni, sem hefði krafist virkjananets allt frá Reykjanestá upp á mitt hálendið og austur að Skeiðarársandi. 

Þetta var óðs manns æði frá upphafi, sem reynt var árangurslaust að vekja athygli á, og nakin grind kerskálans í Helguvík er magnað minnismerki um Hrunið og ástæður þess. 

Mér leist vel á Árna Sigfússon sem borgarstjóraefni í Reykjavík á sínum tíma og hann bauð af sér góðan þokka við viðkynningu. Ég held að hann hefði getað orðið ágætur borgarstjóri ef hann hefði fengið meiri tíma til að kynna sig fyrir kosningarnar 1994.  

Nú veit ég svei mér ekki hvert Hrungræðgin mikla hefur leitt hann, því miður, og enn leiðinlegra er að hann sér ekki, að hann hafi gert nokkurn skapaðan rangan hlut. 

Það eina sem hann hefur sér til afsökunar, er að ráðherrar þess tíma voru jafn illa haldnir af græðgis- og stóriðjubólunni og hann, og ekki hefur einn einasta þeirra viðurkennt að hafa gert neitt rangt, heldur stendur enn "einróma" yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar frá 2013 um að risaálver í Helguvík skuli rísa, hvað sem það kostar.

Og auk þess má með sanni segja að 2007 ríkti fágætt ástand múgsefjunar græðginnar hér á landi sem meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og margir fleiri tóku þátt í.

 

P. S. Sömuleiðis er rétt að halda því til haga að lagalega ber meirihluti bæjarstjórnar á hverjum stað með forseta bæjarstjórnar í broddi fylkingar ábyrgð á framkvæmdum, sem bæjarstjóra er hins vegar falið að framkvæma.

Forseti bæjarstjórnarinnar á þessum tíma stóð lengst og fastast á því opinberlega að heimta að álverinu yrði þröngvað í gegn.

Hvergi sér þess stað að fyrrverandi forseti bæjarstjórnar hafi sagt eitt aukatekið orð um sína ábyrgð eða meirihlutans sáluga.  


mbl.is „Ég skal bera ábyrgð á þessu öllu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voru þetta ekki bara "tæknileg mistök" líkt og hjá frænda.

Trump (IP-tala skráð) 9.3.2015 kl. 22:17

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þeir vissu það sem vildu að Árni var ekki með hæfni í stærri verkefni en að byggja bílskúr og merkilegt að flokkurinn skyldi pota honum inn í Keflavík vitandi að þar væri þörf á ansi dugmiklum dreng til að koma bæjarfélaginu áfram eftir að herinn illu heilli var hrakinn(rekinn) úr landi. Nú í höfuðborgin var einn efnilegast borgarstjóri fyrr og síðar hrakinn úr stöðunni af skrípalingum svipuðum og grarristarnir sem nú sprikla þar.

Eyjólfur Jónsson, 9.3.2015 kl. 22:57

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki hægt að haldleggja þetta fasteignafelag sem hann er stjórnarformaður fyrir? Allavega fyrir þessum vitfirrta leigudíl sem hann gerði við sjálfan sig sitjandi yfir bæjarstjórn og um leið stjornarformaður þessa glæpakompanís. Ég hefði haldið að það væri hægt að finna marga ólöglega fleti á þessum embættisfærslum.

þessi gæi á að minnsta kosti að vera í grjótinu finnst mér.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2015 kl. 00:24

5 identicon

Að sjálfsögðu er ábyrgð Árna mikil í þessari sorgar sögu. En ekki má gleyma að á bak við Árna er bæjarstjórn. Bæjarstjóri framkvæmir vilja og ákvarðanir bæjarstjórnar. Var ekki Þorsteinn Erlingsson forseti bæjarstjórnar? Sami Þorsteinn sem og átti orðið stærstan hlut í sp.kef. Sami Þorsteinn og var stjórnarformaður sp.kef. En það er mikið lán í þessari sorgar sögu að þessi sami Þorsteinn skildi ekki tapa kvótanum sínum hann er óhaggaður í hans hendi. Sennilega hefur kvóti Þorsteins ekkert komið við sögu þegar hann eignaðist stóran hlut í sp.kef!! Sumir fljóta alltaf ofaná eins og korktappar.

Egill Jón Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.3.2015 kl. 09:17

6 identicon

Er virkilega ekki hægt að draga Árna og meðreiðar sveina í öllu þessu sukki og svínaríi til ábyrgðar? Ég meina alvöru ÁBYRGÐAR!!

Björn Lárusson (IP-tala skráð) 10.3.2015 kl. 11:24

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt að halda því til haga að forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar stóð lengst og fast á því roði að þröngva álverinu í gegn.

Og sömuleiðis má benda á, að forseti bæjarstjórnar er bæjarstjóra ofar að völdum, því að bæjarstjóra ber að framkvæma vilja meirihlutans, sem forseti bæjarstjórnarinnnar túlkar fyrir hönd meirihlutans.  

Og hvergi sér maður neitt um það að forseti bæjarstjórnar hafði andað upp úr sér orði um ábyrgð sína. 

Ómar Ragnarsson, 10.3.2015 kl. 13:33

8 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

"Túrbínurtrixin" hér á landi hafa vafalaust verið mörg. Man ekki betur en að það hafi verið skrifað undir samninga um túrbínur Kröfluvirkjunar áður en menn vissu mikið um jarðhitakerfið og það hversu heit gufan yrði. Túrbínurnar höfðu verið framleiddar fyrir aðra virkjun en kaupandi hætt við og þær fengust því á "góðu verði". Síðan var mikið reynt til að afla virkjunni gufu sem féll túrbínunum í geð og það eru ekkert mörg ár síðan þær fóru að framleiða næstum því á fullu afli. Vonandi misminnir mig ekki í þessu máli, en þú þekkir þetta vafalaust ofan í kjölinn, nafni....

Ómar Bjarki Smárason, 10.3.2015 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband