Einhver mesta skelfingin: Að hanga utan á loftfari.

Indónesinn, sem ferðaðist í lendingarbúnaði Boeing-þotu í klukkustund, býr að minningu um einstaka upplifun, svo mikið er víst.

Það er að því gefnu að það sé virkilega satt, að hann hafi farið í þetta fáránlega ferðalag.

Hann hefur væntanlega klifrað upp hjólalegg meðan þotan stóð á flugvellinum og komist þannig inn í rýmið, sem hjólin eru dregin upp í eftir flugtak.

Það hlýtur að hafa verið svakaleg tilfinning fyrir hann að horfa niður þegar hjólahúsið var opnað fyrir lendingu og lendingarhjólin sett niður.

Með ólíkindum er að maður lifi það af að vera í 10 kílómetra hæð svo lítið súrefni sem þar er.

Þotan kemur inn til lendingar á meira en 200 kílómetra hraða og því er augljóst að maðurinn hefur ekki "hangið í lendingarbúnaðinum" eins og sagt er í frétt um þetta. Hann hlýtur að hafa fundið stað til að liggja á eða sitja inni í hjólahúsinu á meðan á ferðinni stóð.

En fyrir mann, sem hefur hangið bjargarlaus á höndunum utan á loftfari á flugi, eins og ég lenti í í júlí 1976 eftir að hafa lyfst frá jörðu og séð hvernig hún fjarlægðist hratt, finna fyrir lyftikraftinum og vita að ekki væri hægt að halda takinu áfram, er varla hægt að hugsa sér meiri skelfingu.

Þetta gerðist í flugtaki á loftbelg á Álftanesi og er skráð sem fyrsta farþegaflug í loftbelg á Íslandi. 

Flugstjórinn, sem hamaðist í miklum hávaða við að kynda gastækin sem beindu heitu lofti upp í loftbelginn, vissi ekki af því að ég hengi utan á loftbelgskörfunni og heyrði ekki hróp mín.

Hélt að ég hefði orðið eftir í aldeilis fáránlegu flugtaki belgsins þegar karfan dróst í suðvestan strekkingi eftir túnskák, fór í gegnum girðingu og órækt, yfir Álftanesveginn og aftur í gegnum girðingu og órækt hinum megin áður en hann lyftist frá jörðu.  

Til allrar hamingju missti belgurinn flugið og skall á jörðinni áður en hann næði fluginu á ný, en við höggið missti ég takið, sem betur fór, og lá eftir, moldugur og blóðugur á fótunum. 

Það voru smámunir, því að andartökin þegar ég sá jörðina fjarlægjast líða mér aldrei úr minni. 


mbl.is Hékk í lendingarbúnaðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband